Bróðir minn, korktappinn

Gummi vill fljóta og skoppa án ábyrgðar og bara vera glaður. Hann er 58 ára gamall og þegar maður skyggnist í baksýnisspegilinn sést óvirkur alkóhólisti sem mætti á fundi hjá AA áratugum saman. Mér sýnist ég líka sjá virkan fíkil og þótt ég ætli ekki að bera blak af honum sem hefur bæði stolið af mér og foreldrum okkar hugsa ég svolítið um samfélagið sem lætur það líðast að fíkniefni séu seld án eftirmála. Ég horfði á magnaðan þátt á fimmtudaginn um hið greiða aðgengi fíkniefna að fólki í mótun, viðkvæmu fólki, áhrifagjörnu fólki, forvitnu fólki. Blaðamaður skráði sig án fyrirhafnar í fimm hópa sem selja fíkniefni og fékk á 20 mínútum 746 tilboð um að kaupa fíkniefni.

Ég horfði líka um síðustu helgi á Lof mér að falla og spyr: Hvernig má það vera að heilbrigðismál eru ekki í fyrsta forgangi í samfélaginu? Ég er mjög venjuleg manneskja og hef átt gott líf í vernduðu umhverfi en samt sé ég hættumerkin í kringum mig. 

Ljósin eru rauð og í mínum augum blikkandi. 

Skjáskotið af færslu því í maí 2018 olli mér mikilli vanlíðan þá. Bróðir minn vænir systur okkar, sem var mömmu og einkum pabba eilíf stoð og stytta, um skjalafals og fjárdrátt. Þegar ég vildi ræða þetta við hann lokaði hann á mig og hefur hvorki viljað hitta mig til að ræða þetta né svarað tölvupóstum mínum.  

Facebook-færsla Gumma í maí 2018

Ég veit, þótt færslan sé falin fyrir mér, að hann fékk mikil viðbrögð úr bergmálshellinum sínum. Hann á marga Facebook-vini sem hann hefur aldrei hitt, fólk sem þekkir hann ekki í raun og veru en jesúsar sig yfir kveini í manni sem er allur í yfirborðinu, samfélagsfíkill og e.t.v. neytandi hugbreytandi efna.

Hann getur ekki lengur skemmt mikið fyrir mér. Ég get ákveðið sjálf að láta hann ekki trufla mig. Peningurinn sem hann stal af mér hefur ekki úrslitaáhrif á lífsgæði mín. En hann á tvær dætur sem eru ekki hann og mig langar ekki að missa samband við þær og mér blöskrar auðvitað enn tilhugsunin um lögmanninn sem tók að sér það skítaverkefni að hirða fé af 97 ára gömlum manni sem tórði á Hrafnistu fyrir mann sem er mjög brenglaður og átti ekkert tilkall til þess fjár.

Þótt ég geti valið að láta ekki þessa kumpána eitra hjá mér lífið hef ég enga ástæðu til að gleyma þeim og því hvernig þeir brutu af sér. Og auðvitað vildi ég óska þess að lög, reglur og siðferði gætu komið í veg fyrir að svona menn væðu uppi. Þó að þessir tveir séu ekki sérlega miklir áhrifamenn getur fíknin alveg stungið sér niður meðal manna sem geta valdið heilu stéttunum tjóni.

Og við viljum sanngjarnt líf þar sem allir hafa jöfn tækifæri til að koma sér áfram á eigin verðleikum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband