Færsluflokkur: Dægurmál
Fimmtudagur, 21. mars 2019
Föstudagsmótmæli
Vá, hvað ég er spennt fyrir umhverfisvitund barna og unglinga, ekki síður en fullorðinna. Vá, hvað ég vona að við förum að taka umhverfisógnina alvarlega. Fermingardrengur í nærumhverfi mínu hefur beðið um græðlinga í fermingargjöf til að geta kolefnisjafnað. Vá, hvað við höfum dregist aftur úr og höfum góð tækifæri til að bæta um betur.
Vá.
Ég þekki ekki börnin sem skrópa en þau eru örugglega indæl og meina vel. Ég væri til í að sjá viðtal við þau þar sem þau væru spurð hvort þau væru líka sjálf til í að fækka utanlandsferðum sínum og fara vel með rafmagn og eldsneyti. Vilja þau fórna sínum gæðum? Kannski. En sannarlega er ánægjulegt að sjá vitundarvakningu ef hún er ekki skrópið tómt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 11. mars 2019
Meinlaus verkföll
Verkföll bíta, annars er enginn tilgangur með að nota það vopn. Hver dregur fram smjörhníf ef hann ætlar að skera hnút?
Óhefðbundnar aðferðir, sagði Halldór Benjamín í útvarpinu áðan. Hann er auðvitað ósáttur við aðferðir sem gætu virkað til hækkunar umfram það sem hann vill borga starfsmönnum.
Hvað ætli hlustendur hafi hugsað?
Ég veit í alvörunni ekkert hvað hótelþernur eru með í laun en ég var einu sinni leiðsögumaður og ég hætti 2013 (var reyndar aldrei heilsársstarfsmaður í ferðaþjónustunni) vegna þess að innviðir voru sprungnir OG vegna þess að launin voru grín sem ég hafði sætt mig við meðan vinnan var skemmtileg.
Ég er kona og ég hef það fínt en það hvarflar ekki að mér að þau réttindi sem ég hef í dag en formæður mínar höfðu ekki hafi náðst baráttulaust.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 2. mars 2019
Sléttumannaland
Ég fór á pöbbkviss i gærkvöldi og varð ýmislegs vísari eins og spyrill spáði (ekki samt sérstaklega fyrir mína hönd). Ein spurningin var um slétt land sem mig minnir að Halldór Laxness hafi viljað kalla Sléttumannaland vegna sléttlendis en það varð ekki ofan á. Margir giskuðu á Ungverjaland en vegna framhaldsins í spurningunni, um að heimamenn hétu á eigin tungumáli Lech, giskaði ég rétt.
Hvaða land er þetta?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 1. mars 2019
Verðskuldað hrós
Þið munið að Snorri Sturluson sagði að oflof væri háð. Áherslan sem er lögð á hrós einn dag á ári er í mínum augum röng. Mér finnst að maður eigi frekar að leggja sig fram um að verðskulda hrós. Ég hef engan áhuga á hrósi sem er dembt á mig af því að einhver tekur áskorun um að hrósa.
Hins vegar má fólk alveg vera duglegra við að taka eftir því sem vel er gert ...
Í dag sagði ein samstarfskona við mig að kjóllinn sem ég var í klæddi mig sérlega vel og ég trúi því að hún hafi bara misst það út úr sér. Önnur sagði að ég væri svakalega dugleg -- og nú fer ég allt í einu að hugsa hvort þær hafi verið svona meðvitaðar um dagsetninguna.
Djók!
Dægurmál | Breytt 2.3.2019 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 7. febrúar 2019
Hættum að endurvinna ...
Nei, ég vil auðvitað endurvinna allt sem hægt er og ég vildi óska þess að sveitarfélög, í mínu tilfelli Reykjavík, byðu upp á moltutunnur sem væru tæmdar eins og tunnur með pappír, plasti og blönduðu sorpi. Nei, ég vil að við drögum úr plastnotkun eins og hægt er frekar en að endurvinna að nafninu til það sem er lengi að brotna niður.
Umhverfisráðherra hefur nú lagt fram frumvarp um að banna plastpoka. Í greinargerð stendur m.a.:
Frumvarpið er í samræmi við tillögu að aðgerðaáætlun um hvernig draga má úr notkun plasts, bæta endurvinnslu þess og takast á við plastmengun í hafi, sem samráðsvettvangur um aðgerðaáætlun í plastmálefnum skilaði til umhverfis- og auðlindaráðherra 1. nóvember 2018. ... Ein af aðgerðunum sem gerð er tillaga um varðar burðarpoka úr plasti. Sett er fram markmið um að notkun einnota burðarpoka úr plasti verði hætt og lögð er til þriggja þrepa áætlun sem felst í því að frá og með 1. janúar 2019 [reyndar er frumvarpið lagt fram 24. janúar 2019] verði engir burðarpokar úr plasti afhentir án endurgjalds og að fólk verði hvatt til að nota fjölnota poka. ... Þá er lagt til að frá og með 1. janúar 2020 verði lagður skattur á burðarpoka úr plasti til eins árs til að minnka notkun þeirra verulega og að fjármunirnir renni til plasttengdra verkefna. Loks er lagt til að burðarpokar úr plasti verði bannaðir í verslunum frá og með 1. janúar 2021.
Ég er löngu byrjuð á þessu af því að ég vil ekki skilja eftir mig plastslóð, en það er ekki heiglum hent að kaupa varning í búðunum sem ekki er plastaður og sumt er margplastað. Framleiðendur mættu gjarnan líta í eigin barm. Klukkan gengur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 7. janúar 2019
Meint ungfrú Ísland
Já, það er svo merkilegt að ég var búin að heyra ýmislegt um nýjustu bók Auðar Övu áður en ég opnaði hana. Ég legg mig annars lítt eftir bókadómum.
Ég var ekki á dögum árið 1963 þannig að ég get ekki sótt í eigin hugarheim neitt af því sem lýst er í bókinni sem mér finnst vel skrifuð og skemmtilega sviðsett nema -- og það er svolítið stórt atriði -- að mér finnst Hekla, aðalpersónan, njóta sannmælis hjá ýmsum, t.d. föður sínum, Jóni John, Íseyju og Starkaði. Mér finnst sem sagt í öðru orðinu henni lýst sem fórnarlambi sjöunda áratugarins og hinu orðinu, nei, í verki er henni hreinlega hampað og hún metin að verðleikum.
En algjörlega tveggja kvölda virði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 3. janúar 2019
Nýjárskveðjur??
Allt í einu er fólk farið að senda nýjárskveðjur í gríð og erg. Þegar ég fletti þeim upp með þessum rithætti á timarit.is fæ ég aðeins örfá dæmi úr blöðum en ef ég tek j-ið burt, eins og var hamrað á alla grunnskólagönguna, ekki j á milli sérhljóða, fjölgar blaðakveðjunum til muna.
Ég er ekkert viðkvæm fyrir þessari villu þótt ég myndi leiðrétta hana í próförk en ég er alveg standandi hlessa á því hvernig j-ið ryður sér skyndilega til rúms.
Kannast lesandi minn við þetta freklega upphlaup og inngrip stafsins j? Ég er viss um að það var hér ekki í gær (fyrra).
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 30. desember 2018
Með norður-kóreska lífið að veði
Ég hef tilhneigingu til að efast, ég viðurkenni það. Fyrstu 40 eða 60 blaðsíðurnar af bókinni Með lífið að veði geispaði ég af leiðindum. Yeonmi lýsir því hvernig norður-kóreska stjórnin heilaþvær allt fólk og telur því trú um að leiðtoginn, sem er pattaralegur hvar og hvernig sem á er litið, hafi fórnað öllu til að tryggja þegnum sínum gott líf, sem í raun felur í sér baráttu upp á líf og dauða hvern einasta dag.
Mér fannst frásögnin svo þversagnakennd, svo fráleitt að hægt væri að innræta 25 milljóna þjóð þá ímyndun að lífið gæti ekki orðið betra þótt fólk vakni með hungurverki og sofni frá hungurverkjum, hafi hvorki hita né ljós, fái ekki menntun, tileinki sér ekki gagnrýna hugsun, myndi sér ekki skoðanir o.s.frv.
Nú er ég búin með bókina og finnst frásögnin trúlegri. Lýsingin er mjög átakanleg og ég þykist vita að Norður-Kórea sé í alvörunni svarthol á svæðinu. Hún er samt næstum ofvaxin skilningi mínum, þessi skoðanakúgun á 21. öld, ótti fólks við yfirvöld, baráttan um brauðið.
Það sem þvældist hvað mest fyrir mér var að Yeonmi sem er fædd 1993 skyldi vera búin að skrifa bók og búið að þýða hana á mitt tungumál árið sem hún varð 24 ára. Fæstir sem búa við kjöraðstæður hafa sent frá sér bók á þeim aldri. Á hitt ber auðvitað að líta að hún hafði frá miklu að segja, hún er augljóslega góðum gáfum gædd, flóttinn gekk upp og framhaldið varð henni hagfellt.
Ég á greinilega bara óskaplega erfitt með að tengja við alla þessa skoðanakúgun. Þrátt fyrir alls konar sjálfseftirlit og innri ritskoðun í íslenskri pólitík er þessi hugsun svo yfirmáta fjarstæðukennd.
En erindið sem hún flutti í Dublin 2014 kom út á mér tárunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 25. desember 2018
Frönsk svíta á jóladag
Í svona góðu jólafríi hnaut ég um mynd sem var sýnd á RÚV fyrir 10 dögum. Hún er frá árinu 2015 en ég hafði ekkert heyrt um hana fyrr en ég sá hana í sarpinum. Hún er frábærlega gerð ádeila á stríð. Ég skildi það ekki fyrir og ég skil það alls ekki eftir af hverju menn geta ekki lifað í sátt og samlyndi.
Af hverju þarf öll þessi átök? Hver þarf að eiga a) aura, b) lönd, c) völd í miklu meira mæli en hann kemst yfir að nota á ævinni?
Af hverju getum við ekki skipt gæðunum jafnar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 20. desember 2018
Miðborg verktakanna
Ég veit að þessi færsla er ekki sérstaklega jólaleg en það þyrmdi yfir mig í gærkvöldi þegar ég ætlaði að hjóla Lækjargötuna í húminu. Ég hjóla oft á þessum slóðum en forðast að hjóla Hverfisgötuna og Laugaveginn seinni part dags vegna mannmergðar. Í gær ákvað ég að hvíla mig á Hringbrautinni þar sem framkvæmdir við meðferðarkjarna LSH standa yfir og hjólaði út úr Vonarstrætinu með augun til vinstri. Mér sýndist ég komast í gegnum jaðar á byggingarsvæðinu á Íslandsbankareitnum en þegar ég var rétt lögð af stað grillti ég í girðingu hinum megin og byrjaði að snúa við. Þá kallaði maður eitthvað, kannski: Lestu á skiltið.
Ég sagði, þreytulega: Já, ég er búin að átta mig núna. Af því að hliðið var opið sá ég ekki skilti sem á stendur að svæðið sé lokað. Við spjölluðum aðeins, bæði þreytt á því ástandi sem mæðir á okkur en kurteislega, fannst mér.
Þessi verktaki er bara að sinna verki sem hann er ráðinn til að sinna þannig að mér dettur ekki í hug að andskotast út í hann. Og minn vandi er auðvitað lúxusvandi vegna þess að ég get þó hjólað og gengið í og úr vinnu, í og úr búð, í og úr félagsstarfi, og ég á líka bíl og get farið ferða minna akandi þegar mikið liggur við. En það er samt þreytandi að mæta öllum fyrirstöðunum OG fá skammir fyrir að vera fyrir.
#aðförin
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)