Færsluflokkur: Dægurmál
Sunnudagur, 11. desember 2022
Sorgarþríhyrningurinn (Triangle of Sadness)
Í gærkvöldi var sýnt frá verðlaunaafhendingu evrópsku kvikmyndaverðlaunanna á RÚV. Sjónvarpið var opið og um leið og Hugleikur Dagsson og Ilmur Kristjánsdóttir byrjuðu að kynna dagskrána var ég kolfallin. Fyrir einhverja hendingu sá ég líka í vikunni bíómyndina sem fékk öll helstu verðlaunin í gær þannig að ég tengdi við ýmsar persónur sem birtust á skjánum. Annars er ég frekar löt að fara í bíó.
En hér liggur mér tvennt á hjarta. Annars vegar verð ég að lýsa yfir ómældri aðdáun á húmor Hugleiks og Ilmar enda féllu brandarar þeirra í frjóan jarðveg. Kannski heyrist salarhlátur betur í Hörpu en í Háskólabíói en ég held að þau hafi að mestu leyti slegið í gegn. Þau minntu mig á - sjálfa mig þegar ég er í mesta stuðinu sem leiðsögumaður og marga aðra leiðsögumenn sem ég hef heyrt segja ferðamönnum frá. Það er heldur ekki að ósekju sem margir leikarar verða leiðsögumenn.
Hins vegar las ég líka um annan sorgarþríhyrning í vikunni, bókina Þegar fennir í sporin. Ég vil bara segja að hún kom mér töluvert á óvart og hef ég þó lesið góðan slatta af bókum um dagana.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. desember 2022
ALMA - raunverulegir eigendur
Mér er sagt að þessi (sjá fyrra skjáskot) séu eigendur að leigufélaginu sem hækkar umyrðalaust leigu úr 250.000 kr. í 325.000 kr. á mánuði. Látum liggja á milli hluta hver markhópurinn er og sömuleiðis kveinstafi framkvæmdastjórans yfir Covid-tengdum þrengingum. Horfum snöggvast bara á hækkunina í prósentum. 30%.
Mér er sem ég sæi Halldór Benjamín Þorbergsson taka kröfum verkalýðshreyfingarinnar fagnandi ef þær væru upp á 30%.
Raunverulega eigendur ÖLMU má sjá í fyrirtækjaskrá, systkinin
Guðnýju Eddu Gísladóttur
Eggert Árna Gíslason
Halldór Pál Gíslason
Mér skilst að þau séu systkini og Facebook sagði mér í gærkvöldi að þau ættu nokkur matvælafyrirtæki, þar á meðal Ali (hamborgarhryggir) og Freyju (sælgæti).
Nú væri vel þegið að fá það leiðrétt ef einhver hefur farið fram úr sér, en meðan þessi fyrirtæki liggja undir grun mun ég ekki versla við þau. Leiðinlegt að það skuli líka bitna á starfsfólkinu en óbragðið er slíkt að ég hef ekki lyst á uppáhaldsnamminu mínu í bráð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 8. desember 2022
Gísli Marteinn og Ilmur
Ég las alla fundarstjórnarumræðuna sem spratt af orðum eins þingmanns um orð gests í Viku Gísla Marteins, sem sagt þegar Ilmur sagðist ánægð með að fá að leika hinn vonda forstjóra Útlendingastofnunar.
Ég horfði á þennan þátt af Gísla Marteini og tók ekkert eftir þessum orðum Ilmar, ekki eftir á að minnsta kosti. Kannski fannst mér bara viðeigandi að líkja embætti forstjóra Útlendingastofnunar við embætti hins illa.
Ég var í fjölmiðlanámi einn vetur og aðaláherslan var á að vissar stéttir væru útsettari fyrir athygli, umfjöllun og gagnrýni en aðrar. Í þeim hópi eru opinberar persónur, eins og stjórnmálamenn, áhrifavaldar, forstjórar, bankastjórar, knattspyrnumenn, leikarar - já, þið vitið, fólk í áhrifastöðum, fólk sem hefur völd, fólk sem getur breytt lífum okkar hinna. Forstjóri Útlendingastofnunar er í senn opinber persóna og venjuleg persóna, svona eins og forstjóri Sjúkratrygginga Íslands sem sagði starfi sínu lausu vegna þess að hún telur sér ekki takast að fjármagna starfsemina og forstjóri Bankasýslunnar sem mætir á opinn fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og svarar nefndarmönnum fullum hálsi.
Fólk sem tekur sér þannig stöðu má búast við umfjöllun um sig og sínar ákvarðanir. Í smærri stíl mætti ég eiga von á umræðu og gagnrýni frá lesendum þessarar síðu og í hruninu fékk ég reyndar vænan skammt af fúkyrðum og dónaskap en því miður frá (sumum) nafnlausum lesendum. Ég gat því ekki farið í neinar rökræður vegna þess að einhverjir kallakallar, eins og þeir komu mér fyrir sjónir, komu inn á síðuna mína til að segja: Þú öfundar bara Bjarna Ármanns og hann má alveg græða peninga.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 5. desember 2022
Nýr vefur RÚV
Ég er af línulegu kynslóðinni (óháð aldri í þessu tilfelli) og vil horfa á sjónvarp og hlusta á útvarp, ekki síst fréttir og fréttatengt efni. Nú skilst mér af fjölmiðlanördasíðu á Facebook að breytingin sem var gerð á vef RÚV á fimmtudaginn snúist um að gera skriflegar fréttir aðgengilegri í snjalltækjum.
Mér finnst ofsalega skrýtið að þetta hafi ekki verið kynnt á RÚV með einu aukateknu orði. Ég nota vefinn til að varpa sjónvarpsdagskránni upp á sjónvarpsskjá og allt í einu greip ég bara í stillimynd þegar ég ætlaði að skoða dagskrána. Smellunum sem ég þarf að fara í gegnum núna á minni vegferð hefur fjölgað og mér finnst nýja leiðin óskilvirkari en sú sem var fyrir. Ég mun auðvitað aðlagast þessu, aðlögunarhæfnin er ómæld, en ég er ekki ánægð með þetta aukna flækjustig sem RÚV hafði ekki einu sinni fyrir því að kynna fyrir mér. Og það er skylduáskrift.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 2. desember 2022
Fullveldisdagskrá VHS
Ég hef engan hitt í dag sem horfði á fullveldisdagskrá VHS í gærkvöldi. Mér skilst að VHS-hópurinn sé í grunninn spunahópur og kannski unnu þau þáttinn í einni töku og voru lítið búin að undirbúa framvinduna. Það er a.m.k. eina rökrétta skýringin á þessu sundurleita, sundurlausa sundurgerðarefni sem áhorfendum var boðið upp á. Það alalalbesta í þættinum var viðvera Gunnars Þórs Jónssonar sagnfræðings.
Ég á ekki von á að fólk horfi á þetta eftir á þannig að ég skal nú reifa þáttinn í örfáum orðum. Þau fjögur sem skipa hópinn voru í setti og á einum veggnum var hurð sem átti að opnast út í Kaupmannahöfn. Svo fóru þau inn og út um þessar dyr og voru þá ýmist í dönskumælandi umhverfi eða aftur í setti. Hugmyndin skilst mér að hafi verið að rifja upp í spunaformi hvernig við sögðum skilið við Danmörku fyrir 124 árum.
Mér fannst þau ófyndin og svo sjálfhverf og sjálfsupptekin að ég á ekki til frekari orð til að lýsa þessu. Jú, eitt enn, ef ég frétti af einni ungri manneskju sem hafði gaman af þessu mun ég óska eftir rökstuðningi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 29. nóvember 2022
Fótbolti í tvíriti
Ég er svo miðaldra að ég horfi á línulega dagskrá. Mér er samt almennt alveg sama þótt kvöldin séu sum undirlögð af efni sem ég hef ekki áhuga á. Þar í flokki er ýmislegt almennt efni en líka söfnunarþættir, söngvakeppnir og fótbolti. En mér blöskrar að hafa Katar-keppnina á bæði RÚV og RÚV2 eftir alla umræðuna sem hefur verið um þessa keppni.
Ég er á móti mannréttindabrotum. Obbi mannkyns er það. En við erum líka hræsnarar og meðan það truflar ekki okkar líf æpum við ekki hærra en á lyklaborðið. Flest fólk getur væntanlega tekið undir það. En að RÚV skuli ekki sjá sóma sinn núna í því að halda þessari fótboltakeppni aðeins meira frá áhugalausum er yfirgengilega undarlegt.
Mér finnst gott að hafa sjónvarpið lágt stillt þótt ég horfi ekki endilega á hvert myndbrot en nú stillti ég Alþingisrásina dálítið hátt ... og sat uppi með massífa fjárlagafrumvarpsumræðu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 27. nóvember 2022
Hún á afmæli ...
Nú get ég ekki stillt mig lengur þótt ég viti að ég sé að ganga beint í gildruna um mátt auglýsinga. Atlantsolíuauglýsingin sem Saga Garðars syngur alla daga nú um stundir - og oft á dag í mínu útvarpi - pirrar mig ósegjanlega. Í fyrsta lagi á enginn afmæli dag eftir dag. Það er samt hégómi. Í öðru lagi - og sýnu verra - er að fyrirtækið sem ég skipti við (sjaldan af því að ég keyri lítið) eyðir peningum alla daga í auglýsingar sem hafa ekkert upplýsingagildi. Svörtudagaauglýsingarnar hafa ekki pirrað mig, ekki vitund, enda er líftími þeirra skammur og sumar eru upplýsandi. Nei, bensín og bensín er samanburðarhæf vara, ólíkt t.d. mat, fatnaði og afþreyingu, og það eina sem skiptir bensínkaupendur máli er verð og aðgengi.
Ef Saga Garðars væri með uppistand einhvers staðar núna myndi ég sniðganga það. Það er uppskeran hennar gagnvart mér vegna þess að þessar auglýsingar eru persónulegar og hún hefur sannarlega stjórnað ferðinni þótt hún ráði sjálfsagt ekki auglýsingatíðninni.
Nú er ég búin að gera eins og bolurinn í markaðsfræðinni, tala seljandann upp með umræðunni þótt ég sé neikvæð. Huggunin er að lesendur eru hér fáir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 22. nóvember 2022
Berglind hjá bókara
Ég hitti bókara í dag og varð mikils vísari.
Virtus er með reiknivél þar sem maður getur prófað ýmislegt.
Á vef BHM er líka reiknivél þar sem maður getur notað alls kyns forsendur.
Sjálfstæður atvinnurekandi (les: verktaki) borgar 6,35% af laununum sínum í tryggingagjald.
Hann þarf að gera ráð fyrir 4% gjaldi í lífeyrissjóð sem launþegi og 8% sem launagreiðandi (sinn eigin).
Og skatturinn er nálægt 40%.
Ef maður er leiðsögumaður þarf maður eiginlega að kaupa sér tryggingu vegna þess að ef maður lendir í slysi er maður ekki tryggður nema maður hafi keypt sér tryggingu fyrir sig sem launþega. Ég hef ekki skoðað hvað hún kostar eða hvað ég þyrfti að draga af framlegðinni til að mæta því.
Þegar allt er tekið saman fær verktakinn u.þ.b. 45% af reikningnum í eigin vasa. Og er launalaus í veikindum og sumarfríi.
Og rúsínan í mínum pylsuenda er að ég gáði hjá Skattinum hvort ég væri komin á virðisaukaskattsskrá. Já, ég er það - en sem ferðaskipuleggjandi. Ferðaskipuleggjandi! Aðal! Ekkert getur Skatturinn gert rétt. Ég svaraði spurningunni um hvað ég gerði sem verktaki og ég sagðist vera prófarkalesari, hljóðbókalesari og leiðsögumaður. Alls ekki ferðaskipuleggjandi. Og ég hef sem leiðsögumaður ekki einu sinni þegið svo mikið sem krónu í laun á árinu sem verktaki, heldur bara verið launþegi þótt það eigi sjálfsagt eftir að breytast.
Dægurmál | Breytt 23.11.2022 kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 17. nóvember 2022
Að leka eða ekki að leka
Ef ég væri í pólitík og hefði haft umdeilda skýrslu undir höndum myndi ég ekki leka henni í fjölmiðla NEMA ÉG VILDI AÐ UMRÆÐAN SNERIST FYRST OG FREMST UM LEKANN. Ef fleiri eru á þessu máli er augljóst hver hefur hag af því að leka skýrslum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 15. nóvember 2022
Ekki nema 1,4 milljónir
Atriðið þegar forstjóri Bankasýslunnar opnar í fimmtungsgátt verður ekki hægt að setja betur á svið en hann gerði sjálfur.
Lofað gagnsæi Bankasýslunnar felur greinilega ekki í sér upplýsingagjöf, heldur að horfa í gegnum litlu gáttina.
Enginn hefði getað skáldað þessa atburðarás upp.
En enginn hefur heldur sagt mér fyrr en ég fletti því upp að forstjóri Bankasýslunnar er með 1.400.000 kr. í mánaðarlaun. Eins og rektorar, skólameistarar og sýslumenn.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)