Ríkharður III.

Uppsetning Borgarleikhússins á þessu ómenni Shakespeares hefur fengið næstum einróma lof og það er alltaf dálítið óhollt fyrir þá sem eiga eftir að sjá. Ég naut þess alveg að vera þrjá tíma í leikhúsinu, þekki ekki verkið vel og fannst gaman - með fyrirvara um grimmdarverkin - að horfa á það, fannst leikmyndin einföld og góð með svarta (dapurlega) skrautinu, stillönsum, áhorfendabekkjum, sessunum, yfirdrifnum búningum og stólnum sem konungur notaði til að rúlla sér um sviðið. Ég saup hveljur yfir Kristbjörgu Kjeld, það sem hún er mögnuð, en fékk sama óþolið og alltaf gagnvart Sigrúnu Eddu sem mér finnst aldrei sýna mér neitt nýtt. Fyrirgefið hreinskilnina. Mér finnst ekki ganga upp að hvert einasta orð sé aðalorðið. Og mér fannst það því miður líka um Þórunni Örnu sem var sorglegra fyrir það að þýðingin var í óbundnu máli og textinn fór ljómandi vel í eyrunum á mér.

En stóri gallinn var að Ríkharður sjálfur segir í upphafi að hann sé svo gallaður og laus við góðmennsku að hann ætli bara að vera alvondur. Hann lét líka eins og hann væri ófær um ástarleiki vegna líkamlegrar fötlunar. Ég hélt að hann væri svo klókur að enginn sæi í gegnum hann en það reyndist ekki vera. Ég skil sem sagt ekki Ríkharð sjálfan.


Íslandsflug

Það er að bera í bakkafullan lækinn að samhryggjast WOW, starfsfólkinu, viðskiptavinunum og almenningi sem sýpur að einhverju leyti seyðið af þrotinu en ég ætla samt að mæra samkeppnina. Mér finnst grátlegt að Skúli hafi orðið að játa sig sigraðan og ég hef verið að rifja upp þegar ég bjó fyrir 20 árum á Sauðárkróki og flaug reglulega þaðan til Reykjavíkur. Ég hafði val um Íslandsflug og Flugfélag Íslands. Íslandsflug var yfirleitt um þúsundkalli dýrara, 10.000 í stað 9.000, en ég valdi það til að styðja við samkeppnina. Hins vegar er alltaf spurning hvað lítil samfélög bera mikla samkeppni sem verður, stærðarinnar vegna, óhjákvæmilega fákeppni.

Í fyrra flaug ég með WOW til Tel Avív fyrir 37.000 kr. Það var of lágt verð og ég hefði borgað meira. Fram og til baka vorum við um 14 klukkutíma í loftinu. Það kostar ýmislegt, eldsneyti og starfsfólk svo maður nefni það augljósa. Og kolefnissporsins vegna finnst mér að verð á flugi eigi að kosta nóg til að fólk hugsi sig um. Á mínum yngri árum var ég aldrei minna en mánuð í hverri utanlandsferð.


Sektum sóðana

Ég er að lesa viðtal við Örlyg sem plokkar plast á kajakbátnum sínum. Hattur ofan fyrir honum. Hins vegar finnst mér að við eigum að reyna að ráðast að rót vandans og koma í veg fyrir allt þetta rusl. Í fyrsta lagi ætti ekki að framleiða eins mikið af einnota plasti og er gert og í öðru lagi skilst mér að í sumum löndum sé hægt að sekta fólk sem verður uppvíst að því að henda drasli á t.d. götuna. Ekki kemst upp um öll þau brot frekar en önnur brot en það ættu að vera viðurlög við því að spilla umhverfinu fyrir öðrum.


Sagan endalausa

Ég er ekki enn farin að lesa það, heyrði bara í fréttum rétt áðan að Icelandair Group vildi ekki fjárfesta í WOW af því að WOW væri svo skuldsett. Það er alveg skiljanlegt en af hverju þurfti einhverja daga til að komast að þeirri niðurstöðu? Var ekki ástæða þess að WOW leitaði fjármögnunar sú að WOW er skuldsett?


Stafsetning er samkomulag hvers tíma

Ég stal rétt í þessu fyrirsögninni úr athugasemd við færslu hjá Eiríki Rögnvaldssyni, einum af kennurum mínum í íslensku á sínum tíma. Þetta er falleg setning og hún er sönn. Stafsetning er mannanna verk og ritháttur á að endurspegla það sem er sagt og nógu skýrt til að allir skilji hvað átt er við. 

Ég er smásmugulegur prófarkalesari og það á við í því starfi. Sem íslenskunotandi er ég hins vegar opin fyrir því að tungumálið þróist – en það verður að vera í góðu samkomulagi milli kynslóða. Frekar vil ég þróaða íslensku en hráa ensku á Íslandi og ef við höldum áfram að djöflast í þágufallssýki hjá yngsta fólkinu hverju sinni er meiri hætta á að við missum það frá okkur. Málbreytingar byrja sem málvillur. Einu sinni var „rétt“ að segja „læknirarnir“ í fleirtölu og einu sinni sagði fólk: Við „hittustum“ þá á miðvikudaginn. Jónas Hallgrímsson sagði að sig vonaði“ og Konráð Gíslason, báðir Fjölnismenn, að sig vænti“.

Ég óska þess bara að fólk fari ekki að fallbeygja sagnir eða fokka á annan hátt upp í kerfinu.


Föstudagsmótmæli

Vá, hvað ég er spennt fyrir umhverfisvitund barna og unglinga, ekki síður en fullorðinna. Vá, hvað ég vona að við förum að taka umhverfisógnina alvarlega. Fermingardrengur í nærumhverfi mínu hefur beðið um græðlinga í fermingargjöf til að geta kolefnisjafnað. Vá, hvað við höfum dregist aftur úr og höfum góð tækifæri til að bæta um betur.

Vá.

Ég þekki ekki börnin sem skrópa en þau eru örugglega indæl og meina vel. Ég væri til í að sjá viðtal við þau þar sem þau væru spurð hvort þau væru líka sjálf til í að fækka utanlandsferðum sínum og fara vel með rafmagn og eldsneyti. Vilja þau fórna sínum gæðum? Kannski. En sannarlega er ánægjulegt að sjá vitundarvakningu ef hún er ekki skrópið tómt.


Meinlaus verkföll

Verkföll bíta, annars er enginn tilgangur með að nota það vopn. Hver dregur fram smjörhníf ef hann ætlar að skera hnút?

Óhefðbundnar aðferðir, sagði Halldór Benjamín í útvarpinu áðan. Hann er auðvitað ósáttur við aðferðir sem gætu virkað til hækkunar umfram það sem hann vill borga starfsmönnum.

Hvað ætli hlustendur hafi hugsað?

Ég veit í alvörunni ekkert hvað hótelþernur eru með í laun en ég var einu sinni leiðsögumaður og ég hætti 2013 (var reyndar aldrei heilsársstarfsmaður í ferðaþjónustunni) vegna þess að innviðir voru sprungnir OG vegna þess að launin voru grín sem ég hafði sætt mig við meðan vinnan var skemmtileg.

Ég er kona og ég hef það fínt en það hvarflar ekki að mér að þau réttindi sem ég hef í dag en formæður mínar höfðu ekki hafi náðst baráttulaust.


Sléttumannaland

Ég fór á pöbbkviss i gærkvöldi og varð ýmislegs vísari eins og spyrill spáði (ekki samt sérstaklega fyrir mína hönd). Ein spurningin var um slétt land sem mig minnir að Halldór Laxness hafi viljað kalla Sléttumannaland vegna sléttlendis en það varð ekki ofan á. Margir giskuðu á Ungverjaland en vegna framhaldsins í spurningunni, um að heimamenn hétu á eigin tungumáli Lech, giskaði ég rétt.

Hvaða land er þetta?


Verðskuldað hrós

Þið munið að Snorri Sturluson sagði að oflof væri háð. Áherslan sem er lögð á hrós einn dag á ári er í mínum augum röng. Mér finnst að maður eigi frekar að leggja sig fram um að verðskulda hrós. Ég hef engan áhuga á hrósi sem er dembt á mig af því að einhver tekur áskorun um að hrósa.

Hins vegar má fólk alveg vera duglegra við að taka eftir því sem vel er gert ...

Í dag sagði ein samstarfskona við mig að kjóllinn sem ég var í klæddi mig sérlega vel og ég trúi því að hún hafi bara misst það út úr sér. Önnur sagði að ég væri svakalega dugleg -- og nú fer ég allt í einu að hugsa hvort þær hafi verið svona meðvitaðar um dagsetninguna.

 

Djók!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband