Klíníkin

Ég hlustaði á Sprengisand í morgun og heyrði forsætisráðherra mæra einkarekna heilbrigðisþjónustu. „Mega menn sem vinna verkefni sem ríkið ræður ekki við ekki borga sér góð laun og jafnvel arð?“ Eitthvað á þessa leið féllu orðin.

Ég veit þess dæmi að viðskiptavinur í einkarekinni heilbrigðisþjónustu - sem borgaði fyrir hana - hrökklaðist þaðan á þjóðarsjúkrahúsið þar sem vandanum var mætt í alvöru. Ætli það sé eina dæmið?

Ef einkarekin heilbrigðisþjónusta á að toppa ríkisreknu heilbrigðisþjónustuna, rukka fyrir hana og borga sér góð laun verður hún að geta sinnt öllum þeim þáttum sem sú ríkisrekna gerir núna. Er það ekki eðlileg krafa?


Greiða niður skuldir

Já, ég er að hlusta á Silfrið. Já, ég er líka skynsemin holdi klædd og vil greiða niður skuldir til að eyða ekki 10% af tekjunum í vaxtagjöld. Hvað með að safna ekki svona miklum skuldum? Í ríku landi eins og okkar ættum við öll að geta unnið 20 tíma vinnuviku og samt lifað eins og blómur í eggi. Af hverju nær þá fólk (sumt) ekki endum saman þótt það vinni myrkranna á milli (nema á sumrin þegar sól sest ekki)?

Hrunið varð fyrir níu árum og þá var ríkissjóður svo gott sem skuldlaus, segir sagan. Af hverju erum við ekki komin lengra?

Og meðan ég man, ég er hlynnt einföldun skattkerfis, líka í ferðaþjónustunni. Ég heyrði nefnilega viðtal við Þóri Garðarsson á Sprengisandi áðan. Burðaratvinnugreinarnar væla mest en eru trúlega aflögufærastar. Nú ætla ég bara að hugsa um stjórn fiskveiða en ekki segja neitt ...


Sumar fréttir verður maður að geyma

Maður gæti haldið að ég hefði gert þetta viljandi en svo er ekki. Hoho. Ég heyrði m.a.s. fréttina í morgun í útvarpinu en tók hana ekki til mín. En auglýsingin er góð. Og okkur er öllum skemmt.

Til hamingju með daginn,
Berglind


mbl.is Hver er Sóley sem fermdist 2008?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En að innheimta kvótann?

Ég er krossbit. Vilja SFS ekki bara veiða fiskinn í Svartahafinu líka?


338.349!

Mér varð litið inn á vef Hagstofunnar áðan og krossbrá. Þar stendur:

Hinn 1. janúar 2017 voru landsmenn 338.349 og hafði þá fjölgað um 5.820 frá sama tíma árið áður eða 1,8%. Konum og körlum fjölgaði nokkuð jafnt en karlar eru eigi að síður 3.717 fleiri en konur.

Við sátum tvö íslensk í flugrútunni í gær á leið í bæinn eftir skíðafrí í útlandinu og spjölluðum við aðkomumenn. Einar: Og við erum bara 300.000. Ég: Hey, við erum 330.000, bannað að draga úr.

En við erum að nálgast 340.000! Ekki nema von að innan um og saman við sé fólk sem ég hef bara aldrei séð.

Ef ég skyldi aftur fara í leiðsögn er vissast að hafa staðreyndir á hreinu.


Á fjórða degi í alþjóðlegu hrósi

Það er varla að ég þori að segja þetta upphátt en mér finnst fólk ekki hrósa of lítið. Á miðvikudaginn var alþjóðlegi hrósdagurinn og íslenski bjórdagurinn og þeir fóru báðir framhjá mörgum sem ég þekki. Ég veit það því að ég kom þeim á tal við marga. Og það var í sjálfu sér ágætt.

Kannski hrósar fólk of sjaldan þó að mér líði ekki þannig. Mér finnst fólk oft hrósa yfirborðslega og af samviskusemi. Ég er alls ekki að tala um þegar fólk segir öðru fólki að peysan sé falleg eða klippingin klæðileg. Ég trúi að það sé sjálfsprottið. Ég er að tala um þegar fólki er sagt að það sé SNILLINGAR fyrir það að eiga afmæli, komast óbrotið niður skíðabrekkur eða bara fara í skíðaferð til útlanda. Hrós er bólgið. Einkunnir hafa tilhneigingu til að verða óþarflega háar og þannig nýtist ekki skalinn. Ég er ekki viss um að þetta örvi fólk til góðra verka eða bætingar í neinu.

Að sama skapi veigrar fólk sér við að setja fram heilbrigða gagnrýni af því að hún er túlkuð sem tuð og neikvæðni. Ef heilbrigðisstarfsmaður gagnrýnir það að lyfta á Landspítalanum sé biluð í heila viku fussa sumir yfir gagnrýninni en gaumgæfa ekki það sem gagnrýnin beinist að. Gagnrýni er túlkuð sém árás en felur kannski fyrst og fremst í sér upplýsingar sem ætti að vinna úr. Og ef lyftan er óstarfhæf kemst sjúklingur ekki á milli hæða eða önnur lyfta verður ofnotuð og gengur líka úr sér.

Kannski er hluti af vandanum sá að stjórnmálamenn virðast eiga erfitt með að gútera að andstæðingar í pólítik geti bent á skynsamlegar leiðir eða komið með góðar tillögur. Menn rífa niður hugmyndir annarra -- en á móti er fólki hrósað fyrir algjört getuleysi.

Kannski.

En frábært veður úti núna ... sólin er SNILLINGUR ...


Sjómannalíf

Undarlega lítið fór fyrir 10 vikna löngu verkfalli sjómanna. Auðvitað fundu hlutaðeigendur vel fyrir því en í nærumhverfi mínu heyrði ég fáa lýsa yfir áhyggjum. Af hverju?

Verður auðvelt að vinna markaðina til baka?

Verður lítið mál að sækja fiskinn sem hefur nú synt óáreittur í rúma tvo mánuði? Hefur hann e.t.v. fjölgjað sér betur og verður meira af honum?

Er landverkafólk kátt með óumbeðið launalítið frí?

Áttu menn sjóði?

Ef ég ætti núna eina ósk væri hún sú að menn (les: útgerðir) gætu ekki selt sjálfum sér aflann heldur yrði að setja hann allan á markað. Skyldi ég fá uppfyllta ósk mína um að aðskilja veiðar og vinnslu?


Leiðsögumenn fá ekki dagpeninga

Ég er að hlusta á viðtal í sarpinum á Rás 1 við sjómann sem segir að allar stéttir sem fara að heiman fái dagpeninga nema sjómenn. Leiðsögumenn fá ekki dagpeninga. Ég vil að kjaradeilan leysist en menn græða ekki á því að halla réttu máli.


,,Hann gekk að minnsta kosti aldrei"

Ég var að klára 10 ára gamla bók eftir Haruki Murakami sem kom út á íslensku í fyrra. Bóksalar voru ánægðir með hana sem þýtt skáldverk en mér var bent á hana sem reynslusögu langhlaupara. Hún er sléttar 200 síður í litlu broti og mér fannst hún svo sem fjórðungi of löng. Kannski er það táknrænt því að höfundurinn er skáldsagnahöfundur og langhlaupari sem lætur viljandi reyna á þolið hjá sjálfum sér. Vissulega voru forvitnilegar uppgötvanir sem hann gerði sem áhugahlaupari. Ég læt mér detta í hug að hlaupa mitt fyrsta heila maraþon eftir nokkur hálf og veit að ég er kannski að reisa mér hurðarás um öxl. Vöðvarnir eru verkfæri sem maður verður að beygja undir vilja sinn - minn!

Höfundurinn var tæplega sextugur á ritunartíma bókarinnar og hafði þá hlaupið ríflega 20 maraþon og í hvert skipti virtist hann verða undrandi á því að það væri erfitt, það krefðist úthalds og skýrrar hugsunar. Er þetta leikaraskapur hjá honum eða er hann svona einfaldur? Vonandi stílbragð, ég er ekki nógu vel lesin í Murakami þótt hann sé langhlaupinn höfundur.

Og nú veit ég að það er ekki sjálfsagt að ég geti klárað heilt maraþon í ágúst 2017. En það eru svo sem ekki nýjar fréttir ... en ég get reynt að setja mér sama markmið og hann: að skokka eða hlaupa alla leiðina.


Grútskýring

Nei, ég hugsaði það ekki upp sjálf en djö hvað tungumálið er undursamlega frjótt og sveigjanlegt. Eftir hrútskýringu sem allir skilja núna er komið orðið grútskýring sem hlýtur að vera andheiti við raunverulega útskýringu, skýring sem gengur ekki upp, skýring sem enginn trúir á, skýring sem er bara grútur ...


Hrútskýring

Það sagði sig næstum sjálft að hrútskýring yrði valið sem orð ársins 2016, svo ótrúlega snjallt að manni finnst einmitt, eins og málfarsráðunautur sagði, það alltaf hafa verið til.


Flugeldasala + björgunarsveitir

Björgunarsveitirnar voru valdar maður ársins á Rás 2. Mér finnst það undarlegt val þar sem margt fólk er í björgunarsveitunum. Hins vegar vinna björgunarsveitirnar óeigingjarnt og dýrmætt starf. Mér skilst að þær fjármagni sig aðallega með flugeldasölu og nú hefur ár eftir ár fólk argað yfir því að aðrir vilji líka selja flugelda.

Ég veit ekki hvað flugeldar kosta, hvorki hjá björgunarsveitunum né öðrum. Er það sama verð fyrir sömu vöru? Þá skil ég alls ekki af hverju fólk verslar ekki við björgunarsveitirnar. Ef það munar hins vegar t.d. 20% og hleypur á tugum þúsunda hjá áhugasömum um flugelda er skiljanlegt að fólk horfi í budduna.

Ég spyr: Er ekki tímabært að huga að annarri fjáröflun fyrir björgunarsveitirnar? Er endilega hollt og heilbrigt að sprengja svona mikið á hverju ári?

Slökkviliðsmenn byrjuðu líka sem sjálfboðaliðar en eru nú launamenn, sem betur fer. Er hugsanlegt að það þurfi að nálgast flugeldasölu, björgunarsveitir og lífsbjargir á annan hátt en með rifrildi og hástöfum á hverju ári?


Flugvallaróvinur

Ég vil að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. Ég hef skrifað þetta líklega 20 sinnum og sagt það mun oftar. Mér væri það að meinalausu að hátæknispítali yrði byggður upp í Keflavík. Reyndar fyndist mér gáfulegt að dreifa álaginu af Landspítalanum, t.d. með því að byggja upp góða bráðamóttöku í Keflavík. Ég heyri áhugamenn um flugvöllinn og öryggi landsmanna tala um að sjúkrahúsin í kringum Reykjavík séu verkefnalaus þannig að ég held að ég eigi liðsmenn þar.

Færum innanlandsflugið til Keflavíkur, nýtum sjúkrahúsin á jaðri höfuðborgarsvæðisins betur og hættum að rífast um málið. Enginn sem er á móti flugvellinum þar sem honum var tildrað upp vanhugsað fyrir meira en hálfri öld er áhugalaus um öryggi sjúklinga eða slasaðra. Það er aldrei ástæðan, ekki frekar en okkur finnst fólkið á Eskifirði eða í Ólafsvík eiga að búa við minna öryggi en aðrir. Stundum er hvorki hægt að fljúga flugvél né þyrlu vegna veðurs - væri þá ekki betra að hafa öruggt lendingarsvæði nálægt öruggu sjúkrahúsi? Reykjavík er höfuðborgin en menn geta ekki í öðru orðinu viljað auka sjálfræði byggðanna og hinu hafa allt á sama stað.

Flytjum innanlandsflugið til Keflavíkur. Skipulega. Í skrefum. Án yfirgangs og hávaða.

 


Fúsi - mögnuð bíómynd

Horfði loksins á Fúsa í sarpinum. Þetta er algjörlega mögnuð mynd um mann sem brýtur stöðugt á, þ.e. hann er kletturinn sem brýtur á, og svo er líka stöðugt brotið á honum. Af því að hann er feitur og óframfærinn halda sumir að hann sé perri og allt er túlkað honum í óhag. Samt er hann ekkert nema viðkvæmnin og bóngæðin.

Fúsi kom mér þægilega á óvart.


Netskraflið

Ég dott ofan í netskrafl í gær, var lengi búin að ætla mér að prófa og kom því loks í verk. Og mér leið eins og ég kynni ekki íslensku. Meðal orða sem þjarkurinn leyfði voru ákæriði, beinætu, mýk, örvina -- og korhnúsa.

Flest fann ég í orðabók á eftir en ekki örvina. Þetta var lærdómsríkt.


PISA

Hve marga daga, hugsaði hún, hafði hún setið svona, horft á brúnt, kalt vatnið æða upp og eyða upp bakkanum.

How many days, she wondered, had she sat like this, watching the cold brown water inch up the dissolving bluff.

 

Frá tíma til tíma skreið það eftir lækjarfarvegum og skurðum og hellti sér yfir lág svæði.

From hour to hour it slithered up creeks and ditches and poured over low places.

 

Einhvern tímann um nóttina vakti öskrið hana, hljóð svo angistarfullt að hún var kominn á fæturna áður en hún var vöknuð.

Sometime in the night the cry awoke her, a sound so anguished she was on her feet before she was awake.

 

Skjálfandi, fikraði hún sig að rúminu og lagðist niður.

Shivering, she pulled back on the bed and lay down.

 

“Leyfðu mér að borða” kallaði hún til hans “og síðan sinni ég þér”.

“Let me eat,” she called to it, “and then I’ll see to you.”

 

--- 

Mér er brugðið.

 


Kjósa aftur?

Einn möguleikinn sem æ oftar er nefndur hjá lykilfólki innan flokka víðs vegar frá á hinu pólitíska litrófi er sá að það þurfi bara að kjósa aftur. 

Er einhver vissa fyrir því að upp úr kjörkössunum komi þá betra púsl? 

Ég átta mig á að á lokuðum fundum ræða menn margt sem ég frétti aldrei sem lesandi í Hlíðunum en er í alvörunni trúlegt að menn geti með engu móti komið sér saman um megináherslur við stjórn landsins? Og samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins semur löggjafinn lögin og framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnin, á að framfylgja þeim. Ríkisstjórnin er aðeins ein þriggja stoða.

Nú liggur fjárlagafrumvarpið fyrir og fjárlaganefnd byrjuð að funda um það. Einhverju verður breytt, svo verður frumvarpið samþykkt og gert að lögum sem á að framfylgja.


,,Fyrir flóðið" - Leonardo DiCaprio

Fyrir sléttum mánuði ætlaði ég að vera búin að horfa á þessa mynd en náði því ekki. Ég heyrði hinn frábæra (fyrrverandi) útvarpsmann Guðfinn Sigurvinsson segja frá henni í útvarpinu áður en forseti var kosinn í Bandaríkjunum. Hann sagði að Leonardo DiCaprio hefði hana aðgengilega öllum til að reyna að koma fólki í skilning um a) hvaða mann Donald Trump hefði að geyma og b) mikilvægi umhverfisvitundar. 

Fátt svíður mér meira en slæm umgengni við náttúruna. Já, ég veit að vistsporið mitt er fáránlega stórt og þungt en ég nota plast í hófi, hjóla sem mest og er sem lengst í útlöndum þegar ég á annað borð er stigin upp í flugvél. En ég átta mig líka á því að maður lifir í samfélagi og það er erfitt að synda gegn straumnum. Ef æðsta stjórn hvers ríkis (kosin af landsmönnum auðvitað) stæði með umhverfinu og legðist gegn umhverfissóun (þ.m.t. matarsóun) og stæði með nýtni og sparsemi - hér t.d. með raf- eða metanbílum og lífrænum tunnum við hvert hús eða víða í hverju hverfi - yrði umhverfisvinum auðveldara að standa með sannfæringu sinni. 

Ég hélt að ég myndi sofna yfir myndinni, ég segi það satt því að það hendir mig stundum, en ég starði opinmynnt allt til enda. Í Kína er mengunin þverhandarþykk, jöklar bráðna óeðlilega hratt og sjávarborð hækkar ört. Ég held að jörðin og mannkynið sé í hættu.

Nú er ónáttúrulega hlýtt í Reykjavík og víðar á Íslandi og við júbilerum, ég líka því að ég fíla hlýindi, en þetta er háskalegt. Og við getum haft áhrif á okkar nánasta umhverfi sem gæti haft margfeldisáhrif.

Okkur er líka hollt að minnast þess að 12. desember 2015 undirrituðu 195 ríki Parísarsamninginn, samning um að reyna að halda hnattrænni hlýnun undir 2°C, og Alþingi samþykkti þingsályktun um hann í september sl. Nú vil ég meiri forystu í þessum málum, takk.


Hvað varð um fyrirtækið með kjötlausu kjötlokuna?

Ég hef ekkert frétt af Gæðakokkum í slétt tvö ár.


Grænu eggin

Það eru bara tæpir 100 starfsmenn hjá Matvælastofnun. Þar af 19 á sviðinu neytendavernd. Og 13 á sviðinu dýraheilsa. Ekki nema von að Brúnegg komist upp með allan andskotann.

Ég reyni að forðast vinsældavagna en það má mikið vera ef það er ekki mikið að marka umfjöllun Kastjóss. Hún virðist reist á rökum og málefnum. Því miður. Mér finnst sorglegt að fólk hafi það í sér að fara illa með dýr.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband