Færsluflokkur: Dægurmál

Stytta af fyrirmenni - hvaða fyrirmenni vantar helst í borgarmyndina?

Ég hlustaði á Bylgjuna á mánudaginn þegar Reykjavík síðdegis velti upp hugmynd um hvort við ættum að fjölga styttum borgarinnar og hvaða fólk ætti þá að vera fyrirmyndirnar. Ég hlustaði opinmynnt og stóreygð á hvern viðmælandann á fætur öðrum stinga upp á Jóhannesi í Bónusi, Pálma í Hagkaupum, Guðna í Sunnu og Hemma Gunn, aðallega vegna þess að þessir kallar lækkuðu vöruverð til neytenda. Nú þarf ég að vanda mig. Ég er vitaskuld hlynnt þeim sem beita sér fyrir hagsmunum neytenda, kunna fótum sínum og annarra forráð í viðskiptum, sýna hugmyndaflug, eru hláturmildir og skora mörk. Í alvöru, mér finnst það. En að engum sem hringdi inn hafi dottið í hug að nefna Vigdísi Finnbogadóttur gekk fram af mér. Ég var aldrei þessu vant undir stýri og mundi aukinheldur ekki númerið á Bylgjunni, annars hefði ég hringt. Sem betur fer spurði einn af stjórnendunum hvort fólki fyndist engin kona eiga skilið að fá styttu af sér, t.d. þá Vigdís eða Björk. 

Ég hjóla stundum um miðborgina með túrista og nota oft tækifærið til að nefna Vigdísi og líka Ingibjörgu H. Bjarnason sem er orðið auðvelt vegna styttunnar af henni fyrir framan Alþingishúsið. Nú er Veröld, hús Vigdísar að komast á koppinn, að vísu skelfilega hrátt hús í augnablikinu en stendur áreiðanlega til bóta, þar sem mér skilst að allir aðkomumenn á Íslandi eigi í fyllingu tímans að geta lesið eitthvað á eigin tungumáli. Fólki finnst merkilegt að kona, fædd 1930, sé enn að ferðast sem sendiherra tungumála og að konur á Íslandi hafi fengið kosningarrétt svo snemma sem 1915. Styttur af flottu fólki auðvelda okkur að minnast þess góða sem það gerði. Má ég biðja um styttu af Vigdísi fyrir framan Veröld?


Verð á jarðarberjum

Lengst af fullorðinsævi minnar hef ég undrast það að grænmetisbændur fái ekki, sem stórnotendur raforku, raforku á álverksmiðjuverði. Það er búið að útskýra fyrir mér að grænmetisbændur þyrftu að nota raforku allt árið og allan sólarhringinn eins og álframleiðendur til að kílóvattverðið lækkaði. Engu að síður finnst mér ótrúlegt að það skuli ekki hægt að búa svo um hnúta að ávextir og grænmeti sem hægt er að framleiða í héraði skuli ekki vera ferskara og ódýrara en það sem flutt er inn frá Spáni eða Síle.

Og að bóndi skuli segjast ætla að hætta að tína berin sín og láta gróskuna vaxa úr sér vegna þess að þau seljist ekki í samkeppni við eina stórverslun í Garðabænum virkar ekki trúverðugt. Sorrí.

Er það ekki bara hlutverk stjórnvalda að leysa hnútinn? Mér blöskrar nefnilega áfram að kaupa litla fötu af bláberjum á 1.500 kr. og litla öskju af jarðarberjum á 800 kr. og þurfa þar að auki að henda tíunda partinum vegna linku eða myglu.


Jafnrétti við leiðsögn?

Jakob Bjarnar mætti í Harmageddon í morgun og ræddi hitamál ferðaþjónustunnar um þessar mundir. Ég er jafnréttissinni en veit ekki alltaf hvort ég er femínisti. Og í tilfellinu þar sem einum leiðsögumanni er, að sögn, skipt út fyrir annan leiðsögumann er áfram í mínum augum kjaramál en ekki jafnréttismál. Mér finnst enn vanta mjög miklar upplýsingar. Hver er bakgrunnur starfsmannsins sem var vikið frá? Var karlinn upphaflega ráðinn eins og haft er eftir Hópbílum en komst ekki fyrsta daginn? Leiðsögn er mjög persónuleg þjónusta og sjálfri þætti mér óþægilegt að stökkva inn í einn dag af fjórum eða fimm og að sama skapi að einhver annar leysti mig af. Frá hverju var búið að segja? Það er nefnilega ekki þannig að á fyrsta degi segi maður þetta og ekki hitt. Að vísu er sennilega auðveldast að hafa annan leiðsögumann alfyrsta daginn ef nauðsynlegt er að skipta ferðinni upp.

Ég vildi að menn vendu sig á að segja söguna eins og hún er þannig að heilir hópar væru ekki að geta í eyðurnar og fullyrða hitt og þetta um staðgengla og trúarbrögð.


Ferðaþjónustan stoðin sem fiskurinn var

Ég man þegar fiskifréttir, aflafréttir, afkomutölur og þess háttar voru fyrirferðarmestar í fréttatímum RÚV. Nú er fiskur bara ein aðalstoð af þremur og í hádeginu í dag var fyrsta frétt af konu sem hafði verið vikið til hliðar fyrir karl við leiðsögn.

Hún er líka á vefnum. 

Sjálfsagt á bæði eftir að ræða og rannsaka þetta mál betur en mín fyrstu viðbrögð eru að konan ræður sig til starfs og henni virðist vikið úr því starfi ÁN UMSAMINNA LAUNA. Í alvörunni?

Í alvörunni? Ég veit að atvinnuöryggi meðal leiðsögumanna er í skötulíki af því að næstum allir eru lausráðnir en ef ég ræð mig í vikuferð, sem dæmi, og þjónusta mín er afþökkuð vegna þess að túristarnir eru karlrembur frá [...] sem líta svoleiðis á að akstur sé trúarbrögð -- tóm ágiskun -- á ÉG ekki að gjalda fyrir það með launamissi.

Nú skal ég viðurkenna fyrir ykkur að ferðakaupendur hafa stundum beðið um konur, já, af því að þær lúkki betur á skipinu og kannski af því að þeir halda að þær séu þjónustulundaðri og nenni frekar að hella brosandi í staupin í hvataferðum. Glænýjar fréttir? Hallærislegt? Guð minn góður, já. Brot á jafnréttislögum?

En að hlunnfara manneskju um launin þegar ferð er hafin er ofvaxið skilningi mínum. Það vantar stórkostlega mikilvægar upplýsingar í fréttina, konan hefur ráðið sig svart og hefur enga réttarstöðu eða hún þekkir ekki rétt sinn. Nema mér yfirsjáist eitthvað í frásögninni. Hvað?

Ég skil vel að launafólk sniðgangi ferðaþjónustuna, þetta er ormagryfja.

Svo minni ég á að mánaðarlaunin eru 330.000 kr. Og munið þið ekki örugglega hvað ég var að segja um atvinnuöryggið?


Fótbolti Evrópu

Fótboltaáhugi minn var vakinn í fyrra þegar karlar kepptu á Evrópumeistaramótinu og hann endurvakinn þegar konurnar kepptu núna. Þrátt fyrir að íslenska liðið hafi ekki komist upp úr riðlinum langaði mig til að fylgjast með. Vegna ferðalaga missti ég af báðum undanúrslitaleikjunum á fimmtudaginn og svo yfirsást mér fullkomlega hvenær leikurinn um bronsið átti að vera en horfði á úrslitaleikinn áðan. Mikil spenna. En mig langaði að vita hvernig hefði farið hjá Austurríki og Englandi, tveimur sterkum liðum í mótinu. En viti menn, það virðist ekki hafa verið neinn leikur um 3. sætið.

Ég fletti þá upp úrslitunum í leikjum karlanna á síðasta ári -- og þar var hið sama upp á teningnum, haha. Er ekkert 3. og 4. sæti í boltaíþróttum?


1. ágúst 2016

Ég man enn þann gleðidag þegar Guðni Th. Jóhannesson var settur í embætti. Ég get rifjað upp nokkur smávægileg atriði þar sem hann hefur misstigið sig en hundruð skipta þar sem hann hefur komið fram sem þjóðarleiðtogi sem sýnir mannúð og vit. Og ég var mjög ánægð með að hafa hann í Hollandi um daginn. Næstu þrjú ár lofa góðu.


Að leyna eða ekki að leyna

Engum ynnist tími til að segja nokkrum manni frá öllu sem á daga hans drífur eða öllu sem fer í gegnum hugann. Erum við þá að leyna því? Nei. Ef maður segir hins vegar ekki frá morði, morðtilraun, framhjáhaldi, þjófnaði, meðvituðu einelti [bætist við eftir þörfum] heldur maður því vísvitandi leyndu og þá er það leyndarmál.

Ég var að klára Leyndarmál eiginmannsins eftir ástralska höfundinn Liane Moriarty. Ég þekkti ekkert til hennar þannig að hún kom mér stórkostlega ánægjulega á óvart og skilur mig eftir með móralskar spurningar. Ég vil ekki skemma neitt fyrir neinum þannig að ég fer ekki út í söguþráðinn en ég var stórhrifin af fléttunni og fer nú að leita að fleiri bókum eftir sama höfund. Og ekki er loku fyrir það skotið að ég bryddi upp á álitamálunum í næsta kaffitíma. Er verra ef maðurinn manns heldur platónskt framhjá með heimilisvini en ef hann lætur verkin tala? Er hægt að halda framhjá með orðunum einum saman?


Fornafn eða skírnarnafn

Ég heyrði í útvarpinu í morgun talað um treyjur landsliðskvennanna, hvort eðlilegt væri að vera með föðurnöfnin á bakinu í stað skírnarnafnanna. Mér finnst það í lagi þótt mér fyndist óeðlilegt að lýsandinn talaði um Friðriksdóttur og Baldvinsdóttur í íslensku útsendingunni. Það sem ég hnaut hins vegar um var þegar talað var um fornöfn og ættarnöfn í þættinum.

Berglind er skírnarnafn eða eiginnafn. Hún er fornafn. Steinsdóttir er föðurnafn. Steinsen gæti verið ættarnafn ef fjölskyldan bæri það í stað breytilegra föðurnafna.

Ég held að ég muni hver sagði þetta sem ég er ósammála en ég nenni ekki að hlusta til að finna það enda skiptir það ekki máli. Ég er bara að tjá mig ...


,,Svo er klifið tindinn"

Ég er ekki á móti málbreytingum, svokallaðri þróun. Sumar breytingar valda mér þó líkamlegum óþægindum, t.d. hin sérkennilega notkun á lýsingarhætti: Fyrst var vaknað fyrir allar aldir, svo borðað morgunmat og loks farið í bílinn.

Mér þykir eðlilegra að segja: Við vöknuðum fyrir allar aldir, borðuðum morgunmat, fórum á bílnum á áfangastað og klifum síðan tindinn (eða eitthvað betra og mögulega í eintölu). Er þetta einhvers konar framsöguháttarflótti?

Fyrri málsgreinin er í alla staði sérkennileg eins og frásegjandi hafi ekki komið nálægt sínum eigin gjörðum og svo verður tungumálið einsleitara og flatara. Minnir á byrjendur í þýsku sem treysta sér ekki í sagnir í þátíð.

Mér finnst leiðinlegt að segja þetta á miðju sumri en þetta hefur íþyngt mér um nokkra hríð og ég gat ekki á mér setið þegar ég heyrði setninguna í fyrirsögninni í fréttatíma Bylgjunnar rétt í þessu.

   Það var ekki sagt við mig af neinum að skrifa þennan pistil ...


Fánapokar

Já, titillinn er ekki lýsandi en þetta er samt nafnið á verkefni sem snýst um að nýta sterkt og gott efni, sem annars yrði fargað, til að búa til poka. Ég var að styrkja það og hlakka mikið til að sjá afraksturinn.

Kveðja,
nýtingarsinninn


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband