Færsluflokkur: Dægurmál

Ég vild'ég væri hjúkrunarfræðingur (eða læknir)

Ég meina ekki 100% það sem stendur í fyrirsögninni en ég öfunda mjög mikið fólk sem er með þannig menntun að það getur látið gott af sér leiða. Ekki svo að skilja að mér finnist ég gagnslaus en hjúkrunarfólk getur bjargað lífi.

Ef ég væri hins vegar pólitíkus sem hefði tekið frá 67 milljarða fyrir 20 árum til að byggja spítala og búa hjúkrunarfólki betri kjör og aðbúnað myndi ég skammast mín óendanlega mikið. Ég skammast mín þegar ég ruglast á vergri landsframleiðslu og ríkisútgjöldum og ef ég hefði tekið að mér að lappa upp á hjúkrunarkerfið og ekki gert það væri ég löngu farin í annað starf sem hentaði mér betur og hefði eftirlátið uppbygginguna þeim sem kæmu því í verk. Er það kannski enginn?


Listamannalaunin

Það er alveg á mörkunum að ég vogi mér inn á það jarðsprengjusvæði sem umræða um listamannalaunin er. Ég er hlynnt þeim. Þau eru arðbær. Skapandi greinar skila okkur tekjum. Ég er líka hlynnt því að við borgum kennurum, læknum, iðjuþjálfum, strætóbílstjórum og landvörðum laun. Ég veit ekki hvernig launasetningin er alls staðar, hversu hátt hlutfall er greitt af hinu opinbera og hvers miklar tekjur koma á móti, en við búum í samfélagi sem væri einsleitt ef engin væri tónlistin, myndlistin, ritlistin eða leiklistin. Ef við ættum að borga það fyrir ferð í leikhúsið sem hún kostar í raun væri í fyrsta lagi ekki hægt að reikna það út fyrr en eftir á, þegar leikárið væri gert upp, og í öðru lagi gæti líklega enginn leyft sér það nema Þorsteinn í Samherja, Guðmundur í Brimi, Skúli í WOW og þeirra líkar.

Sá peningur sem ég sé persónulega mest eftir er sá sem fer í þjóðkirkjuna. Það má vel vera að prestar séu ekki ofhaldnir en kirkjujarðasamkomulagið sem enginn virðist skilja kostar okkur milljarða á hverju ári en listamannalaunin 600 milljónir, skilst mér. Og þá aftur að þeim. Ég er mjög þakklát fyrir að þurfa ekki að velja úr umsóknum, velja og hafna, því að áreiðanlega fá einhverjir ómaklegir laun og einhverjir maklegir fá ekki. Þetta eru ekki vísindi og ekki hægt að reikna út í excel-skjali hvað er sanngjarnt. En nú er t.d. Hildur Guðnadóttir nýbúin að fá Golden Globe verðlaun fyrir tónlistina í Joker og hún var á listamannalaunum 2012 og 2015. Getur verið að þetta hafi munað því að hún gat leyft sér að einbeita sér að sköpun tónlistar? Erum við alltaf þess umkomin að átta okkur á hvaða fólk er eða verður síðan á heimsmælikvarða? En auðvitað þurfa ekki allir að komast á pall til að verðskulda laun fyrir vinnuna sína.

Skyldi fólkið sem gagnrýnir listamannalaunin hæst hafa tekið eftir sóun í samfélaginu? Nýtast allir landbúnaðarstyrkirnir? Getur verið að við gefum stórum útgerðarfyrirtækjum of mikið eftir af sköttum og gjöldum? Hvað með bankana? Af hverju eru innlánsvextir 0,05% en útlánsvextir á sömu reikningum 11,9%? 

Ég get alveg skilið að ellilífeyrisþegar með 239.000 á mánuði og öryrkjar með 212.000 telji sig vanhaldna en það er sjálfstæð barátta og óháð listamannalaununum. Hærri upphæðin er ekki langt undir þeirri upphæð sem listamannalaunaþegar fá eftir skatt og flestir auðvitað ekki alla mánuði öll ár.


Ég er >lean

Ég gæti alveg eins sagst vera skipulögð, skilvirk, straumlínulöguð eða ástunda skynsamleg vinnubrögð. „Lean“ hefur mikið verið í umræðunni síðustu árin eins og þessi hugmyndafræði sé glæný. Hún er það ekki. Hún á uppruna sinn í bílaverksmiðjunni Toyota sem vildi hámarka framleiðsluna og væntanlega gróða sinn. Japaninn Toyoda taldi sig ekki geta bruðlað með hráefni og landnýtingu eins og Ford gerði.

Fólk vill innleiða svona skipulag í vinnu, gera hana skilvirkari, fara betur með hráefni og tíma, lágmarka bið og flutninga. Þar er ég innilega sammála og tel mig hafa staðið fyrir því á mínum vinnustað undir öðru nafni, sem sagt hagkvæmni til að spara tvíverknað.

Ókosturinn við að vera svona lean er að eiga bágt með þegar aðrir bruðla með tíma eða hráefni. Mér var t.d. bætt á síðu á Facebook um að samnýta far milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Frábært. Frá því að síðan var stofnuð hef ég tvisvar farið til Keflavíkur, einu sinni til að skutla og einu sinni að sækja. Ég hefði getað tekið einhvern með en flestir sem auglýsa eftir fari segja varla hvort þá vanti far eða séu að bjóða og varla nokkur hvar í bænum. Ef ég ætla að fara úr Hlíðunum snemma á sunnudagsmorgni nenni ég ekki að sækja einhvern upp í Grafarholt í leiðinni. Það er nefnilega ekki í leiðinni. Mér finnst að fólk þyrfti að tilgreina hverfið og þann hálftíma sem það vill leggja af stað, já, og helst brottfarartíma flugvélarinnar svo fólk sé á sömu blaðsíðu.

Annað dæmi sem ég næ ekki sambandi við er ef átta manna hópur ætlar að mæla sér mót og einhver stingur upp á stað og tíma en fyrsti maður svarar: Kemst ekki. Ef það er mikilvægt að allir komist verður hann að segja hvenær hann kemst eða þau búa til skjal með mögulegum fundartímum og merkja við dagana sem koma til greina. Svo augljóst! En fólk gerir það ekki alltaf ...

Ég heyrði að bjór væri framleiddur á Akureyri, fluttur til Reykjavíkur og dreift þaðan, m.a. til Akureyrar. Ég heyrði að matur væri eldaður á Hvolsvelli og fluttur til Reykjavíkur. Ég heyri að bréf sem er sent frá Bolungarvík til Ísafjarðar millilendi í Reykjavík. Ef þetta er satt, eitt, tvennt eða allt, finnst mér það til marks um fáránlega sóun.

#égerlean


Lögin eru ósanngjörn

Ef ég gæti breytt því upp á mitt eindæmi myndi ég hækka hlutfall ríkisútgjalda til heilbrigðismála úr 8,3% upp í 11% á eftir. Heilbrigðiskerfið og menntakerfið skáka öðru í mínum augum. Skammt undan eru svo samgöngur. Tekjur skipta líka máli og alveg áreiðanlega er hægt að afla þeirra af meiri sanngirni en gert er í dag.

En ég er ekki í pólitík – nema ef vera skyldi minni eigin fjölskyldupólitík. Ég á bróður, Guðmund Steinsson sem er nú garðyrkjufræðingur á Sólheimum, sem fékk lánaðar hjá mér 7 milljónir króna – það er ekkert lítið – árið 2008. Hann veit af skuldinni en ætlar ekki að borga hana og ég veit ekki hvort lögin heimila honum að skella skollaeyrum við. Samkvæmt fyrningarlögum á að halda kröfu vakandi frá því áður en fjögur eru liðin frá því að stofnað er til hennar.

Árið 2012 var bróðir minn mikið grey, tolldi ekki í vinnu og ekki í námi. Hann var afæta á mömmu og pabba sem vorkenndu honum af því að hann er óvirkur alkóhólisti og þau höfðu eilífar áhyggjur af að hann dytti í það. Hann reyndi ýmislegt, keypti bílasölu, vídeóleigu, sjoppu og Víðigerði sem er rétt við afleggjarann að Hvammstanga. Ekkert gekk upp hjá honum, allt fór á hausinn og ég hef enn þann dag í dag ekki hugmynd um hversu miklum fjármunum mamma og pabbi töpuðu á honum.

Fyrir 2012 hefði ég þurft að byrja að rukka hann og halda síðan kröfunni vakandi þangað til hann hefði efni á að borga mér skuld sem hann hefur sannanlega gengist við. Hefði ég kannski átt að biðja mömmu og pabba að selja íbúðina sem þau bjuggu í til að borga lánið hans? Það var alltaf alveg á hreinu að þegar hann fengi arf myndi hann borga mér skuldina. Það var bara aldrei skrifað niður. Auðvitað hefði ég aldrei látið mér detta í hug að þau seldu ofan af sér til að borga lausaskuldir sonar síns. Þetta var ekki þeirra skuld.

Mamma og pabbi voru alltaf skilvís og með allt sitt á hreinu. Þau voru gott fólk og þau gerðu sitt besta. Því miður létu þau Gumma komast upp með að ganga í hirslurnar hjá sér því að það veit sá sem allt veit að ekki hefur það gert honum gott. Hann er í mínum augum vesalingur en eins og þau vorkenndi ég honum of mikið áratugum saman til að tryggja mig gegn ósanngjörnum lögum.

Ef ég stæði núna í þeim sporum að vilja lána einhverjum sem þyrfti á því að halda myndi ég auðvitað segja nei af því að þessi lög vernda skussana.


Köllun eða kulnun

Ég var að hlusta á hádegisfréttir og þar var talað um að 20% hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum héldu að þau yrðu ekki þar að störfum í lok ársins. Og þá rifjast upp fyrir mér að sumar stéttir eru sagðar hafa köllun til að sinna þeim, hjúkrunargeirinn, prestar og sjálfsagt fleiri. Ég man eftir pælingum í gamla daga um að fólk sem hefði köllun til tiltekinna starfa ætti ekki að krefjast hárra launa. Florence Nightingale og móðir Teresa koma upp í hugann. Hins vegar hafa bankastjórar, útgerðarrisar og stórkaupmenn enga sjáanlega hugsjón en fá vel borgað og brenna ekki út, þá kelur ekki í starfi.

Ég veit að þetta er svolítið vaðalskennt hjá mér þannig að ég ætla að reyna að bæta um betur. Hjúkrunarfræðingur sem brennur fyrir starfinu gefst upp eftir eitt, tvö, fimm eða tuttugu ár þegar hann (hún) hefur hlaupið sig móðan og klárað úthaldið vegna þess að aðbúnaðurinn gerir ráð fyrir að viðkomandi þurfi ekki sæmilegt lífsviðurværi. Sá sem hefur engan metnað til annars en að maka eigin krók klárar aldrei úthaldið og gefst ekki upp fyrir álaginu.

Sá sem er áhugasamur um að ná árangri fyrir hönd stéttarinnar gefst frekar upp en sá sem hefur ekki þann metnað.

Ég veit að þetta er ekki nógu skýrt sett fram hjá mér en ég veit hvað ég er að meina ... 


Kalt bað á fyrsta degi ársins

Ég stunda sjósund af því að það er skemmtilegt en ég þekki glettilega marga sem finna verulegan mun á heilsunni með því að fara í köld böð eða köld og heit til skiptis. 

Eftir sundið og pottinn í dag fór ég heim og horfði á Guðna Th. í seinkaðri dagskrá tala veröldina upp eins og forsetar eiga að gera. Ég veit að árið 2020 verður frábært enda hefur svona symmetrískt ár ekki verið í boði síðan 1919.


mbl.is Synt í köldum sjó á nýju ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður þekkir ekki fólk fyrr en maður hefur jarðað nákominn með því

Einhver hefur sagt þessa fyrirsögn og margir tekið undir. Á Bylgjunni í gær var einmitt verið að tala um erfðamál og mér leið eins og þau væru að tala um mig og systkini mín. Ég hafði ekki áttað mig á hversu gríðarlega algengt það væri að systkini reyndu að hlunnfara systkini sín eða foreldra sína sem er ekki síður alvarlegt. 

Reykjavík síðdegis 30. desember byrjar á mínútu 1:44 (sirka) með kynningu á efninu og svo viðtali við sr. Hildi Eir Bolladóttur.


... en sá sem gætti hagsmuna hans í fyrstu sagði sig frá því í gær

Ég man eftir viðtali við formann Lögmannafélagsins í vor þar sem hún sagði að fólk mætti ekki samsama lögmanninn þeim verkefnum sem hann tæki að sér. Ég hjó sérstaklega eftir þessu vegna þess að mér mislíkaði það að bróðir minn, fjárglæpamaðurinn sem er að reyna að hafa af mér fé, réð sér lögmann sem veit alveg hvernig í pottinn er búið en tekur samt að sér það skítaverkefni að ganga erinda hans, semja fyrir hann bréf og hringja erfiðu símtölin. En, nei, ég ætla ekki að samsama lögmanninn verkefninu. Ég tek fram að ég veit ekki til þess að bróðir minn, Guðmundur Steinsson, garðyrkjumaður á Sólheimum, hafi beitt líkamlegu ofbeldi, aldrei. Sem óvirkur alkóhólisti með fíknina í blóðinu beitti hann auðvitað mömmu og pabba andlegu ofbeldi því að þau voru alla ævi logandi hrædd um að hann dytti í það, yrði þungur og leiður og færi sér að voða. Þess vegna greiddu þau fjárhagslega götu hans og þess vegna gerði ég þá fjárhagslegu gloríu að lána honum pening til að hlífa þeim stöku sinnum.

Í máli lögmannsins á Aragötu er sagt að lögmaðurinn sem hafi gætt hagsmuna hans í fyrstu hafi sagt sig frá því á föstudaginn. Mig langar að vita af hverju það er. Varla er það vegna persónulegra tengsla þótt þeir (þau?) kannist sjálfsagt hvor við annan vegna þess að þá hefði viðkomandi væntanlega aldrei tekið verkefnið að sér. Bauð viðkomandi við verkefninu þegar á hólminn var komið? Vildi viðkomandi ekki samsama sig verkefninu en óttaðist það ef hann/hún segði sig ekki frá því?

Verkefni er ekki bara verkefni. Sem þýðandi myndi ég ekki taka að mér alls konar verkefni sem ég hefði ekki áhuga á að væru vel gerð þótt ég myndi vafalaust þýða leiðbeiningar um hundafóður ef ég teldi mig geta gert það almennilega og launin væru ásættanleg þótt mig langi meira til að þýða skáldsögur. Allir geta sett sig í þessi spor. Sumt gerir maður einfaldlega ekki, sama hvaða peningur er í boði.

Að svo mæltu tek ég fram að ég vil leyfa fólki að njóta vafans þegar ég veit ekki nóg um málið. Ég veit ekki nóg um Aragötumálið en mig langar að vita hvers vegna einn lögmaður hætti við. 


Elskaðu mig mest þegar ég á það síst skilið


Screenshot_20191225-210351_Instagram

Eða: Elskaðu einhvern nákominn þér þegar hann á það síst skilið. Þegar hann á það síst skilið er hann ódæll, t.d. barn sem er að kanna mörkin, eða viðkomandi líður einfaldlega illa og það brýst þannig út. Er það ekki?

Vinur minn í pólitík bregst oftast við andstyggilegum athugasemdum á bloggi eða Facebook með því að segja: Þakka þér fyrir velvildina. Það slær svolítið vopnin úr höndum hins andstyggilega. 

Mætum illu með góðu. Við getum pakkað hugsuninni inn í ýmis orð.

En ég á bróður sem er fjórum árum eldri en ég, hefur aldrei ráðið við að eiga pening og ekki heldur við að eiga ekki pening og nytsami sakleysinginn ég sem hef alltaf farið vel með pening og er þar af leiðandi aflögufær lánaði honum iðulega pening, síðast 7 milljónir árið 2008. Það var alltaf vitað að það væri lán en ekki gjöf - hver gefur líka allt að tveggja ára vinnu til þess að henni sé kastað á glæ? - og nú hefur hann fengið arf sem dekkar skuldina - enda myndi hann aldrei eignast svo mikið sem eina milljón án þess að glutra henni úr höndunum - en hann kallar lánið fyrnt og ber fyrir sig lögmann.

Ég er ekki viðskiptabanki, ég er systir sem lánaði bróður handveð sem var gengið að vegna þess að hann stóð ekki í skilum. Handveðið átti að vera algjört formsatriði og ég var blinduð af fjölskyldukærleik og smávegis því að vilja ekki að bankarnir rökuðu til sín vaxtapeningum. Nú vil ég að hann endurgreiði lánið áður en hann sólundar arfinum en hann lætur ekki ná í sig, lokar á mig og aðra sem eru krefjandi og leikur fórnarlamb.

Hann er garðyrkjufræðingur á Sólheimum og óvirkur alkóhólisti og fræðin í AA hafa kennt honum að elska sjálfan sig umfram allt og umfram alla.

Ég ætla ekki að elska þennan bróður, enda ekki hægt, og ég ætla ekki að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Þannig áhrif hefur Guðmundur Steinsson á mig. Meðfylgjandi er skjáskot af Instagram-síðunni hans. Svona er hann dæmigerður, talar fagurlega og hegðar sér öðruvísi. Kannast menn við svoleiðis úr AA-fræðunum?

 


Aðskiljum ríki og meinta þjóðkirkju

Ég sagði mig úr þjóðkirkjunni fyrir mörgum árum þegar komst upp um siðleysi einhvers prestsins. Ég veit svo sem ekki hvort ég trúi á guð en ég held að ég trúi á framhaldslíf í einhverri mynd. Það hefur bara ekkert með presta eða þjóðkirkjuna að gera. Og þegar ég horfði á sr. Pálma í fréttunum í gær blöskraði mér óhemjulega. Ég hef því miður lengi haft illan bifur á honum og þarna sýndi hann síngirni sína.

Í þessu viðtali heldur hann því í rauninni fram að fólk sem hefur sagt sig úr meintri þjóðkirkju vilji samt eiga sitt fasta sæti í kirkjunni, t.d. á jólum. Eina þjónustan sem ég bið um er að láta brenna mig og jarða þegar ég dey og þar þarf engan séra til mín vegna.

Kirkjujarðasamningurinn virkar sem mikill afleikur af hálfu ríkisins þegar það borgar endalaust til að eignast eignir en á aldrei að eignast þær samkvæmt samkomulaginu! Ekkert fyrirtæki myndi semja upp á þau kjör, enginn íbúðarkaupandi myndi gangast inn á það að kaupa íbúð sem hann ætti aldrei að eignast, ekkert barn myndi gera svona lélegan samning: Hérna færðu 15.000-kall, elskan mín, og farðu svo út með ruslið í 40 ár.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband