Óöldin

Ég þyrfti að setja sjálfa mig í fréttabann en ég held áfram að kvelja mig mörgum sinnum á dag. Hrokinn sem lekur af auðvaldinu er svo yfirgengilegur að mig verkjar í hjartað og sálina og er ég þó frekar laus við væmni allajafna.

Hvernig er hægt að vera með 4,3 milljónir á mánuði og leyfa sér að koma í viðtal með uppgerðarmærðarsvip og þykjast hafa samúð með Eflingarfólki sem fái ekki úr mjóslegnum vinnudeilusjóði? Sá mærðarlegi hefur meira vald en flestir til að breyta rétt gagnvart þessum hópi sem hann gerir sér upp samúð gagnvart.

Ég trúi því að margir hóteleigendur og bensínsalar vilji borga starfsfólkinu sínu mannsæmandi laun og þess vegna trúi ég ekki að stóri hópurinn greiði atkvæði með verkbanni.

Ætlið þið annars að segja mér að næsta skref sé lög á verkfall? Ég tek út fyrir svo mikið sem að skrifa þetta og ég neita að trúa því fyrr en í fulla hnefana.

Ég man verkfallið 1984. Þá fór húsvörðurinn í menntaskólanum í verkfall, ekki kennarar heldur bara einn lykilmaður í húsinu, og mig minnir að mjólkin hafi líka farið í verkfall. Þá var hún líklega enn seld í sérstökum mjólkurbúðum og gott ef hún var ekki í þríhyrndum umbúðum.

Það er viðurkenndur réttur fólks að berjast fyrir bættum kjörum sínum og sýna fram á mikilvægi starfsins sem það gegnir. Og þið vitið hvaða fólk tæki eftir því ef framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins færi í verkfall. Börnin hans sem hann myndi horfa aðeins oftar á Hvolpasveitina með. Ekki sála á vinnumarkaði eða sála í leit að þjónustu. ENGINN myndi sakna hans nema kannski fólkið við kaffivélina í Borgartúninu.

Afsakið að ég skuli vaða í persónuna en baráttan gegn sanngirni hefur bara verið persónugerð af honum sjálfum þannig að það er erfitt að aðskilja nefið og augun. Þið vitið: Náið er nef augum.

Ég væri innilega til í að víkja helstu persónum af sviðinu og láta málefnin takast á. Er sanngjarnt að fólk sé matvinnungar? 

Svari hver fyrir sig.


Verkbann?

Atvinnurekendur fara á límingunum yfir verkfalli láglaunafólks vegna þess að það lami atvinnulífið og hagkerfið en boða svo verkbann til að senda lægst launaða fólkið heim alveg tekjulaust.

Í stað þess að rétta þeim sem hóstar snýtubréf á nú að reka framan í hann olíuborinn tvist.

Til öryggis tek ég fram að ég hef það sjálf gott, er í vinnu sem ég valdi sjálf og get haft mitt líf eftir mínu höfði. Við vitum öll að það á ekki við um fólk sem þarf að slíta sér út alla daga til að smyrja hjól SA.

Í yfirlýsingu SA segir m.a.:

Sam­tök at­vinnu­lífs­ins geta ekki teygt sig lengra í átt til Efl­ing­ar án þess að koll­varpa þeim kjara­samn­ing­um sem hafa verið gerðir við öll önn­ur stétt­ar­fé­lög á al­menn­um vinnu­markaði en að baki þeim standa tæp­lega 90% starfs­fólks á al­menn­um vinnu­markaði.

Ef Efling má ekki gera kröfur fyrir sitt félagsfólk, af hverju er þá ekki bara eitt stéttarfélag í landinu?

En huggunin er að Viðskiptablaðið ætlar greinilega að taka slaginn með hjúkrunarfræðingum þegar samningar þeirra losna:

Olíubílstjórarnir eru með hærri laun en til dæmis hjúkrunarfræðingar, sem þó starfa undir miklu meira álagi, geta þurft að þola saksókn fyrir mistök í starfi og eru með margra ára háskólamenntun á bakinu. Það er ekkert sem réttlætir að olíubílstjórar hækki umfram þær gríðarlegu hækkanir sem annað launafólk hefur samið um undanfarið og verkfall þeirra er einfaldlega siðlaust.


Neyðarástand?

Eru yfirmenn á hótelum ekki í lagi? Þau tala um neyðarástand og formaður SAF um heimagerðar hamfarir. Missti þetta góða fólk af fréttum af jarðskjálftanum í Tyrklandi?

Eða tala þau um neyðarástand þegar ekki verður hægt að greiða út milljarða í arð? Er það neyðarástandið í þeirra orðabókum?

Það sýður á mér.

Ég hef alveg samúð með ferðamönnum sem grípa í tómt og fá ekki það sem þau töldu sig hafa keypt en það heyr enginn dauðastríð út af því.

Hálaunamenn - hættið að misbjóða okkur.

Tek fram til öryggis að ég hef það fínt, er ekki á skítakaupi, er í vinnu sem ég valdi mér sjálf, er með sveigjanlegan vinnutíma og borga hellingsskatt á hverju ári.


Tæmast búðirnar?

Ég er auðvitað lúxusdýr sem get leyft mér að hafa litlar áhyggjur af mínu persónulega lífi þrátt fyrir yfirstandandi og yfirvofandi verkföll, en er hótun um að matvöruverslanir tæmist ekki ótrúlega góð áskorun fyrir mörg okkar að grafa ofan í frystikistuna og tæma skápana?

Hins vegar er ég sannfærð, og meira en það, um að búið verði að semja um helgina.


Eldsneytisþurrð

Ég er eiginhagsmunaseggur eins og við flest. Ég gisti ekki á hótelunum í Reykjavík og ég seldi bílinn minn um helgina enda hafði ég ekki hreyft hann í rúma tvo mánuði, frá því að ég lét skoða hann síðast. Ég fer allra minna ferða hjólandi og gangandi nema þegar ég stöku sinnum fæ far með öðrum. 

Yfirvofandi bensínþurrð káfar því ekkert upp á mig. Ég skil að barnafólk sem þarf að fara langar leiðir til að koma börnunum sínum í skóla og aðrar langar leiðir til að komast í vinnu og verslanir kippi sér upp við yfirvofandi skort en mikið væri nú gaman að fólk í þeirri stöðu - og allt fólk - íhugaði mikilvægi þeirra starfsmanna sem sjá okkur fyrir grunnþörfunum. Ef samfélagið fer á hliðina í nokkra daga þegar hótelþernur og olíubílstjórar leggja niður störf en enginn tæki eftir því þótt framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins færi til Kanada og kæmi heim eftir fjóra mánuði ... þarf ég að segja meira?

Ég veit ekki öll laun allra en það er grundvallaratriði að bera saman grunnlaun stétta og einstaklinga, ekki heildarlaun með ómanneskjulegri yfirvinnu, langdvölum frá heimili og hættulegu starfi. Og kannski ég skjóti því hér inn að búið er semja við leiðsögumenn um smáaura: 

Niðurstaðan er á þann veg að já sögðu 42, eða 67,74 %, nei sögðu 19, eða 30,65%, og einn tók ekki afstöðu eða 1,61%. Niðurstaðan er því skýr. Kjarasamningurinn hefur verið samþykkur.

42 leiðsögumenn samþykktu samninginn fyrir hönd allra þeirra sem þiggja laun eftir honum og ég get sagt að laun eru greidd eftir samningnum. Sárafáir leiðsögumenn eru yfirborgaðir eða voru það a.m.k. meðan ég var í stéttinni. Samt eigum við að vera altalandi, líka með öll fagorð, á erlendu tungumáli, sérfróð um allt sem fólk gæti langað að vita, við eigum að skemmta, hugga og helst alltaf að vera til taks í hringferðunum. Leiðsögmenn fara vissulega upp í milljón á mánuði með stöðugri viðveru og taka sér síðan einhverja daga í að hvíla sig og safna kröftum eftir törnina. En að vísu er engin lífsógn fólgin í syfjuðum leiðsögumanni, ólíkt vansvefta bílstjóra.


Tjón af verkfallsaðgerðum - SA

Fréttaflaumurinn er svo stríður að ég finn ekki fréttina af því þegar framkvæmdastjóri SA sagðist myndu gera kröfu um að Efling myndi bæta tjón sem hlytist af verkföllum.

Tjón vegna þess að láglaunafólkið vinnur ekki vinnuna.

Af hverju ætti það að verða mikið tjón?

Aldrei hef ég heyrt forkólfa atvinnulífsins tala um þann mikla gróða sem hlýst af störfum láglaunafólks.

Hvernig ætti að verða mikið tjón nema vegna þess að störfin eru mikilvæg og verðmæt?

Ef þið þekkið einhverja blaðamenn megið þið gjarnan biðja þau um að spyrja gagnrýninna spurninga. Það er of lítið um gagnrýna fréttamennsku.


Arfur barnabarnanna?

Fyrir ekki svo löngu sagðist kunningjakona mín vera félagsmaður í EAB, félaginu Eyðum arfi barnanna, sem fundar aldrei og hefur engin félagsgjöld. Þau hjónin eru rúmlega sextug og eru farin að huga að starfslokum og ætla svo að flækjast um og hafa gaman og reikna svo með að þegar þau falla frá erfi börnin íbúðina sem þau eiga skuldlausa.

Svo hlustaði ég á viðtal við mann sem leggur til að við arfleiðum barnabörnin frekar en börnin. Ég hlustaði ekki nógu mikið á smáa letrið en geri ráð fyrir að hann sé að hugsa um lagalegu hliðina og e.t.v. erfðafjárskatt sem sé þá greiddur í annað hvert skipti, svo að segja. Þarna er auðvitað gengið út frá því að fólk eigi börn og barnabörn og að góður samgangur sé á milli hlutaðeigandi. Svo er nú líka sagt að maður þekki fólk ekki fyrr en maður hefur skipt með því arfi.

Mín hugmynd er að aflögufært fólk liðsinni börnum sínum og/eða barnabörnum alla ævi. Mér finnst samt að allt fólk eigi að þurfa að hafa svolítið fyrir hlutunum. Ég held að við kunnum ekki nógu vel að meta það sem við fáum fyrirhafnarlaust upp í hendurnar. 

En aðallega finnst mér að fólk eigi að njóta eigin erfiðis eins og það kýs helst og reyna að hafa gaman af lífinu þangað til því lýkur.


Er köttur bara köttur eða er köttur kannski Köttur?

Barn má ekki heita Kisa þótt barn megi heita Högni. Börn mega hins vegar heita Xavier, Æja, Klaría og Hyrrokkin. Öll ný nöfn eru óvenjuleg og skrýtin fyrsta kastið. Vinkona mín á dóttur sem hefur seinna eiginnafnið Þöll. Hún er fædd 1994. Þegar hún var í leikskóla þótti nafnið mjög skrýtið sem ég held að engum finnist í dag. Elsta dæmið sem ég finn í Íslendingabók er frá 1955. Systir leikskólastúlkunnar kom heim úr sínum leikskóla alveg forviða einn daginn og sagði: Mamma, veistu hvað? Það var strákur að byrja í leikskólanum og hann heitir BJARNI.

Nöfn eru ókunnugleg á einhverjum tímapunkti. Nöfnin Ljótur og Ljótunn vísa til birtu (ljós) en í dag heita þrír því nafni og ég finn eina sem heitir Ljótunn og það er seinna nafnið hennar.

Mér skilst að nafnið mitt sé afbökun á nafninu (Charles) Lindbergh flugkappa. Miðað við timarit.is var fyrsta stúkan (ekki stúlkan) nefnd Berglindin 1912, kvenfélags er getið 1926 en fyrsta stúlkan eitthvað síðar, jafnvel 1940, þótt Lindbergh hafi þreytt langflugið sitt 1927.

Í Íslenzkri fyndni frá 1940 er sagan sögð svona og hljómar mjög kunnuglega:

Berglind uppruni

Eitthvað get ég ímyndað mér að það hafi farið fyrir brjóstið á einhverjum, þetta skrýtna nafn sem átti enga hefð - frekar en nöfn eiga þangað til hefðin hefur skapast!

Einhvern tímann verður Kisa leyfð.


TF-SIF verður ekki seld

Ég er með kenningu. Flugvélin sem forstjóri Landhelgisgæslunnar boðar að eigi að selja vegna bágrar fjárhagsstöðu Gæslunnar - svona eins og að selja hefilinn frá Vegagerðinni, röntgentækið frá Domus Meidica eða mælaborðið úr bílnum - verður ekki seld. Það stóð aldrei til. Ég ítreka að þetta er kenning mín. Annað hvort er þetta smjörklípa til að dreifa athygli okkar frá einhverju öðru eða eitthvert annað bragð til að snapa athygli og fá samúð og svo ógurlegt þakklæti þegar sölunni verður afstýrt. Kannski verður landssöfnun og okkur gefst öllum kostur á að leggja þúsundkall í púkk.

Ég neita að æsa mig yfir þessu vegna þess að þetta er smellubeita einhvers.


Samningar hinna

Ég var að hlusta á framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins - sem er mjög fyndinn á Twitter - í útvarpinu. Hann segir - og ekki í fyrsta sinn - að Samtök atvinnulífsins hafi þegar samið við svo og svo mörg stéttarfélög.

En nú spyr ég: Ef hvert stéttarfélag á ekki að hafa tækifæri til að semja fyrir sig, á sínum forsendum og viðsemjenda sinna, af hverju erum við þá ekki bara með eitt stéttarfélag?

Ég man alveg eftir samningum á vinnustöðum sem hafa bara elt stóru félögin. Til hvers þá þessi þykjustuleikur? Kannski er samið sérstaklega um mötuneyti eða sokkabuxur en ekki um eðli hvers starfs. Mér finnst það bjánalegt.

Hvað sem um leiðtoga Eflingar má segja - sem ég sé ekki gera sig gildandi á Twitter - virðist hún berjast fyrir göfugum breytingum með óhefðbundnum aðferðum. Og ég er #teambreytingar.

Svo ég loki hugsuninni: Af hverju ætti Efling að semja eins og SGS og VR af því að SGS og VR eru búin að semja? Til að gera Halldóri glaðan dag?


Krónan - Salathúsið - leigufélagið Alma

Ég varð fyrir því óláni í síðustu viku að borða salat upp úr dós merktri Salathúsinu. Ég tók ekki eftir því fyrr en ég var að ganga frá eftir kaffið. Ég hefði ekki borðað salat frá þessu fyrirtæki ef ég hefði áttað mig í tíma.

Varan var pöntuð sem salat frá Krónunni sem hefur auðvitað ekki tekið vöruna úr sölu. Grein í Heimildinni rekur langt aftur í tímann hvað þessir stórgrósserar í félaginu Mata (Mötu?), leigufélaginu Ölmu (Alma?), víla ekki fyrir sér að okra á smælingjunum. Þetta ofmæjónesaða salat er á svipuðu verði og önnur slík salöt í búðunum en er bara liður í því að hlaða undir veldi þessa fólks sem skammast sín ekki einu sinni þótt komist upp um ... nú má ég líklega ekki segja glæpsamlega hegðun því að þá gæti lesandi kært mig þannig að ég segi að hegðun forsvarsmanna fyrirtækisins gagnvart fólki sem á ekki eins mikið undir sér sé ámælisverð og ósiðleg.

Skammist ykkar.

Og ef ég sé dollur frá þessu fyrirtæki aftur mun ég ekki gleyma að horfa og tala um það við viðstadda. Djöfull er ég svekkt út í mig fyrir að taka ekki eftir því strax. Og sannið til, þið eruð fleiri sem hafið ekki áttað ykkur.


Ríkissáttasemjari sameinar verkalýðsleiðtogana

Ég er ekki að segja lesendum fréttamiðlanna neinar nýjar fréttir eða útleggingar. Hið ótrúlega hefur bara gerst að maðurinn sem á að miðla málum, vera hlutlaus, sætta stríðandi fylkingar og samgleðjast sanngjarnri niðurstöðu hefur stillt sér upp með öðrum aðilanum. Ég er alls ekki nógu vel lesin í samningamálum til að vita hvort annað eins hefur gerst en mér væri fullkomlega misboðið ef samningavaldið væri tekið af mér á þennan hátt.

Eini augljósi árangurinn af þessu útspili ríkissáttasemjara er að Ragnar Þór og Vilhjálmur eru aftur komnir á yfirlýst band Sólveigar Önnu. 


Verkfallssjóður SA

Ég átta mig ekki á þesssu. Samt er ég búin að vita af þessari setningu í nokkra daga:

 

Fram hefur komið að vinnudeilusjóður Samtaka atvinnulífsins se digrari en verkfallssjóður Eflingar ...

 

Og í dag bættist þessi við:

 

Samtök atvinnulífsins munu bæta Íslandshótelum allt það tjón sem hlýst af mögulegu verkfalli Eflingarstarfsmanna.

 

Það er til nógur peningur til að mæta tjóni atvinnurekandans en ekki til að mæta kröfum verkalýðsins. Ég hef ekki séð neina launaseðla hjá Eflingu og veit ekkert um launin hjá einstaklingum en ég held að við vitum öll að laun ómenntaðra eru skammarlega lág, já, og margra menntaðra líka.

En framkvæmdastjóri SA lepur ekki dauðann úr skel enda ákaflega mikilvægur fyrir íslenska hagkerfið ...

 

 


Sílikon fyrir sjálfstraustið

Ég held að við hljótum öll að hugsa það sama eftir Kveik vikunnar sem innihélt viðtöl við þrjár konur sem allar höfðu látið setja sílikon í brjóstin á sér og goldið fyrir það með heilsu sinni og líðan.

Hattur ofan fyrir þeim að koma fram og segja sögu sína. Vonandi horfðu þær konur sem eru núna markhópur lýtalæknanna. En hver er ábyrgð læknanna sem gerðu aðgerðirnar og sögðu ekki frá hugsanlegum aukaverkunum?


Kennsluglærurnar

Núna á nýbyrjaðri skólaönn hafa tvær glærur birst landsmönnum í fjölmiðlum, glærur sem sumum finnst bera skoðunum kennaranna illt vitni.

Skólastjórar segja glærurnar teknar úr samhengi.

Sumir álitsgjafar hafa áhyggjur af að nemendur séu með síma, og þar með myndavélar, í tímum í stað þess að einbeita sér að náminu.

Fólk veltir fyrir sér innrætingu og pólitískum skoðunum kennara og einhverjir hafa kallað eftir uppsögn.

Og ég glenni upp augun.

Ef samhengi gæti útskýrt glærurnar sem fara svona fyrir brjóstið á sumum væri ótrúlega gráupplagt að nota nýtilkominn áhuga á sögunni til að varpa fram samhenginu. Ég held að skólastjórarnir hafi látið gullið tækifæri ganga sér úr greipum.

Og við þá sem fordæma þá sem fordæma lekann vil ég segja: Eigum við ekki að horfa á efni máls frekar en hégómlegt formið? Svona rétt eins og þegar skýrslunni um Íslandsbankasöluna var lekið?

Ég hefði svo gjarnan viljað sitja í tímum þessara kennara og fá heilbrigða umræðu um efni máls. Ég veit ekkert hvað mér hefði fundist um glærurnar en trúi að í kjörlendi verði líflegar umræður og áhugaverð skoðanaskipti.

Hafa ekki allir skoðanir?

 


mbl.is Glæran ekki í kennslukerfi skólans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frí(ís)skápur gegn matarsóun

Fyrir tveimur árum hófst sjálfsprottið átak gegn matarsóun með frí(ís)skápnum á BergþórugötuKamila og Marco voru útnefnd Reykvíkingar ársins í fyrra fyrir að koma verkefninu á koppinn. Verkefnið gengur út á að sporna við matarsóun.

Þriðjungur matvælaframleiðslu lendir í ruslinu. Þriðja hvert lambalæri, þriðji hver mjólkurpottur, þriðji hver hveitipoki, þriðja hver chili-sultukrukka, þriðja hver paprika, þriðja hver kókflaska - ég veit svo sem ekki hvernig meðaltalið í þessu virkar en spyr: Getur sykur runnið út? Sykur hefur verið til í aldir, svo er honum pakkað og hann hefur allt í einu bara tveggja ára líftíma. Og hvað gerist daginn eftir að „best fyrir“ rennur upp? 

Við þurfum náttúrlega að beita hyggjuvitinu líka og lyktarskyninu en ekki líta bara á dagsetninguna og henda svo matnum. Hefur einhver dáið af því að nota útrunnið krydd? Nei, bragðið dofnar bara aðeins þannig að í stað þess að nota eina teskeið af karríi notar maður tvær.

Ég veit ekki í hvaða gáma stórverslanir henda meinta útrunna matnum sínum en einhverjir hafa líka staðið sig vel í að bjarga þeim mat frá bráðri glötun og setja í fríísskápana sem hafa nú fjölgað sér. Meðvituð fyrirtæki eru líka farin að gefa matnum framhaldslíf þegar búðinni er lokað og á það ekki síst við um vörur sem eru í alvörunni með skamman líftíma, eins og bakkelsi (Brauð og kó) og nýkreista safa (Ketóeldhúsið).

Í fyrradag leit ég í ísskápinn við Neskirkju þegar ég fór þangað með krukkur undir súpur sem súpugerðarkonan setur súpur í og við mér blöstu margar 33 sentilítra flöskur af nýkreistum safa með dagsetningu sama dag. Ég tók með mér eina af hvorri tegund, engiferdrykk og mangódrykk, og sagði svo frá því í sólarhringssögunni á Facebook. Í gær var mér bent á að þetta liti út eins og ég væri að - ég man ekki hvað - misnota eða eitthvað af því að ég hefði efni á að kaupa matinn minn.

Mér hafði ekki hugkvæmst það vegna þess að við erum öll í sama liðinu við að reyna að henda minna af mat. Hins vegar hugsaði ég þegar ég drakk með ánægju engiferdrykkinn að ég væri til í að beina viðskiptum mínum til fyrirtækis sem tæki á þennan ábyrga hátt þátt í hringrásinni. Ég hef sjálf vott af fordómum gagnvart því að fólk sem þarf ekki á því að halda þiggi svona fyrir ekki neitt - en hver er svona viss um að maður gefi ekki til baka? Á maður að nota ferðina til að segja að maður styrki Kvennaathvarfið, Samhjálp, UNIFEM og Rauða krossinn með peningainnlögnum?

Nei, hringrásin er sjálfstætt verkefni og við viljum ekki að matur lendi í ruslinu. Það verða alltaf einhverjir sem leggja hlutina út á verri veg og ég get ekki borið ábyrgð á skilningi allra. Og þau sem lesa þessa hugleiðingu hér eru kannski alls ekki í vinahópnum mínum á Facebook. laughing

#gegnmatarsóun


Slaufa eða útskúf?

Nú er ég bara mjög hissa. Ég las grein á Vísi þar sem hanskinn er tekinn upp fyrir gerendur. Eða hvað? Greinin er löng og til varnar mönnum sem hefur verið slaufað en ekki eitt aukatekið orð um ástæðu slaufunarinnar, þ.e. hvort þeir höfðu brotið af sér. Mér finnst það grundvallaratriði, að lágmarki að þeir séu spurðir hvort þeir hafi gert eitthvað sem útskýrir útilokun.

Ritgerð háskólanemans er lokuð til loka næsta mánaðar en af útdrættinum má ráða að höfundur taki sér stöðu með þeim sem var slaufað en ég sé ekki að þeir séu ekki gerendur. Þegar nöfnin eru strokuð út veit maður ekki hvort maður þekkir til einststaklinganna en miðað við það sem lagt er fyrir lesandann mig er höfundur að taka sér stöðu með gerendum.

En ég er lítið fyrir alhæfingar þannig að ég fullyrði ekki neitt. Ég bara trúi því að fleiri verði fyrir kynferðislegu ofbeldi sem markar líf þolenda, fjölskyldna þeirra og vina til langs tíma en að einstaklingar séu bornir alröngum sökum um kynferðisglæpi. Besta leiðin til að losna við ávirðingar er að brjóta ekki á fólki.

Ég trúi því sem mér hefur verið sagt, að falskar ásakanir heyri til undantekninga.

Ég óska öllum lífs sem er laust við ofbeldi, rangfærslur og gaslýsingar og samúð mín er óskipt með þolendum þess sem ég taldi upp. Ef saklaus maður af hvaða kyni sem er er borinn sökum hef ég augljóslega líka samúð með honum.


Fiskari, farsími og fleiri orð

Orðið fiskari truflar mig ekki neitt og ég tilheyri ábyggilega stærsta hópnum þar. Hins vegar hefur ýmist fólk tjáð sig, líka í mínu nærumhverfi, og þá með orðalaginu:

Stöðugt er vegið að íslenskunni. 

Okkur er aldrei sagt neitt.

Ekkert er borið undir okkur.

Ég: Ha? Í hvaða heimi er allt fólk eða helmingur fólks spurður um einstaka orð, nýyrði eða upptöku gamalla orða? Ég man að vísu eftir samkeppni um orð fyrir sixpack en ég man ekki hvaða orð vann. Ég held að flestir tali um kippu en þori ekki að sverja fyrir það.

Notum við ekki orðið tölvu fyrir það fyrirbæri? Það er snjöll orðmyndun.

Hvað með símann sem er ekki lengur snúrusími og fastur við vegg? Ég kalla hann farsíma af því að mér finnst það orð lýsandi og nógu þjált en þið flest talið um gemsa. Ég veit alltaf hvað þið eruð að tala um og geri enga athugasemd við það en ég ætla ekki að breyta mínu orði í bráð.

Sem betur fer er tungumálið fjölbreytilegt og breytanlegt. Fiskari er ekki gott dæmi um orð sem eykur á nýbreytni en er tilraun til að hlutleysa starfið og orðið er svokallað íðorð, fagheiti. Og út frá orðhlutum fellur það í flokk með dansara, grúskara, fúskara, safnara - bætið sjálf við að vild.

Við sem viljum veg íslenskunnar sem mestan ættum að vanda okkar eigið mál og gera okkar besta til að halda lífi í henni. Erlend áhrif, aðallega frá ensku, eru úti um allt í umhverfi okkar. Hvað heyra börnin sem fæðast árið 2023? Er það ísl-enska og ef svo er, hvaða tungumál munu þau þá tala um tvítugt? 


Húmor Vestmannaeyinga

Á þrettándagleði Vestmannaeyinga eru skessur bornar í eldinn en samt ekki brenndar. Þannig skil ég umræðuna. Ein eða önnur er merkt Heimi þjálfara Hallgrímssyni og önnur eða hin hefur einhver ár verið merkt Páleyju Borgþórsdóttur sem var bæði í pólitík í Vestmannaeyjum og lögreglustjóri þar en nú lögreglustjóri fyrir norðan.

Í ár var nafnið EDDA FLAK fest við skessu sem var borin á bálið en ekki brennd.

Mér finnst þetta ófyndið og ef ég væri Edda myndi ég líka taka þetta persónulega og líða illa, en spurningin sem ég hef ekki séð borna upp og þannig ekki séð svar við er: Hvað finnst Vestmannaeyingum fyndið/sniðugt/áhugavert við þetta? Hver er húmorinn?

Ég er alveg búin að velta því fyrir mér og ég finn ekki neina þrettándagleði í þessum gjörningi. Þvert á móti sé ég grasserandi mannfyrirlitningu.


Engin eftirsjá hér vegna brotthvarfs Fréttablaðsins

Ég á erfitt með að henda pappír. Ég er samt ekki sá safnari að ég geymi allt sem ég hef eignast en ég hef hingað til mátt til með að fletta Fréttablaðinu áður en ég læt það í tunnuna. Nú verður breyting þar á og ég er ekkert leið þótt nú sé laugardagur og ekkert blað fyrir innan lúguna. Fréttastraumarnir eru yfirdrifnir á netinu og í útvarpinu og þangað mun ég sækja mitt efni héðan í frá.

Lifi stafrænan!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband