Höfum hátt

Ég fylgist með fréttum. Ég hlusta mikið á útvarp en virðist leggja betur á minnið það sem ég les og ég fletti blöðunum þótt ég dragist aðeins aftur úr. Nú var ég að lesa leiðara frá 5. júlí þar sem við erum hvött til að hafa hátt og láta ekki kynferðisglæpi gleymast, ekki til þess að við munum þá sjálfa heldur til þess að koma í veg fyrir að þeir endurtaki sig.

Sjálfsagt er einhver nálægt mér sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi þótt ég viti það ekki en ég er ekki í vafa um að slíkir glæpir setji mark sitt á þolandann til langrar framtíðar. Nógu erum við buguð eftir fjármálaglæpi hrunsins og fjárhagslegt tjón sem við urðum fyrir þá. Peningar eru að sönnu ávísun á ýmis gæði en heilsa manns er ekki síður ávísun á lífsgæði.

Umræddur lögmaður var dæmdur fyrir kynferðisglæpi. Af hverju ætti vinnuheilsa hans, sem er þar að auki kominn á lífeyrisaldur, að vega þyngra en heilsa fjölmargra fórnarlamba kynferðisglæpa?

#höfumhátt


,,... að ekki sé á þessu stigi rétt að lögvernda starf leiðsögumanna."

Ég fór í Leiðsöguskóla Íslands í Kópavogi haustið 2001, útskrifaðist 2002 og var leiðsögumaður á sumrin frá 2002 til 2013. Allan þann tíma var þrálát umræða um starfið, lögverndun starfsins/starfsheitisins og kjörin. Allar stjórnir hafa rætt þetta, margir félagsfundir og auðvitað óteljandi kaffistofufundir um allt land. Og ekki bara þann tíma sem ég tolldi heldur sennilega allar götur frá stofnun Félags leiðsögumanna 1972.

Ferðamálaráðherra var fyrir mánuði spurð:

Telur ráðherra að lögvernda beri starfsheiti leiðsögumanna þannig að tryggt verði að það noti einungis þeir sem hafa lokið viðurkenndu leiðsögumannsnámi, t.d. í samræmi við staðal um menntun leiðsögumanna IST EN 15565:2008, eða aflað sér réttar til að bera starfsheitið með öðrum viðurkenndum hætti, svo sem raunfærnimati? 

Skammarlegt að það skyldi fara framhjá mér að þessi fyrirspurn hafi verið lögð fram en svarið var birt á miðvikudaginn. Og ráðherra ferðamála segir:

Að framansögðu virtu er það mat ráðherra að ekki sé á þessu stigi rétt að lögvernda starf leiðsögumanna.  

Hún færir fyrir því þau rök að lögverndun starfsheitis leiðsögumanna myndi leiða til þess að ófaglærðir einstaklingar, sumir með áratugalanga reynslu í leiðsögn, þyrftu leyfi frá stjórnvöldum til að geta titlað sig leiðsögumenn.

Ég spyr: Já, og? Félag leiðsögumanna hefur alltaf verið opið fyrir stöðuprófi. Einstaklingar sem hafa starfað áratugum saman við leiðsögn tækju bara stöðupróf og fengju löggildingu. Í alvörunni, þetta er fyrirsláttur. Samtök ferðaþjónustunnar hafa staðið í vegi fyrir löggildingu vegna hagsmuna stórra ferðaskrifstofa sem vilja geta ráðið inn hina og þessa sem kunna lítið sem ekkert og líta jafnvel á starf við leiðsögn sem möguleika til eigin ferðalaga og sætta sig við lágt kaup. Og með vaxandi straumi (nema ferðamenn hætti við vegna okurs) er meiri þörf fyrir mikla meðvitund um sérstöðu landsins.

Ég gerði mér vonir um meiri djörfung hjá ferðamálaráðherra af nýrri kynslóð en svar hennar og viðhorf tryggir að margir lærðir leiðsögumenn fúlsa við starfi í ferðaþjónustunni. Umsaminn taxti upp á 330.000 í mánaðarlaun hjálpar heldur ekki til.


Jónsmessuhlaupið

Ég er í virkum gönguhóp og við förum bæði stuttar og langar göngur. Þótt margir séu bæði fráir á fæti og ekki gerðir úr sykri eru ýmsir hræddir við bleytu og netta vosbúð. Ég meina auðvitað ekki vosbúð heldur ofankomu og að veðurskilyrði séu ekki eins og tíðkast t.d. á Norðurlöndunum á sumrin. Í vor ætluðum við 70 saman í dagsgöngu en vegna veðurspár hættu 26 við, segi og skrifa. Gangan var hundblaut en hún varð líka minnisstæð og ef maður ætlar einhvern tímann í nokkurra daga göngu um Hornstrandir eða Lónsöræfi, svo dæmi af handahófi séu tekin, er manni hollt að reyna ýmislegt veður á eigin skinni.

Í gær var miðnæturhlaupið í Laugardalnum og aðeins upp úr. Veðurspá fram eftir vikunni var ágæt en svo snerist veðrið í gær og varð svolítið blautt. Samt var metþátttaka í hlaupinu. Góður hópur útlendinga var auðvitað þar á meðal og ég talaði við nokkra sem komu fyrst og fremst út af hlaupinu (hlaupatúristar eins og ég er að verða) þannig að það fólk lætur ekki veðrið stoppa sig en ég er ánægð með þessa aukningu og stemningu fyrir útivist. Ég er svo mikið hjarðdýr ...


Laust fé og fast

Einu sinni miðaði ég við að borga með beinhörðum peningum ef upphæðin var undir 1.000 kr. Nú miða ég við 1.500 kr. Mér finnst í öllu falli galið að borga einn rjómapela eða lítinn ís í brauðformi með korti. Kannski er það kynslóðin sem ég tilheyri. En ég er alveg til í að borga oftar með kortinu mínu ef það þýðir ekki yfirbyggingu og ekki að kortafyrirtæki eða bankar mali gull á kostnað neytenda sem verði látnir borga fáránleg færslugjöld.

 


,,Skömm" á norsku

Margir vita strax um hvaða þætti ég er að tala, norsku unglingaþættina sem höfða til alls aldurs og beggja (allra?) kynja, að því er virðist. Ég var í einhverju tilliti búin að vita af þeim í drjúgan tíma en lét verða af því að byrja að horfa um daginn og er nú búin með tvær þáttaraðir af fjórum. Þættirnir eru mislangir, frá 22 og upp í 35 mínútur hefur mér sýnst, og ég þoli alveg smápásu núna þar sem ég veit að þeir fara ekki frá mér. En svo mikið hafa þeir verið ræddir í nærumhverfi mínu að mér var hollast að horfa.

Dásemdin við þættina er handritið, óvæntu viðbrögðin, manneskjulegheitin og svo auðvitað dýrðin við að hlusta á eitthvað annað en ensku og horfa á eitthvað annað en klisjur. Ekki er allt bandarískt sjónvarpsefni illa gert en mér finnst stór hluti af því sem býðst hér í sjónvarpi vera sama efnið, endalausar endurtekningar og fyrirsjáanlegt efni.

En þessi færsla er ekki um gallana á öðrum þáttum heldur tilraun til að greina Skömm. Ég veit að aðal„skömmin“ á eftir að koma en hingað til hafa unglingarnir þurft að takast á við margar áskoranir, leysa sum úrlausnarefni vel og önnur illa, virka grunsamlega þroskuð og yfirveguð á köflum en bæta það upp með fáránlegri hegðun innan um og saman við. Hinn gallinn er að þau búa mörg út af fyrir sig, ekki með foreldrum, og virðast engar áhyggjur þurfa að hafa af peningum. Og lifa sum eins og greifar.

En þótt þættirnir séu um unglinga eru þeir samt um manneskjuna í sinni fjölbreyttu mynd og alls konar fólk vex ekki upp úr alls konar tilfinningakrísum þannig að ég held að flestir geti sett sig í spor einhverra í þáttunum, jafnvel horft inn á við og jafnvel, jafnvel endurskoðað breytni sína.

Áfram, Norðmenn.

Ég man Fleksnes ...


Gengið

Ég fór til Kaupmannahafnar í síðasta mánuði, bara til að vera í nokkra daga en ég fór samt í bankann og keypti mér danskar krónur, agalega glöð yfir að gjaldeyrishöftum hefði verið aflétt. Ég veit að ég gat það áður en með algjöru afnámi haftanna fannst mér ég hafa endurheimt eitthvað af frelsinu á ný. Þá var gengi dönsku krónunnar rúmlega 15 íslenskar, svipað og það er núna. Fyrir ári var danska krónan 18,5 íslenskar og ári þar á undan tæpar 20. Já, frábært fyrir mig sem stend ekki í neinum stórkostlegum viðskiptum að þurfa lítið að borga fyrir gjaldeyri. En 15. júní 2007 stóð hún í rúmum 11 kr. og hvað gerðist skömmu síðar?

Ég er ekki neinn hitamælir á efnahagsástand þjóða en ég heyri hvað ferðaþjónustan segir. Vara sem kostar 1 evru á meginlandi Evrópu kostar 15-20 evrur hér! Þetta er ekki í lagi og þá þarf að laga það.

Á ég að gera það?


,,... ég get ekki séð hvernig samfélagið hefur gagn af því að þessi tiltekni maður, þótt hann hafi afplánað sinn dóm, taki til fyrri starfa"

Ég tek undir tilvitnuð orð sem höfð eru eftir forsetanum. Hvernig getur nokkur maður treyst dæmdum kynferðisbrotamanni þótt hann hafi „setið af sér“ ef hann hefur ekki sýnt nein merki um betrun? Lögmannsstarfið er trúnaðarstarf og persónan sem gegnir því skiptir miklu máli.

Ég man enn eftir máli Atla Helgasonar sem fékk uppreist æru en dró til baka beiðni um endurheimt lögmannsréttinda sinna. Síðan hefur verið friður um hann, er það ekki?


Guðrún frá Lundi sett á safn

Ég er stoltur lesandi Dalalífs og hóflegur aðdáandi Jóns á Nautaflötum en núna einkum roggin af að þekkja Marín, langömmubarn Guðrúnar frá Lundi sem var einmitt í útvarpsviðtali hjá Sigurlaugu M. Jónasdóttur í morgun. Hún varpar enn frekara ljósi á feril Guðrúnar.


Lækkað verð > ódýrari lán

Fyrir viku fussaði ég svolítið ofan í lyklaborðið yfir æsingi fólks út af Costco. Í millitíðinni hefur mér verið boðið upp á fersk jarðarber og vínber þaðan, fólk á mínum vegum hefur keypt inn til veisluhalda og sparað ógrynni, fréttir borist af lækkandi vöruverði í öðrum búðum, jafnvel búðum sem hafa kynnt sig sem lágvöruverðsbúðir -- og nú skilst mér að kostnaður við húsnæðislán lækki vegna lækkaðs verðs.

Kannski fæ ég nýjar fréttir í næstu viku en nú trúi ég smá á samkeppnina. Ég er stútfull af bjartsýni í sumarbyrjun.

Samt galli að öll ferskvaran sé í hörðu plasti.


Korputorg

Ég þekki fólk (eina manneskju) sem vinnur í Costco í Garðabæ en hef hvorki keypt mér aðgang né skipulagt ferð þangað. Ég fagna heilbrigðri samkeppni og vona innilega að hún nálgist íslenskt viðskiptalíf. Ég sé bara ekki hvernig risabúð í jaðri höfuðborgarinnar á að tryggja það til lengri tíma. Ég á bíl og er með bílpróf en mér hrýs hugur við að leggja það á mig að fara í leiðangur í risabúð til annars en að kaupa hrærivél eða mannhæðarháan bangsa.

Mér dettur ekki í hug að tala eftirspurnina niður enda keypti ég fjölskyldustærð af m&m áðan á 1 kr. lægra verði en bauðst í Garðabæjarbúðinni.

En hvernig gengur með Korputorg?


Fyrsta maraþonið

Ég get ekki lagt þennan tengil á Facebook-vini mína þannig að ég ætla að geyma hér hina stórkostlegu minningu um klukkutímana fimm sem ég varði á hlaupum um Kaupmannahafnarborg á sunnudaginn. Auðvitað hefði ég getað lagt mig aðeins meira fram en 1) maður á að byrja verr en vel, 2) ég vildi njóta umhverfisins og 3) ég er svo gott sem harðsperrulaus. Það var heitt, sólin skein, fólk hvatti mann meðfram brautinni, meðhlaupendur peppuðu og stemningin var í alla staði algjörlega frábær.

 


10 sinnum lægri laun?

Ég þurfti að horfa tvisvar á 10-fréttatíma RÚV til að trúa eigin eyrum. Haraldur Teitsson hjá rútufyrirtækinu Teiti Jónassyni sagði að útlendu bílstjórarnir sem keyrðu hér með túrista í vaxandi mæli væru með 10 sinnum lægri laun.

Ég skil að hann hafi mismælt sig en hvað vildi hann sagt hafa? Að útlendu, undirborguðu bílstjórarnir væru með 10 kr. lægra tímakaup? 10.000 kr. minna á mánuði? 10% lægra kaup?

Datt fréttamanninum ekki í hug að staldra við þetta?

Íslenskir rútubílstjórar voru á smánarlaunum meðan ég vann sem leiðsögumaður. Vonandi eru þau orðin skárri þótt ég leyfi mér að efast um það. Ástæðan fyrir að þeir tolla í starfinu er að þeir búa þó við nokkurt atvinnuöryggi og ég held að þeim finnist innan um og saman við dálítið næs að vera á kaupi tímunum saman í bílnum eða á spjalli við aðra í ferðaþjónustunni meðan leiðsögumaður gengur upp að fossum, upp á jökla og niður með ám með túristunum sínum. Þeir eru bundnir í vinnunni en geta aðeins um frjálst höfuð strokið. Ég vona að enginn lesi öfund úr orðum mínum, ég þekki marga frábæra rútubílstjóra og mér hefur mest sviðið að þeir séu ekki á samkeppnishæfum launum. Þeir hífa upp launin með yfirgengilegri aukavinnu.

En 10 sinnum lægri laun þýðir líklega að útlensku bílstjórarnir borga með sér og það dálítið ríflega -- og þá er von að Halli eigi erfitt með að keppa við þá.


Klíníkin

Ég hlustaði á Sprengisand í morgun og heyrði forsætisráðherra mæra einkarekna heilbrigðisþjónustu. „Mega menn sem vinna verkefni sem ríkið ræður ekki við ekki borga sér góð laun og jafnvel arð?“ Eitthvað á þessa leið féllu orðin.

Ég veit þess dæmi að viðskiptavinur í einkarekinni heilbrigðisþjónustu - sem borgaði fyrir hana - hrökklaðist þaðan á þjóðarsjúkrahúsið þar sem vandanum var mætt í alvöru. Ætli það sé eina dæmið?

Ef einkarekin heilbrigðisþjónusta á að toppa ríkisreknu heilbrigðisþjónustuna, rukka fyrir hana og borga sér góð laun verður hún að geta sinnt öllum þeim þáttum sem sú ríkisrekna gerir núna. Er það ekki eðlileg krafa?


Greiða niður skuldir

Já, ég er að hlusta á Silfrið. Já, ég er líka skynsemin holdi klædd og vil greiða niður skuldir til að eyða ekki 10% af tekjunum í vaxtagjöld. Hvað með að safna ekki svona miklum skuldum? Í ríku landi eins og okkar ættum við öll að geta unnið 20 tíma vinnuviku og samt lifað eins og blómur í eggi. Af hverju nær þá fólk (sumt) ekki endum saman þótt það vinni myrkranna á milli (nema á sumrin þegar sól sest ekki)?

Hrunið varð fyrir níu árum og þá var ríkissjóður svo gott sem skuldlaus, segir sagan. Af hverju erum við ekki komin lengra?

Og meðan ég man, ég er hlynnt einföldun skattkerfis, líka í ferðaþjónustunni. Ég heyrði nefnilega viðtal við Þóri Garðarsson á Sprengisandi áðan. Burðaratvinnugreinarnar væla mest en eru trúlega aflögufærastar. Nú ætla ég bara að hugsa um stjórn fiskveiða en ekki segja neitt ...


Sumar fréttir verður maður að geyma

Maður gæti haldið að ég hefði gert þetta viljandi en svo er ekki. Hoho. Ég heyrði m.a.s. fréttina í morgun í útvarpinu en tók hana ekki til mín. En auglýsingin er góð. Og okkur er öllum skemmt.

Til hamingju með daginn,
Berglind


mbl.is Hver er Sóley sem fermdist 2008?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En að innheimta kvótann?

Ég er krossbit. Vilja SFS ekki bara veiða fiskinn í Svartahafinu líka?


338.349!

Mér varð litið inn á vef Hagstofunnar áðan og krossbrá. Þar stendur:

Hinn 1. janúar 2017 voru landsmenn 338.349 og hafði þá fjölgað um 5.820 frá sama tíma árið áður eða 1,8%. Konum og körlum fjölgaði nokkuð jafnt en karlar eru eigi að síður 3.717 fleiri en konur.

Við sátum tvö íslensk í flugrútunni í gær á leið í bæinn eftir skíðafrí í útlandinu og spjölluðum við aðkomumenn. Einar: Og við erum bara 300.000. Ég: Hey, við erum 330.000, bannað að draga úr.

En við erum að nálgast 340.000! Ekki nema von að innan um og saman við sé fólk sem ég hef bara aldrei séð.

Ef ég skyldi aftur fara í leiðsögn er vissast að hafa staðreyndir á hreinu.


Á fjórða degi í alþjóðlegu hrósi

Það er varla að ég þori að segja þetta upphátt en mér finnst fólk ekki hrósa of lítið. Á miðvikudaginn var alþjóðlegi hrósdagurinn og íslenski bjórdagurinn og þeir fóru báðir framhjá mörgum sem ég þekki. Ég veit það því að ég kom þeim á tal við marga. Og það var í sjálfu sér ágætt.

Kannski hrósar fólk of sjaldan þó að mér líði ekki þannig. Mér finnst fólk oft hrósa yfirborðslega og af samviskusemi. Ég er alls ekki að tala um þegar fólk segir öðru fólki að peysan sé falleg eða klippingin klæðileg. Ég trúi að það sé sjálfsprottið. Ég er að tala um þegar fólki er sagt að það sé SNILLINGAR fyrir það að eiga afmæli, komast óbrotið niður skíðabrekkur eða bara fara í skíðaferð til útlanda. Hrós er bólgið. Einkunnir hafa tilhneigingu til að verða óþarflega háar og þannig nýtist ekki skalinn. Ég er ekki viss um að þetta örvi fólk til góðra verka eða bætingar í neinu.

Að sama skapi veigrar fólk sér við að setja fram heilbrigða gagnrýni af því að hún er túlkuð sem tuð og neikvæðni. Ef heilbrigðisstarfsmaður gagnrýnir það að lyfta á Landspítalanum sé biluð í heila viku fussa sumir yfir gagnrýninni en gaumgæfa ekki það sem gagnrýnin beinist að. Gagnrýni er túlkuð sém árás en felur kannski fyrst og fremst í sér upplýsingar sem ætti að vinna úr. Og ef lyftan er óstarfhæf kemst sjúklingur ekki á milli hæða eða önnur lyfta verður ofnotuð og gengur líka úr sér.

Kannski er hluti af vandanum sá að stjórnmálamenn virðast eiga erfitt með að gútera að andstæðingar í pólítik geti bent á skynsamlegar leiðir eða komið með góðar tillögur. Menn rífa niður hugmyndir annarra -- en á móti er fólki hrósað fyrir algjört getuleysi.

Kannski.

En frábært veður úti núna ... sólin er SNILLINGUR ...


Sjómannalíf

Undarlega lítið fór fyrir 10 vikna löngu verkfalli sjómanna. Auðvitað fundu hlutaðeigendur vel fyrir því en í nærumhverfi mínu heyrði ég fáa lýsa yfir áhyggjum. Af hverju?

Verður auðvelt að vinna markaðina til baka?

Verður lítið mál að sækja fiskinn sem hefur nú synt óáreittur í rúma tvo mánuði? Hefur hann e.t.v. fjölgjað sér betur og verður meira af honum?

Er landverkafólk kátt með óumbeðið launalítið frí?

Áttu menn sjóði?

Ef ég ætti núna eina ósk væri hún sú að menn (les: útgerðir) gætu ekki selt sjálfum sér aflann heldur yrði að setja hann allan á markað. Skyldi ég fá uppfyllta ósk mína um að aðskilja veiðar og vinnslu?


Leiðsögumenn fá ekki dagpeninga

Ég er að hlusta á viðtal í sarpinum á Rás 1 við sjómann sem segir að allar stéttir sem fara að heiman fái dagpeninga nema sjómenn. Leiðsögumenn fá ekki dagpeninga. Ég vil að kjaradeilan leysist en menn græða ekki á því að halla réttu máli.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband