Færsluflokkur: Dægurmál
Þriðjudagur, 10. janúar 2023
Fiskari, farsími og fleiri orð
Orðið fiskari truflar mig ekki neitt og ég tilheyri ábyggilega stærsta hópnum þar. Hins vegar hefur ýmist fólk tjáð sig, líka í mínu nærumhverfi, og þá með orðalaginu:
Stöðugt er vegið að íslenskunni.
Okkur er aldrei sagt neitt.
Ekkert er borið undir okkur.
Ég: Ha? Í hvaða heimi er allt fólk eða helmingur fólks spurður um einstaka orð, nýyrði eða upptöku gamalla orða? Ég man að vísu eftir samkeppni um orð fyrir sixpack en ég man ekki hvaða orð vann. Ég held að flestir tali um kippu en þori ekki að sverja fyrir það.
Notum við ekki orðið tölvu fyrir það fyrirbæri? Það er snjöll orðmyndun.
Hvað með símann sem er ekki lengur snúrusími og fastur við vegg? Ég kalla hann farsíma af því að mér finnst það orð lýsandi og nógu þjált en þið flest talið um gemsa. Ég veit alltaf hvað þið eruð að tala um og geri enga athugasemd við það en ég ætla ekki að breyta mínu orði í bráð.
Sem betur fer er tungumálið fjölbreytilegt og breytanlegt. Fiskari er ekki gott dæmi um orð sem eykur á nýbreytni en er tilraun til að hlutleysa starfið og orðið er svokallað íðorð, fagheiti. Og út frá orðhlutum fellur það í flokk með dansara, grúskara, fúskara, safnara - bætið sjálf við að vild.
Við sem viljum veg íslenskunnar sem mestan ættum að vanda okkar eigið mál og gera okkar besta til að halda lífi í henni. Erlend áhrif, aðallega frá ensku, eru úti um allt í umhverfi okkar. Hvað heyra börnin sem fæðast árið 2023? Er það ísl-enska og ef svo er, hvaða tungumál munu þau þá tala um tvítugt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 9. janúar 2023
Húmor Vestmannaeyinga
Á þrettándagleði Vestmannaeyinga eru skessur bornar í eldinn en samt ekki brenndar. Þannig skil ég umræðuna. Ein eða önnur er merkt Heimi þjálfara Hallgrímssyni og önnur eða hin hefur einhver ár verið merkt Páleyju Borgþórsdóttur sem var bæði í pólitík í Vestmannaeyjum og lögreglustjóri þar en nú lögreglustjóri fyrir norðan.
Í ár var nafnið EDDA FLAK fest við skessu sem var borin á bálið en ekki brennd.
Mér finnst þetta ófyndið og ef ég væri Edda myndi ég líka taka þetta persónulega og líða illa, en spurningin sem ég hef ekki séð borna upp og þannig ekki séð svar við er: Hvað finnst Vestmannaeyingum fyndið/sniðugt/áhugavert við þetta? Hver er húmorinn?
Ég er alveg búin að velta því fyrir mér og ég finn ekki neina þrettándagleði í þessum gjörningi. Þvert á móti sé ég grasserandi mannfyrirlitningu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 7. janúar 2023
Engin eftirsjá hér vegna brotthvarfs Fréttablaðsins
Ég á erfitt með að henda pappír. Ég er samt ekki sá safnari að ég geymi allt sem ég hef eignast en ég hef hingað til mátt til með að fletta Fréttablaðinu áður en ég læt það í tunnuna. Nú verður breyting þar á og ég er ekkert leið þótt nú sé laugardagur og ekkert blað fyrir innan lúguna. Fréttastraumarnir eru yfirdrifnir á netinu og í útvarpinu og þangað mun ég sækja mitt efni héðan í frá.
Lifi stafrænan!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 5. janúar 2023
Eldfimt leyndarmál á RÚV
Ég er að tala um sturlað spennandi 4-5 klukkutíma langa ástralska þáttaröð sem sýnd er á RÚV núna. Fyrsti þátturinn var sýndur í línulegri dagskrá í fyrrakvöld en ég kláraði seríuna í gærkvöldi. Gat ekki hætt.
Eins og alltaf er eitt og eitt sem manni finnst ótrúverðugt, en heilt yfir mjög spennandi þættir. Allir hafa eitthvað að fela, allir hafa einhvern djöful að draga. Og bónus var að tengja ekki leikarana við önnur hlutverk því að ég var að sjá þau öll í fyrsta skipti.
Ég er bara frekar ánægð með framboðið á RÚV og nenni ekki að gerast áskrifandi að Netflix eða Viaplay.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 3. janúar 2023
Stjórnsemi markaðarins - hæp yfir auglýsingu
Ég sá ekki mikið umtalaða bílaauglýsingu á gamlaárskvöld en sá seinna vísað í hana eins og hún hefði verið skets í skaupinu.
Ég horfði þá.
Vel gerð auglýsing, upp á það vantar ekkert.
En öll hrópin og köllin sem ég hef séð um virðingu við þann sem er að hætta sem rödd fyrirtækisins eftir 30 ár koma mér stórkostlega á óvart. Ég fæ ekki stjörnur í augun yfir markaðsöflunum en ég fæ iðulega tár í augun yfir veikindum og vanlíðan fólks og dýra. Ég hef djúpa samúð með Agli eins og öðrum sem missa færni og hef, eins og aðrir, hlustað og horft á Stuðmenn mér til ómældrar ánægju.
Mér finnst bara algjör óþarfi að blanda þessu tvennu saman.
Miðað við athyglina hlýtur Toyota núna að rokselja bíla og í framhaldinu lækka verð vegna góðrar afkomu og ÞÁ vil ég fá auglýsingu með upplýsingum sem skipta máli.
Á velþóknunarhringekjuna vegna auglýsingarinnar sjálfrar get ég ekki stokkið.
Í öllum upphrópununum yfir fegurð auglýsingarinnar sá ég einn mann skrifa að Toyota væri sértrúarsöfnuður og Egill preláti og ég leyfi mér að giska á að fæstir þori að skrifa það eða læka vegna þess að fólk blandar saman veikindum og vinnu, kvikmyndalist og markaðssetningu.
Ég vona að mér hafi tekist að segja skýrt og skorinort hvað mér finnst þannig að enginn fari að bera mér á brýn að ég hafi ekki samúð með manni sem veikist, missir röddina, vinnufærni og hvaðeina. Ég skil bara ekki hæpið yfir auglýsingunni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 1. janúar 2023
Áramótaskaup 2022
Ég var mjög ánægð, alveg himinlifandi. Ég fór yfir hvern ramma í dag til að rifja upp hvað mér þætti best vegna þess að í erli kvöldsins rekur hvert atriðið annað og ég þurfti að hafa mig alla við að hlæja að nýjum og nýjum brandara. Ég held að ég hafi mögulega í fyrsta skipti í langan tíma áttað mig á öllu þótt ég hafi verið dálítið lengi að kveikja á Halla rampi, ekki af því að mér sé ekki minnisstæð umræðan um ófatlaða leikarann sem lék fatlaðan mann á sviði heldur vegna þess að Halli er þekktur fyrir allt annað en að trana sér fram.
En hér er myndasagan mín. Mér finnst tilraunarinnar virði að láta þjóðina segja sína skoðun á lokalaginu fyrirfram en ég heillaðist ekki af því. Það var of sundurleitt eins og gerist þegar allt fólk á að fá að setja sinn svip á lagið. Og svo er meðvirkni ekki gjöfult og drífandi afl.
---
Frábær opnun með góðum og markvissum söng - og með þátttöku barna:
Pétur Jóhann og Ilmur eru frábærir leikarar og ekki spillti kötturinn:
Kosningar í Reykjavík - þessi skets fannst mér mjög nálægt toppnum:
Ég hefði ekki veðjað á það nokkurn tímann að Jörundur Ragnarsson yrði svona fullkominn Einar Þorsteinsson. Hnökralaust atriði:
Eins og við vitum er ekki hlaupið að því að koma undir sig fótunum og yfir sig þaki. Bónus er að ég þekki ekki leikarana á þessu skjáskoti:
Brennið þið vitar:
Ég hef þetta brot með en mér þótti það atriði síðra en mörg önnur og endurtekin of oft. Svo er hægt að svíða málfræðihjartað um of:
Þessi börn! Sum þeirra léku í jóladagatalinu í desember. Þvílík framtíðarsýn, þvílíkur texti. Þvílíkt spark í Samherja. Og svo er mér sagt að Samherji hafi fjármagnað þáttinn. Ég finn það hvergi skrifað:
Það á að vera vont að hjóla í Samherja.
Hann hefur engin MANNréttindi vegna þess að hann er köttur:
Þetta atriði var náttúrlega eins og maður sér í kommentakerfunum þangað til eiginkonan heyrði að Hilmir Snær væri á lausu:
Atriðið með hestinn var mjög gott og táknrænt fyrir nágrannaerjur sem fara út yfir öll mörk. Pétur Jóhann var algjörlega frábær en mér fannst meðleikarinn skemma senuna.
Enn og aftur er leikari valinn sem hentar hlutverkinu:
Með effi eða vaffi! Þetta minnti mig á þegar ég sá einu sinni á netinu talað um kúgfulla matskeið af einhverju. Einn hljóðstafur getur vissu í efa breytt:
Nei, sko, mávurinn mætti á afsökunarnámskeið og hafði séð að sér:
Mér finnst allt í lagi að þekkja leikarana líka stundum. Siggi fer alltaf á kostum:
Þessi brandari bætti að vísu engri breidd í fáránleika umræðunnar en samt vel gerður skets:
Já, löggan fékk verðskuldað djók á sinn kostnað:
Hver bera ábyrgð á stýrivaxtahækkununum og þar með hækkandi vöruverði og hækkandi afborgunum? Tásað á Tene:
Við viljum ekki setjast á pissið:
Og undir lokin fengu áhugamenn um pólitík eina hárbeitta ádeilu. En hvað heitir þessi fína leikkona?
Af hverju er mér sagt að Samherji hafi borgað þáttinn?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 30. desember 2022
200 milljónir í súginn?
Þegar ferðaþjónn segist hafa þurft að endurgreiða 200 milljónir vegna þess að gestirnir hans geta ekki nýtt ferðirnar sem þeir keyptu af honum langar mig alltaf að vita hvort hann hefði litið á þennan pening sem skjótfenginn gróða ef af ferðunum hefði orðið. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það er þungt högg að selja ferð, undirbúa hana, ráða kannski fólk með sér, vera jafnvel kominn á staðinn og þurfa að hætta við, eyða tíma og peningum auðvitað í að endurgreiða og kannski missa framtíðarviðskipti.
En hvernig er verðmiðinn fundinn og það svona fljótt? Eða stefndi í að hann hefði haft 200 milljónir króna í tekjur síðustu viku desembermánaðar? Má ég þá ekki álykta að hann hefði verið með 800 milljónir fyrir allan mánuðinn? Eða kannski 700 milljónir af því að hátíðardagarnir voru mögulega dýrari?
Ég man ekki eftir að hafa heyrt ferðaþjónustuna hrósa happi yfir góðum tekjum þegar ekkert er að veðri. Hefur það bara farið framhjá mér?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 28. desember 2022
Aðskiljum ríki og kirkju
Ég hef enn ekki skipt um skoðun á þessu máli og var núna að enda við að lesa fínan leiðara um biskupinn okkar og meinta þöggun um kirkjuna.
Þjónar kirkjunnar ættu að fagna heilbrigðri umræðu og kannski fagna heilbrigðir þjónar kirkjunnar henni en ég hef bara ekki frétt af henni. Hver veit? En sú umræða er þá ekki hávær.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 26. desember 2022
Kyrrþeyr og berjamór
Vissuð þið að kyrrþeyr og berjamór eru kyrrþey og berjamó í þolfalli? Fyrir vikið er óvíst að ég geti lesið nýjustu bók Arnaldar.
Ég hef vandræðalega mikla þolinmæði gagnvart lesendum og ýmsu fólki sem skrifar á samfélagsmiðlana sína en mér finnst að fólk sem gefur út til almennrar birtingar eigi að þekkja föllin.
Eða kannski vakir eitthvað fyrir Arnaldi að hafa titilinn í þolfalli, svona eins og ef hann væri: Leyndarhjúp. Kannski verð ég að lesa hana til að komast að því hvort höfundur hefur titilinn viljandi í aukafalli. En það truflar mig að bókinni ólesinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. desember 2022
Jósafat Arngrímsson - hver?
Jú, nú er komin í spilara RÚV fjögurra þátta sería um athafnamanninn Jósafat Arngrímsson (1933-2008) sem reis og féll en virtist alltaf geta vafið ráðamönnum um fingur sér.
Ég á eftir að hlusta á fjórða þáttinn en þeir byrja í línulegri dagskrá á Rás 1 kl. 10:15 á morgun. Ég hef staðið á öndinni við að hlusta og ein hugsunin er: Mikið er GRÁTLEGT að Vilmundur Gylfason skyldi ekki verða nema 34 ára.
Hlustið endilega á þessa mögnuðu úttekt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)