Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Líka varðandi afnám launaleyndar?

Ég held að Bjarni Ármannsson hafi síðast komið mér á óvart fyrir hálfum mánuði þegar hann lýsti yfir eindregnum vilja sínum til að afnema launaleynd, sem stjórnandi væri hann búinn að átta sig á að hún væri fyrirtækinu óhagstæð og að afnám hennar væri forsenda launajafnréttis.

Er sú stefna líka óbreytt?


mbl.is Stefna Glitnis óbreytt þrátt fyrir eigenda- og forstjóraskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er menntun kosningamál?

Ég tók áskorun í hádeginu og mætti á stefnumót við flokkana í Háskóla Íslands. Þau voru fimm og ekkert þeirra stóð sig illa. Þetta er náttúrlega vant fólk.

Spurningin sem skólafólk spyr sig - ekki síst ef draumurinn um að komast á listann yfir 100 bestu háskólana í heimi á að vera raunhæfur - er hvort efla eigi menntun. Og hvernig er hægt að tryggja meiri og betri menntun en nú er?

Ég held að Kristinn Már Ársælsson hafi átt giska góða spurningu úr sal að framsögum loknum: Nú eru um 50 nemendur um hvern kennara en almennur gæðastuðull kveður á um 14-18 nemendur - stendur til að breyta þessu?

Ef það á að breyta þessu verður það aðeins gert með meira fjármagni þannig að hver kennari hafi meiri tíma til að sinna hverjum nemanda umfram „messuformið“ eins og einn frambjóðandi kom að í svari sínu.

Háskóli Íslands hefur þá sérstöðu að vera meiri þjóðskóli, universitet frekar en höjskole eins og annar komst að orði, og þess vegna er ekki hægt að skipa honum til sætis með skólum sem leggja ofurkapp á greinar sem hægt er að kenna með fyrirlestrum einum saman, eða svo gott sem.

Nú stunda ég þýðingafræðinám til meistaraprófs í téðum skóla. Ég sótti fyrsta tímann haustið 2004 og þá gat Gauti Kristmannsson, ljósfaðir námsins, auðveldlega lært nöfnin á okkur öllum. Nú er námið búið að slíta barnsskónum og fjölgun nemenda hefur orðið gríðarleg. Úrval í námskeiðum hefur ekki aukist, kennurum hefur eiginlega ekki fjölgað og ég veit vel að Gauti sér ekki út úr því sem hann vill gera - vegna þess að akademía er meira en að mæta í eigin kennslustundir og fara svo yfir ritgerðir og verkefni.

Ég var í íslenskunni þarna líka forðum daga. Öll árin vann ég næstum 100% vinnu og fór létt með. Ég er auðvitað dugleg, hehe, en þetta segir samt meira um kröfurnar sem voru gerðar.

Á þeim sama tíma þekkti ég auðvitað fólk í öðrum deildum, t.d. raungreinum, sem þurfti að mæta alla daga og vinna verklegar æfingar út í eitt. Ég var ekkert í sama skóla og það fólk þótt öll værum við í Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands er vaðandi í fjölbreytileika og það þarf að hlúa að honum. Ætli það standi til?


Hlutleysi fjölmiðlunga, eða ekki

Sóley Tómasdóttir og Agnes Bragadóttir lögðu orð inn í umræðuna um fjölmiðlalög í Silfri Egils á sunnudaginn. Ég varð mér ekki strax meðvituð um það þótt ég horfði af áhuga. Það var ekki fyrr en ég las bloggið hans Hjartar í morgun sem ég sá samhengi hlutanna skýrar. Það má segja að þær tvær hafi skattyrst (hér hefði Hjörtur skrifað skattyrzt og kannski er það áferðarfallegra) stuttlega um hlutleysi. Agnes lýsti yfir vandlætingu á hugsanlegri vinstristjórn og Sóley undraðist að hlutlaus blaðamaður hefði svo afdráttarlausa skoðun. En Agnes sagðist ekki vera hlutlaus og hefði ekki verið fengin í þáttinn til að þegja.

Ég get ekki spurt hvort Agnes sé hlutlaus, en ætti hún að vera það? Úr því að hún er ekki hlutlaus, kannast menn við að hlutlægni hennar sjái stað í skrifum hennar? Skrifar hún fréttaskýringar eins og skrif hennar heita eða eru þær e.t.v. bara skoðanir sem beri að lesa sem slíkar?

Hvað með aðra frétta- og þáttagerðarmenn? Ég nefni af handahófi nokkra sem eru misáberandi. Sigmar Guðmundsson sem stjórnaði stjórnmálaumræðum rétt áðan bloggar fyrir 5-6.000 manns á dag. G. Pétur Matthíasson, sem er reyndar farinn til Vegagerðarinnar en var hjá RÚV þangað til það breyttist í ÚV ohf., bloggar stundum. Ég man eftir Höllu Gunnarsdóttur, blaðamanni Moggans, Önnu Pálu Sverrisdóttur, sömuleiðis blaðamanni á Mogganum, enn fremur Davíð Loga Sigurðssyni. Það má nefna líka Lóu Pind Aldísardóttur, Björgu Evu Erlendsdóttur, Svanhildi Hólm, Eddu Andrésdóttur, Styrmi Gunnarsson, Arnþrúði Karlsdóttur, Jóhann Hauksson, Þorstein Pálsson, Sigurjón M. Egilsson, Trausta Hafliðason, Björgvin Guðmundsson, Svanborgu Sigmarsdóttur, Kolbrúnu Bergþórsdóttur - og læt ég nú upptalningu lokið.

Allt þetta fólk meðhöndlar upplýsingar og hefur, meðvitað og ómeðvitað, áhrif á viðtakendur. Það skiptir okkur máli að við getum treyst því að það fari með upplýsingar af sanngirni og heiðarleika. Ég vil alls ekki láta leiða í lög að fólk skuli vera trútt starfi sínu, ég ætlast bara til þess að fólk sé siðlegt, en þetta með öðru var mikið rætt fyrir tæpum þremur árum þegar fjölmiðlalög voru sett og svo dregin til baka.

Er utanumhald utan um fjölmiðla nú bara orðið að algjörri eyðimörk sem stendur ekki til að vökva? Dugir kannski umræðan manna á meðal?


Skyldu nöfnin verða lesin upp á Sky og aðstandendum send blóm?

Nei, Vesturlandabúum stendur á sama um sómalísk nöfn og ástæður þess að nafnhafarnir eru sendir yfir móðuna miklu. Ef við höfum bumbuna okkar og pláss fyrir poppskálina látum við okkur 100 Mógadisja til eða frá í léttu rúmi liggja.

Sumir kalla þetta velmegun.


mbl.is Rúmlega hundrað óbreyttir borgarar fallnir í Mogadishu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein lítil spurning

Forystumenn íslenskra stjórnmála eru enn með orðið í Kastljósinu (hvar eru annars baráttusamtök aldraðra og öryrkja?) og nú vaknar þessi spurning:

Ef það kostar (þ.e.a.s. fer út úr skattkerfinu) 50-60 milljarða að hækka skattleysismörkin úr 90.000 í 150.000 má ekki reikna með að sá peningur fari einhverja aðra leið inn í samneysluna? Þá væntanlega hefur fleira fólk efni á meiru, ekki satt? Þá eykst hagvöxturinn, ekki satt?

Þetta átti bara að vera ein spurning ...


Daglegar auglýsingar í Fréttablaðinu og Blaðinu

Hvað dvelur orminn langa? Ansi margir luku upp einum munni um nauðsyn þess að koma í veg fyrir klám um daginn. Við erum andvíg vændi. Því til viðbótar vil ég segja að ég vil almennt ekki að fólk þurfi að gera það sem stríðir gegn sannfæringu þess eða velferð, vinna mannskemmandi vinnu, fá of lág laun eða hrærast í óheilbrigðu umhverfi.

Úr því að það er ólöglegt að framleiða, flytja inn og dreifa klámi - hvers vegna er þá vændi auglýst átölulaust í blöðunum? Eða er símavændi í lagi? Ég er t.d. að horfa á blaðsíðu 40 í Blaðinu og sé þar auglýsingu um símakynlíf. Má það?


mbl.is Mikill meirihluti vill að kaup á vændi verði refsiverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talið barst að kvóta

Það verður að viðurkennast að ég skil ekki landbúnaðarkerfið okkar án leiðbeininga. Því til viðbótar hef ég ekki reynt mikið að setja mig inn í það, það borgarbarn sem ég er. Maður skyldi bara ætla að ef 16 milljarðar væru settir af almannafé í atvinnugreinina á nokkrum árum væri sami almenningur þar með búinn að borga hálfan slatta upp í afurðina.

Búvörusamningur, afurðasala, ærkvóti - þetta segir mér ekki neitt, og allra síst hvort t.d. samkeppni þrífst í greininni. Er samkeppni? Mega bændur vanda sig sérstaklega mikið og merkja svo afurðina þannig að kaupandinn viti að eitthvert tiltekið lambalæri sé betur alið en annað? Mega menn selja beint til neytandans við þjóðveginn? Mega menn slátra heima að því tilskildu að heilbrigðiskröfum sé fullnægt? Nei, bændur skulu senda fénað sinn norður og niður af því að þar er sláturhúsið sem slátrar fyrir þá. Fá bændur að njóta hagræðingar sinnar, hugmyndaauðgi og vinnusemi?

Eða er kerfið allt bundið á klafa óhagstæðrar miðstýringar? Ég er of illa að mér til að svara en ég óttast það.

Ef ég hefði alið manninn á t.d. Bifröst gæti verið að ég væri í innilegra sambandi við landsbyggðina og bændamenninguna ... Þó man ég eftir einu skipti í fyrra í heita pottinum að Laugum þar sem ég lenti á miklu spjalli við tvo bændur. Þeir höfðu báðir fengið búið frá foreldrum sínum og þar af leiðandi gott start en annars skildist mér á þeim að nýliðun gæti engin verið.

Hefur ekki helsinu verið aflétt á t.d. Nýja-Sjálandi? Farnast þeim ekki vel þar?

Þarf þetta að vera svona? Stóð ekki landbúnaður undir þjóðinni öldum saman?

Af því að kvóti á að vera rauði þráðurinn minn í kvöld ætla ég að enda á því að segja að leigubílar eru í kvóta. Það er takmarkað hversu margir leigubílar mega vera á götunum. Af hverju fá þeir ekki bara að sanna sig í frjálsum atvinnurekstri? Hver myndi tapa á því?

Ég auglýsi eftir virkri samkeppni. Og ég hef sannað fyrir sjálfri mér að ég styð hana. Ég kaupi Mjólku-vörur þegar ég get og þegar ég bjó á Sauðárkróki flaug ég með Íslandsflugi sem var í samkeppni við Flugfélag Íslands, nýtt þá og nú farið (sennilega af því að ég flutti og hætti þar með að styrkja félagið).

En kannski er ég að gelta að röngu tré!


Allir flokkar nema einn

Fimm leiðsögumenn hittast í hádegi. Talið berst að stjórnmálum. Á daginn kemur að við borðið sitja kjósendur fjögurra stjórnmálaflokka á þingi. Einn er útundan. Hver?

Hmmm ...


Kjaramál leiðsögumanna

Auðvitað skiptir leiðsögumenn margt fleira máli en kjaramál, t.d. löggilding, fagmennska og túristarnir! Nú er kominn janúar, launasamningar endurnýjuðust um áramótin en eðlilegt er að endurhlaða geymana fyrir vertíðina framundan.

Á aðalfundi í kvöld verður rætt um hvort leggja eigi niður félagið sem stéttarfélag og bara hafa það sem fagfélag. Mér finnst það fráleit tilhugsun. En mér finnst jafn fráleit tilhugsun að halda áfram að vinna fyrir 1.455 kr. á tímann í dagvinnu samkvæmt taxta þar sem orlof, bókakaup, undirbúningstími og fatakostnaður er innifalið. Helst þyrftum við sem leiðsögumenn að vera með okkar eigin sjúkrakassa í för líka.

Er ekki ráð að einkavæða ferðaþjónustuna ...?


Áherslumunur í fréttaflutningi

Ég var að vonum forvitin að gægjast í gegnum fréttir inn á landsþing Frjálslynda flokksins og sjá m.a.  fjöldann sem lætur sig sjávarútvegsmál, innflytjendur o.fl. varða. Mogginn stendur sig vel og birtir m.a.s. alla ræðu formannsins. Hins vegar kom Stöð 2 mér á óvart með að geta þingsins bara í framhjáhlaupi í seinni parti fréttatímans.

Stöð 2 eyðir náttúrlega miklum kröftum í að koma upp um barnaníðinga, sem er vel. Stöð 2 rekur sig á auglýsinga- og áskriftartekjum. Getur verið að fréttastofan þeirra hafi einfaldlega minna bolmagn en RÚV? Ég verð eiginlega að éta þessa spurningu strax ofan í mig því að mér finnst fréttaflutningur Stöðvar 2 ekki fátæklegur.

Í prófkjarahrinu haustsins hef ég verið sem límd við fréttamiðla og ekki fyrr tekið eftir þessum sláandi mun. RÚV - það sem var til umræðu í þinginu dögum saman um miðjan mánuðinn - var  með landsþingið sem fyrstu frétt, G. Pétur var á staðnum og þingbyrjun voru gerð góð skil.

Ég tók eftir öðru í frétt ríkissjónvarpsins, ræða formanns var flutt á táknmáli líka. Er þetta ekki eini flokkurinn sem gerir það?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband