Færsluflokkur: Dægurmál
Sunnudagur, 2. desember 2018
Flest fólk er gott
Einhverju sinni sagði maður: Fólk er fífl.
Þegar ég horfi á fólkið í kringum mig sé ég gott fólk, fólk sem vissulega hefur galla, fólk með skýr persónueinkenni, vel meinandi fólk, já, dálítið trúgjarnt í bland, fólk sem trúir á það góða, fólk sem breytir rétt, fólk sem misstígur sig vissulega, fólk sem á það til að hreyta í einhvern, fólk sem biðst afsökunar, fólk sem vill njóta sannmælis, fólk sem á einhver leyndarmál.
Ég sé alls konar og ólíkt fólk en yfir línuna gott fólk.
Ef allt fólk væri vont væri heimurinn verri en hann er. Ég geri ráð fyrir að til sé vont fólk, fólk sem vill öðru fólki illt, fólk sem vill hrammsa til sín stærri hluta af alheimskökunni en því ber, fólk sem lætur sig engu varða þótt öðrum líði illa. En, kommon, það fólk er í minni hluta.
Já, eins og obbi íslensku þjóðarinnar er ég slegin yfir því sem spurðist út af Klaustri í síðustu viku. Eins og mér heyrist á fólki í kringum mig vil ég að bargestirnir horfist í augu við það sem þau gerðu rangt og axli ábyrgð. Ég sé ekki hvernig einhver sem hefur úthúðað fólki með sérstök einkenni á eftirleiðis að vera trúverðugt í baráttu sinni fyrir það fólk. Ég vona að umræddum bargestum takist að yfirvinna hégóma sinn og breyta rétt og ávinna sér traust til að sinna einhverjum störfum í framtíðinni. En þurfa þau ekki að iðrast til þess og þiggja leiðsögn ef þau finna ekki leiðina út sjálf?
Gleðilega aðventu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 18. nóvember 2018
Stríð er skaðvaldur
Ég átta mig á að í fyrirsögninni felast ekki ný tíðindi en bíómyndin sem RÚV endursýndi í gærkvöldi (gerð 2007) er svo mögnuð að hún kallar á færslu. Stoltir bandarískir foreldrar missa báða syni sína fyrir föðurlandið gæti maður haldið. En þegar betur er að gáð og pabbinn fer á vettvang, ber í borðið og heimtar rannsóknir og svör kemur ýmislegt á daginn sem ekki síst særir stolt hans sjálfs. Skrifræðið var svakalegt en á bak við allar tölvurnar sem vísa syrgjendum á næstu hæð eða í næstu deild er fólk sem hefur tilfinningar og gerir að lokum það sem þarf.
Sem sagt: Ekkert nýtt en bara svo hrikalega vel gert. Og Tommy Lee Jones og Charlize Theron eru ólýsanlega frábær í hlutverkum sínum. Ég get ekki heldur rökstutt það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 4. nóvember 2018
Stafræn fasta
Ég fékk áskorun um að taka þátt í símalausum sunnudegi. Þetta er samt fyrst og fremst áskorun til foreldra ungra barna um að verja deginum, og sem mestum tíma, með börnum sínum; hlusta, tala, leika - upplifa saman og búa til jákvæðar minningar.
Margir hafa ábyggilega orðið vitni að því þegar barn spyr foreldri einhvers, ekki vegna þess að spurningin eða svarið sé það mikilvægasta í heimi heldur vegna þess að í því felast samskipti, og foreldrið svarar: Ég veit það ekki en ég skal gúgla. Og barnið hrópar: Nei, ekki gúgla! Það veit að um leið og foreldrið gúglar liggur leiðin yfir á Facebook eða í tölvupóstinn eða fréttaveiturnar og samverustundin breytist í fjarvist á staðnum.
Netið er komið til að vera og netið er himnasending. Ég hef ekki tölu á hversu oft gúglið hefur stytt mér leið og ég nota nokkra samskiptamiðla mér til stakrar ánægju en ég er líka nógu öguð til að leiða þá hjá mér þegar ég þarf að einbeita mér að öðru. Ef ég er á fundi eða námskeiði er síminn hljóðlaus ofan í tösku, en málið vandast auðvitað þegar fólk þarf að geta brugðist við neyðartilfellum, t.d. í sambandi við börn sín.
Allt fólk getur verið án áfengis og sykurs (bara dæmi) en allt fólk verður að nærast á einhverju. Stafrænan er ekki lengur eins og valkvæður munaður (sykur eða áfengi), við notum hana óhjákvæmilega við leik og störf ... alla daga. Þess vegna get ég ekki lagt netið frá mér í dag en þessi áskorun varð mér samt hugvekja.
Er lesandi minn e.t.v. með tillögu að hinu vandfetaða einstigi milli nauðsynjarinnar sem stafrænn heimur er orðinn og þess að vera laus við óþarfann af honum einhverja parta dags?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 25. október 2018
Lengi tekur prósent við
Í gær mætti ég á baráttufund kvenna á Arnarhóli þótt ég hafi það sjálf alveg ágætt. Svo kom ég heim og las að konur væru ekki með 26% lægri laun en karlar á Íslandi. Í vikunni sat ég líka ráðstefnu um styttri vinnuviku þar sem framkvæmdastjóri SA sagði að atvinnulífið réði ekki við að hækka laun.
Mér skilst að ef kröfur verkalýðsfélaganna yrðu samþykktar þyrftu launagreiðendur að segja upp fólki.
Hagfræðileg spurning mín er: Hvenær er rétti tíminn til að jafna kjörin þannig að fólk fái sömu laun fyrir sömu vinnu, sömu ábyrgð og sama vinnutíma?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 20. september 2018
Ed Sheeran
Ég heyrði hann fyrst nefndan í dag. Ég skammast mín fyrir að vera svona illa að mér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 24. ágúst 2018
Að drekka eða ekki að drekka -- í hófi
Háskóli í Washington hefur komist að þeirri niðurstöðu að áfengisneysla sé skaðleg, öll áfengisneysla. Ég hef enga skoðun á því en samt hóflegar efasemdir. Aðallega sækir þó að mér þessi hugsun:
Ef öll áfengisneysla er skaðleg, hljóta þá ekki þeir sem geta alls ekki látið áfengi vera með öllu að hugsa sem svo að þeir geti verið rakir, mildir eða blindfullir alla daga og það komi út á eitt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 20. ágúst 2018
Reykjavíkurmaraþonið mitt
Það er að bera í bakkafullan lækinn að skrifa eitthvað um laugardaginn, svo mikið sem fólk sá frá honum þá, en ég ætla bara að geyma þessa minningu hér. Ég tók þátt og nú skokkaði ég í fyrsta skipti heilt maraþon. Ég var rúma fimm klukkutíma, gerði mér vonir um tæpa fimm tíma, en á móti kemur að mér leið vel allan tímann og líka strax á eftir og líka í gær og enn í dag. Ég reikna með að mæta á hlaupaæfingu á morgun og ætla í keppnishlaup (5 km) 1. september.
En mig langar mest að hugsa upphátt um hlaupastyrkur.is, hlaupið til góðs sem kallað er. Ég heyri að það hvetji fólk til að fara að stað og það er frábært ef satt er. En ég hleyp mér til skemmtunar og heilsubótar. Almennt. Að þessu sinni ákvað ég, mér til skemmtunar, að snúa styrknum við og hvetja fólk til að hvetja mig og í staðinn mátti það velja hvaða góðgerðarfélög ég styrkti. Ég tók frá 42.200 kr. í styrkina (ekki áheit) og nú er ég búin að skila þeim peningum til átta félaga. Sex þeirra gáfu upp bankaupplýsingar á síðunum sínum en tvö styrkti ég í gegnum hlaupastyrkur.is og þar af leiðandi geta allt að 10% af 10.000 kr. farið í að reka vef Íslandsbanka, sbr. þetta:
Að hámarki 10% af söfnuðu fé í áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka fer í kostnað við rekstur vefsins hlaupastyrkur.is, greiðslu færslugjalda o.fl. Þess ber þó að geta að bæði korta- og símafyrirtæki slá verulega af sínum gjöldum til að sem mest af söfnuðu fé geti runnið til góðgerðamála. Árið 2016 var kostnaður 5,08% en hann getur verið breytilegur milli ára.
Nú hafa safnast tæpar 155 milljónir og Íslandsbanki gæti tekið 15,5 milljónir í kostnað við að reka vefinn. Það þykir mér heldur leiðinlegt og þess vegna er ég glöð með að hafa getað lagt beint inn á sex félög af átta. Erum við ekki öll sammála um að bankarnir hafi nóg á milli handanna?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 11. ágúst 2018
Prófarkalesari spaðjarkar
Frá því um páska hef ég verið að lesa stórvirki Ólafs Jóhanns Sigurðssonar, söguna um Pál Jónsson, blaðamann og prófarkalesara. Mér finnst hún stórkostleg og einhverjum gæti þótt skrýtið í því ljósi að ég væri ekki alveg búin með rúmar þúsund síður á fimm mánuðum. En ég hef aðeins verið að treina mér hana því að þegar vel tekst til, eins og með þessa bók, vill maður fylgja fólkinu aðeins lengur. Fólkinu? Sagan er mestmegnis um tilbreytingarlaust og einhæft líf Páls og margháttaðar hugsanir hans um lífið og tilgangsleysi þess, hernað í opinberu og einkalífi, hvernig hann reynir ævinlega að taka ekki afstöðu en finnst allt mögulegt um allt mögulegt, hvernig hann reynir af hófsemd að hafa áhrif á ritstjórann sinn þannig að hann sitji ekki sýknt og heilagt uppi með það verkefni að þýða hégóma. Hann er umkomulaus, fjölskyldulaus, einfari, siglir milli skers og báru en aftur og aftur biður fólk hann um skoðanir og íhlutun.
Þrátt fyrir hálfgerða uppgjöf Páls gagnvart því verkefni að lifa lífinu lifandi er áhugaverð framvinda í sögunni og meiri spenna en í mögum glæpasögum. *ánægjuandvarp*
Og aldrei hef ég séð orðið prófarkalestur eins oft í neinni bók sem er alveg sérstakur bónus á alla kanta.
Ég á eftir að sakna Páls alveg innilega en mikið væri ég til í að heyra hvað öðrum finnst. Það er átakanlegur skortur á ritdómum eða úttektum um bókina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 8. ágúst 2018
Plastpokabann
Í gærmorgun var áhugavert viðtal við Kristínu Völu Ragnarsdóttur um umhverfismál þar sem m.a. kom fram að sums staðar er einnota plast bannað. Vá, hvað ég væri til í það. Viðtalið byrjar á mínútu 1:26:50.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 28. júlí 2018
RM eftir 21 dag
Stórviðburður hlaupara á Íslandi er eftir sléttar þrjár vikur. Ég var að spá í hvort lesandi síðunnar ætlaði ekki að vera á hliðarlínunni og hvetja mig sirka 42 sinnum. Þetta er bara eðlilegasti vettvangurinn til að spyrja ... hoho.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)