Fimmtudagur, 25. apríl 2019
Ör eftir Auði Övu
Það er þetta með væntingarnar. Ég heyri höfund flytja innblásna ræðu, heyri lesendur hæla bók höfundarins og reikna þá með að hún sé góð þótt reynslan eigi að hafa kennt manni að stilla væntingum í hóf.
Ég las Ör um páskana og frásagnarmátinn höfðar ekki til mín. Jónas er andhetja, tapari, maður sem ætlar að gefast upp, maður sem berst ekki fyrir sínu en lendir svo á vettvangi stríðs og fær óvænt hlutverk. Það áhrifamesta er þegar maður, fullur meðaumkunar með sjálfum sér fyrir skipbrot í hjónabandinu, kynnist alvöruneyð og þeim hörmungum sem gera það að verkum að fólk vill frekar láta sprengja sig en ná sér. Steinunn Inga gerði þeim þætti sérlega góð skil í ritdómi 2016: Hvað gerum við af því sem við getum gert fyrir fólk í neyð?
Sagan vann samt á og mér fannst tímanum með henni ekki illa varið en, vá, hvað ég var ósammála kommusetningunni. Hún, var, svo, 1960 og ég fíla það ekki. Kommusetningin hægði á lestrinum þar sem það átti ekki við.
Ókei, gleðilegt sumar þá.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 19. apríl 2019
Píslardagurinn
Það er fínt fyrir mig að skrifa sjálfri mér opin bréf hér í stað þess að skrifa yfirvöldum heilbrigðisþjónustunnar í landinu.
Pabbi minn er fæddur 1921 og verður 98 ára í sumar. Hann er ekki lengur líkamlega sjálfbjarga en skýr og minnugur. Og rúmliggjandi.
Til ársins 2017 héldu þau mamma heimili og sáu svo vel um sig sjálf að þau gerðu frekar okkur börnunum sínum greiða en öfugt. Í ágúst 2017 fór af stað atburðarás sem leiddi til dauða mömmu í janúar 2018, þá 90 ára að aldri. Hún var heppin að fá að fara eins og hún fór, átti stutta sjúkralegu og dó umvafin sínu besta fólki sem hún náði að kveðja og sem syrgir hana og geymir bara góðar minningar.
En pabbi missti á hálfu ári heilsuna, lífsförunaut sinn, heimili sitt og að miklu leyti sjálfstæðið. Hann er nú á hjúkrunarheimili þar sem vel er hugsað um allar hans líkamlegu þarfir en þótt við systur séum samtals hjá honum 10-15 klukkutíma á viku, stundum meira eins og nú um páskana, liggur hann líklega 10 klukkutíma vakandi í rúminu á hverjum degi. Hann horfir ekki á sjónvarp, hlustar ekki á útvarp, les ekki blöðin það hvarflar að mér að fleiri aðstandendur gætu sagt þetta um sitt fólk. Það eina sem hann hefur er fólk sem hefur fyrir því að segja honum undan og ofan af hinu og þessu og rifja upp með honum gamla tíma.
Og til þess hefur flest starfsfólk á hjúkrunarheimili hvorki tíma né getu, síst á stærsta hjúkrunarheimili Reykjavíkurborgar sem er með það í framtíðarsýn sinni að hópur sjálfborgandi aðila á svæðinu stækki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 12. apríl 2019
Velferðarsamfélag?
Kannski hefnist mér fyrir að segja þetta upphátt en í gærkvöldi sendi ég Hrafnistu langt kvörtunarbréf út af elsku pabba sem er þar búsettur hálfósjálfbjarga, m.a. vegna þess að hann datt þar í júní í fyrra og var lærbrotinn í fjóra daga áður en læknar tóku mark á honum og sendu hann í myndatöku og aðgerð. Ég kom til hans alla þá daga og stumraði yfir honum en vefengdi ekki faglegt mat. Ég er aðeins að læra af reynslunni.
Við systur förum til pabba 10-12 sinnum í viku þegar við erum báðar á landinu en samt er stórt bil að brúa í félagsþörfinni. Eina umönnunin sem hann fær er líkamleg, matur, lyf og salernisferðir, og ég er alltaf að undra mig á velferðarsamfélaginu, ekki síst eftir að mamma veslaðist upp af næringarleysi í fyrra. Við systkinin vorum ekki nógu aðgangshörð við heilbrigðiskerfið eftir að hún fékk blóðtappa í hálsinn.
Í dag fékk heilbrigðisráðherra langt opið bréf í blöðunum vegna einhverfrar stúlku sem fær ekki lögboðna kennslu.
Það eru margir sem hafa sig ekki í að gagnrýna upphátt þannig að ég veit að alltof margir lenda á milli stóru möskvanna í velferðarnetinu.
En Hrafnista lofaði að boða mig á fund með umboðsmanni aðstandenda og ég bíð bara spennt við símann.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)