Færsluflokkur: Dægurmál

Atvinnulausir lögfræðingar

Nú hefur það verið sagt upphátt að lögfræðingar elta þá sem slasa sig (eða ekki) til að bjóða fram aðstoð þótt þeir sem í hlut eiga hafi ekki endilega hugsað sér að fara í mál. Ég er ekki hissa miðað við það sem ég hef heyrt upp á síðkastið. Þetta minnir mig á söguna af konunni sem keypti sér kaffi í máli til að taka með sér, hellti á gólfið (óvart hef ég gefið mér en hvað veit ég?), rann í kaffinu sínu, meiddi sig og fór í mál við kaffihúsið fyrir að selja sér svo heitt kaffi að hún réð ekki við það.


Um þá staðreynd er ekki deilt

Já, lögmaður bróður míns, sá sem tekur kannski 25.000 kr. á tímann, sagði þetta á fundi við mig í dag: Um þá staðreynd er ekki deilt að þú lánaðir bróður þínum 7 milljónir og að hann hefur ekki endurgreitt þá skuld.

Hnífurinn stendur bara þar í kúnni að skv. fyrningarlögum er skuldin fyrnd. Það var samkomulag um það að Gummi myndi borga mér skuldina þegar hann fengi pening, í síðasta lagi þegar hann fengi arf ef hann eignaðist ekki pening fyrir skuldinni áður. Ég hafði ekki einu sinni hugmyndaflug til að halda að hann ætlaði ekki að standa við það samkomulag.

Aðrir ættingjar voru búnir að sjá í gegnum hann. Ekki ég.

Nú á hann fyrir skuldinni en ætlar ekki að borga. Skilaboðin frá lögmanninum - sem ég viðurkenni að var ekki með hýrri há, hann langaði ábyggilega að geta boðið betur - voru að bróðir minn ætlaði ekki að bjóða neitt nálægt höfuðstólsskuldinni, hvað þá að hann ætlaði að borga vexti til 12 ára.

Lánið sem Gummi bróðir fékk hjá mér voru ekki loftbólupeningar, það voru peningar sem ég hafði unnið mér inn og lagt fyrir. Sjálfsagt hugsa einhverjir að ég hafi verið kjáni að lána bróður mínum svona mikinn pening. Já, ég var kjáni að treysta honum en það er minn helsti glæpur. Hann er þjófur og ómerkingur. Hann þorir ekki einu sinni að hitta mig á fundi heldur ræður sér lögmann sem hann borgar auðvitað launin með þjófstolnum peningum.

Ég hef það gott og þarf ekki að kvarta undan lífi mínu. Ég er engu að síður ósátt við að láta stela af mér og að þjófurinn sé varinn af lögum. 

Guðmundur Steinsson hefur kannski haldið að hann losnaði við sannleikann og áminningar til dauðadags fyrir 1 milljón, ég veit það ekki. Engin upphæð var nefnd. Ég sit uppi með mikla vanlíðan og óhamingju yfir að eiga svona albróður sem ég er búin að átta mig á núna að kúgaði elsku mömmu alla ævi. Hún var alltaf logandi hrædd um að hann dytti í það og færi sér eða einhverjum öðrum að voða.

Elsku mamma. Elsku pabbi.


Mamma

Mynd frá Berglind Steinsdóttir.

Mamma mín fæddist 31. desember, dó 13. janúar og var jörðuð 26. janúar. Í dag eru tvö ár síðan hún var jörðuð og þótt ég muni hana alla daga hugsa ég sérstaklega sterkt til hennar í dag. Hún var vetrarbarn, kunni vel við sig í kulda og trekki og var í essinu sínu á þessum árstíma. Nú er hún í græna landinu, eins og við elskandi börnin hennar þykjumst vita, og fylgist þaðan með ferðum okkar.

Í minningu hennar vel ég að hlæja og hafa gaman. Þess óskaði hún okkur allra helst.


Deilan um leikskólann

Ég er sammála öllum!

Börnin skipta mestu máli og að þau séu bara eðlilega lengi í skólanum á hverjum degi. Samkvæmt tölum eru flest þeirra ekki meira en átta tíma á dag. Gott. Hins vegar þarf samfélagið að stytta vinnuvikuna. Það var síðast gert 1972. Síðan þá hafa orðið brjálæðislegar tækniframfarir. Brjálæðislegar! Fjórða iðnbyltingin. Gervigreind. Bráðum fljúga bílarnir, róbotar elda jólamatinn og ísskápurinn greiðir reikninga með snertiskjánum í sér. 

Fíllinn í herberginu sem fólk forðast að tala um er samfélagsmiðlarnir sem gleypa ótrúlega mikið af vinnutíma fólks sem hefur of rúman tíma til að vinna verkefnin.

Sprengjusvæði?

Hins vegar mætti veðrið vera betra. Hvaða tæki græjar það?


Bein útsending frá borgarstjórnarfundi

Eftir landsleikinn við Noreg (þar sem seinni hálfleikur var alveg til fyrirmyndar) er mikil skemmtun að fylgjast með umræðu um bætt öryggi gangandi/hjólandi vegfarenda á stofnbrautum.


Viðeigandi í viðskiptasambandi?

Ímyndum okkur fimmtugan kvenkyns prófarkalesara sem tekur að sér að prófarkalesa ritgerð fyrir hálfþrítugan karlkyns háskólanema, sendir honum vinabeiðni á Facebook og lækar síðan færslu þar sem hann lýsir ferð sinni til sálfræðings vegna lystarstols. Algjörlega tilbúið dæmi. Væri það viðeigandi? Háskólaneminn notaði Facebook til að brjótast út úr staðalmynd. Væri það óviðeigandi? Er óviðeigandi að sá sem selur vinnu sína tengist verkkaupanum á þessum félagslega grunni?

Er bara að velta þessu fyrir mér og ekki búin að gera upp hug minn.


Eru 40% sjálfstætt starfandi lögfræðinga verkefnalaus?

Mér hefur verið sagt að lögfræðingar fylgist með slysatilkynningum, elti sjúkrabíla og þefi uppi óhöpp með öðrum hætti til að skapa sér verkefni. Getur þetta verið rétt? Getur verið að lögfræðingar búi til vandamál þar sem engin eru til að skapa sjálfum sér verkefni og tekjur?


Hvað myndirðu gera við 12 milljónir?

Fyrir mörgum árum spurði ég fullt af fólki að gamni mínu hvað það myndi gera ef það fyndi [svo man ég ekki upphæðina en ímyndum okkur 100 milljónir] í poka í Laugardalnum. Flestir sögðust myndu leita rétts eiganda en þegar ég sagði að ég væri samt að meina hverju það gæti breytt að eignast 100 milljónir sögðust flestir strax myndu hætta í vinnunni.

Ég varð alltaf jafn hissa. Þegar maður hefur valið sér fag í háskóla og fengið vinnu við hæfi finnst mér undarlegt að vilja hætta því til að hlúa að milljónunum sínum. Mér sjálfri fyndist allt annað þótt fólk vildi draga úr vinnu eða taka sér óvenjulega langt leyfi. Það er nærandi að vera í skemmtilegri vinnu með skemmtilegu fólki, alveg eins og það er nærandi að eiga góða fjölskyldu og skemmtileg áhugamál plús peninga og tíma til að stunda áhugamálin.

Kannski hefði ég sjálf viljað eignast vandaða myndavél og fara á námskeið eða eignast kraftmikið mótorhjól eða fara til Kanada og Kúbu. En ég er yngsta barn foreldra minna sem voru farin að reskjast þegar ég komst á þann aldur og hafði þau fjárráð að ég gæti bruðlað svolítið og ég valdi að vera nálægt þeim – sem ég sé auðvitað aldrei eftir – og lána bróður mínum spariféð mitt – sem ég mun sjá eftir alla ævi.

Gummi bróðir hefur aldrei kunnað að fara með fé en fór út í að reka fyrirtæki „til þess að veita fólki atvinnu“. Hann rak sólbaðsstofu í þrot, bílaleigu líka og vídeóleigu en aðalskrautfjöðrin er sjoppan sem hann átti á Bústaðaveginum í nokkur ár. Mamma afgreiddi fyrst á morgnana og pabbi sansaði lagerinn, launalaust að sjálfsögðu meðan Gummi dandalaðist. Hann keypti reksturinn en leigði húsnæðið. Leigusalinn sagði eftir einhver ár að hann myndi ekki endurnýja leigusamninginn heldur ætlaði að opna sinn eigin rekstur í húsnæðinu þegar leigutímabilinu lyki. Gumma varð um og ó og þegar haustaði hélt hann að reksturinn yrði hirtur af honum í októberlok. Þá kom á daginn að hann hafði litið skakkt á ártalið og samningurinn átti ekki að renna út fyrr en ári síðar. Viðbrögðin? Gríðarlegt siguróp. Niðurstaðan? Gálgafrestur því að ári síðar var hann rekinn út. Ég veit ekki um samskipti hans við leigusalann en í ljósi þess sem ég er búin að átta mig á núna efast ég ekki um að hann hefur haft uppi svigurmæli úr digurbarka sínum.

Ég minni á það sem hefur komið fram í fyrri færslum, að ég segi ekkert nema sannleikann en verð þá að bæta við að ég áttaði mig ekki á öllu samhenginu á þessum tíma. Ég var blinduð af svokölluðum fjölskyldukærleik.

Og tengingin við fyrirsögnina? Ég lánaði honum peninga sem væru núna með 5% ársvöxtum 12 milljónir. Á síðasta ári fékk hann (ranglega að mínu mati) greiddan út 12 milljóna móðurarf. Viðbrögð? Gríðarleg fagnaðarlæti og tveggja mánaða leyfi frá vinnu til að frílysta sig á Indlandi. Sessunautur hans á þeirri stundu þegar hann fékk sms um útgreiddan móðurarfinn ber að hann hafi tekið fram að hann ætlaði sko ekki að borga Berglindi systur skuldina vegna þess að hún þyrfti ekki á peningunum að halda.

Vitið þið hvað það kostar að láta gera upp baðherbergi? 4 milljónir. Gummi Steins, garðyrkjufræðingur á Sólheimum, fyrrverandi veitingamaður í Víðigerði, sjoppumaður á Eiðistorgi og Póló á Bústaðaveginum og fyrrverandi áfengisráðgjafi hjá SÁÁ, óvirkur alkóhólisti í 30 ár, skuldar mér þrjú baðherbergi. Svo þyrfti helst að gera upp eldhúsið. Ekkert af þessu er nauðsynlegt en málið er samt að ég aflaði þessara tekna með minni vinnu og vil geta eytt þeim í viðhald á mínu húsi en ekki fíknir Gumma Steins.

Ég þekki engan sem myndi henda 12 milljónum út um gluggann handa gestum og gangandi og ég vil fá peninginn minn til baka en Gummi er með glúrinn lögfræðing sem ber fyrir sig fyrningarlögin. Þeir kannast kannski ekki við að munnlegir samningar séu jafngildir skriflegum. Það er erfiðara að sanna þann munnlega og því miður eru bæði mamma og pabbi dáin núna. 

 


Jíei, veikindi

Nú er að renna upp hjá mér tólfti dagur í beinverkjum, hálsbólgu og augnslími. Er það ekki svipaður tími og úti hefur geisað óveður, jafnvel hér í Hlíðunum?

Ég var að hugsa að þar sem ég veikist næstum aldrei, fæ frunsu af og til og kvef sem frestar heimsóknum mínum í Blóðbankann, að ég ætti eiginlega að hrósa happi. Nú get ég endurnýjað allar dauðu frumurnar og tekist svo á við hið skemmtilega ár, 2020, af miklum fögnuði með nýju frumunum, nýju sýninni og glænýju heilbrigði.

Bara fjandi erfitt að kyngja meðan ég bíð ...

 


Ég vild'ég væri hjúkrunarfræðingur (eða læknir)

Ég meina ekki 100% það sem stendur í fyrirsögninni en ég öfunda mjög mikið fólk sem er með þannig menntun að það getur látið gott af sér leiða. Ekki svo að skilja að mér finnist ég gagnslaus en hjúkrunarfólk getur bjargað lífi.

Ef ég væri hins vegar pólitíkus sem hefði tekið frá 67 milljarða fyrir 20 árum til að byggja spítala og búa hjúkrunarfólki betri kjör og aðbúnað myndi ég skammast mín óendanlega mikið. Ég skammast mín þegar ég ruglast á vergri landsframleiðslu og ríkisútgjöldum og ef ég hefði tekið að mér að lappa upp á hjúkrunarkerfið og ekki gert það væri ég löngu farin í annað starf sem hentaði mér betur og hefði eftirlátið uppbygginguna þeim sem kæmu því í verk. Er það kannski enginn?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband