Færsluflokkur: Dægurmál
Miðvikudagur, 25. desember 2019
Hámhorf á Vesalingana
Ég er að hámhorfa á Vesalingana í boði RÚV. Þetta er að vísu bresk útgáfa í frönsku umhverfi en sagan er spennandi í sjálfu sér og þörf áminning um helvítis grimmdina sem viðgekkst. Það þótti sjálfsagt, eða hvað, að setja mann í 20 ára þrælkunarvinnu fyrir að stela brauðhleif, að börnum væri þrælað út og að konur seldu sig til að ala önn fyrir börnum sínum. Og börnunum og konunum virðist hafa fundist það eðlilegt líka.
Ég er langt komin með seríuna en ég missti af því með hvaða manni Fantine átti Cosette og ég skil ekki af hverju Jean Valjean kemst í svo miklar álnir. Þetta eru alveg mikilvægir þættir í framvindunni og ég held að þetta hafi bara ekki komið fram. Skrýtið. En ég hlakka samt til að halda áfram, þetta er svo jólalegt. Svo les ég bók í kvöld!
Es. Ég veit að grimmd og óréttlæti hefur ekki verið upprætt í heiminum öllum en okkur hefur miðað fram á við víða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 24. desember 2019
Ég er með í eyrunum
Ég er alveg búin að gatslíta barnsskónum en ég er með svo sáran eyrnaverk að hann heldur stundum fyrir mér vöku. Í gærmorgun endaði ég meira að segja á heilsugæslustöðinni og fékk skrifað upp á dropa sem sulla nú í eyrunum.
Samúð mín með smábörnum er ómæld á þessari stundu.
Gleðileg jól annars.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 22. desember 2019
Laus störf í heilbrigðisgeiranum
Ég er í frábæru starfi þar sem þekking mín, menntun og reynsla nýtist til fulls. Ég hlakka alla daga til að mæta og kljást við textana, fundargerðir og ýmsar tæknilegar hliðar, en þegar ég ráfa inn á Starfatorgið af forvitni einni saman fæ ég oft hland fyrir hjartað. Þar er í sífellu auglýst eftir heilbrigðisstarfsfólki. Það er ekki tekið fram í auglýsingunum en svo virðist sem fólki sé ætla að hlaupa alla vaktina og helst lengur á lúsarlaunum miðað við menntun, ábyrgð og vinnuframlag.
Ætlum við í alvörunni aldrei að taka U-beygjuna og umbuna fólki fyrir að bjarga lífi og heilsu okkar?
Öll störf skipta máli ef þeim er sinnt af alúð og ég reyni að hlúa að máltækninni þannig að við getum lengur talað móðurmálið í heimalandinu en ég vildi alveg geta lengt líf og aukið lífsgæði fólks. Ef ég væri að velja mér nám núna veldi ég sennilega hjúkrunargrein.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 21. desember 2019
Ég græt með bændunum og hrossunum
Ég er hvorki bóndi né hestamaður en ekki hvarflar að mér að bændur og hestamenn hafi viljað hestunum sínum illt. Ekki dettur mér í hug að andskotast út í norðanmenn eftir illviðrið í síðustu viku. Þvert á móti finn ég til með mönnum og málleysingjum sem lentu í veðurbálinu.
Mig langar að hafa fleiri orð um hlutina en þá færi ég bara að endurtaka mig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 20. desember 2019
Brot á umferðarlögum
Ég fagna því að um áramót eigi að fara að sekta okkur fyrir að leggja bíl röngu megin miðað við akstursstfnu. Þegar maður leggur þannig brýtur maður alltaf lögin og eins og bent er á í fréttinni hefur ríkt úrræðaleysi gagnvart brotunum. Ég játa með trega að ég var búin að gefast upp fyrir fjöldabrotunum og farin að leggja svona sjálf af því að öllum virtist sama.
Aldrei framar.
Því miður finn ég ekki skýrt ákvæði um þetta í nýjum umferðarlögum, bara þetta í 28. gr.:
Utan þéttbýlis má einungis stöðva eða leggja ökutæki hægra megin miðað við akstursstefnu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 19. desember 2019
Ofát á aðventunni
Einhvern tímann heyrði ég kenningu nema það hafi hreinlega verið rannsókn sem ég las. Maður í aðhaldi borðar köku sem hann heldur að sé ofhlaðin kaloríum og fær sér aftur af því að hann hefur hvort eð er látið fallerast. Sá sem heldur að kakan sé ekki eins kaloríurík fær sér ekki aftur af því að aðhaldið er ekki farið út um gluggann. Báðir mennirnir fitna jafn mikið eða lítið af fyrstu sneiðinni, þetta snýst bara um hvað þeir halda í hausnum á sér.
Nú segi ég: Þótt maður fái sér kannski fullmikið kruðerí á aðventunni getur maður samt gætt hófs næsta dag því að saran er ekki eins og verðbólguskot sem hækkar lánið varanlega. Maður gæti samt verið í kjörþyngd á aðfangadag. En ég er enn ansi södd síðan í gær ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 18. desember 2019
Spilling og agaleysi
Sá sem gagnrýnir á það á hættu að vera gagnrýndur af hinum gagnrýnda. Þess vegna held ég að fólk veigri sér við að segja sannleikann. Kannski er ég að hugsa um samfélagið sem ég bý í en ég ætla að taka lítið dæmi. Einu sinni var ég að vinna með konu sem gerði smávægileg mistök sem ég benti henni á til að hún gerði þau ekki aftur. Þið getið öll hugsað ykkur dæmi en ég ætla ekki að segja hvers eðlis villan var. Segjum sem svo að hún hafi ekki sett mjólkina inn í ísskáp og ég sagt: Ef þú setur hana ekki inn í ísskáp fljótlega verður hún súr. Eða konan hafi brotið saman þvott og farið með eitt handklæði í einu í skápinn hinum megin á ganginum og ég sagt: Það er fljótlegra að fara með fullt fangið af þvotti í línskápinn. Eða hún farið niður tvo stiga og upp annan stiga af því að hún fann ekki millihurð sem sparaði henni einn stiga niður og aftur upp. Öll dæmin eru tilbúin og í öllum tilfellum er forsendan að hún hafi ekki áttað sig á þessu. Í öllum dæmunum segi ég þetta sisona og ekki með neinni dramatík sem er líka það sanna í raunverulegu sögunni.
Þessi kona sagði í raunverulega dæminu: Ég ætla að hefna mín og benda þér á eitthvað sem þú gerir vitlaust.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 16. desember 2019
Ráðningarferli er höfnunarferli
Ef ein staða er auglýst og tíu sækja um er níu manns hafnað, 90%. Þess vegna þarf maður ekki að taka nærri sér þótt maður fái ekki stöðu sem maður sækist eftir ef hæfari einstaklingur sækir um.
Ég sótti um starf hjá EFTA í október, fór í viðtal í Brussel í nóvember og fékk neitandi svar í morgun. Strax 29. nóvember þóttist ég vita að ég fengi ekki starfið en er fegin að vera komin með skýrt svar til að geta gert plön á næsta ári. Ef ég hefði fengið starfið hefði ég þurft að flytja til Brussel, sem var spennandi, og byrja í nýju starfi þar í síðasta lagi 1. mars 2020.
Ég var mjög til í það en þar sem ég hef væntanlega átt við ofurefli að etja er ég bara glöð með að hafa komið til greina. Í staðinn fæ ég fleiri vikur til að einbeita mér að MA-ritgerðinni minni í þýðingarfræðum og eftir það hefst nýr lífskafli sem ég hlakka mikið til.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 15. desember 2019
Agaleysi samfélagsins
Ég var að hlusta á Sprengisand og umræður um rafmagnsleysið sem varð vegna veðurofsans í vikunni. Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, er ómyrk í máli og vandar þeim ekki kveðjurnar sem hefðu getað búið sig okkur betur undir það sem vitað var að yrði. Ég held að hún segi ekkert nema sannleikann í málinu og taki svolítið að sér að benda á klæðlausa keisarann. Með síhækkandi aldri mínum er ég nefnilega loks farin að sjá og viðurkenna magnað agaleysi í íslensku samfélagi. Ég get líka kallað það meðvirkni því að ég held að ég hafi verið illa haldin af henni.
Sá sem gagnrýnir er líka útsettur fyrir gagnrýni. Sá sem bendir á gallana og mögulegar úrbætur verður fyrir því að sá sem gagnrýnin beinist að vill ná sér niðri á þeim sem gagnrýnir. Er ekki uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson alveg ótrúlega gott dæmi?
Við gætum öll haft það gott á Íslandi. Ég skal ekki segja með allan heiminn en Ísland býr svo vel að auðlindum að hér þyrfti enginn að líða skort. Það þýðir ekki að við eigum að ala á leti eða því að fólk hafi ekki fyrir hlutunum, mér finnst eðlilegt að við leggjum öll okkar af mörkum. En meðan varsla fjár er miklu meira metin en gæsla barna og umönnun sjúkra og aldraðra er ekki von á góðu. Og öruggt rafmagn er klárlega grundvallaratriði í lífsgæðum okkar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 14. desember 2019
Fjórða iðnbyltingin
Í hádeginu í gær fór ég á fyrirlestur um fjórðu iðnbyltinguna. Ólafur Andri Ragnarsson rakti söguna frá 2007 þegar Steve Jobs kynnti byltinguna um snjalltæki, þrjár græjur saman í einni. Núna er rétti tíminn til að stíga skref aftur á bak, horfa yfir sviðið og rifja upp þegar menn hlógu að öðrum fyrir það sem þeir kölluðu tímabundnar bólur sem myndu springa.
Við viljum ekki missa farsímana, smátölvurnar, heimabankana, sjálfvirku þvottavélarnar, rafmagnshjólin, Netflix, vatnsklósettið -- og rafmagnið í heild sinni. Við verðum að fagna fjórðu iðnbyltingunni og öllum tækninýjungunum án þess þó að verða sjálf róbottar. Flugbílar eru í bígerð, vélar gætu eldað þegar búið er að mata þær á uppskriftum og aðferðum, drónar fara ofan í þröng gljúfur í leit að fólki og gerviaugu kanna magainnihald.
Við lifum stórkostlega tíma. Reynum að lifa í núinu og njóta þessara framfara.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)