Ég sakna kommanna

Það er svo erfitt að segja þetta án þess að vera eða virðast vera að nöldra en ég skil ekki af hverju fólk notar ekki greinarmerki þegar það skrifar athugasemdir hér og þar. Ég er auðvitað farin að venjast því og misskil ekki það sem fólk skrifar en það er samt hvimleitt. Ég man eftir svari fyrir nokkrum árum sem byrjaði á að viðmælandinn var taggaður og svo kom sögn sem er eins í 1. og 3. persónu og ég hélt að sá sem skrifaði væri að tala um mig en hann var að skrifa um sjálfan sig. Þetta verður best skýrt með (tilbúnu) dæmi:

„Einar Einarsson reyndi að komast inn hjá þér á sunnudaginn.“

Athugasemdina skrifaði Óskar Óskarsson og var að tala um að hann hefði ætlað að koma í heimsókn til Einars á sunnudeginum, ekki að Einar hefði verið á leiðinni til mín. Flókið? Það er aðeins minna flókið þegar maður hefur upphaflega innleggið og sér taggið.

Hér sést að komman skiptir öllu:

„Einar Einarsson, reyndi að komast inn hjá þér á sunnudaginn.

 

Image preview

Og ég sé þetta því miður meðal vina minna í málfræðingastétt.


Hún Vigdís

Ég man því miður hvað ég var þröngsýn og afturhaldssöm 1980. Ég var ekki komin með kosningarrétt en ef ég hefði mátt kjósa hefði ég kosið Guðlaug Þorvaldsson ríkissáttasemjara eins og ég held að mamma og pabbi hafi bæði gert. Ég vakti yfir kosningasjónvarpinu en undir morgun var ég orðin dús við að hún ynni. Sem betur fer, ég var ekki forhertari og óþroskaðri en svo að ég sá auðvitað mannkosti hennar og skildi það gildi sem Ísland markaði með þessu skynsamlega vali.

Hún er enn uppáhaldsforsetinn minn þótt ég hafi mikið dálæti á Guðna. Ég vona að ég þurfi ekki að útskýra þau áhrif sem hún hafði á jafnrétti, náttúruást og menntun, þar með talin tungumál. Hún var einfaldlega framúrskarandi forseti og er núna sem fyrr framúrskarandi manneskja.


Einkavæða gróðann en almenningsvæða tapið ...

„Að viðhalda ráðningarsambandi.“

Ég þekki fólk sem er nú tímabundið í hlutastarfi vegna tímabundinnar ágjafar í þeirri eindregnu von að úr rætist þegar við verðum komin fyrir vind vegna Covid. Ég hef á tilfinningunni að flestir hafi skilið hugsunina í þessu úrræði betur en Samtök atvinnulífsins


Leiðsögumenn á tímum Covid

Þrátt fyrir að Björn Ingi fari í taugarnar á mörgum hef ég hvergi nema á Viljanum hans séð vott af skilningi á og samstöðu með leiðsögumönnum sem hafa áratugum saman búið við ömurleg kjör og sitja nú uppi með óbætt atvinnuleysi þegar vertíðin hefði átt að vera að hefjast. Ég var sjálf leiðsögumaður í 12 sumur eða svo og lét mér duga léleg laun af því að mér fannst svo gaman. Sumarið 2013 þóttu mér innviðir svo illa sprungnir að ég hætti að taka að mér verkefni enda alltaf aukageta hjá mér. 

Ferðaþjónustan dró okkur að landi eftir hrunið en nú virðast margir útverðir hennar mega éta það sem úti frýs.

Gleðilega páska.


Hvað eiga Eskja, Gjögur, Huginn, Ísfélag Vestmannaeyja, Loðnuvinnslan, Skinney – Þinganes og Vinnslustöðin sameiginlegt?

Þetta eru útgerðir sem hafa krafið íslenska ríkið um skaðabætur vegna úthlutunar á heimildum til veiða á makríl í kjölfar tveggja dóma Hæstaréttar frá 6. desember 2018. Kvótaúthlutun og hvernig réttur til kvótaeignar hefur orðið til er eitt helsta bitbein Íslendinga síðustu áratugina. Mig grunar að í öðrum hópnum séu 150 manns og sirka 350.000 í hinum.

Gleðilega páska.

 


Sendillinn á hjólinu sem fær greitt fyrir hverja sendingu

Sif Sigmarsdóttir er réttsýnn pistlahöfundur og rétt eins og ég gerir hún sér grein fyrir hvaða stéttir skipta ekki máli á ögurstundu. Auðvitað búum við í samfélagi sem er skemmtilegra ef ekki aðeins grunnþörfunum er sinnt en ef þeim er ekki sinnt er ekki um frekari þarfir eða munað að ræða. Ef við borðum ekki til lengdar, ef okkur verður of kalt, ef við veikjumst og deyjum fyrir vikið er ekki svigrúm til að njóta félagsskapar, menningar, útiveru eða nokkurs þess sem er ofar í þarfapíramídanum.

Og hvaða stéttir keyra nú samfélagið áfram? Og hvaða stéttir gera það ekki?


Kveðjustund

Ég er svo nýbúin að kveðja báða foreldra mína að ég tárast frekar auðveldlega þegar ég sé gamlar myndir af þeim birtast á Facebook eða hér á blogginu. Ég hugsa oft til þeirra og við systkinin heyrumst sérstaklega á dánar- og jarðarfarardögum þeirra í hverjum mánuði. Nú eiga þau hvort um sig þrjá daga, afmælis-, dánar- og jarðarfarardag, í hverjum mánuði. 

Ég var hjá þeim báðum augnabliki eftir andlátið og nánast linnulaust dagana áður en mamma dó eftir stutta legu og mánuðum saman hjá pabba eftir að hann flutti á Hrafnistu. Ég get ekki á heilli mér tekið við tilhugsunina um að þau hefðu þurft að lifa ástandið núna illa á sig komin. Það hefði gert út af við okkur pabba og systur mína að vita af honum leiðum og afskiptum.

Þess vegna finn ég alveg sérstaklega til þegar ég les frétt af kveðjustund konu sem lést úr Covid-19 í dag án þess að hafa sitt nánasta fólk innan seilingar. Ég votta aðstandendum samúð mína. 


Hlýðum Víði

Ég hef heyrt af fólki sem ætlar í bústað um páskana en ætlar samt að hlýða Víði. Er það ekki hægt? Jú, ég held það. Ég las frétt áðan um óhlýðni fólks og óttalegar formælingar en í kommenti kemur fram að margir hafa haldið til í bústöðum sínum undanfarið og kjósa þar að vera í sinni heimangrun (nýyrði sem ég heyrði í vikunni).

Vörumst alhæfingar. Sýnum skynsemi. Drepum helvítis pödduna.


Ofbeldi eykst

Í gærkvöldi sá ég Sigþrúði Guðmundsdóttur, framkvæmdastýru Kvennaathvarfsins, í fréttum en finn enga tilvísun á fréttamiðlunum. Hún var að tala um að konur væru útsettari fyrir ofbeldi núna þegar þær neyðast til að vera meira á heimili með ofbeldismönnum sem þær eru í sambandi við. 

Á daglegum upplýsingafundi áðan var Sigþrúður aftur mætt til að tala um börn á ofbeldisheimilum sem er dauðans alvara.

Ég á bróður sem stal af mér 7 milljónum árið 2008. Þetta er löng og flókin saga sem ég er búin að segja í nokkrum bloggfærslum. Ég hef lofað því að borgi hann mér lánið, sem ég lánaði honum í góðri trú og til að bankarnir tækju of mikla þóknun, muni allt handveðið renna til Kvennaathvarfsins. Við erum að tala um 5 milljónir árið 2008 sem ég held að gætu alveg nýst eitthvað og sannarlega betur en þessu óbermi sem ég varaði mig ekki á nógu snemma. Ég lét fjölskyldukærleik blekkja mig of lengi og aumingja mamma og pabbi voru undir hælnum á honum og hans edrúmennsku í 40 ár.

Ég er sem sagt búin að lofa því opinberlega nokkrum sinnum að láta handveðið sem ég lánaði honum renna til Kvennaathvarfsins. Hann réð sér hins vegar lögfræðing sem þóttist vera sérfróður um erfðamál og hann fann lagabókstaf um að lán fyrnist. Ég er hins vegar ekki viðskiptabanki, bara enginn banki, og var ekki í áhætturekstri enda átti ég aldrei að fá fúlgur fjár í vexti eða neinn sérstakan ávinning. Þetta er eins einfalt og það getur verið, ég lánaði honum pening og hann skuldar mér hann en neitar að borga skuldina. Hann veit af skuldinni og viðurkennir hana en ég er ekki með þinglýsta pappíra og get ekki sent í innheimtu. Ég hef höfðað til skynsemi hans og betri vitundar sem ég veit núna að er af skornum skammti. Hann fær kikk út úr því að geta svínað á fólki og nú er ómögulegt að vita nema hann taki heimilismenn á Sólheimum næst fyrir. Þar starfar hann sem meintur garðyrkjumaður.

Gummi bróðir minn er óvirkur alkóhólisti en virkur narsissisti eins og ég held að AA ali upp í skjólstæðingum sínum.


Ferðaávísun upp á 5.000 kr.

Ég er hlynnt þeirri aðgerð að allir fullorðnir fái ferðaávísun þegar losnar um hömlur vegna kórónuveirunnar. 5.000 kr. vega vissulega ekki þungt í ferðakostnaði en gerðin er táknræn og verður vonandi hvati fyrir fólk til að bregða undir sig betri fætinum þegar sumrar.

Einn vinur minn var með tillögu um að við afþökkuðum þessar ferðaávísanir og létum peninginn renna til heilbrigðisstarfsfólks. Mér finnst hins vegar að annað þurfi ekki að útiloka hitt og finnst sjálfsagt að borga mikilvægu fólki mikilvæg laun. Hins vegar er út í bláinn að stöndug fyrirtæki fái ölmusu frá ríkinu, fyrirtæki eins og Bláa lónið sem hefur í mörg ár okrað á túristum í krafti sérstöðu sinnar, kísilleðjunnar. 

Mér finnst gagnlegt að hugsa um veiruna í mynd eins og einhver listamaður teiknaði hana.

Kórónuveiran í mynd.


Keflavíkurflugvöllur mannlaus?

Ég hef ekki séð fréttir af því að verið sé að gera breytingar á Leifsstöð, nú þegar tækifærið er svo borðleggjandi. Hins vegar er frétt af því að færri fíkniefnasendingar fari um hann. Hmm?

Er ekki Leifsstöð orðin of lítil fyrir venjulega umferð fólks og farangurs? Er ekki óhægt um vik að gera breytingar þegar stríður straumur fólks (og farangurs) er um hann? Er þá ekki lag að gera núna það sem þarf? En kannski er verið að því ... 


Það þarf að semja við hjúkrunarfræðinga

Í fyrsta lagi er bara út úr kortinu að stéttir séu samningslausar í ár. Í öðru lagi er nú komið rækilega á daginn hvaða stéttir halda samfélaginu á floti og hvaða stéttir gera það ekki. Ef við hefðum ekki matvælaframleiðslu, rafmagn, hús, föt og aðhlynningu fyrir veika og aldraða tæki enginn eftir því þótt forysta Samtaka atvinnulífsins væri engin. Þúsundir manna hafa talað fyrir því árum saman að heilbrigðis- og umönnunarstéttir væru á betri launum en forystumenn skellt skollaeyrum við.

Nú má engan tíma missa.


Keðjubréf

Ég slít allar keðjur, öll keðjubréf. Ég aðhyllist hjarðhegðun stundum, get tapað mér yfir handbolta og fótbolta, horfi á sjónvarp sem mælt er með og sæki sömu staði og margmennið enda er ég svarinn extróvert. En ég deili ekki bröndurum á Facebook og tek yfirleitt ekki áskorunum um að vera með í leikjum.

Sumir brandararnir sem fólk setur samt núna á Facebook eru svo tryllingslega fyndnir að ég hlæ oft upphátt. Kannski hefur vírusinn tekið sér bólfestu í mér. Kannski er ég farin að kunna að meta hið smáa í lífinu. Hver veit? 


Að lifa af leiðindin

Mér finnst beinlínis óþægilega mikil áhersla á afþreyingu í umræðunni, ekki endilega í mínum nærhópum heldur útvarpi og kannski sjónvarpi. Mörgum er að sönnu kippt úr sinni daglegu rútínu og margir þurfa að hafa ofan af fyrir ungum börnum og jafnvel eldri börnum en mér finnst umræðan vera eins og 360.000 manns á Íslandi eigi að dunda sér þangað til veiran hefur runnið sitt skeið.

Framlínustarfsfólkið hleypur allan vökutíma sinn. Hjúkrunarfræðingar og einhverjar fleiri stéttir eru með útrunna kjarasamninga. Viðskiptaráð stingur upp á að opinberir starfsmenn – hjúkrunarfræðingar, kennarar, lögreglumenn – sveiflujafni ástandið með kjörum sínum. Bláa lónið greiðir milljarða í arð til hluthafa og sendir starfsfólk sitt á atvinnuleysisskrá hins opinbera. Bankarnir lækka innlánsvexti hjá sparifjáreigendum. Fólk, t.d. námsmenn, með einstakar vaktir í fataverslunum og á veitingastöðum missir vaktirnar og tekjurnar en fær ekki bætur af því að það hefur ekki verið í eiginlegu starfshlutfalli.

Bændur lenda fyrirsjáanlega í vandræðum með mönnun í vorverkunum. Ferðaþjónustan lepur nú dauðann úr skel. Vinir mínir í leiðsögustétt sem voru búnir að bretta upp ermar fyrir törnina framundan sitja með hendur í skauti. Leigubílstjórar og flugmenn geta ekki „unnið að heiman“. Listamenn eru kyrrsettir í sinni eigin vertíð. Aðstandendum er bannað að heimsækja fólkið sitt á elliheimilum vegna smithættu en starfsfólk kemur úr sama umhverfi og aðstandendur. Þar hefur verið illa mannað, sums staðar, og starfsfólk nær engan veginn að bæta það félagslega tjón sem verður við það að börnum og barnabörnum er ekki hleypt inn. Ég gagnrýni ekki þessa varúðarráðstöfun en lífsgæði fólks á lokametrum lífs síns eru skert til muna meira en miðaldra fólks sem leiðist af því að það er búið að horfa á allt á Netflix og í Sjónvarpi Símans en bjargar sér af því að það getur skálað í gegnum Zoom.

Ég hripa hér bara upp hluta af jöfnunni sem er alveg galin. Sums staðar í samfélaginu mokar fólk og mokar til að samfélagið haldi sjó og annars staðar situr orkumikið fólk og hugleiðir hvort það eigi að bora út úr hægri nösinni eða þeirri vinstri. Þó er huggun harmi gegn að gildi skapandi greina og skapandi fólks hefur fengið aukið vægi.

Einhver hlýtur að vera með yfirsýnina. Einhver hlýtur að geta séð hvar of margt fólk er og hvar of fátt, hvar peninga vantar og hvar er ofgnótt og þeir einstaklingar verða að leggja saman tvo og tvo og fá út rétta útkomu. Fólkið sem hefur allar upplýsingarnar verður að rétta hallann.

En ég hlýði Víði og tek almennt mikið mark á því sem kemur fram á daglegum upplýsingafundum vegna Covid.


Móðir menn í kví kví

Spaugvarpið er búið að senda frá sér sitt fyrsta hlaðvarp. Ég hló margsinnis upphátt þannig að ég mæli augljóslega með því í súldinni.


Hvar eru samningar við hjúkrunarfræðinga?

Hjúkrunarfræðingar hafa verið samningslausir í ár. Fyrir fimm dögum var samningafundi slitið án þess að boða til nýs. Heilbrigðisstéttirnar eru einna mikilvægustu starfsstéttirnar og þarf ekki faraldur til að sjá það en samt er ekki samið við fótgönguliðana, framlínustarfsfólkið. Ég þori ekki að hafa hátt af því að ég er hvergi nálægt samningaborðinu og hef engra persónulegra hagsmuna að gæta en ég skil ekki viljaleysið til að gera kjarasamning. Það er ekki nema von að margir hjúkrunarfræðingar hafi í gegnum tíðina látið sig hverfa til annarra starfa. Reikningar eru ekki borgaðir með hugsjón og köllun og létt lund vegur heldur ekki þungt í augum bankans.


Svart ...

Einn vinur minn skrifaði á Facebook í vikunni: Hugur minn er hjá öllum innbrotsþjófunum sem geta nú ekki athafnað sig vegna þess að allir eru heima.

Kaldhæðni, já, gott hjá honum. En ég er að hugsa til stóru hópanna sem hafa unnið svart í gegnum árin og eiga minni réttindi fyrir vikið enda hafa þeir minna borgað til samneyslunnar. Fólk getur ekki sýnt fram á tekjufall vegna þess að tekjurnar hafa ekki verið færðar til bókar. Ég heyri bara hvergi neina umræðu um þetta. Er hún líka svört og falin?


Þrífast börnin þá ekki best á misjöfnu?

Á misjöfnu þrífast börnin best hefur lengi verið haft á orði og vísað til þess að börnum sé hollt að borða sand (í hófi) í sandkassanum en ekki lifa bara vafin inn í bómull. En nú á tímum Covid er manni sagt að þvo hendur sýknt og heilagt. Ég skil að nú eru óvenjulegir tímar en styrkjum við ekki ónæmiskerfið heilt yfir með því að venja það við ýmislegt?


Stytting vinnuvikunnar?

Er veiran kannski að sýna okkur fram á að við getum stytt vinnuvikuna til muna? Hvaða störf getur fólk lagt á hilluna eða stytt vinnuvikuna hjá um helming án þess að stóru hóparnir finni fyrir því?

Hjúkrunarfræðingar eru ómissandi, matvælaframleiðendur, seljendur og/eða dreifingaraðilar matvöru, sorphreinsar – og hverjir fleiri? Listamenn. Til hvers að lifa ef engin tónlist, engir litir, engin hönnun er til að gleðja auga og eyra? Eitthvað í þá veruna sagði Churchill eftir síðari heimsstyrjöldina þegar hann var spurður hvort ekki ætti að skera niður til menningar og lista.


Sjálfsþurftarbúskapur

Ég get bakað og eldað en ég er öðrum háð um hráefni. Ég get unað mér við bækur og útvarp en treysti á sköpun annarra. Ég er hraust og veikist sjaldan en ef ég veikist get ég ekki læknað mig sjálf.

Við búum í samfélagi þar sem fólk nær vonandi að rækta sínar sterku hliðar og hver leggur það af mörkum sem hann er hæfastur í en treystir á hina með hitt. Og hvaða stéttir skipta nú líf og heilsu fólks máli? Láglaunastéttirnar. 

Þegar við verðum komin fyrir vind í veirumálinu vona ég að gildismatið hafi breyst og ferðamátinn líka.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband