Færsluflokkur: Dægurmál
Þriðjudagur, 13. ágúst 2019
Staðreynd er staðreynd er staðreynd
Maður velur sér vini en ekki fjölskyldu. Ég hef verið frekar heppin en nú er samt orðið fullreynt með annan bróður minn. Þessi færsla er mjög persónuleg en mér finnst hún eiga erindi í opnu dagbókina mína.
Gummi er orðinn 58 ára gamall og skilur eftir sig skuldaslóð. Það er staðreynd. Hann reyndi að reka fyrirtæki í nokkur ár og þau féllu öll á bruðli hans og kunnáttuleysi. Hann fékk lánaðan pening hjá mömmu og pabba, 10,5 milljónir á verðlagi ársins 2008, sem hann veit af og samþykkir en kallar fyrnda skuld af því að henni var ekki þinglýst. Ég var líka meðvirk og lánaði honum pening þótt honum fyndist ég fífl að leggja fyrir og taka t.d. lítil námslán þegar ég var í námi. Skuld hans við mig er nú útistandandi og þegar hann greiðir mér þann pening get ég boðið 40 manns í lúxusferð til Egyptalands. Það gæti orðið mikið stuð í hlaupahópnum mínum.
Í dag er eitt ár og sjö mánuðir síðan mamma dó. Hún var orðin níræð en var alltaf spræk og á sprettinum þangað til 2014, þegar hún varð 87 ára, en þá fékk hún blóðtappa í hálsinn og átti eftir það erfitt með að kyngja. Síðustu þrjú árin nærðist hún of lítið þrátt fyrir viðleitni okkar til að finna upp á einhverju sem færi vel í hálsinn. Fleira var svo farið að gefa sig, eins og fínhreyfingar í höndunum, en kollurinn alltaf skýr. En svo lá hún eina viku á spítala, klukkutímum saman sofandi en þess á milli í roknastuði í sjúkrarúminu að taka á móti gestum. Ég verð ævarandi þakklát fyrir þá viku úr því að svo fór sem fór en sakna hennar óbærilega á köflum.
Ég hélt að þeim Gumma hefði samið vel þrátt fyrir allt en í gær las ég bréf sem hún skrifaði honum 1998 og sagði aldeilis til syndanna. Hún sendi honum það aldrei. Hann er óvirkur alkóhólisti til 30 ára. Það er staðreynd. Gisk mitt er að hún hafi alltaf óttast að hann félli og þess vegna hliðrað til, gefið eftir, sýnt umburðarlyndi og fyrirgefið, fyrirgefið, fyrirgefið, með öðrum orðum verið meðvirk.
Pabbi er 98 ára og rúmliggjandi á Hrafnistu. Það er staðreynd. Í nóvember verða komin tvö ár síðan hann flutti þangað inn, einum og hálfum mánuði áður en mamma dó. Á síðasta ári var Gummi um eina klukkustund í heimsókn hjá honum og obbann af þeim tíma notaði hann til að telja hann á að fá mig til að lána sér pening eða fá pening út af reikningi hans sem systir mín er með umboð fyrir. ÞAÐ ER STAÐREYND.
Við systkinin höfum skirrst við að borga honum móðurarfinn fyrr en hann hefur greitt skuldir sínar við dánarbú mömmu og bú pabba. Í stað þess að hafa sanngirni og heiðarleika að leiðarljósi ræður hann sér lögmann sem ætlar í hart við ekki okkur systkinin. NEI, PABBA. Bróðir minn og lögmaður hans hóta pabba fjárræðissviptingu og tala í sama umboði um dánarbú pabba. Hann er lifandi. Þetta eru staðreyndir og ég á umboðið í tölvupósti.
Í meira en eitt og hálft ár hef ég burðast með sívaxandi vitneskju um hvern mann bróðir minn hefur að geyma. Steininn tók auðvitað úr þegar lögmaður tók að sér að reka svona mál og af slíku offorsi sem nú er að koma á daginn.
Pabbi er lifandi og hann er skýr í höfðinu en rúmliggjandi. Við getum ekki lagt á hann að ræða þetta við hann, bæði vegna elli hans og ástands og svo er nú komið í ljós ég sá það í bréfinu sem mamma skrifaði Gumma fyrir 21 ári að hann er mesta friðardúfan og vill bara að fólk elski og virði friðinn. En gleymum því ekki að Gummi sat á rúmstokknum hans í fyrra og suðaði í honum um peninga. Pabbi sagði mér það sjálfur með sorg í augunum og þegar ég sagði, líka með sorg í mínum augum, að ég myndi ekki lána Gumma meiri peninga kinkaði hann bara kolli og við höfum ekki rætt það meir.
Ég gæti haft langtum fleiri orð um samskipti okkar í fjölskyldunni en nú langar mig að létta þessu af mér þótt ég eigi ekki marga lesendur hér.
Einhver sem þekkir mig ekki gæti spurt: Hefurðu ekki unnið til þessa með einhverjum hætti? Ég er sannarlega búin að horfa inn á við og hef spurt mig hvar ég hafi misstigið mig. Og ég veit að fjölskylduerjur eru glettilega algengar þannig að sjálfsagt kannast margir við svona lýsingar. Og svar mitt er: Ég er heiðarleg, ég er greiðvikin, ég er smámunasöm, ég er gagnrýnin, ég geri kröfur, ég er vinnusöm og ég hef verið bullandi meðvirk með alkóhólískum manni. Öllum sem þekkja mig er velkomið að tíunda galla mína.
Á sextugsaldri rennur upp fyrir mér það ljós að líf mitt hefur á ýmsan hátt verið litað af fíkn bróður míns. Ég tiplaði í kringum hann og mamma og pabbi svo sannarlega. Ástæðan? Klassísk; fjölskyldubundin væntumþykja. Svo er hann auðvitað ekki laus við kosti. Hann virkar alltaf glaður og kátur, hann er gestrisinn (en betra að gestirnir taki veitingarnar með) og hann er bóngóður (en hefur svo ekkert úthald). Hann er hugmyndaríkur og drífandi þegar hann er í stuði. Hann hefur lesið mikla heimspeki og hreykir sér af því að hann sé svo vel lesinn, ómenntaður maðurinn. Á samfélagsmiðlum deilir hann oft í viku heilræðum og kærleiksorðum. Gagnvart Hrafnistu setur hann upp heilaga svipinn ef hann sér eða veit um hjúkrunarfræðing og talar um fjölskyldufundi. Honum dettur hins vegar ekki í hug að mæta á þá, ekki frekar en systkinafundi sem við höfum haldið og hann stundum beðið um að fyrra bragði. Í síðustu viku gat hann ekki mætt í 10 ára afmæli dóttursonar síns af því að hann óttaðist að rekast á mig þar. Fyrir nokkrum árum gat hann ekki mætt í stúdentsveislu dóttur sinnar af því að hann óttaðist að rekast á einhvern þar sem hann vildi ekki feisa. Þetta eru staðreyndir eins og það líka að hann borgaði ekki meðlag með dætrum sínum í einhver ár og tók engan þátt í ýmsum kostnaði, svo sem vegna tannréttinga.
Ótrúlegt kannski að segja það en mér líður betur að vera búin að skrifa þetta niður. Maður á alltaf að standa með sínu fólki, hugsar kannski einhver, en Gummi er ekki mitt fólk lengur og auðvitað á maður ekki að standa með mönnum sem svífast einskis til að hámarka gróða sinn á kostnað annarra.
Nú tygja ég mig á Hrafnistu af því að pabbi er orðinn lítilfjörlegur eins og hann orðar það sjálfur og mig langar að standa með honum eins og undanfarin ár. Hann studdi mig til manns og var alltaf boðinn og búinn. Bróðir minn situr hins vegar eins og ugla á prikinu sínu og les góða heimspekibók og sáldrar svo einhverju gullkorninu á samfélagsmiðil. Og auðvitað er svo komið að ég vona að hann komi ekki og trufli pabba framar.
Ég hef haldið mig við staðreyndir og lagt út af þeim. Ég veit að í heildarsamhengi fjölskyldna er ekki um stærstu fjárhæðirnar að ræða og að margir hafa tapað meiri fjármunum. Núna svíður mér sárast hvað hann er ófyrirleitinn gagnvart pabba og mér blöskrar náttúrlega alla leið upp í Kringlu og til baka að lögmaður skuli leggja nafn sitt við svona verknað. Svo virka vinnubrögðin flausturskennd af því að hann notar staðlaðan texta sem hann viðurkenndi að ætti ekki alveg við, umboðið er skráð sem drög og er ódagsett.
Ég læt máli mínu lokið að sinni.
Mánudagur, 12. ágúst 2019
Gagnrýni
Ef áhorfandi er ánægður með bíómynd spyr fólk oft ekkert meira, spyr ekki: Hvað var gott? Ef maður er óánægður með myndina er hann spurður: Nú, hvað var að?
Ég veit að fólk gagnrýnir og allt það en getur ekki verið að sumir segi bara allt fínt til þess að þurfa ekki að rökstyðja skoðun sína, sérstaklega ef þeir þekkja þann sem á myndefnið? Það er auðveldara.
Ég er bara að spekúlera í þessu af því að ég gagnrýndi einn sem ég þekki og allir sem hann var búinn að heyra í voru svo ánægðir. En stundum situr bara eftir einhver tilfinning og maður lætur duga að tala út frá henni. Og myndin var alveg notaleg frumraun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 31. júlí 2019
Enn verið að innheimta ólögleg smálán?
Getur þetta verið? Hvað með leyfi þessara smálánafyrirtækja? Einhvern tímann hafa þau verið veitt. Er ekki hægt að afturkalla þau? Eða má hver sem er byrja að lána fólki 10.000 kr. í gegnum app og rukka 20.000 kr. viku síðar?
Lög eru brotin. Er virkilega svona flókið að beita viðurlögum? Ef maður keyrir of hratt eða yfir á rauðu ljósi missir maður kannski ekki punkt (eða fær hann, hvernig sem það er hugsað) ef maður krossleggur handleggina og setur upp fýlusvip. Ræður maður hvenær maður fer að lögum?
Hvernig stendur á að ekki er hægt að uppræta ólöglega starfsemi?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 28. júlí 2019
Fokkings smálán
Ég veit ekki til þess að ég þekki neinn sem hefur fengið smálán með ólöglegum vöxtum en geri ráð fyrir að ég þekki samt einhvern sem hefur fengið þannig lán eða þekki a.m.k. einhvern sem þekkir einhvern sem hefur tekið smálán. Hvað sem mér líður hafa þessi lán verið á markaði og einhverjir hafa nýtt sér þau og okurvextir hafa verið lagðir á og innheimtir.
Djöfulsins.
Hóparnir sem eru útsettastir fyrir þessum lánum eru þeir sem eru viðkvæmir fyrir, sjálfsagt með lítið fjármálalæsi og áreiðanlega svo illa staddir fjárhagslega að þeir geta alls ekki endurgreitt mörg þúsund prósent vexti á neyslulán, kannski til að geta keypt í matinn eða kannski bara nammi með bíómyndinni. Öll gagnrýni mín hér beinist að þeim sem nýta sér þessar smugur.
Nú er enn búið að fjalla um ólögmæti þessa en þegar ég opna veðurappið í símanum mínum er auglýsingaborði frá fjármögnunarfyrirtæki.
Fokk. Útilokið þessi fyrirtæki, þið sem hafið verkfærin til þess. Ég exa auglýsinguna út en einhverjir slá kannski lán og eru svo ekki borgunarmenn fyrir þessum fáránlegu vöxtum sem eru enn rukkaðir.
Svo er ég að hugsa um annað. Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, segir óljóst hver muni tryggja að Kredia Group endurgreiði oftekna vexti af smálánum. Þar sem smálánafyrirtækin séu hvorki leyfis- né skráningaskyld hér á landi sé erfitt að meta umfang lánanna. Hver ætlar að borga kostnaðinn við að skoða umfangið og reikna þetta út? Við erum ekki að tala um einn dag hjá Seðlabankanum/Fjármálaeftirlitinu eða umboðsmanni skuldara, við erum örugglega að tala um fimm stöðugildi í heilt ár. Hvernig væri að láta okrarana skila peningunum til þeirra sem voru ofrukkaðir og borga svo bara sekt fyrir að brjóta lög?
Fokk. Ef ég væri í pólitík væri þetta hitt málið sem ég myndi eyða öllum mínum kröftum í að breyta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 24. júlí 2019
Hattur ofan fyrir Gretu Thunberg
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 23. júlí 2019
Kvöldsólin
Þegar ég sé núna myndir af vinum mínum í svartnætti útlandanna verð ég svo glöð með kvöldsólina á svölunum mínum eða í Nauthólsvíkinni minni. Ég hef aldrei verið áhugamaður um utanlandsferðir á bjartasta tímanum hér en það er gott að fá áminninguna annað slagið.
Reykjavík (er okkar) rokkar!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 22. júlí 2019
Að fara málvillur vegar
Fyrir nokkrum dögum stofnaði Borgarbókasafnið málvilluþráð á Facebook. Mér fannst það bara ágætlega til fundið en nokkuð margir tóku það óstinnt upp og töluðu um að með því að tala um málvillur væri verið að fæla fólk, kannski helst yngsta fólkið, frá því að tala íslensku. Kannski er eitthvað til í því. Það er óvíða, skilst mér, sem fólk er dregið sundur og saman í orðum fyrir að verða fótaskortur á tungunni eða hreinlega þekkja ekki orðatiltæki og fara rangt með. Hér jaðrar það við stéttamismunun.
Ég hef örugglega haft orð á því hér áður en við þetta tækifæri rifjast upp fyrir mér þegar einhver (sem ég man nafnið á en vil ekki skrifa) fór eins og stormsveipur um internetið eftir hrunið 2008 og gagnrýndi málfar og rithátt þeirra sem honum var uppsigað við í pólitík.
Borgarbókasafnið bryddar upp á ýmsu skemmtilegu, biður ekki síst fólk um að nefna skemmtilegar og minnisstæðar bækur, en kannski ættum við að stíga varlega til jarðar í þessum efnum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 30. júní 2019
Tvisvar verður gamall maður barn
Ég skil málsháttinn þannig að þegar fólk verður gamalt þurfi það umönnun á við ungbarn. Svo má teygja það aðeins hvenær maður verður gamall og ósjálfbjarga. Ég skil ekki endilega heiminn fyrr en hann skellur á mér en bloggið er vettvangurinn þar sem ég hugsa oft upphátt og er persónulegri en á spjalli við fólk. Pabbi minn er 98 ára, býr á Hrafnistu, er bæði skýr og minnugur en þarf mikla umönnun. Hann langar orðið að deyja og fara til mömmu og þegar hann segir það við mig af mikilli yfirvegun get ég ekki andmælt, segi kannski: Já, við vitum að það á fyrir okkur öllum að liggja að deyja á endanum en á meðan við lifum er skemmtilegra að nýta tímann í eitthvað skemmtilegt.
En það getur pabbi ekki gert. Hann hefur aldrei verið félagslyndur, mamma var félagsveran og hann nærðist á því sem hún gerði og sagði. Núna er hann rúmliggjandi og les ekki, horfir ekki á sjónvarp, hlustar ekki á útvarp og bíður bara tímunum saman eftir að önnur hvor okkar systra komi. Við spjöllum við hann, gefum honum kaffibrauð, borðum það með honum, spilum við hann, kaupum á hann boli, sokka og joggingbuxur, hjálpum honum fram úr og hjálpum honum upp í, ég hjálpa honum á klósettið og af klósettinu -- og eins og gefur að skilja gerum við þetta með glöðu geði. En viðvera okkar dekkar samt bara 20-30% af vökutíma hans. Og þar stendur hnífurinn í kúnni -- tvisvar verður gamall maður barn og hann þarf meiri umönnun en við getum séð honum fyrir. Og hjúkrunarheimilið sinnir félagslega þættinum ekki neitt.
Við systur höfum beðið um og fengið fjölskylduviðtöl. Allir skilja hvað við erum að tala um. Enginn hefur úrræði vegna þess að a) mannskapur er af skornum skammti, b) mannskapurinn er ekki allur áhugasamur um að vinna vel og sinna fólki umfram brýnustu nauðsyn. Auðvitað eru undantekningar en við erum búnar að sjá fólk lofa góðu en detta svo í sama takt og það fólk sem hefur verið lengi.
Ég veit að maður þarf að fara varlega í að gagnrýna bæði stóran hóp og án þess að geta smáatriða.
Pabbi missti á einu ári heilsuna, heimilið og lífsförunautinn. Hann er búsettur á stórri stofnun og hann þekkir ekkert starfsfólk með nafni. Það er ekki hans sterka hlið. Það er enginn vondur við hann en það er heldur enginn góður við hann. Ég hef ekki tölu á hversu oft starfsfólkið hefur kvartað undan því að hann hringi bjöllunni eða kalli: Halló.
Ef ég væri í pólitík myndi ég eyða öllum mínum kröftum í að berjast fyrir meiri peningum í aukna stoðþjónustu, fækkun bíla(stæða) og berjast fyrir minni umbúðum sem þarf að urða. Og meiri mennsku í efstu lögum samfélagsins.
Ég yrði kosin í öllum stjórnmálaflokkum ef ég byði mig fram með þessi stefnumál.
Dægurmál | Breytt 1.7.2019 kl. 07:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 23. júní 2019
Hvenær verður tal texti?
Í nokkra mánuði hef ég ætlað að byrja á lokaritgerð minni í þýðingafræði um innanmálsþýðingar, þ.e. þýðingar af íslensku talmáli yfir á íslenskt ritmál, með hliðsjón af þingræðum. Annir í vinnu hafa tafið mig aðeins en ég veit að þetta gerist í sumar, með útskrift í febrúar. Geggjað tilhlökkunarefni.
Á föstudaginn tók blaðamaður við mig viðtal um þetta sérstaka áhugamál mitt þótt undir öðrum formerkjum væri og nú hlakka ég enn meira til að steypa mér í rannsóknir. Í gær var svo viðtal við skrifstofustjórann minn í öðrum fjölmiðli og ég er orðin mjög spennt að sjá framhaldið á þinghaldinu. Það yrði kúvending í störfunum ef 32 þingmenn, eða fleiri, yrðu að sitja undir öllum umræðum í þingsal. Menn þurfa að koma sér saman og finna í sameiningu leiðir að markmiðunum. Spennandi en tímabært.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 2. júní 2019
Hvenær verður kýr kú?
Sem unglingur var ég móðurmálsfasisti sem leiðrétti fólk sem talaði vitlaust að mínu áliti og samkvæmt því sem mér hafði verið kennt. Ég hef skipt um skoðun. Ég reyni enn að vanda mig og er heldur íhaldssöm fyrir mína parta en ég vil frekar að við tölum íslensku sem þróast en að eiga hana í formalíni og sjá yngstu kynslóðirnar hverfa inn í ensku.
Og ef menn hætta að beygja kýr ætla ég ekki að gráta mig í svefn heldur beygja þær og ærnar eins og ég lærði það í barnaskóla án þess að agnúast út í frjálslyndi annarra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)