Færsluflokkur: Dægurmál

Stytting vinnuvikunnar

Ég skil ekki af hverju menn eru ekki í óðaönn um allt samfélag að tala um styttingu vinnuvikunnar. Ég átta mig á því að það er alls ekki einfalt alls staðar, síst þar sem starfið felst í viðveru, að vera til taks, svo sem við símsvörun og afgreiðslu. Ég er heldur ekki að biðja sisona um að öllu launafólki verði gefnir 4-6 klukkutímar á viku heldur að menn ræði kosti og galla.

Svona horfir þetta við mér: Í mörgum skrifstofustörfum vinnur fólk ekki meira en 30 tíma á viku þótt uppgefinn vinnutímafjöldi sé 40. Fólk tekur matar- og kaffitímahlé og ég geri ekki athugasemdir við það. Fólk fer úr vinnunni til að mæta á foreldrafundi, til læknis og í jarðarfarir. Ég geri heldur ekki athugasemd við það. En fólk fer líka á vinnutíma í klippingu, með bílinn á verkstæði, með bílinn í skoðun, skreppur í búðina og kaupir inn, leitar að árshátíðarfötum, kennir einn og einn tíma fyrir laun, skreppur heim að opna fyrir píparanum, tryggingasalanum og þvottavélaviðgerðamanninum.

Við lengjum stundum mataratímana af því að margt af því sem við þurfum að gera stendur bara til boða þegar við erum í vinnunni. Ég segi „við“ af því að ég er skrifstofufólk og ég hef vissulega sinnt persónulegum erindum í vinnutímanum en ég hef líka sinnt vinnuerindum í frítíma mínum. Það er alveg hægt að jafnvægisstilla en ég held alveg eindregið að það sé gáfulegast í upptakti að fjórðu iðnbyltingunni að stytta vinnuvikuna.

Ég hef stungið upp á því við kaffivélina (við samstarfsfólk þegar ég sæki mér kaffi) að fólk sem vinnur almennt kl. 9-17 fái fjóra tíma á viku til ráðstöfunar, mæti t.d. einn dag kl. 13 í stað þess að mæta kl. 9. Þá er hægt að skipuleggja strípur, útréttingar eða „helgarþrif“ á þeim tíma ef fólk nýtur þess ekki einfaldlega að sofa út og vera lengi að drekka morgunkaffið yfir samfélagsmiðlunum.

Í sumum fyrirtækjum eru tímar fólks beinlínis verðlagðir og seldir viðskiptavinunum. Á móti styttingu vinnuvikunnar þarf auðvitað að vera skýrt að vinnutíminn nýtist atvinnurekandanum þannig að nóg gangi undan starfsmanninum. Ég segi enn og aftur að auðvitað er þetta ekki einfalt alls staðar, sum störf mælast illa, eru misseinleg og skiljanlega getur fólk átt misgóða daga, en ef fólk finnur að starf þess er metið og því umbunað, það fær næga hvíld og getur sinnt fjölskylduskyldum ætti maður að geta reiknað með meiri orku þann tíma sem það er í vinnunni.

Berglind hefur talað.


Í biblíulandi

Um daginn fór ég til Tel Aviv sem er í Ísrael. Trump var nýbúinn að derra sig eitthvað og fólk spurði hvort mér væri alvara með að fara a) á ótryggt svæði, b) í vondukallalandið sem réttast er að sniðganga. 

Ég sagðist bara vera á leið í hlaupaferð, veturinn hefði verið harður og farseðillinn ódýr. Hins vegar lofaði ég að versla ekkert af vonduköllunum nema mat, drykk og ferðir. Svo fór ég í eina fatabúð þar sem undurfagur kjóll var í glugganum, mátaði hann og kunni ekki við en keypti hins vegar buxur. Buxur! Gæðavöru frá Ítalíu. Meinta.

Fruss. Ég er dálítið veik fyrir grænu og þær eru grænar (sjá mynd). Í annað skipti sem ég fór í þær rifnaði rassinn af! Ég var eitthvað að ólmast við að sveifla barni en buxurnar eru vel víðar. Ef þetta hefði hent mömmu hefði hún sent versluninni bölbænir og hún hefði ekki lifað árið, en ég? Ég frussa bara og er að hugsa um að gefa þær Rauða krossinum.

Boðskapur sögunnar? Kaupa frekar fjandans kjólinn. Hann var ekki grænn.

Rifnuðu strax


Tímasóun eins er afþreying annars

Sumt fólk talar um Facebook sem tímaþjóf. Ég var frekar sein til að skrá mig á Facebook, það fannst a.m.k. fólkinu í kringum mig, en samt eru núna að verða komin átta ár. Ég á það alveg til að detta ofan í Facebook í sófanum yfir sjónvarpinu en aðallega finnst mér Facebook mjög góður utanumhaldari, þar sé ég viðburði sem mig langar að mæta á, þar er mér boðið á alls kyns persónulega viðburði, svo sem í matarboð og afmæli, og sumt skóla- og íþróttastarf er að hluta rekið í gegnum Facebook. Kannski obbinn.

Nú ætla ég að reyna að nefna samfélagsmiðilinn ekki frekar á nafn en ég held að fólk sói tíma sínum í ólíka hluti. Sumum finnst lestur skáldsagna tímasóun, öðrum sjónvarpsáhorf, grúsk yfir mataruppskriftum, innihaldslaus símtöl, spjall í sófanum, að mæta á kappleiki, að hlusta á tónlist -- ekki svo að skilja að ég hafi heyrt fólk segja allt þetta, en tímasóun eins er afþreying annars. Og ein besta uppfinning samtíma míns er internetið sem sést m.a. á því að fólk notar símana sína æ minna til að tala í þá. Ég hringi samt sjálf nokkuð reglulega.

Og þar sem ég á nú rígfullorðinn föður á elliheimili þar sem hvorki er haft net alls staðar né leyfð dýr er ég með það verkefni á vormánuðum að tala við yfirmenn og fá svör. Ég get svo eiðsvarið það að ef ég fæ ekki að hafa netið með mér um allar trissur á mínu elliheimili og helst einn malandi kött verð ég með uppistand sem orð verður á gerandi.

Mun hins vegar sniðganga messurnar ...


Að missa foreldri

Þetta verður persónulegasta bloggfærslan mín fyrr og síðar.

Mamma mín dó fyrir mánuði. 

Hún var níræð og búin að eiga langa og stranga ævi en hún var mamma mín og mér þótti og þykir ósköp vænt um hana. Hún fékk blóðtappa í hálsinn í október 2014 og átti síðan erfitt með að kyngja. Ég var ekki alveg með á nótunum, ekki heldur þegar hún kom ekki niður kjötinu á jólunum. Hún rýrnaði og léttist sem henni fannst fyrst alveg fyrirtak en svo dró smátt og smátt af henni.

Já, hún var fædd 1927 og auðvitað vissum við að lífið styttist en pabbi minn er fæddur 1921, er sem sagt á 97. aldursári, og ágætlega bragglegur. Síðasta sumar datt engum í hug að mamma væri á förum þar sem hún hljóp um allt, eldaði, bakaði, blaðraði í símann og fór í vettvangsferðir með mér.

En í ágúst hringdi mamma í mig og sagði: „Berglind mín, ég ætla að biðja þig að fara með mig á bráðamóttökuna. Ef ég á að tóra eitthvað lengur verð ég að nærast eitthvað.“ Þá hafði hún ekki nærst í einn og hálfan sólarhring. Hún ældi þessu litla sem hún kom niður. Við systkinin, og pabbi reyndar líka, vorum þá alveg orðin meðvituð um að hún yrði að vera á næstum fljótandi fæði og hún borðaði ab-mjólk og hafragraut í flest mál. Og gat reyndar borðað sætt sem leystist upp í munninum, kökur, súkkulaði og ís.

Ég fór með hana á bráðmóttökuna og hún var lögð inn. Á meðan var pabbi einn heima og datt einhvern tímann um nóttina. Við vitum ekki hvenær, hann ekki heldur, en þegar systir mín kom um kl. 11 lá hann á svefnherbergisgólfinu með þunna blóðtauma um allt gólf. Þrátt fyrir hálserfiðleikana hafði mamma verið hálfgildins sjúkraliði með pabba sem braggast ágætlega, eins og ég sagði, en þurfti samt að fara varlega til að detta ekki á leið á klósettið og datt stundum samt og þá kom mamma skokkandi og dró hann á fætur.

Ég gæti haft millikaflann langtum lengri en ætla að vinda mér í endinn. Pabbi fór á spítala þarna í ágúst og hefur síðan ekki gist heima. Mamma fór daglega til hans og sat eins og hæna á priki á spítalastólum. Já, pabbi bað hana og hún gerði honum til geðs en starfsfólk horfði upp á hana verða rýrari og meira veikburða. Á kjördag 2017 fór ég með hana að kjósa og hún datt kylliflöt á hnakkann, orðin lúin af mikilli yfirsetu á Landakoti. Eitthvert starfsfólk bauð henni stundum kaffi og köku en almennt sat hún þurrbrjósta í allt að fjóra klukkutíma.

Já, sannarlega horfi ég nú í eigin barm og hugsa mitt. Hefði ég ekki átt að átta mig? Hefði ég ekki átt að banna þetta? Hefði ég ekki átt að taka af skarið? Jú, og þess vegna er ég að hugleiða þetta upphátt.

Jólin voru erfið. Bróðir minn flutti inn til mömmu en pabbi var þá kominn á Hrafnistu. Bróðir minn studdi hana og gaf henni að borða. Ég kom líka mikið og reyndi að létta undir. Mamma notaði göngugrind þegar hún gekk um en datt samt, datt af klósettinu, datt af eldhússtólnum þótt við sætum beggja vegna við hana. Hún skall á höfuðið. Ítrekað. Hún lá mikið fyrir en við reyndum að koma ofan í hana næringu.

Fréttir bárust ítrekað af því að Landspítalinn væri undirmannaður og fengi ekki nægt rekstrarfé. Við ætluðum að hlífa heilbrigðiskerfinu en þegar ég hringdi loks á sjúkrabíl 5. janúar leið mér eins og ég hefði vanrækt mömmu mína og bæri ábyrgð á veikindum hennar.

Hún fór á Borgarspítalann með sjúkrabíl föstudaginn 5. janúar af því að hún nærðist illa og af því að hún var búin að detta á höfuðið. Eftir 2,5 klukkustundir á spítalanum kom læknir og leit á hana. Hún var búin að suða í mér að fara heim og ég fór heim kl. 18:30. Vá, hvað ég sé eftir því. Þegar ég kom í hádeginu næsta dag var hún rænulítil og hafði enga næringu fengið. Um kvöldið var hún flutt á kvennadeildina við Hringbraut vegna plássleysis í Fossvoginum. Það hentaði mér prýðilega því að þá var styttra fyrir mig að fara til hennar og það reyndi aldeilis á það næstu vikuna. Mánudaginn 8. janúar var hún í dái eða meðvitundarlaus, ég veit ekki hvernig best er að orða það. Við bróðir minn hittum tvo lækna sem sögðu alveg umbúðalaust að þetta væri búið. Bróðir minn spurði: „Kemst hún þá ekki framar til meðvitundar?“ „Nei,“ sagði önnur. Við skildum að hafin væri líknandi meðferð. Ég lét vita í vinnunni að ég yrði hjá mömmu eins og þyrfti, skrapp svo heim um kvöldið til að fara í sturtu þegar systir mín kom með alla fjölskylduna. Sem ég gekk upp Eiríksgötuna á leið til baka fékk ég skilaboð frá systurdóttur minni um að mamma væri vakandi og að reyna að tala.

Næstu þrjá dagana, þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag og fram yfir hádegi á föstudeginum, vakti mamma á daginn, ræðin og skemmtileg, enn mildari og yfirvegaðri en venjulega og kvaddi okkur af mikilli rósemi og glaðværð. Við stefndum til hennar ættingjum og vinum og mér leið eins og ég væri á minni háttar ættarmóti. Hún hafði ætlað að halda upp á níræðisafmælið sitt á gamlaársdag en var þá farin að kröftum.

Hún lognaðist út af á hádegi föstudaginn 12. janúar og dó svo seinni partinn á laugardegi þegar við vorum farin að reikna með að lífið myndi fjara út á viku. Ég var hjá henni og hún skildi fallega við. 

Um kvöldið vorum við öll börnin og flest barnabörnin í kringum dánarbeðið, skælandi og að bollaleggja framhaldið. Starfsfólkið var elskulegt og gaf okkur allan þann tíma sem við þurftum. Og ég þurfti hann ærinn. Ég á engin börn eins og systkini mín og kannski var ég þess vegna tengdust mömmu, ég veit það ekki, en alltént var ég næstum nótt sem nýtan dag við rúmið hennar þessa viku. Meðan hún vakti gaf ég henni að borða og drekka eins og hún gat. Dýrmætir dagar enda náðum við líka að spjalla og skoða myndir, fá gesti og horfast í augu. Það er nefnilega ekki sársauakalaust að missa mömmu sína þótt hún sé orðin níræð og tilbúin að fara.

Eftir að hún dó var okkur sagt að við þyrftum að sækja dánarvottorðið á spítalann en að hringt yrði í okkur. Við hugleiddum ekkert í hvert okkar yrði hringt. Sunnudaginn 21. janúar rankaði ég við mér og mánudaginn 22. janúar fór ég á kvennadeildina og spurði um vottorðið. Þá lá það eins og ómerkilegt krot í móttökubásnum og mér leið eins og mamma mín hefði verið vanrækt í tæpa viku. Af mér. Mér fannst líka votta fyrir samviskubiti hjá starfsfólkinu. Maður þarf að fara með vottorðið til sýslumanns og án þess skilst mér að jarðarför geti ekki farið fram.

Ég er raunsæ og skil að dauðinn er það eina örugga sem lífið býður upp á en ég sakna mömmu samt og mér finnst skömm að heilbrigðiskerfi í meintu velferðarríki sem stíar gömlu fólki í sundur, fólki sem var gift í 66 ár og 8 mánuði, með því að leyfa mömmu ekki að flytja með pabba á Hrafnistu í nóvember. Þau vildu bæði fara á elliheimili og vera þar saman en vistunarmatið stóð í veginum. Flest starfsfólk „á gólfinu“ er almennilegt en ég mun alltaf minnast tveggja lækna með óbragði í munninum sem afskrifuðu mömmu ótímabært af því að þær „vildu ekki vekja með okkur vonir“ og sögðu svo inni á stofunni hjá henni að hún „væri búin að ákveða fyrir okkur“ að þetta væri búið.

Gamalt fólk er fólk, ekki tölfræði, og aðstandendur eru líka fólk. Ég hugsa með hryllingi til þess ef mamma og pabbi ættu ekki okkur systkinin að, fjögur talsins, því að við höfum þó náð að stýra og afstýra ýmsu.

Að lokum vil ég segja það að eftir viku á spítalanum var ég komin með hrúður á augnlokin. Mér skilst að það hafi verið mygla á vinnustaðnum mínum sem ég hef þá ekki kippt mér upp við en á Landspítalanum við Hringbraut er fjandakornið eitthvað í loftinu og mögulega veggjunum sem veldur vanlíðan.

Og núna iðrast ég þess í fyrsta skipti á ævinni að hafa aldrei eignast eigið barn.

Þótt ég birti þessa færslu er hún fyrst og fremst til minnis fyrir mig. Ég finn að hún er ruglingsleg af því að efnið stendur mér svo nærri en ég ætla að láta mig hafa það að birta hana. Ef einhver bætir við reynslusögum í athugasemdum þætti mér það forvitnilegt.


Hver er þessi maður?

Eina ástæðan fyrir því að ég skil eitthvað í þessari frétt er að ég veit fyrir um hvað málið snýst. Þekki samt ekki þennan Ingvar og veit lítið um Sólveigu líka. Þar fyrir utan eru óþarflega margar ásláttarvillur.

Tveir munu berjast um formanssætið í Eflingu séttarfélagi. Framboðsfrestur rann út síðdegis. Sigurður Bessason, sem gegnt hefur formannsembætti í Eflingu í átján ár, hættir störfum á næsta aðalfundi félagsins í lok apríl. Kosinn verður nýr formaður og sjö aðrir stjórnarmenn. Sólveig Anna Jónsdóttir býður sig fram á móti Ingvari Vigur Halldórssyni sem setið hefur í stjórninni um árabil. Hún hefur sagt verkalýðsforystuna máttlausa en því er Ingvar ekki sammála.
 
„Nei hún er ekki máttlaus. Ég vil halda áfram því góða starfi sem er unnið í verkalýðshreyfingunni. Ég gef kost á mér af því að ég þekki til. Ég er búinn að vera þarna áður. Það er náttúrulega bara mjög gott að fólk vilji koma og starfa í hreyfingunni og ég fagna mótframboði. Það er að vantar er að fleiri sýni verkalýðsbaráttunni áhuga.“
 
Meirihluti félagsmanna eru útlendingar. Framboð Sólveigar segir leggur mikla áherslu á rétt þeirra.
 
Félagið er mjög gott að sinna þessum málum. 66% launakrafna sem að félagið sækir það var fyrir hönd erlendra starfsmanna.“
 
Er þetta fólk að þínu mati meðvitað um rétt sinn?
 
„Að miklu leyti já. Það eru trúnaðarmenn á flest öllum stöðum þar sem eru fleiri en fimm starfsmenn og það er gefið út fréttabréf sem er sent heim til fólksins á ensku og pólsku og þar er bent á hvar réttinn er að finna.“
 
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, styður framboð Sólveigar og hélt erindi á baráttufundi sem framboð hennar stóð fyrir. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir fordæmalaust að formaður VR hafi afskipti af kjöri í Eflingu.
 
„Ég er ekki að standa fyrir neinni byltingu og þau sem eru með mér í framboði þau eru öll í stjórn og við erum bara að bjóða fram þekkingu og reynslu og traust. Ég held að það sé gott traust innan forystunnar núna og það er betra að hafa það heldur en einhver læti núna það skilar ekki árangri held ég.“

 

Gylfi er ótrúlega óforskammaður. Fordæmalaust?? Og hvað með það??? Hefur meint verkalýðsbarátta skilað láglaunafólki einhverju? Af hverju lepur fólk dauðann úr skel í forríku landi?

Mikið innilega vona ég að kjósendur Eflingar skoði framboðin vel og nýti sér svo atkvæðið sitt.


Himnaríki og helvíti

Sá þriggja tíma sýningu í Borgarleikhúsinu og leiddist aldrei. Frábært leikaralið, vel hönnuð sviðsmynd og svo auðvitað hin magnaða saga Jóns Kalmans Stefánssonar. Við sátum á 2. bekk sem var helsti gallinn, sérstaklega hjá mér sem sá hnakka mannsins á 1. bekk fullvel nema ég æki mér í sætinu, en á móti sá ég þegar B. kólnaði illilega á sviðinu. Ég sver það, hann króknaði fyrir augunum á mér.

Farið bara.


Faðirinn í Kassanum

Stóri bróðir minn fór að sjá Föðurinn í leikhúsinu og var yfir sig hrifinn. Gott ef hann gaf honum ekki 10 af 10 þannig að ég var dálítið efins. Samt fór ég og varð líka yfir mig hrifin. Ég er þegar búin að blaðra í nokkra af hverju en ef mínir fimm dyggu lesendur eiga eftir að sjá sýninguna vil ég ekki spilla upplifuninni. Læt þó eftir mér að segja að mér fannst sýningin eftir hlé betri sem ég held að helgist af því að ég þekki ekki vel sjúkdóminn alzheimer ...


RÚV vs einkareknir fjölmiðlar

Er ekki undarlegt að einn fjölmiðill, þótt góður sé og ég hlusta mikið á, fái árlega marga milljarða á fjárlögum OG sé á auglýsingamarkaði? Ég veit að heilbrigð samkeppni á erfitt uppdráttar á Íslandi vegna fámennis en ég efast um að látið hafi verið reyna á. Nú stíg ég sjálfsagt í spínatið af því að ég veit ekki um laun allra, viðhaldskostnað allra tækja, rekstrarkostnað húsnæðis o.s.frv. en ef fjölmiðlun á að vera frjáls, þ.m.t. blaðaútgáfa, verða miðlarnir að sitja við sama borð.


Kirkjan vs heilbrigðiskerfið

Hefur kirkjan sem stofnun einhvern tímann talað um að hún hafi ekki nægt fé til að reka sig, halda við húsum og borga þjónunum laun?

Hefur Landspítalinn sem stofnun einhvern tímann talað um að hann hefði ekki nægt rekstrarfé?

Við vitum svörin.

Hversu margir þurfandi hafa ekki fengið þjónustu hjá kirkjunni?

Hversu margir þurfandi hafa þurft að bíða lengi eftir þjónustu lækna eða annars hjúkrunarfólks?

 


6,5 milljarðar

Á bls. 256 í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 sýnist mér liðurinn „trúmál“ fá 6,5 milljarða og leyfi mér að giska á að obbinn fari til þjóðkirkjunnar sem biskupinn stýrir víst af stöku ráðleysi. Er ekki kominn tími til að taka til?

Getum við ekki verið sammála um það?

Eða var því kannski breytt daginn fyrir áramót?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband