Færsluflokkur: Dægurmál
Mánudagur, 23. apríl 2018
Föstudagar
Ég veit um skóla þar sem voru mikil veikindaforföll á föstudaginn, 20. apríl, daginn eftir sumardaginn fyrsta. Ég veit líka um vinnustaði þar sem margir tóku sér sumarfrísdag. Í staðinn fyrir að fá illt í herðarnar yfir leti og ómennsku (mér rann snöggvast sjálfri í skap) mætti kannski íhuga að hafa svona föstudaga frídaga. Eða hvað? Bæta einum degi við skólaárið?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 18. apríl 2018
Hvert er andheitið við stöðugleika?
Er það ekki breytingar? Ef við viljum breytingar viljum við ekki stöðugleika sem felur í sér stöðnun.
Ég þekki Ragnar Þór Pétursson ekki neitt en tek undir það sem hann segir um stöðugleika í þessum þætti. Ég er sjálf höll undir breytingar, sjálfsagt stundum um of, en ég held almennt að ef maður breytir til sjái maður annað hvort jákvæðar breytingar eða af hverju það hentar sem maður hafði gert. Ekki eru allar breytingar frábærar en margar fela í sér framfarir og þróun.
Ef menn hefðu ekki hugsað áfram og lengra værum við enn með tölvu sem legði allt herbergið undir sig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 15. apríl 2018
Skyndilán og fjármálalæsi
Ég hef aldrei verið blönk. Hana, þá getur hver maður vitað það. Ég er alin upp við það góða atlæti að þurfa ekki að hafa áhyggjur af morgundeginum, a.m.k. ekki með tilliti til fjármála. Fylgifiskur æskunnar var samt að þrá fjárhagslegt sjálfstæði meira en annað þannig að ég eyddi aldrei neinu fyrr en ég var búin að afla þess nema þegar ég keypti mér íbúð. Ég tel mig fjármálalæsa, og er það, en það dugir ekki ef fólk Á ekki fyrir því sem það ÞARF að borga.
Nú er enn verið að ræða smálánafyrirtækin, bæði í blöðum og á þingi. Af óskiljanlegum ástæðum tekst ekki að koma lögum yfir okurlánafyrirtækin, að því er virðist vegna þess að þau breyta skilmálum, kalla vaxtagreiðslur kostnað eða pappírsgjald eða þóknun. Ég hef reyndar ekki séð þetta og man ekki hvað ég hef heyrt nákvæmlega um orðalagið. En ástæðan fyrir því að ég ergi mig enn einu sinni á prenti yfir þessu dáðleysi er að ég heyrði í útvarpsþætti nýlega talað um auglýsingar frá okrurunum. Dæmi:
Vantar þig ekki nýjan [einhver týpan] síma? Fáðu lán og fáðu þér flottan síma.
Þarftu ekki að fata þig upp fyrir sumarið? Fáðu lán.
Þessi fyrirtæki standa ekkert á hliðarlínunni og bíða eftir að fjármálaólæsu unglingarnir fái fáránlega hugmynd. Nei, þau líma óráðsíuna í kollinn á fólki sem hefur ekki lært að fóta sig í fjármálunum.
Svei þeim. Og svei því að ekki sé hægt að bjóða okkur upp á heilbrigt fjármálaumhverfi. Hvernig á fólk að læra fjármálahegðun þegar bankarnir bjóða okkur 0,05% innlánsvexti og 11% útlánsvexti? Vaxtamunurinn dekkar kostnaðinn við starfsemina og golfferð til útlanda í hverjum mánuði hjá æðstu stjórnendum bankanna. Og ég bið þau bara fyrirgefningar ef ég ætla þeim of litla græðgi með orðum mínum. Þau hljóta að vera hreykin af frammistöðu sinni á fákeppnismarkaðnum Íslandi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. apríl 2018
Risinn með títuprjónshausinn
Ég skil ekkert í því að ég finn varla nokkurn ritdóm um þríleik Ólafs Jóhanns Sigurðssonar, Gangvirkið, Seið og hélog og Dreka og smáfugla. Ég dró Pálssögu út úr bókahillunni um páskana, hef væntanlega keypt hana á bókamarkaði fyrir nokkrum árum en ekki komið mér í lesturinn því að fyrirsögnin hefur einhvern veginn tekið sér bólfestu í kollinum á mér, risinn með títuprjónshausinn. En ég finn engan dóm í þá veru. Ég finn mat einhvers í Pressunni 29. ágúst 1991 um að þessi þríleikur sé eitt ofmetnasta og leiðinlegasta verk íslenskrar bókmenntasögu. Þar segir um Pálssögu Ólafs Jóhanns:
Trílógía Ólafs Jóhanns var af Ólafi Jónssyni krítíker talin siðasta islenska skáldverkið, síðasti sprotinn á miklum og merkum meið íslenska realismans, en auðvitað er þetta ótrúleg langloka um ótrúlegt gauð þar sem persónulýsingarnar ná engri átt.
Ég byrja umfjöllun mína hér á alröngum enda því að ég er greinilega dálítið sammála Ólafi Jónssyni, Pálssaga er stórkostlega skemmtileg bók. Ég er reyndar bara enn að lesa Seið og hélog en meðan ég las Gangvirkið sem gerist í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar hló ég margsinnis upphátt. Já, blaðamaðurinn vinnur við prófarkalestur og hnýtur um semíkommur þar sem síst skyldi og klórar sér í hausnum yfir stafavillum -- og ég tengi allan daginn -- en hann hefur líka svo heilbrigðar efasemdir um tilgang lífsins; tilgang starfsins, frítímans, ástarinnar, dauðans, ömmu sinnar og Djúpafjarðar. Úti í heimi geisar stríð og hann leyfir sér að gleyma sér við ástarsorgina og svo finnst honum hann fyrir neðan allar hellur.
Mér finnst magnað hvað ÓJS nær að fjalla skemmtilega og á áhugaverðan hátt um hversdaginn. Það gerist sannarlega ekki mikið á kontórnum og enn minna utan hans en það er líf flestra. Við lifum ekki ævintýri alla daga, við erum ekki í upphöfnu málskrúði stundunum saman. Og hinar litlu búksorgir Páls Jónssonar eru svo drepfyndnar að ég skelli iðulega upp úr.
En hvar eru umsagnirnar? Hvar eru bollaleggingarnar? Hvar eru útleggingarnar?
Ég er ekki búin með þríleikinn allan ...
Og þegar ég klára þennan doðrant hlakka ég til að lesa um Árna Þórarinsson eftir Þórberg Þórðarson. Íslenskan lifi. Íslenskan lifir. Íslenskar bókmenntir lifa.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 26. mars 2018
Staða verkefna hjá sérfræðingum
Einhver á eftir að hugsa mér þegjandi þörfina. Ekki fyrir að segja að mér finnist ástæða til að stytta vinnuvikuna þar sem hægt er. Vegna fjórðu iðnbyltingarinnar er margt sérfræðistarfið fljótunnara en var. Við erum fljótari að fletta upp staðreyndum, fljótari að afrita, fljótari að senda, fljótari að greina og ákveða niðurstöðu.
Samt er samfélagið ekki allt logandi í tilhökkun yfir því að vinnuvikan hljóti að styttast. Ég heyri yfirmenn ekki tala um það og ég verð ekki mikið vör við að starfsmenn á gólfinu gæli við tilhugsunina.
Nei, einhver á eftir að hugsa mér þegjandi þörfina þegar ég hugsa nú upphátt að starfsmenn vilji frekar geta mætt í vinnuna og fengið sér góðan kaffibolla með samstarfsfólkinu í upphafi dags, sest svo við tölvuna og lesið í gegnum afmæliskveðjurnar á Facebook eða snappað eða farið í gegnum slúðurmiðlana.
Af átta tíma vinnudegi eru að hámarki sex klukkutímar í þágu vinnunnar hjá flestu skrifstofufólki. Þar inni í eru auðvitað eðlilegar hvíldarstundir, matar- og kaffitímar, en einhver hluti sem fólk er bara að dóla sér eitthvað. Og, já, ég er skrifstofufólk og vildi miklu heldur halda vel áfram í sex tíma og fara svo í klippingu og búð á leiðinni heim. Mér finnst alveg kósí að opna Facebook meðan ég elda og þarf hvort eð er að standa yfir eldavélinni.
Og grunur minn er að allstór hluti þeirra sem hafa ekki tíma til að skoða Facebook heima á kvöldin geri það bara samt og verji ekki öllu kvöldinu með börnin í fanginu. Fólk með ung börn og mörg ung börn er skiljanlega oft í þvottahúsinu en svo eldast börn sem annað fólk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. mars 2018
Almenningssamgöngur
Ef ég byggi 10 km frá vinnustað myndi ég helst vilja taka strætó í vinnuna. Ég vildi að ég þyrfti ekki að líta á klukkuna og stilla ferðalag mitt út frá hálftíma- eða klukkutímaferðum, ég er alveg til í að borga, að sjálfsögðu, rétt eins og ég borga fyrir að eiga bíl og að kaupa hjól, skó og annan fatnað. Ég bý hins vegar í 2 km fjarlægð og get leyft mér þann munað að hjóla og ganga í vinnuna flesta daga. Þá daga sem ég fer á bíl er það til þess að nota hann í hádeginu eða strax eftir vinnu eða mögulega ef ég er með mikinn farangur, köku fyrir kaffið eða álíka.
Ef ég gæti treyst því að ég kæmist á 50 km hraða úr miðbænum á Hrafnistu og til baka þegar heimsókn minni væri lokið myndi ég líka taka strætó í heimsókn þangað. Og ég hef fulla trú á að mörgum sé svipað innan brjósts og mér. Strætó snýst um tíðni og ferðaleiðir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. mars 2018
N1
Setjum sem svo að forstjóri fái góðan bónus fyrir að a) leggja vel á seldar vörur og hámarka innkomuna þannig, b) halda launum starfsfólks niðri og hámarka gróðann þannig -- af hverju fer kúnninn ekki? Af því að hann á í góðum samskiptum við Ara, starfsmann á dekkjaverkstæðinu, eða Barða sem selur honum grilluðu samlokuna í hverju hádegi? Er tryggðin svona mikil?
Ég þekki ekki svona tryggð í mínu fari þannig að ég er alveg bit á að fyrirtæki sem hlýtur að okra stöðugt á kúnnunum sínum heldur þeim.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 18. mars 2018
Sími undir stýri
Ég skal svoleiðis segja ykkur það að ég er ekki á því að banna síma undir stýri og er sannarlega ósammála þeim sem segja að manni væri hollast að hafa símann utan seilingar. Ég er auðvitað ósammála því að skrifa undir stýri, hvort sem er í tölvu, síma eða skrifblokk, sammála því að maður eigi ekki að vera í tölvuleikjum í akstri, ekki maskara sig í akstri og ekki rífast við aftursætið meðan maður keyrir. Akstur er dauðans alvara og maður á að vera með hugann við efnið.
Eins og umferðin er samt á álagstímum er síminn stundum bjargvættur. Þegar maður silast áfram er góð dægrastytting að lesa tölvupóstinn með fótinn á bremsunni, hringja skipulagssímtöl -- ég hef farið tóma vitleysu af því að ég svaraði ekki í símann þegar ég gat og fékk ekki skilaboðin sem ég þurfti -- eða segja vinum sínum á snapchat að hjól sé betri kostur þegar maður vill komast örugglega leiðar sinnar.
Það er óskynsamlegt að alhæfa þannig að ég vil frekar höfða til skynsemi fólks og ekki boða og banna eins og allir séu fífl og fávitar. Fíflin og fávitarnir sem beita ekki heilbrigðri skynsemi fara heldur ekki eftir reglum. Og hver eru viðurlögin og hversu oft er þeim beitt?
Piff!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 17. mars 2018
Launamunurinn
Við erum svo blíð og meðfærileg. Nú hefur forstjóri aftur gengið fram af okkur. Og nú eipum við öll á bloggsíðunum okkar. Eggert lætur ekki ná í sig enda hefur hann líklega engar daglegar vinnuskyldur heldur er einhvers staðar í útlöndum að reyna að eyða nýjustu milljóninni.
Og við höldum áfram að eipa á netinu og garga á makann sem er samt sammála.
Örfátt fólk er ósammála okkur pöpulnum en það er einmitt fólkið sem ræður þessu. Fólkið sem gæti breytt þessu. Gæti ekki Alþingi sett í lög að þegar laun eru orðin x-föld borgi launþeginn x mikið í skatt? Hvernig er þetta í samanburðarlöndunum sem okkur verður svo tíðrætt um þegar á að halda launum pöpulsins niðri?
Og, nei, ég hef það sjálf fínt. Nú vill bara svo til að ég þekki fólk sem á varla til hnífs og skeiðar. Ef N1 á lausa milljón í hverjum mánuði sem N1 þarf að losna við getur N1 kannski lækkað eldsneytisverðið eða borgað fólkinu á gólfinu hærri laun.
Ég vildi óska þess að þeir sem hafa valdið notuðu það heildinni til gagns. Og, nei, ég hef það sjálf fínt, takk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 16. mars 2018
Fjórfaldur launamunur?
Væri hægt að ákveða að mesti munur á launum væri eitthvað ákveðið, t.d. fjórfaldur? Ef lægstu laun væru 300.000 kr. væru hæstu laun 1.200.000 kr? Að minnsta kosti hjá hinu opinbera?
Og svo kannski að borga forstjórum olíufyrirtækja eðlileg laun? Hvaða flóknu ákvarðanir tekur Eggert Þór Kristófersson? Lifir hann í samkeppnisumhverfi? Ekki hef ég tekið eftir því. Bensínverð er alls staðar það sama eða svo gott sem. Hvaða þjónustustig ákveður hann sem er svo íþyngjandi sálu hans og ábyrgð sem réttlætir laun sem eru ekki þessa heims?
Ég er ekki beisk. Alltaf þegar ég skrifa eitthvað svona gjammar hér einhver ókunnugur eins og málið snúist um mig. Það snýst um þjónustuna og vinnuálag þessa forstjóra og það snýst um það að vinna láglaunastétta er ekki metin sem vert væri.
Ég vildi óska þess að ég hefði verslað við N1 og helst að ég væri stórnotandi á svona stundum. En ég get ekki hætt að versla við N1. Djö.
En svo er auðvitað spurning hvenær á daginn kemur að hinir olíufurstarnir maka líka sína króka. Sjálftökustéttirnar eru dálítið óþolandi. Og í hverra skjóli eru þær?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)