Færsluflokkur: Dægurmál
Föstudagur, 13. desember 2019
Hamfarahlýnun
Ég lagði orðið hamfarahlýnun í belginn hjá RÚV. Ég giska á að orðin mútur og Samherji (samherji) fái nokkrar tilnefningar, jafnvel spilling og afland, eða rafmagnssnúrur en ég held í alvörunni að of mikil hlýnun sé skaðvaldur og sé okkur sjálfum að kenna að einhverju leyti. Árið í ár endurspeglar þann veruleika.
Ég tilnefndi reyndar líka Samróm.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 12. desember 2019
RÚV stendur sig
Kannski er ég bara of löt til að finna erlendu vefslóðirnar en Ríkisútvarpið skaffar mér hvort eð er beina útsendingu af kosningasjónvarpinu í Bretlandi. Landar Boris sigri?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 11. desember 2019
Meðvirkni drepur
Ég held reyndar ekki að ég hafi verið í lífshættu vegna minnar meðvirkni en hún drepur samt dálítið lífsgleðina og trú á réttlætið.
Ég á bróður sem er nokkrum árum eldri en ég. Hann var orðinn drykkjumaður á unglingsárunum en fór í meðferð og hætti að drekka 23 eða 24 ára ef ég man rétt. Eftir það tipluðu mamma og pabbi eilíflega á tánum í kringum hann, alltaf logandi hrædd um að hann félli. Ég held að hann hafi ekki fallið fyrir áfenginu í 30 ár en miðað við hæpið í honum gæti hann vel hafa verið á öðrum hugbreytandi efnum allan tímann. Hann hefur alltaf verið allur á lofti, með heillandi framkomu fyrir þá sem kunna að meta miklar skýjaborgir, tollað illa í vinnu og námi því að aldrei var neitt nógu gott fyrir hann. Hann útskrifaðist samt sem garðyrkjufræðingur um síðustu áramót og er nú skráður deildarstjóri Ölurs. Ég vona að hann standi sig þar í verklega þættinum en get því miður vottað að hann er ófær um að skrifa heimildaritgerð. Hann hefur aldrei tileinkað sér neina grunnfærni í akademískum vinnubrögðum og ég er í alvörunni glöð ef hann getur hlúð að græðlingum og komið þeim upp.
Í hruninu lenti hann illa í ýmsu bæði með fyrirtæki og húsnæði. Ég lánaði honum handveð í bankareikningi og að því var gengið. Ég var dofin eins og margir í hruninu þótt ég hafi sjálf ekki misst vinnu eða húsnæði en það stóð aldrei til að gefa honum 5 milljónir. Aldrei. Og af hverju hefði ég átt að vinna þrotlaust og fara vel með mitt sjálfsaflafé til að hann gæti hlunnfarið mig? Það stóð aldrei til.
En það klikkaða er að af meðvirkni með Gumma og svo mömmu og pabba sem voru alltaf stressuð yfir honum gekk ég aldrei eftir endurgreiðslu lánsins meðan þau lifðu. Mamma dó fyrir tæpum tveimur árum og pabbi núna í ágúst og þau eftirlétu honum nóga peninga til að endurgreiða mér skuldina. Hann er að reyna að koma sér hjá því þótt hann hafi gengist við skuldinni. Honum finnst ég bara ekki nógu blönk til að hann þurfi að borga mér það sem hann fékk lánað hjá mér og einhver hluti af honum heldur að ég sé viðskiptabanki og lánið viðskiptakrafa.
Pabbi var í eitt ár og níu mánuði á Hrafnistu, leiður allan tímann og saknaði mömmu. Gummi fór til hans fjórum sinnum á þeim tíma og aðallega til að suða um peninga við hann. Ef hann hefði séð sóma sinn í að fara til pabba á sirka 10 daga fresti, spila við hann, spjalla og stytta honum stundir hefði ég sennilega verið til í að sýna honum umburðarlyndi. En Gummi er bara eitt útblásið egó og gerir ekki neitt nema sem hann heldur að hann geti grætt á. Þess vegna gef ég núna ekki tommu eftir. Mér líður líka strax betur þegar ég er búin að deila því með einhverjum hvaða mann bróðir minn hefur að geyma og það styrkir mig í því að vera ekki lengur meðvirk.
Hann sótti fundi áratugum saman hjá AA sem styrkti í honum sjálfselskuna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. desember 2019
Fúsksamfélagið
Ég sé þetta víðar. Það má ekki gera kröfur. Það má ekki gagnrýna. Það má ekki biðja fólk um að vanda sig.
Maður á bara að gleypa gagnrýnina á óvandvirkni, fúsk og leti því að ekki má styggja hina lötu og gráðugu. En þeir sem eru ekki latir og óvandvirkir sópa upp eftir hina sem ekki má hrófla við því að margir eru líka duglegir og áhugasamir um að standa sig.
Að lokum verð ég að taka undir það sem ég heyrði á þingi í dag:
Kirkjujarðasamkomulagið svokallaða er óheiðarlegasti samningur sem ég hef nokkurn tímann vitað af.
Aðskiljum kirkju og ríki, takk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 10. desember 2019
Landspítalinn forðast beinar uppsagnir
Þrennt er mikilvægara en flest á Íslandi, heilbrigðiskerfið, menntakerfið og samgöngurnar. Sjálf hef ég verið heppin og sloppið við veikindi en það er öruggt mál að LSH er undirmannaður, tjah, nema mannskapurinn sé skelfilega illa nýttur. Er Páll að segja það?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 8. desember 2019
Vettvángur dagsins
Ég horfi næstum alltaf á Silfrið og oft ofbýður mér tilgangsleysi umræðunnar. Menn tala um sjálfsagða hluti og bæta engu við. Það er algengt, menn ræða sig sjaldnast að niðurstöðu og hver nýr umræðuþáttur bætir litlu við. Nú er ég auðvitað að alhæfa og biðst afsökunar á því en það er samt svo svakalegt að við tölum og tölum (eins og ég núna) og ekkert breytist.
Kári sagði að ef tölur væru réttar þyrfti að rannsaka málið og fá botn í umræðuna. Heiðrún svaraði ýmsu spaklega eins og hún hefur tileinkað sér en hún svaraði bara ekki gagnrýni Kára. Og svo gekk á þessu í hálftíma, endurtekningar á endurtekningar ofan. Ég er sammála Kára um mikilvægi sjávarútvegs og er montin af fiskveiðum sem héldu lífinu í okkur öldum saman. Og það er ótækt að lítill hópur manna, íslenskra eða erlendra, haldi ágóðanum fyrir sig. Við vitum öll að heilbrigðiskerfið er undirmannað og undirfjármagnað. Því miður er ég ekki heilbrigðismenntuð og því algjörlega getulaus í því kerfi en mér finnst brýnt að það standi sig. Ég væri til í að borga meiri skatta en ég geri ef ég væri viss um að skattfé mitt rynni ekki lóðbeint í hít þeirra sem mest mega sín. Það óttast ég núna. Og það er fokkings slæmt.
Getur einhver sannfært mig um að skattfénu mínu sé vel varið?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 6. desember 2019
Aðgerðalaus í vinnu
Vill einhver vera aðgerðalaus í vinnu heilu dagana? Ég ímynda mér að öllum finnist næs að geta liðkað axlirnar og jafnvel átt einn og einn rólegan dag en fjandakornið ekki að sitja iðjulaus í vinnunni allt sumarið svo ég nefni eitthvað af handahófi.
Nú er tæknin orðin þannig að í mörgum störfum er margt fljótunnara en áður. Er ekki eðlilegt að báðir aðilar njóti góðs af, sá sem veitir vinnuna og sá sem vinnur vinnuna?
Ég vona af faglegum ástæðum að í síðasta lagi árið 2021 verði lögboðin vinnuvika 35 stundir á viku -- og til vara 32 stundir, fjórir heilir dagar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 5. desember 2019
Níu mínútur á dag
Ég er alveg búin að læra það að fréttir í fjölmiðlum segja aldrei alla söguna og ég skil það meira að segja. Ef öll smáatriðin yrðu sögð læsi enginn til enda. Fréttina af Ölgerðinni skil ég hins vegar eiginlega ekki. Hvaða málefnalegu rök gætu verið fyrir því að skikka fólk til að skipta um stéttarfélag? Og níu mínútur á dag þýða ekki endilega að fimm færri kassar fari út til kúnnanna, er það nokkuð? Eða munum við drekka minna appelsín fyrir vikið?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 3. desember 2019
Þegar maður er óhæfur til verka
Maðurinn er búinn að halda starfinu í tæp 22 ár og lesandi gæti ætlað að maðurinn hefði eitthvað með sér.
Hann lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands 1983 og stundaði í kjölfarið framhaldsnám í afbrotafræði við Ríkisháskólann í Flórída. Hann var fangelsismálastjóri frá 1988 til 1997 og varalögreglustjóri frá 1997.
Trúlega hafði hann áhuga og getu til að byrja með en þegar átta af níu nánustu undirmönnum hafa lýst yfir vantrausti hlýtur eitthvað að vera að einhvers staðar. Af hverju fer hann þá í burtu með fulla vasa af peningum? Ég hef alveg unnið með einum eða tveimur útbrunnum starfsmönnum á langri starfsævi og ég held að það fólk hafa fæstar efasemdir um eigin getu eða hæfni. Ég held að fólk brenni nefnilega ekki bara út af álagi eða ofmetnaði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 2. desember 2019
Að kaupa sér hlaupaúr á Amazon
Nú er ég búin að bjástra við það í tvö kvöld að reyna að kaupa mér (sjúklega fallega grænt) hlaupaúr á Amazon og ætlaði að láta senda það á heimilisfang í Bandaríkjunum. Gengur ekki.
Fleira var það ekki í kvöld. Ég græt mig bara í svefn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)