Færsluflokkur: Dægurmál
Þriðjudagur, 10. júlí 2018
Tælensku strákarnir
Eins og allur heimurinn óska ég þess að fólk í sjálfheldu komist úr henni. Mér finnst hins vegar (myndrænn) fréttaflutningur af björgun fótboltastrákanna svo ótrúverðugur að ég hlýt að efast. Aðstæður eru þröngar, tímaramminn knappur -- og svo birtast vídeó úr vatninu! Það þarf sérhæfða kafara til að komast að strákunum (og náðu þeir 13 eina glugganum í allt heila sumar til að komast án súrefniskúta í hellinn?) og eru þá líka til sérhæfðir myndatökumenn sem kunna á súrefniskútana og hafa pláss til að athafna sig? Og eðlilega kann enginn við að hafa orð á þessu.
Hvað sem efasemdum mínum líður vona ég virkilega að innilokað fólk komist úr hellinum sínum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 10. júlí 2018
Veðurhæði
Ég hef lengi staðið í þeirri meiningu að ég væri veðurháð og D-vítamíndýrkandi. Nú hefur hins vegar komið á daginn að ég hefst ágætlega við í sólarleysinu (tímabundið), ég á bara bágt með að vera inni þegar veður er kjörið til útivistar.
Þetta var merkismoli annarrar viku júlímánaðar. Hoho.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 8. júlí 2018
Málfræðilegt kyn
Nú þarf ég að vanda mig svo pistillinn hljómi ekki eins og nöldur. Ég er áhugamaður um tungumálið og vinn heilmikið við það. Við erum með þrjú kyn í málfræðinni til langs tíma og nú er hán farið að ryðja sér til rúms án þess að hafa unnið sér fullan rétt. Er það fjórða kynið eða undirkyn frá hvorugkyninu? Ég er mjög fylgjandi þróun tungumálsins þar sem það á við en ekki skrumskælingu. Hán er í mínum augum ekki skrumskæling, það hefur með líffræðilegt kyn að gera og skákar málfræðinni.
En ég var ekki einu sinni að hugsa um hán þegar ég skráði mig inn á bloggið mitt núna, ég var að hugsa um þegar kvenfólk er farið að segja: Kona spyr sig, eða: Kona er búin að ákveða sig, þegar okkur er enn tamt að segja: Maður fær ekkert að vita, eða: Maður heyrir ekkert af björguninni, eða jafnvel bara: Ég hef ekkert frétt af framvindu mála. Og þetta sama fólk er gapandi yfir því að margt fólk segi: Menn og konur, þegar dugir að segja: Menn.
Já, mig grunaði að tungan ætti eftir að þvælast fyrir því sem mér liggur á hjarta. Mér finnst sjálfsagt að tungumálið þróist en mér finnst tilgerðarlegt þegar fólk hamast við að tala um allt frá sjónarhóli kvenna -- málfræðilega -- en segir svo út frá sjónarhóli saumaklúbbs kvenna: Komast allir um næstu helgi?
Ef nemendur mínir eru allir kvenkyns segi ég: Flestar eru mættar. Ef hópurinn er blandaður segi ég: Það vantar aðeins fá. Það er mitt innlegg í kynjabaráttu málfræðinnar og þar læt ég einmitt líffræðilegt kyn ráða. Mér finnst mér takast að sniðganga tilgerðina.
Ég veit, þetta er óskiljanlegt ... en mér líður betur ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 27. júní 2018
Áttu þeir skilið að fara á mótið?
Ég ætla að bera í þann bakkafulla leik að hrósa íslenska karlalandsliðinu í fótbolta sem hefur nú lokið keppni í Rússlandi. Ég þekki marga áhugalausa um fótbolta sem fylgdust með leikjunum af fölskvalausri gleði og ég held að við séum mörg sammála um að leikmenn hafi lagt sig alla fram. Hróður Íslands berst nú víða og árangur okkar er stórkostlegur. Í viðtölum hafa þeir líka sýnt hógværð og yfirvegun. Ég er grefilli ánægður Íslendingur í lok júní 2018.
Takk fyrir mig ... en ég ætla að fylgjast með HM aðeins lengur.
Dægurmál | Breytt 28.6.2018 kl. 20:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 21. júní 2018
Sakramentið
Ólafur Jóhann á næga aðdáendur þótt ég leyfi mér að gagnrýna Sakramentið fyrir yfirborðskennda og langdregna frásögn. Bókinni er auðvitað ekki alls varnað, ég varð forvitin um tvö atriði enda sagan spennusaga í því tilliti, en ég náði sem sagt ekki almennilegu sambandi við persónurnar. Togstreitu nunnunnar vegna ástar sinnar og svo framkomu í ferð sinni á Íslandi hefði verið hægt að gera jafn góð skil á langtum færri blaðsíðum. Siðferðisklemman er ekki ný og ekki nýstárlega um hana skrifað. Viðbrögð kirkjunnar komu ekki á óvart. Stóllinn sem skýrslum er stungið undir er á sínum stað. Samviskubit vegna aðgerðaleysis þótt brotið sé á börnum er þekkt.
En bæði Jesús og Drottinn voru rétt fallbeygðir og ég er ánægð með það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 18. júní 2018
Saga Ástu
Ég á aldrei eftir að þora að lesa Himnaríki og helvíti aftur, svo mögnuð fannst mér sagan vera og er logandi hrædd um að ég yrði fyrir vonbrigðum í næsta skipti. Hins vegar hef ég ekki alltaf verið hrifin af bókum Jóns enda á ekki að vera neitt garantí í þeim efnum.
Fyrstu 40 síðurnar í Sögu Ástu hugsaði ég líka ítrekað um að leggja hana frá mér. Hún er stórt púsluspil og það er þreytandi að sjá hvorki andlitsdrætti né landslag úr bitunum. Síðan komst skriður á söguna og þegar ég náði að tengja við Jóhönnu Þráinsdóttur og Ara Jósefsson opnuðust enn fleiri gáttir og ég varð yfirkomin af sögu þeirra og fleiri til sem voru til án þess að vera skilyrðislausar fyrirmyndir sögupersónanna.
Ég vildi bara að einhver hefði sagt mér að glósa þegar ég byrjaði á bókinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 7. júní 2018
Lærbrot eykur hagvöxt
Mér hefur svo oft orðið hugsað til þess að slys, rúðubrot og önnur óhöpp auka hagvöxt samkvæmt skilgreiningu. Auðvitað líka almenn aukin viðskipti og hugvit en hagvöxtur er samt ekki nógu góð mælieining á velsæld.
Pabbi minn sem búsettur er á Hrafnistu fótbrotnaði á föstudaginn var en af því að hann gat stigið í fótinn var það mat heilbrigðisstarfsfólks að hann þyrfti bara að hvíla sig. Á þriðjudeginum var hann loks sendur í röntgenmyndatöku og reyndist brotinn og fór beint á spítala í aðgerð.
Og við það tók hagvöxturinn kipp ...
Auðvitað vildum við helst að læknar, slökkviliðsmenn, fangaverðir og lögreglumenn hefðu alls ekkert að gera. En þá yrði til atvinnuleysi sem er slæmt fyrir hagvöxtinn. Er ekki eitthvað skakkt við þetta?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 27. maí 2018
,,Að láta kjósa sig"
Ég hef fullt af skoðunum. Sumar eru ígrundaðar en sumar eru tilfinningahlaðnar. Mér þætti mikil áreynsla að hafa skoðun á öllu sem snertir kjaramál, skattamál, innflutning, útflutning, eldi, verðtryggð lán, úthlutun starfsleyfa, verðlagningu mjólkur, persónuvernd, nethlutleysi, efnahagslögsögu, Evrópusambandið, eiturlyf, refsingar, snjallvæðingu, ábúð og ráðstöfun skrifstofa. Ég vil geta hringt úr farsímanum mínum hvar sem er á hringveginum, en hvað þarf til? Ég vil komast greiðlega á milli staða sem ég þarf að fara á milli. Ég vil ekki þurfa að anda að mér svifryki og öðru óheilnæmi. Ég vil búa einhvers staðar þar sem eru svalir og sól. Ég vil geta stundað íþróttir og vinnu. Ég er ekki spennt fyrir tónleikum en fer gjarnan í leikhús og stundum í bíó. Ég vil hafa það gott en ég vil kosta einhverju til. Og þar stendur hnífurinn í kúnni. Þrátt fyrir þessa upptalningu snýst heimur annarra ekki um mig. Við erum samfélag og verðum að finna samnefnara sem virkar. Og ég held að það sé hroðalega erfitt. Við þurfum að forgangsraða og reyna að velja það sem hentar best stærsta hópnum hverju sinni án þess að láta minni hlutann sitja í súpunni.
Hljómar ekki auðvelt.
Ég hef aldrei íhugað að fara í stjórnmál og núna, 27. maí, vorkenni ég óskaplega mikið mörgu fólki sem fór í framboð, bæði sumu fólki sem var kosið og líka öðru sem munaði litlu að næði inn og meira að segja því fólki sem er útilokað að taki sæti í sveitarstjórn á þessu kjörtímabili. Síðustu vikur hljóta að hafa verið skelfilegur rússibani þar sem sjónarmið og persónur eru teygð og toguð.
Ég tek ofan fyrir fólki sem tekur slaginn. Vel gert, frambjóðendur. Nú er bara að gera okkur öllum gagn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 22. maí 2018
Menntakerfið
Hugsanlega verður hægt að túlka þetta innlegg sem montfærslu. Ég sat í gær, annan í hvítasunnu, með danskri vinkonu sem ég hef ekki séð í áratugi og talaði við hana dönsku -- svo gott sem vandræðalaust. Ég tala aldrei dönsku, les frekar lítið á dönsku, hef ekki búið í Danmörku en hallast að því að lengi búi að fyrstu gerð. Mér var gert að læra dönsku í átta ár og, for helvede, það endist bara rækalli vel. Er ég þá að mæra skólakerfið?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 3. maí 2018
26. maí 2018
Ég er orðin dálítið stressuð. Eftir rúmar þrjár vikur verður kosið, já, en það er hefðbundið. Eftir þrjár vikur er líka stórafmæli. Hægri umferðin á Íslandi verður 50 ára! Ætlar enginn að fara að tala um það og skipuleggja eitthvað?! 26. maí 1968 var skipt yfir í hægri umferð sisona. Ég spurði pabba (96) á Hrafnistu um daginn hvort hann myndi hvenær hefði verið skipt og hann sagðist ekki muna það. Ég setti upp hissa-svipinn minn (hann tók náttúrlega þátt í þessu og þá man hann ekki endilega daginn) og spurði fleiri heimilismenn. ENGINN mundi það en svo mundu allir að það hefði gengið átakalaust enda hefði verið búið að kynna það í marga mánuði.
Og þá dettur mér í hug hvað ég þrái upplýsingar um það sem mér kemur við. Ég hef á tilfinningunni að allir reyni að halda eins miklu leyndu og þeir geta. Upplýsum og undirbúum og þá farnast okkur vel.
Gleðilegt sumar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)