9 líf - Bubbi Group

Ég ætlaði ekki endilega að sjá sýninguna um Bubba sem verður 67 í þarnæsta mánuði og er í raun jafn mikil stofnun í lífi nútímamannsins og Halldór Laxness var fyrir hálfri öld, já, og Bítlarnir í sinni heimasveit sem er sossum aðeins stærri.

En ég fór í gærkvöldi og er næstum orðlaus af hrifningu. Bubbi er náttúrlega þungamiðjan með textana sína og lífshlaupið en Ólafur Egill Egilsson gerði líka stórkostlegt mót með handrit og leikstjórn.

Og lítil stjarna í leikarahópnum er Hlynur Atli, fæddur 2011, sem var fyrsta útgáfan af Bubba. Ég fletti honum upp og hann hefur leikið í Kötlu og Venjulegu fólki. Það geislaði alveg af honum, hann söng eins og engill og greinilega vantaði ekkert upp á hrynjandina í honum heldur. Ég þarf næstum að fara aftur til að sjá hina sem leika Bubba sjö ára.

Mögulega hefði salurinn getað verið líflegri og tekið betur undir, mig langaði a.m.k. oft til að syngja hærra með og klappa meira og dilla mér en vildi ekki vera meira á iði en bekkirnir í kringum mig. Ég skil vel að fólk fari aftur og aftur og frómt frá sagt er 11.400 kr. hlægilega lágt verð miðað við 7.200 kr. fyrir lágstemmda (en fína) tveggja leikara sýningu.

Hlynur Atli Harðarson


Vel sniðin föt gera gæfumuninn

Þegar ég byrjaði að horfa á Burda-myndina i sjónvarpinu á föstudaginn mundi ég alls ekki eftir tískunni sem tengd er Burda - en þvílík saga sem er sögð í myndinni. Af því að ég þekki hana ekki getur vel verið að eitthvað sé fært í stílinn en í megindráttum held ég að saga Önnu sé svona:

Hún er alin upp af feðraveldinu, giftist efnilegum manni þegar hún er rétt rúmlega tvítug og hann tæplega þrítugur. Þau komast í álnir --- leiðrétting: Hann kemst í álnir en hún fæðir honum þrjá syni á átta árum. Hún hefur metnað til að láta til sín taka en henni er sagt, ekki síður af meintum vinkonum sínum, að hún sé nú bara eiginkona og eigi að halda sig á heimilinu, enda eigi hún góða fyrirvinnu.

Anna kemst að því að eiginmaðurinn á barn með fyrrverandi ritara sínum og barnið er á aldur við yngsta son þeirra. Hún brjálast og hótar skilnaði. Öllum finnst það ferlega fyndið og fjarstæðukennt, og vinkonunum finnst sérstaklega að hún eigi að njóta frelsisins.

Aenna, eins og hún byrjar að kalla sig, dustar rykið af framúrstefnulegri hugmynd um tískublað sem eigi að auðvelda öllum konum að klæða sig í falleg, litrík föt sem ekki aðeins klæði þær betur heldur auki þeim sjálfstraust. Henni finnst mikilvægt að konur sem hafi ekki of mikið á milli handanna geti samt fylgt tískunni og lífgað upp á sig. Aenna býr náttúrlega það vel að hafa tekið bílpróf og vera með heimilishjálp þannig að hún skýst til Parísar eftir þörfum.

Hún gengur á hvern þröskuldinn á fætur öðrum en klífur þá alla vegna þess að, eins og helsta samstarfskona hennar orðar það, hún kemur alltaf auga á lausnir þegar hún fær vandamál og úrlausnarefni í fangið.

Ég veit ekki, kannski var fegurð hreyfiaflið hennar en miðað við myndina og það sem ég er búin að lesa í morgun virðist hún samt frekar hafa viljað koma stöðnuðum heimi og úreltum hugmyndum á hreyfingu. Sjálfsöryggi skiptir máli ef fólk vill láta til sín taka og ef fólk klæðist kartöflupokum sem eru teknir saman í mittinu verður það kannski feimið við að standa upp og heimta athygli þótt málefnin séu verðug.

Annað þarf ekki að útiloka hitt, konur eiga ekki frekar en karlar að þurfa að velja annað hvort fjölskyldu eða frama.

Sagan kallar fram gæsahúð og mér finnst hálfundarlegt að ég hafi ekki þekkt til hennar.

Og myndin er á þýsku sem verðskuldar bónusstig.


Brotaþoli, þolandi, fórnarlamb, gerandi og svo meðvirkni

Ég missti næstum málið og orkuna þegar ég hlustaði áðan á viðtal sem var tekið á Bylgjunni á föstudaginn. Ég hef enga skoðun á Gylfa, er enginn sérstakur áhugamaður um fótbolta en ákvað samt fyrir löngu að halda með Everton í enska boltanum, og hef ómælda samúð með aðstandendum hans og öllum þolendum allra glæpa, hvort sem er af hálfu fólks eða kerfis.

En, gott fólk, tvö ár af lífi ALLRA eru löng tvö ár. Tvö ár af vinnu, ferðafrelsi, félagslífi, orðspori. Ég hef lesið ógrynni af sögum um þolendur sem hafa ekki treyst sér út úr húsi, gerandi setið um þolandann heima hjá sér, kyrrsett þolanda og auðvitað barið, niðurlægt og talið trú um að væri einskis virði.

Ég veit ekki til þess að ég þekki þolendur persónulega en þolendur bera heldur ekki allir harm sinn utan á sér. Ég get sagt hér og nú að ég hef sloppið vel í gegnum lífið og fæddist sennilega í bómull.

Í gærkvöldi horfði ég á magnaða bíómynd á RÚV sem var um ýmis samskipti og m.a. um stafrænt ofbeldi. Þar var menntaskólanemi, strákur í þetta skipti, sem galt mögulega fyrir ofbeldið með lífi sínu, a.m.k. bæði tíma og heilsu.

Ég efast ekki um að Gylfa Sigurðssyni sé margt vel gefið, meira en fótboltahæfileikar meina ég þá, en flóðbylgjan sem upphófst í fjölmiðlum þegar lögreglan í Bretlandi ákvað að ákæra hann ekki eftir tæplega tveggja ára rannsókn gekk alveg fram af mér. Það sannar alls ekki að hann hafi aldrei misstigið sig. Bróðir minn stal af mér og foreldrum okkar peningum, ég ákærði hann ekki, reyndi bara að höfða til samvisku hans sem hann reyndist enga hafa, en þótt ég hafi ekki farið neina kæruleið og þar af leiðandi hafi ekkert sannast á hann að lögum stal hann samt peningunum. Ég veit það, hann veit það, lögfræðingurinn sem hann réð sér til að verjast mér og systkinum okkar veit það - en er hann saklaus af því að ég kærði hann ekki?

Saklaus uns sekt er sönnuð er réttarfarslegt hugtak og sannar hvorki né afsannar gjörðir fólks.

Ég veit að ég sit hér ofan á - sem betur fer - bylgju þeirra sem taka upp þykkjuna fyrir þolendur sem sjá sjaldnast framan í réttlætið en mér er svo stórkostlega misboðið þegar menn tala um a) að menn SÉU almennt saklausir uns sekt er sönnuð, b) þolanda kerfis í sama orðinu og þolanda hroðalegustu ofbeldisglæpa sem ræna fólk tíma, orku, heilsu, geði, framtíð og peningum.


Auður Haralds

Í kvöld var heimildarmynd um Auði Haralds í sjónvarpinu. Augun í mér stóðu á stilkum og einbeitingin var algjör. Af bókmenntaskrifum mínum, sem ég játa að eru svo sem af skornum skammti, er ég langstoltust af að hafa skrifað BA-ritgerðina mína um Hvunndagshetju undir titlinum Er kímni gáfa? Því miður er hún ekki í Skemmunni enda 30 ár síðan ég skrifaði hana. En kímni er svo sannarlega gáfa og söguhetjan Auður notaði hana til að verja sig gegn heimilisofbeldi.

Mögnuð bók. Magnaður höfundur. Og fín ritgerð, ef ég man rétt. Já, og góður þátturinn í kvöld. Ég hafði ekki minnst gaman af því þegar Auður sagðist skrifa bréf sem þyrfti að senda sem böggul. Ég skrifaði henni nefnilega til Rómar þegar hún bjó þar og fékk þverhandarþykkt bréf til baka. Ég þarf að hafa uppi á því við tækifæri. Og ritgerðinni.

Og hugrenningatengslin bera mig að öðru áhugaverðu úr útvarpsþætti sem ég hlustaði á um helgina, þegar lögreglumálum þokaði of hægt á sjötta áratug síðustu aldar VEGNA SKORTS Á VÉLRITUNARSTÚLKUM sem þýddi að lögreglumennirnir þurftu af miklu kunnáttuleysi að verja obbanum af vinnudeginum í að vélrita upp málin.

Auður hafði m.a. ofan af fyrir sér og aflaði tekna til að fæða sísvöngu börnin sín með vélritunarkunnáttu. Og vélritun er það fag í 9. bekk (nú 10. bekk) sem hefur gagnast mér hvað best á lífsleiðinni. Fingrasetningin, maður minn, fingrasetningin.

 


Að arfleiða eða að gefa

Nú hafa þrír þingmenn lagt fram frumvarp um að foreldrum leyfist að arfleiða börnin sín skattfrjálst að peningum. Eðli frumvarpa er að vera tillaga, hugmynd, grundvöllur að frekari umræðu og þannig skil ég þetta frumvarp. Frumvarpshöfundar líta varla á upphæðina 10 milljónir sem heilaga eða að hvort foreldri geti arfleitt hvert barna sinna að 10 milljónum. Það eru náttúrlega takmörk fyrir því hvað fólk á margar 10 milljónir til útdeilingar, jafnvel þó að það sé komið á efri ár.

Ég er ekki endilega ósammála þeirri hugsun sem ég held að ráði hér ríkjum. Hins vegar finnst mér tímasetningin dálítið skrýtin. Þjóðin eldist og eldist og þegar fólk fellur frá eru börn viðkomandi sjálf orðin vel sjálfbjarga, kannski af því að foreldrarnir hafa hlaupið undir bagga við fyrstu kaup íbúðar.

Fyrstu íbúðarkaup eru nú um stundir nánast ómöguleg á Íslandi nema einhverjir ættingjar létti undir með kaupendum. Og á sama tíma er fólk í námi og að eignast fyrstu börnin sín. Þess vegna þyrfti meintur arfur að koma fyrr inn í myndina eða - það sem blasir við - ungu fólki gert kleift að leggja fyrir nóg til að kaupa sér fyrstu íbúð eða - sem líka blasir við - að þroska leigumarkaðinn svo að fólk geti leigt sér íbúð, jafnvel alla ævi, án þess að fara í áhættufjárfestingar.

Við erum skattlögð þegar við fáum launin, við borgum virðisaukaskatt þegar við förum út í búð og svo borga erfingjar skatt af arfinum. Ég hef aldrei alveg skilið af hverju fólk má ekki bara gefa fólki það sem það á án afskipta ríkisins en skiljanlega vill fólk ekki svipta sjálft sig öllu í lifanda lífi.

Ef Skatturinn hefði líka áhuga á að eltast við allt og alla hefði hann átt að sitja um bróður minn sem foreldrar okkar gáfu einhverjar milljónir. Bróðir minn, Gummi, er óvirkur alkóhólisti með mikla eyðsluþörf og lítinn tekjuvilja og mamma og pabbi voru sífellt að bjarga honum fyrir horn. Ég hugsaði og sagði að þau ættu peningana sína og mættu gefa þeim sem þau vildu. Ég sá bara ekkki fyrr en langtum seinna að þau voru meðvirk með honum og óttuðust sífellt að hann félli aftur fyrir áfengi og hlóðu þess vegna undir hann.

Kannski eru svona týpur ástæðan fyrir því að foreldrar mega ekki gefa börnum sínum, sérstaklega einu af fjórum, háar fjárhæðir. Það er einhvers konar jöfnuður.


Inngangur að efnafræði

Bókin ratar til sinna.

Sumt hittir í mark. Ég var að klára Inngang að efnafræði, skáldsögu um konu sem vill ekkert frekar en að verða vísindamaður og verður vísindamaður í heimi sem er ekki tilbúinn að hleypa konum inn. Við þekkjum öll þessar þreytulegu sögur af konum sem þurfa að leggja langtum meira á sig en karlar til að njóta sannmælis. Þessi saga ... en þessi saga var bara svo fyndin og margt svo óvænt í henni. Ég skellti upp úr í sífellu og hágrét líka. Ekki víst að Elizabeth Zott kynni að meta það með alla sína óbilandi rökfestu!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband