Færsluflokkur: Dægurmál
Föstudagur, 20. október 2017
Vika til stefnu
Ég var að horfa á þátt Gísla Marteins þar sem yfirvofandi kosningar komu við sögu. Ungir viðmælendur Berglindar festival ætla að kjósa í alþingiskosningunum 28. október en vildu gjarnan vita hvað frambjóðendur væru til í að gera fyrir ungt fólk, t.d. í húsnæðismálum.
Það er samt viðbúið að margt ungt fólk kjósi ekki sem er grátlegt. Ég hef lengi verið mér meðvituð um að atkvæðisrétturinn er ekki sjálfgefinn en í gær fór ég aukinheldur á frábæran fyrirlestur á vegum Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum, fyrirlestur sem vinkona mín samdi reyndar og flutti, um réttinn til að kjósa. Fyrir 100 árum fékk fólk ekki að kjósa ef það var skuldsett. Það gat jafnvel haft atkvæðisrétt en misst hann ef það fór á sveitina. Ein átakanleg saga var af konu sem var mætt á kjörstað en var ekki á kjörskrá og var því gerð afturreka.
Ef fólk þáði fátækrastyrk gat það ekki kosið og það var að hluta til undir yfirvaldinu komið hvernig styrkþegi var metinn. Og yfirvaldið var gjarnan frambjóðandi.
KJÓSUM. Veljum þann lista sem við trúum mest á.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 17. október 2017
#metoo #höfumhátt
Fyrir nokkrum árum var ég leiðsögumaður með lítinn þýskumælandi hóp. Í annarri gistingunni vorum við bílstjórinn látin vera saman í smáhýsi. Við fengum samt hvort sitt herbergið. Ég hef samúð með ferðaþjónustunni þannig að ég lét gott heita. Bílstjórinn virtist í lagi, ekkert aðlaðandi en fínn bílstjóri, duglegur að tala við túristana og svona, en undir háttumál, þegar ég lá í rúminu mínu í mínu herbergi og var að lesa mér til fyrir næsta dag kallaði hann innan úr stofunni að ég læsi of mikið og kom svo inn, strauk handarbakinu við kinnina á mér og sagðist gjarnan vilja liggja með mér.
...
Ég, alveg bullandi meðvirk, vék mér undan og sagði: Nei, takk.
Nei, takk!?
Þegar ég fór að sofa staflaði ég bókum við hurðina því að enginn var lásinn.
Ég hafði enga ástæðu gefið honum til að halda að mér fyndist þetta góð hugmynd. Næstum öll ferðin var eftir. Ég forðaðist bílstjórann eins og ég gat. Mér leið óþægilega og það smitaðist út í ferðina.
Þegar ferðin var búin skilaði hann mér heim og ég hálfhljóp í burtu en samt spurði hann: Fæ ég ekki einn koss í kveðjuskyni?
...
Ég hef ekkert oft lent í þessu. Flestir bílstjórar sem ég hef keyrt með eru frábærir og faglegir samstarfsmenn. Ég man m.a.s. sjaldnast eftir þessu atviki en, fokk, hvað þessi maður kunni ekki mannasiði. Og ferðaskrifstofunni var alveg sama. Ég man ekki lengur hvað bílstjórinn heitir en ég gleymi ekki hver réð mig í þessa ferð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 15. október 2017
Hattur ofan
Ekkert er mér hugleiknara núna en að fá fram skýr kosningaúrslit 28. október nk. Fólk sem velst til þingmennsku þarf að vera skýrt í hugsun og tali, hafa metnað fyrir hönd þjóðarinnar og vilja til að vinna vel í þágu okkar, almennings. Vissulega má gera ráð fyrir að í hópi frambjóðenda séu svartir sauðir en heilt yfir trúi ég því að fólk hafi heiðarlegan ásetning og ég verð að taka undir með einum eða tveimur í kringum mig sem hafa hrósað fólki sem gefur kost á sér til samfélagsstarfa þar sem úrlausnarefni eru oft flókin og tímafrek.
Ég veit mætavel að veist hefur verið að fólki sem hefur lagt sig allt fram um að vinna í þágu stóra hópsins en ég vona að við vöndum valið eftir tæpan hálfan mánuð og fáum bestu úrslitin -- skýr úrslit og starfhæfa ríkisstjórn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 1. október 2017
Ekki gleyma því að kjósa 28. október
Nú er mánuður til kosninga. Ég heyri í kringum mig að fólki finnist ekki taka því að kjósa. Hroðalega dapurlegt. Hins vegar tekur fleira fólk þátt í skoðanakönnunum sem er ánægjulegt. Vonandi þýðir það að fólki finnist skipta máli að taka þátt í kosningum, nýta atkvæðisréttinn.
Mig langar bara að orða þetta svona í bili: Ímyndum okkur að ríkisbókhaldið sé heimilisbókhald með 1.000 milljörðum. Hvaða flokkur lofar að nota peningana í málaflokka sem eru þér að skapi og er líklegur til að standa við loforðið?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 29. september 2017
Um hvað verður kosið eftir mánuð?
Eigi veit ég það svo obbosslega gjörla, eins og sagt var í áramótaskaupinu eitt árið, en við hinn óákveðna kjósanda vil ég segja: Segjum að tekjur ríkisins séu 1.000 milljarðar. Í hvað viltu að þeim verði varið og hverjum treystir þú best til að gera það?
Til viðbótar: Fjárstjórn er hreyfiaflið því að allt kostar okkur peninga. Og þótt maður noti það sem útgangspunkt þýðir það ekki endilega að maður eigi að slá af hugsjónunum. Ég held þvert á móti að það geti farið vel saman. Og þótt sumir treysti engum verða samt 63 þingmenn kjörnir og hvert atkvæði skiptir máli.
Hvaða einstaklingur er best til þess fallinn að halda utan um bankareikninga íslenska ríkisins?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 24. september 2017
80 milljónir króna
Ég er næstum orðlaus en ætla samt að streitast gegn orðleysinu sem hellist yfir mig. Í gærkvöldi var sjónvarpssöfnun vegna átaksins Á allra vörum, söfnun til Kvennaathvarfsins. Í fullkomnum heimi þyrfti ekki athvarf fyrir nokkra manneskju sem hrekst af heimili sínu vegna ofbeldis í einhverri mynd. En það er svoleiðis. Sem betur fer þekki ég ekki þennan veruleika, heppin ég, en því miður er til ofbeldi og því miður beita menn (geta líka verið kvenmenn) sína nánustu ofbeldi.
Í gærkvöldi trommuðu menn upp í sjónvarpinu með rosalega auglýst kvöld sem ég missti af í heilu lagi af því að ég var að heiman -- en skv. fréttum hafa safnast 80 milljónir króna, eða eins og segir í frétt á vefnum:
Yfir 80 milljónir króna hafa safnast í átakinu Á allra vörum, hvort tveggja í samnefndum söfnunarþáttum á Rás 2 og í rúv í dag og kvöld, og með sölu á varasnyrtivörusettum með þessu nafni síðustu dægur.[leturbreytingar mínar]
Ágóðinn á að renna til byggingar nýs húsnæðis fyrir Kvennaathvarfið! Ágóðinn!! Allur túkallinn!!!
Jesús Pétur og allt hans slekti, hafa menn misst af því hvað fasteignir kosta? Þetta eiga að verða 14 íbúðir, minnir mig, og hvað kostar slík nýbygging?
2007 var fyrir 10 árum en nú tala menn um míníútgáfuna af 2007, árið 2017. Ótrúlegur fjöldi fólks á 80 milljónir í náttborðsskúffunni en grátlega stór hópur á ekki einu sinni 8.000 kr. í handraðanum. Fólk sem verður fyrir ofbeldi, ég tala ekki um langvarandi, verður varnarlaust og getur illa borið hönd fyrir höfuð sér. Fólk sem verður fyrir ofbeldi, ekki síst frá öðru fólki sem það telur sig eiga að geta treyst, þarf hjálp við að endurheimta sjálfstraustið, lífsviljann og efnahaginn.
Ókei, ég skal bakka aðeins. Ég held að þetta sé svona. Ég held að fólki sem býr við kúgun, niðurlægingu og barsmíðar fatist flugið. Og þess vegna er til athvarf (ég held að karlar geti orðið fyrir þessu líka, svo það sé sagt) og það þarf pening til að reka það.
Og söfnun í hálfan mánuð skilar 80 milljónum króna!!!!
Fyrirgefið upphrópunarmerkin en mér er mikið niðri fyrir.
Ég hef ekki lesið fjárlagafrumvarpið sem var lagt fram um daginn og er nú orðið úrelt en miðað við glærur úr Stjórnarráðinu átti afgangurinn að verða 44 milljarðar kr.
Ókei, frumtekjur (aðrar en vaxtatekjur) voru bara áætlaðar 822 milljarðar þannig að 44 milljarðar eru u.þ.b. 5% af frumtekjunum og þetta er bara áætlun sem tekur breytingum -- en af hverju er ekki sett undir lekann áður en flóir alls staðar út úr? Af hverju er verið að safna fé frá almenningi til að mæta grunnþörfum?!?
Getur einhver svarað því?
Hér ætla ég að bæta við reynslusögu af gamalmennum. Mamma mín (89) og pabbi (96) eru enn að mörgu leyti kokhraust fólk, komast um, geta eldað einfaldan mat, fylgst með fréttum og haldið uppi samræðum ef viðmælandinn einbeitir sér. Þau vilja bæði fara saman á elliheimili þar sem lífsgæði þeirra gætu aukist til muna með greiðu aðgengi að hjúkrunarþjónustu en það getur ekki orðið þótt pabbi sé núna búinn að vera rúman mánuð á Landspítala/Landakoti og mamma búin að sitja hjá honum næstum upp á hvern dag og koma heim úrvinda af þreytu eftir setu á sjúkrahússtól.
Kannski erum við systkinin ekki nógu dugleg að beita okkur en allt fólkið sem við tölum við hefur hingað til ekki verið neitt nema skilningurinn -- en hefur engin úrræði.
Ég borga glöð skatta en þeir eru ekki notaðir í vegina, ekki til að borga leikskólakennurum góð laun og ekki til að reka heilbrigðiskerfi á heimsmælikvarða. Ég vil að skattarnir mínir fari í grunnstoðir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. september 2017
Maðurinn í bílnum
Ég hef ekkert á móti bílum í sjálfu sér. Ég hata ekki bíla. Ég hata ekki bílstjóra. Skárra væri það. En mér er meinilla við þær kringumstæður sem ég lenti í í dag. Tvisvar.
Ég þurfti að fara á bílnum í vinnuna af því að ég þurfti að mæta fyrst til tannlæknis og þurfti að auki að flýta mér á annan stað eftir vinnu. Og ég lenti í umferðaróféti. Fyrst lenti ég í vandræðum með að komast í miðbæinn í morgun og þakkaði mínum sæla fyrir að komast á réttum tíma. Ég þakka það þeirri staðreynd að ég óttaðist mikla umferð. Svo þurfti ég að komast úr bænum á Hlíðarenda fyrir kl. 17. Jesús pétur!!
Ég er yfirleitt á hjóli og bara sæl og glöð með það. Á svona dögum skil ég ekki af hverju fólk þakkar mér ekki daglega fyrir að vera á hjóli og tefja ekki umferðina með enn einum bílnum sem í er bara bílstjóri. Ég meina það, bílstjórar skammast mjög oft út í okkar hjólafólk fyrir að hafa skoðanir á akandi umferð en ættu að þakka okkur fyrir að létta á henni með því að hjóla. Og ef 40 bílstjórar væru á hjóli eða í strætó myndi það strax breyta umferðinni fyrir þá bílstjóra sem þurfa að vera á bíl vegna vegalengda eða vegna þess að þeir þurfa að skutla börnum eða gömlu fólki á milli staða sem strætó fer ekki á milli vandræðalaust.
Einn svona dagur í viku myndi fara langar vegleysur með geðheilsu mína en þökk sé hjólinu er ég bara ágætlega stödd ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 27. ágúst 2017
Sænska búðin
Ég var að frétta að H&M væri sænsk keðja en mér er alveg sama og ætla ekki að fletta því upp. Ég skil ekki alveg hæpið í kringum súperopnun á súperbúð sem á að vera alveg súper en ég hef vissulega leitað hana uppi í útlöndum. Ég skil hæpið allra síst fyrir það að Íslendingar, ekki síst sú kynslóð sem virðist hafa safnast saman í Smáralind í gær, versla flest (að sögn) í útlöndum og svo á netinu. Af hverju er svona mörgum í mun að fá búð með risaspeglum og flottum ljósakrónum þegar þetta sama marga fólk vill geta flett í gegnum vöruúrvalið heima hjá sér í tölvunni?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 24. ágúst 2017
Jaðrakaninn er í karlkyni (málfræði)
Mig rak í rogastans að heyra að til væri alþjóðanefnd um hestanöfn og að Gullúu á Skeggsstöðum hefði verið bannað að skíra merina sína Mósuna. Gott og vel, þetta er hryssa og þá er n-ið greinirinn en hvað hefði gerst ef um væri að ræða hest og nafnið væri þá með greini Mósaninn? Til er fugl sem heitir jaðrakan og er í karlkyni -- en það stendur eðlilega oft í fólki sem heldur að um sé að ræða kvenkynsorð og beygir það sem slíkt.
#fögnumfjölbreytileikanum
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 20. ágúst 2017
RM 2017
Gærdagurinn var geggjaður. Ég tók þátt í hálfu maraþonhlaupi og undi hag mínum vel, bætti tímann minn (sem á að heita auðvelt þar sem hann var ekki til að hrópa húrra fyrir en hver og einn keppir við sjálfan sig) og sleikti svo sólina í vönduðum félagsskap það sem eftir lifði dags.
En ég ætla að nóta hér fyrir sjálfa mig og minnið að ég hef tvær athugasemdir við skipulag hlaupsins. Í fyrra lagi er það sem hefur verið galið lengi, kannski alltaf, það að tíminn sem líður frá því að ræst er og þangað til maður stígur á rásmottuna í lok hlaups ræður röðinni. Þegar ég hleyp af stað í hlaupinu eru liðnar 3 mínútur frá ræsingu og þá á að draga þessar 3 mínútur frá til að fá út rauntíma minn, flögutímann. Það er auðvelt að reikna þetta rétt og flögutíminn er birtur sem aukaupplýsingar í lokatölum hlaupsins. Fyrir fremstu menn skiptir þetta engu máli, þeir hlaupa yfir mottuna um leið og ræst er. Og upp á röðina er mér skítsama, ég lenti í sæti 1717, en í gær bætti ég tíma minn um 2 mínútur og maður er alltaf í smákeppni við sjálfan sig og hækkandi aldur. Þegar ég hljóp í Kaupmannahöfn í maí leið korter frá ræsingu og þangað til ég komst af stað og það korter var dregið frá enda kemur þannig út réttur flögutími, eiginlegur hlaupatími.
Hitt gagnrýnisatriðið er brekkan upp Kalkofnsveginn, meðfram Seðlabankanum, í blálokin. Maður á að kynna sér brautina fyrirfram en þegar maður horfir á kortið áttar maður sig ekki endilega á þessari litlu hlykkju sem hefur ekki verið undanfarin ár. Ég geri ráð fyrir að breytingin sé einstök vegna framkvæmdanna í Lækjargötu en skipuleggjendum hefði verið í lófa lagið að taka þetta fram í einum af fjölmörgum tölvupóstum síðustu dagana fyrir hlaup.
Í síðasta póstinum stendur þetta:
Hlaupaleiðir í skemmtiskokki og hálfu maraþoni eru örlítið breyttar milli ára. Skemmtiskokkið er styttra en áður og er nú 2,1 km. Í hálfu maraþoni er farið um Skúlagötu, Ingólfsstræti og Hverfisgötu áður en beygt er inn í Lækjargötu en ekki um Kalkofnsveg eins og áður.
Samt geggjaður gærdagur ... og auðvitað hefði verið best að hlaupa leiðina í æfingaskyni í byrjun ágúst ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)