Færsluflokkur: Dægurmál
Sunnudagur, 12. maí 2019
Dagur mömmu
Mamma mín dó fyrir einu ári og fjórum mánuðum. Í dag er að auki brúðkaupsdagur mömmu og pabba og skírnardagur okkar allra systkinanna þótt systkini mín þrjú séu fædd í júlí en ég í október. Þau voru fyrir vikið orðin fjörgömul þegar þau voru skírð hátt í ársgömul. Kannski var ástæðan sú að mamma og pabbi voru ekki viss um að þau vildu eigast, ég veit það ekki. En þau gengu að eiga hvort annað og lifðu svo súrt og sætt í 66 ár og átta mánuði.
Ég sakna mömmu alla daga og í dag óhemjumikið. Hún átti það til að vera skaphundur og okkur varð sannarlega stundum sundurorða en við jöfnuðum málin alltaf fljótt og vel (nema eitt langt skipti þegar ég var 17 ára kjáni). Og nú er ástandið þannig í fjölskyldunni að ég sit hér flóandi í tárum og finnst hlutskipti mitt ömurlegt. En ég samgleðst henni að hafa fengið sitt friðsæla andlát 90 ára gömul umkringd sínu besta fólki og treysti því að hún leiki við hvern sinn fingur í græna landinu.
Mér finnst þessi færsla alltof persónuleg til að fara út á netið en ég á svo fáa lesendur hér hvort eð er að ég læt slag standa. Stundum er gagnlegt að hugsa upphátt og ég sé að ég hef hvort eð er notað hálfgert dulmál.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 11. maí 2019
Eylandið
Eyland Sigríðar Hagalín Björnsdóttur er hrollvekja. Ég kláraði hana í sólinni í dag og mér varð kalt. Hún hlýtur að hafa kviknað í hruninu þótt hún hafi ekki komið út fyrr en 2016 því að ég man eftir að hafa hugsað um hvað gæti orðið ef landið einangraðist. Væri fæðuöryggið tryggt? Fengjum við lyf? Fengjum við upplýsingar? Myndi allt verðlag rjúka upp?
Fyrri hluti bókarinnar var svakalega spennandi og ég óþreyjufull eftir að vita hvað yrði. Byggingin er vel heppnuð, blanda af sjónarhorni ýmissa persóna og blaðafréttum. Ég hugsaði um sumar sögur Halldórs Laxness, kúgaðar stéttir, hungursneyðir sem maður les um í blöðunum eða flettir yfir. Ég hugsaði um örlög barna sem eru seld í ánauð, mæður sem leggja allt í sölurnar, menningu sem er skorin í tætlur, íslenskt veður og ég hugsaði um þriðja orkupakkann.
Þegar u.þ.b. 140 síður voru komnar fannst mér frásögnin farin að endurtaka sig og vildi fara að sjá út úr hremmingunum. Mér leið ekkert of vel og var farin að efast um að ég fengi kvöldmat.
Áhrifamikil bók og nú langar mig mest að flýja meðan enn eru færar leiðir úr landi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 25. apríl 2019
Ör eftir Auði Övu
Það er þetta með væntingarnar. Ég heyri höfund flytja innblásna ræðu, heyri lesendur hæla bók höfundarins og reikna þá með að hún sé góð þótt reynslan eigi að hafa kennt manni að stilla væntingum í hóf.
Ég las Ör um páskana og frásagnarmátinn höfðar ekki til mín. Jónas er andhetja, tapari, maður sem ætlar að gefast upp, maður sem berst ekki fyrir sínu en lendir svo á vettvangi stríðs og fær óvænt hlutverk. Það áhrifamesta er þegar maður, fullur meðaumkunar með sjálfum sér fyrir skipbrot í hjónabandinu, kynnist alvöruneyð og þeim hörmungum sem gera það að verkum að fólk vill frekar láta sprengja sig en ná sér. Steinunn Inga gerði þeim þætti sérlega góð skil í ritdómi 2016: Hvað gerum við af því sem við getum gert fyrir fólk í neyð?
Sagan vann samt á og mér fannst tímanum með henni ekki illa varið en, vá, hvað ég var ósammála kommusetningunni. Hún, var, svo, 1960 og ég fíla það ekki. Kommusetningin hægði á lestrinum þar sem það átti ekki við.
Ókei, gleðilegt sumar þá.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 19. apríl 2019
Píslardagurinn
Það er fínt fyrir mig að skrifa sjálfri mér opin bréf hér í stað þess að skrifa yfirvöldum heilbrigðisþjónustunnar í landinu.
Pabbi minn er fæddur 1921 og verður 98 ára í sumar. Hann er ekki lengur líkamlega sjálfbjarga en skýr og minnugur. Og rúmliggjandi.
Til ársins 2017 héldu þau mamma heimili og sáu svo vel um sig sjálf að þau gerðu frekar okkur börnunum sínum greiða en öfugt. Í ágúst 2017 fór af stað atburðarás sem leiddi til dauða mömmu í janúar 2018, þá 90 ára að aldri. Hún var heppin að fá að fara eins og hún fór, átti stutta sjúkralegu og dó umvafin sínu besta fólki sem hún náði að kveðja og sem syrgir hana og geymir bara góðar minningar.
En pabbi missti á hálfu ári heilsuna, lífsförunaut sinn, heimili sitt og að miklu leyti sjálfstæðið. Hann er nú á hjúkrunarheimili þar sem vel er hugsað um allar hans líkamlegu þarfir en þótt við systur séum samtals hjá honum 10-15 klukkutíma á viku, stundum meira eins og nú um páskana, liggur hann líklega 10 klukkutíma vakandi í rúminu á hverjum degi. Hann horfir ekki á sjónvarp, hlustar ekki á útvarp, les ekki blöðin það hvarflar að mér að fleiri aðstandendur gætu sagt þetta um sitt fólk. Það eina sem hann hefur er fólk sem hefur fyrir því að segja honum undan og ofan af hinu og þessu og rifja upp með honum gamla tíma.
Og til þess hefur flest starfsfólk á hjúkrunarheimili hvorki tíma né getu, síst á stærsta hjúkrunarheimili Reykjavíkurborgar sem er með það í framtíðarsýn sinni að hópur sjálfborgandi aðila á svæðinu stækki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 12. apríl 2019
Velferðarsamfélag?
Kannski hefnist mér fyrir að segja þetta upphátt en í gærkvöldi sendi ég Hrafnistu langt kvörtunarbréf út af elsku pabba sem er þar búsettur hálfósjálfbjarga, m.a. vegna þess að hann datt þar í júní í fyrra og var lærbrotinn í fjóra daga áður en læknar tóku mark á honum og sendu hann í myndatöku og aðgerð. Ég kom til hans alla þá daga og stumraði yfir honum en vefengdi ekki faglegt mat. Ég er aðeins að læra af reynslunni.
Við systur förum til pabba 10-12 sinnum í viku þegar við erum báðar á landinu en samt er stórt bil að brúa í félagsþörfinni. Eina umönnunin sem hann fær er líkamleg, matur, lyf og salernisferðir, og ég er alltaf að undra mig á velferðarsamfélaginu, ekki síst eftir að mamma veslaðist upp af næringarleysi í fyrra. Við systkinin vorum ekki nógu aðgangshörð við heilbrigðiskerfið eftir að hún fékk blóðtappa í hálsinn.
Í dag fékk heilbrigðisráðherra langt opið bréf í blöðunum vegna einhverfrar stúlku sem fær ekki lögboðna kennslu.
Það eru margir sem hafa sig ekki í að gagnrýna upphátt þannig að ég veit að alltof margir lenda á milli stóru möskvanna í velferðarnetinu.
En Hrafnista lofaði að boða mig á fund með umboðsmanni aðstandenda og ég bíð bara spennt við símann.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 31. mars 2019
Ríkharður III.
Uppsetning Borgarleikhússins á þessu ómenni Shakespeares hefur fengið næstum einróma lof og það er alltaf dálítið óhollt fyrir þá sem eiga eftir að sjá. Ég naut þess alveg að vera þrjá tíma í leikhúsinu, þekki ekki verkið vel og fannst gaman - með fyrirvara um grimmdarverkin - að horfa á það, fannst leikmyndin einföld og góð með svarta (dapurlega) skrautinu, stillönsum, áhorfendabekkjum, sessunum, yfirdrifnum búningum og stólnum sem konungur notaði til að rúlla sér um sviðið. Ég saup hveljur yfir Kristbjörgu Kjeld, það sem hún er mögnuð, en fékk sama óþolið og alltaf gagnvart Sigrúnu Eddu sem mér finnst aldrei sýna mér neitt nýtt. Fyrirgefið hreinskilnina. Mér finnst ekki ganga upp að hvert einasta orð sé aðalorðið. Og mér fannst það því miður líka um Þórunni Örnu sem var sorglegra fyrir það að þýðingin var í óbundnu máli og textinn fór ljómandi vel í eyrunum á mér.
En stóri gallinn var að Ríkharður sjálfur segir í upphafi að hann sé svo gallaður og laus við góðmennsku að hann ætli bara að vera alvondur. Hann lét líka eins og hann væri ófær um ástarleiki vegna líkamlegrar fötlunar. Ég hélt að hann væri svo klókur að enginn sæi í gegnum hann en það reyndist ekki vera. Ég skil sem sagt ekki Ríkharð sjálfan.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 28. mars 2019
Íslandsflug
Það er að bera í bakkafullan lækinn að samhryggjast WOW, starfsfólkinu, viðskiptavinunum og almenningi sem sýpur að einhverju leyti seyðið af þrotinu en ég ætla samt að mæra samkeppnina. Mér finnst grátlegt að Skúli hafi orðið að játa sig sigraðan og ég hef verið að rifja upp þegar ég bjó fyrir 20 árum á Sauðárkróki og flaug reglulega þaðan til Reykjavíkur. Ég hafði val um Íslandsflug og Flugfélag Íslands. Íslandsflug var yfirleitt um þúsundkalli dýrara, 10.000 í stað 9.000, en ég valdi það til að styðja við samkeppnina. Hins vegar er alltaf spurning hvað lítil samfélög bera mikla samkeppni sem verður, stærðarinnar vegna, óhjákvæmilega fákeppni.
Í fyrra flaug ég með WOW til Tel Avív fyrir 37.000 kr. Það var of lágt verð og ég hefði borgað meira. Fram og til baka vorum við um 14 klukkutíma í loftinu. Það kostar ýmislegt, eldsneyti og starfsfólk svo maður nefni það augljósa. Og kolefnissporsins vegna finnst mér að verð á flugi eigi að kosta nóg til að fólk hugsi sig um. Á mínum yngri árum var ég aldrei minna en mánuð í hverri utanlandsferð.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 26. mars 2019
Sektum sóðana
Ég er að lesa viðtal við Örlyg sem plokkar plast á kajakbátnum sínum. Hattur ofan fyrir honum. Hins vegar finnst mér að við eigum að reyna að ráðast að rót vandans og koma í veg fyrir allt þetta rusl. Í fyrsta lagi ætti ekki að framleiða eins mikið af einnota plasti og er gert og í öðru lagi skilst mér að í sumum löndum sé hægt að sekta fólk sem verður uppvíst að því að henda drasli á t.d. götuna. Ekki kemst upp um öll þau brot frekar en önnur brot en það ættu að vera viðurlög við því að spilla umhverfinu fyrir öðrum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 25. mars 2019
Sagan endalausa
Ég er ekki enn farin að lesa það, heyrði bara í fréttum rétt áðan að Icelandair Group vildi ekki fjárfesta í WOW af því að WOW væri svo skuldsett. Það er alveg skiljanlegt en af hverju þurfti einhverja daga til að komast að þeirri niðurstöðu? Var ekki ástæða þess að WOW leitaði fjármögnunar sú að WOW er skuldsett?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 24. mars 2019
Stafsetning er samkomulag hvers tíma
Ég stal rétt í þessu fyrirsögninni úr athugasemd við færslu hjá Eiríki Rögnvaldssyni, einum af kennurum mínum í íslensku á sínum tíma. Þetta er falleg setning og hún er sönn. Stafsetning er mannanna verk og ritháttur á að endurspegla það sem er sagt og nógu skýrt til að allir skilji hvað átt er við.
Ég er smásmugulegur prófarkalesari og það á við í því starfi. Sem íslenskunotandi er ég hins vegar opin fyrir því að tungumálið þróist en það verður að vera í góðu samkomulagi milli kynslóða. Frekar vil ég þróaða íslensku en hráa ensku á Íslandi og ef við höldum áfram að djöflast í þágufallssýki hjá yngsta fólkinu hverju sinni er meiri hætta á að við missum það frá okkur. Málbreytingar byrja sem málvillur. Einu sinni var rétt að segja læknirarnir í fleirtölu og einu sinni sagði fólk: Við hittustum þá á miðvikudaginn. Jónas Hallgrímsson sagði að sig vonaði og Konráð Gíslason, báðir Fjölnismenn, að sig vænti.
Ég óska þess bara að fólk fari ekki að fallbeygja sagnir eða fokka á annan hátt upp í kerfinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)