Færsluflokkur: Dægurmál

35% hækkun í Skipholti

Í september kostuðu Maarud-kartöfluflögurnar á myndinni 349 krónur. Ég fékk leiðindadálæti á þeim og borðaði þótt ég hefði ekki gott af því. Af mörgum veikleikum mínum er veikleiki gagnvart kartöflum vandræðalega mikill. Ég tók svo eftir því að pokinn hækkaði í 379, eftir áramót fór hann upp í 409 og núna 479 krónur. Kannski millilenti hann í 429, en hann hefur alltént hækkað um 130 krónur síðan í september, tæplega 35%.

Maarud

Ég get ítrekað að ég ætti að sniðganga þessar kaloríur en sumt fólk má alveg við þeim. En má það við 35% hækkun verðlags?

Þið gætuð örugglega bent á mörg önnur dæmi sem þið hafið tekið eftir. Er hægt að bjóða okkur upp á þetta til lengdar? Heyri ég einhvern tala um 35% hækkun á laun?


Tjónið af yfirgangi auðvaldsins

„Við erum alveg örugglega ekki að tala um tugmilljónir, við erum örugglega að tala um nokkur hundruð milljónir sem við erum komin í nú þegar því stórir hópar eru nú þegar búnir að afpanta,“ segir Elías. 

Þetta er haft eftir settum ferðamálastjóra.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hnýt um það að ferðaþjónustan telur sig tapa gríðarlega en hefði ekki grætt gríðarlega í óbreyttu ástandi. 

Er einhver búinn að reikna út meint tjón af því að hækka laun þeirra sem smyrja hjól atvinnulífsins og bera saman við meint tjón af verkbanni og öðrum tjónvöldum Samtaka atvinnulífsins?

Mér finnst auðmýkjandi að bera það bull á borð fyrir hugsandi fólk að láglaunastéttirnar séu vandinn. Það fólk sem gerir það hefur orðið sér til skammar og opinberað vanmátt sinn.


Var Vilhjálmi og Ragnari lofað að semja ekki út fyrir meintan ramma?

Ég hef heyrt að hvorki Starfsgreinasambandið né VR hafi gert kröfu um að önnur verkalýðsfélög gætu ekki samið á sínum forsendum við Samtök atvinnulífsins. Það er samt mantran sem framkvæmdastjóri SA fer með. Mikið væri nú gott ef viðmælendur framkvæmdastjórans spyrðu aðeins betur út í þetta. Merkilega margir þáttagerðarmenn hafa verið duglegir að stoppa eintalið hans en ekki nógu margir fréttamenn. 

Það væri gott að fá þetta á hreint. Myndu SGS og VR bregðast illa við ef verkafólk Eflingar fengi meira en það sem SGS og VR hafa samið um? Og ég spyr aftur: Af hverju erum við með mörg stéttarfélög ef þau eiga öll að elta það félag sem semur fyrst?


Óöldin

Ég þyrfti að setja sjálfa mig í fréttabann en ég held áfram að kvelja mig mörgum sinnum á dag. Hrokinn sem lekur af auðvaldinu er svo yfirgengilegur að mig verkjar í hjartað og sálina og er ég þó frekar laus við væmni allajafna.

Hvernig er hægt að vera með 4,3 milljónir á mánuði og leyfa sér að koma í viðtal með uppgerðarmærðarsvip og þykjast hafa samúð með Eflingarfólki sem fái ekki úr mjóslegnum vinnudeilusjóði? Sá mærðarlegi hefur meira vald en flestir til að breyta rétt gagnvart þessum hópi sem hann gerir sér upp samúð gagnvart.

Ég trúi því að margir hóteleigendur og bensínsalar vilji borga starfsfólkinu sínu mannsæmandi laun og þess vegna trúi ég ekki að stóri hópurinn greiði atkvæði með verkbanni.

Ætlið þið annars að segja mér að næsta skref sé lög á verkfall? Ég tek út fyrir svo mikið sem að skrifa þetta og ég neita að trúa því fyrr en í fulla hnefana.

Ég man verkfallið 1984. Þá fór húsvörðurinn í menntaskólanum í verkfall, ekki kennarar heldur bara einn lykilmaður í húsinu, og mig minnir að mjólkin hafi líka farið í verkfall. Þá var hún líklega enn seld í sérstökum mjólkurbúðum og gott ef hún var ekki í þríhyrndum umbúðum.

Það er viðurkenndur réttur fólks að berjast fyrir bættum kjörum sínum og sýna fram á mikilvægi starfsins sem það gegnir. Og þið vitið hvaða fólk tæki eftir því ef framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins færi í verkfall. Börnin hans sem hann myndi horfa aðeins oftar á Hvolpasveitina með. Ekki sála á vinnumarkaði eða sála í leit að þjónustu. ENGINN myndi sakna hans nema kannski fólkið við kaffivélina í Borgartúninu.

Afsakið að ég skuli vaða í persónuna en baráttan gegn sanngirni hefur bara verið persónugerð af honum sjálfum þannig að það er erfitt að aðskilja nefið og augun. Þið vitið: Náið er nef augum.

Ég væri innilega til í að víkja helstu persónum af sviðinu og láta málefnin takast á. Er sanngjarnt að fólk sé matvinnungar? 

Svari hver fyrir sig.


Verkbann?

Atvinnurekendur fara á límingunum yfir verkfalli láglaunafólks vegna þess að það lami atvinnulífið og hagkerfið en boða svo verkbann til að senda lægst launaða fólkið heim alveg tekjulaust.

Í stað þess að rétta þeim sem hóstar snýtubréf á nú að reka framan í hann olíuborinn tvist.

Til öryggis tek ég fram að ég hef það sjálf gott, er í vinnu sem ég valdi sjálf og get haft mitt líf eftir mínu höfði. Við vitum öll að það á ekki við um fólk sem þarf að slíta sér út alla daga til að smyrja hjól SA.

Í yfirlýsingu SA segir m.a.:

Sam­tök at­vinnu­lífs­ins geta ekki teygt sig lengra í átt til Efl­ing­ar án þess að koll­varpa þeim kjara­samn­ing­um sem hafa verið gerðir við öll önn­ur stétt­ar­fé­lög á al­menn­um vinnu­markaði en að baki þeim standa tæp­lega 90% starfs­fólks á al­menn­um vinnu­markaði.

Ef Efling má ekki gera kröfur fyrir sitt félagsfólk, af hverju er þá ekki bara eitt stéttarfélag í landinu?

En huggunin er að Viðskiptablaðið ætlar greinilega að taka slaginn með hjúkrunarfræðingum þegar samningar þeirra losna:

Olíubílstjórarnir eru með hærri laun en til dæmis hjúkrunarfræðingar, sem þó starfa undir miklu meira álagi, geta þurft að þola saksókn fyrir mistök í starfi og eru með margra ára háskólamenntun á bakinu. Það er ekkert sem réttlætir að olíubílstjórar hækki umfram þær gríðarlegu hækkanir sem annað launafólk hefur samið um undanfarið og verkfall þeirra er einfaldlega siðlaust.


Neyðarástand?

Eru yfirmenn á hótelum ekki í lagi? Þau tala um neyðarástand og formaður SAF um heimagerðar hamfarir. Missti þetta góða fólk af fréttum af jarðskjálftanum í Tyrklandi?

Eða tala þau um neyðarástand þegar ekki verður hægt að greiða út milljarða í arð? Er það neyðarástandið í þeirra orðabókum?

Það sýður á mér.

Ég hef alveg samúð með ferðamönnum sem grípa í tómt og fá ekki það sem þau töldu sig hafa keypt en það heyr enginn dauðastríð út af því.

Hálaunamenn - hættið að misbjóða okkur.

Tek fram til öryggis að ég hef það fínt, er ekki á skítakaupi, er í vinnu sem ég valdi mér sjálf, er með sveigjanlegan vinnutíma og borga hellingsskatt á hverju ári.


Tæmast búðirnar?

Ég er auðvitað lúxusdýr sem get leyft mér að hafa litlar áhyggjur af mínu persónulega lífi þrátt fyrir yfirstandandi og yfirvofandi verkföll, en er hótun um að matvöruverslanir tæmist ekki ótrúlega góð áskorun fyrir mörg okkar að grafa ofan í frystikistuna og tæma skápana?

Hins vegar er ég sannfærð, og meira en það, um að búið verði að semja um helgina.


Eldsneytisþurrð

Ég er eiginhagsmunaseggur eins og við flest. Ég gisti ekki á hótelunum í Reykjavík og ég seldi bílinn minn um helgina enda hafði ég ekki hreyft hann í rúma tvo mánuði, frá því að ég lét skoða hann síðast. Ég fer allra minna ferða hjólandi og gangandi nema þegar ég stöku sinnum fæ far með öðrum. 

Yfirvofandi bensínþurrð káfar því ekkert upp á mig. Ég skil að barnafólk sem þarf að fara langar leiðir til að koma börnunum sínum í skóla og aðrar langar leiðir til að komast í vinnu og verslanir kippi sér upp við yfirvofandi skort en mikið væri nú gaman að fólk í þeirri stöðu - og allt fólk - íhugaði mikilvægi þeirra starfsmanna sem sjá okkur fyrir grunnþörfunum. Ef samfélagið fer á hliðina í nokkra daga þegar hótelþernur og olíubílstjórar leggja niður störf en enginn tæki eftir því þótt framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins færi til Kanada og kæmi heim eftir fjóra mánuði ... þarf ég að segja meira?

Ég veit ekki öll laun allra en það er grundvallaratriði að bera saman grunnlaun stétta og einstaklinga, ekki heildarlaun með ómanneskjulegri yfirvinnu, langdvölum frá heimili og hættulegu starfi. Og kannski ég skjóti því hér inn að búið er semja við leiðsögumenn um smáaura: 

Niðurstaðan er á þann veg að já sögðu 42, eða 67,74 %, nei sögðu 19, eða 30,65%, og einn tók ekki afstöðu eða 1,61%. Niðurstaðan er því skýr. Kjarasamningurinn hefur verið samþykkur.

42 leiðsögumenn samþykktu samninginn fyrir hönd allra þeirra sem þiggja laun eftir honum og ég get sagt að laun eru greidd eftir samningnum. Sárafáir leiðsögumenn eru yfirborgaðir eða voru það a.m.k. meðan ég var í stéttinni. Samt eigum við að vera altalandi, líka með öll fagorð, á erlendu tungumáli, sérfróð um allt sem fólk gæti langað að vita, við eigum að skemmta, hugga og helst alltaf að vera til taks í hringferðunum. Leiðsögmenn fara vissulega upp í milljón á mánuði með stöðugri viðveru og taka sér síðan einhverja daga í að hvíla sig og safna kröftum eftir törnina. En að vísu er engin lífsógn fólgin í syfjuðum leiðsögumanni, ólíkt vansvefta bílstjóra.


Tjón af verkfallsaðgerðum - SA

Fréttaflaumurinn er svo stríður að ég finn ekki fréttina af því þegar framkvæmdastjóri SA sagðist myndu gera kröfu um að Efling myndi bæta tjón sem hlytist af verkföllum.

Tjón vegna þess að láglaunafólkið vinnur ekki vinnuna.

Af hverju ætti það að verða mikið tjón?

Aldrei hef ég heyrt forkólfa atvinnulífsins tala um þann mikla gróða sem hlýst af störfum láglaunafólks.

Hvernig ætti að verða mikið tjón nema vegna þess að störfin eru mikilvæg og verðmæt?

Ef þið þekkið einhverja blaðamenn megið þið gjarnan biðja þau um að spyrja gagnrýninna spurninga. Það er of lítið um gagnrýna fréttamennsku.


Arfur barnabarnanna?

Fyrir ekki svo löngu sagðist kunningjakona mín vera félagsmaður í EAB, félaginu Eyðum arfi barnanna, sem fundar aldrei og hefur engin félagsgjöld. Þau hjónin eru rúmlega sextug og eru farin að huga að starfslokum og ætla svo að flækjast um og hafa gaman og reikna svo með að þegar þau falla frá erfi börnin íbúðina sem þau eiga skuldlausa.

Svo hlustaði ég á viðtal við mann sem leggur til að við arfleiðum barnabörnin frekar en börnin. Ég hlustaði ekki nógu mikið á smáa letrið en geri ráð fyrir að hann sé að hugsa um lagalegu hliðina og e.t.v. erfðafjárskatt sem sé þá greiddur í annað hvert skipti, svo að segja. Þarna er auðvitað gengið út frá því að fólk eigi börn og barnabörn og að góður samgangur sé á milli hlutaðeigandi. Svo er nú líka sagt að maður þekki fólk ekki fyrr en maður hefur skipt með því arfi.

Mín hugmynd er að aflögufært fólk liðsinni börnum sínum og/eða barnabörnum alla ævi. Mér finnst samt að allt fólk eigi að þurfa að hafa svolítið fyrir hlutunum. Ég held að við kunnum ekki nógu vel að meta það sem við fáum fyrirhafnarlaust upp í hendurnar. 

En aðallega finnst mér að fólk eigi að njóta eigin erfiðis eins og það kýs helst og reyna að hafa gaman af lífinu þangað til því lýkur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband