,,Þéttum byggð"

Ef ég væri í framboði til borgarstjórnar myndi ég skilyrðislaust setja þéttari byggð á oddinn. Borgir eiga að vera nógu þétt byggðar til að hægt sé að veita viðunandi þjónustu á skikkanlegu verði. Þá er ég að tala um almenningssamgöngur, samgöngumannvirki, sorphirðu, heilsugæslu og skólamál svo eitthvað sé nefnt. Langar vegalengdir draga úr þjónustu og hægja á henni.

En þar sem ég er ekki í framboði ætla ég að kjósa þann frambjóðanda sem talar upp í eyrun á mér í þessu tilliti. Tilviljun ræður kannski í hvaða flokki sá frambjóðandi er ...


Strætó

Ég skil ekki af hverju fólk talar svona lítið um strætó en ég er alveg farin að skilja af hverju það notar strætó lítið.

Rétt fyrir jól flutti vinkona mín með börnin sín á milli hverfa. Hún valdi sérstaklega búsetu með tilliti til þess að sonur hennar gæti tekið strætó síðasta árið sitt í grunnskóla til að klára hann með félögunum. Um áramót var leiðunum breytt þegjandi og hljóðalaust og allar götur síðan hefur hún þurft að keyra hann í skólann áður en hún mætir í vinnuna.

Maður þurfti að komast frá Hveragerði í höfuðborgina um páskana. Hann hélt að strætó gengi ekki á föstudaginn langa og páskadag en við sögðum að það gæti ekki verið, það væri til dæmis vegna ferðamanna ekki hægt að bjóða upp á enga þjónustu þessa daga. Það kom líka á daginn en af hverju eru notendur vagnanna í vafa? Af því að það er alltaf og eilíflega verið að hrókera með leiðir og tímasetningar út og suður.

Áðan sá ég á Facebook að önnur vinkona mín fór snemma á fætur til að keyra tvö barnanna sinna hverfa á milli.

Hafði hugsað mér að kúra svolítið á frídegi en nei enginn strætó keyrir. Tveir fjölskyldumeðlimir þurfa að komast leiðar sinnar. ... Hvaða borg býður upp á svona samgöngukerfi?  

Þetta sagði hún. Á straeto.is stendur að vísu: 

Framundan

7.4.2014 : Akstur á hátíðardögum 

Ekið er  Sumardaginn fyrsta 24apríl, 1 maí og Uppstigningardag. Alla þessa daga er ekið samkvæmt sunnudagsáætlun.
Það er með harmkvælum sem ég læt þessa beinu tilvitnun standa, svo mjög ganga villurnar á opinberum vef fram af mér.
 
En hvernig er þá sunnudagsáætlunin, t.d. fyrir leið 11?
 
Jú, fyrsta ferð er frá Hlemmi kl. 11:39.
 
HFF. 

Flugvöllur og Sundabraut

Enn á ný heyrði ég í útvarpinu í dag talað um flugvöllinn sem öryggisventil sem mætti hvergi annars staðar vera en í Vatnsmýrinni.

Allar ákvarðanir eru skilyrtar einhverju. Ef heilbrigðisþjónustan flyst má flugvöllurinn væntanlega fara, t.d. á þann sama stað. Ef samgöngur verða góðar við nýja flugvallarstæðið má hann væntanlega fara því að þá er öryggissjónarmiðinu fullnægt. Ef þyrlupallur er ofan á sjúkrahúsinu má farþegaflug væntanlega flytjast annað.

Ástæðan fyrir lágreistri byggingu í kringum Austurvöll er sú að flugvélar fljúga lágflug yfir miðbæinn. Þessar lágu byggingar angra mig ekki en ef menn eru eitthvað að velta fyrir sér öryggissjónarmiði væri ekki úr vegi að hugsa um hættuna í hverju einasta flugi sem er flogið yfir þéttbýli.

Ég vil að flugvöllurinn fari og Sundabraut komi. Þetta er allt bara útfærsluatriði og þarf ekki að ógna öryggi manna meira en flugvöllurinn gerir á núverandi stað. 


Dagskrárgerð í útvarpinu mínu

Mér væri sama þótt ég sæi ekki sjónvarp. Ég er svo sem aðeins að færa í stílinn því að ég horfi oft á fréttir og svo ýmislegt annað, gjarnan þó með öðru auganu. Svo get ég látið eins og mér standi á sama um sjónvarpið sjálft þegar ég get horft á stöff í tölvunni.

En ég get ekki þóst geta verið án útvarps. Ég þekki orðið slangur af fólki sem hlustar ekki endilega á útvarp, hlustar á Spotify (sem er þá tónlist(arrás)), hlustar í mesta lagi á útvarp í bílnum eða í vinnunni eða bara jafnvel alls ekki. Og ég skil það ekki.

Ég geng eða hjóla mikið til að komast leiðar minnar. Þá munar öllu að vera með eitthvað í eyrunum. Ég man alveg þegar ekkert var í boði þannig að ég þekki muninn. Ég gæti ekki átt hund og farið með hann í reglulegar göngur án þess að hlusta oftast á eitthvað. (Ég veit, einhverjir nota tækifærið til að hugsa. Er ekki hægt að gera tvennt í einu?)

Og nú er búið að skemma fyrir mér Órangútan með nýja manninum. Ég ætla ekki að segja nafnið á honum en fyrir svona mánuði heyrði ég einhvern annan en Guðmund Pálsson tala og þessi nýi hafði svo óþægilega nærveru í útvarpinu að ég gat ekki hlustað. Og slökkti. Svo sætti ég lagi til að heyra kynninguna og þá skildi ég. Þetta er sami maðurinn og var með leiðinlegasta þátt í sjónvarpinu sem ég hef í háa herrans tíð reynt að horfa á.

Ég get skipt um stöð, mikil ósköp, og ég get líka hlustað á tónlist, talað við fólk eða þagað. Ég geri allt það. En ég trúi ekki fyrr en í fulla hnefana að þessi fjölmiðlamaður mælist vel fyrir. Ég er ekki svo spes að hann fari bara í taugarnar á mér ...

Huggun harmi gegn er að báðir uppáhaldsleikararnir mínir voru í sjónvarpinu um páskana, Tim Robbins og Clive Owen

Svo langt sem það nær, hehe. 


Ólæsinginn LANGTUM SKEMMTILEGRI en Gamlinginn

Ég þrælaði mér í gegnum Gamlingjann sem skreið út um gluggann og hvarf á sínum tíma. Ég ætlaði ekki að trúa því að hún gæti verið svona leiðinleg eftir allt þetta lof sem á hana hafði verið ausið. En hún batnaði aldrei.

Samt lét ég tilleiðast og fór að sjá hana í bíó og þótti myndin snöggtum skárri. Í myndinni tókst að tengja hin ólíku tímaskeið betur en í bókinni. Þótti mér.

Svo kom Ólæsinginn sem kunni að reikna eftir sama höfund. Ég sá hana á bókasafninu fyrir mánuði og ákvað að láta á reyna. Þótt ég segi ekki að Jonas Jonasson sé eða verði uppáhaldið mitt get ég alltént sagt að mér finnst honum takast langtum betur upp í þessari bók. Þótt mér finnist Nombeko ekki endilega trúverðug persóna og söguþráðurinn um sprengjuna, verkfræðinginn, undankomuna, sjálfskennsluna, fræga fólkið (aftur!), Holgerana, kónginn, kartöfluræktina, mótmælendurna og kvöldmáltíðina ekki mjög sannfærandi eru samt þarna snertifletir sem duga til góðrar skemmtunar. Nombeko er náttúrlega drifkrafturinn og sennilega ástæða þess að bókin gengur upp vegna þess að hún sprettur upp úr einhverjum ófrjóasta jarðvegi sem maður getur hugsað sér en blómstrar engu að síður á endanum.

Og þá dettur mér í hug Malala Yousafzai, öll hennar ótrúlega lífsreynsla og það sem hún hafði fram að færa 16 ÁRA GÖMUL í ræðu hjá Sameinuðu þjóðunum. Hið ótrúlega gerist. Þess vegna er ég dús við Ólæsingjann. 


Óætlað samþykki > vantrú og vonbrigði

Skömmu eftir áramót dó ungur maður sviplega. Þrátt fyrir ungan aldur hafði hann sýnt mikla ábyrgð, velt fyrir sér dauðanum og gefið það út til sinna nánustu að ef eitthvað kæmi fyrir vildi hann láta nýta líffæri sín í þágu annarra.

Um þetta allt varð mikil umræða og foreldrar hans hafa sýnt einstakt æðruleysi. Meðal annars gleðjast þau, þrátt fyrir augljósa sorg, yfir að hann hafi getað lengt líf fimm annarra. Nú er velferðarnefnd búin að fjalla um frumvarp um ætlað samþykki og leggur ekki til að það verði samþykkt. Nefndin leggur sem sagt ekki til að við göngum út frá því að fólk vilji láta nýta líffærin úr sér ef svo vill verkast. Fólk gæti allt að einu valið að gerast ekki líffæragjafar samkvæmt frumvarpinu en nefndin leggur til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og kemur sér þannig undan því að taka afstöðu.

Mér finnst þetta heldur aumingjalegt. 12 þingmenn úr öllum flokkum á þingi lögðu málið fram í október. Sjö þingmenn nefndarinnar afgreiddu málið með þessari niðurstöðu í gær. Þau segjast vilja fá meiri umræðu um málið, kynna það betur og hafa 29. janúar fyrir dag líffæragjafa. Þetta síðasta er tillaga frá móður unga mannsins.

Menn segja að góðir hlutir gerist hægt. Þetta mál hefur varla mjakast árum saman. Ætlað samþykki tekur ekkert frá þeim sem vilja ekki vera líffæragjafar en ætlað samþykki auðveldar fólki að verða líffæragjafar ef það vill gefa líffærum sínum framhaldslíf þótt annað deyi.

Þetta á ekki að vera feimnismál. Þetta verða menn að ræða opinskátt og taka svo þá réttu ákvörðun að bjarga mannslífum þegar svo ber undir.

Mér finnst þessi afgreiðsla heimóttarskapur og er fjarska döpur yfir þessu. Ef ég dey sviplega vil ég að líffærin mín nýtist öðrum og í veskinu er ég með 10 ára gamalt mjúkspjald frá landlæknisembættinu með skriflegum upplýsingum. Ég vildi hins vegar miklu frekar að þetta væri skráð í gagnagrunn og að enginn þyrfti að velkjast í vafa eða rýna í lúið spjald með máðu letri.


Umbúðabylting

Ég hef ekki farið út í að skilja umbúðir eftir í búðum. Hins vegar kaupi ég ekki sérpakkaðan engifer í frauðbakka og með plasti utan um, ég sleppi honum frekar enda er ég sjaldnast alveg uppiskroppa, og ekki heldur kirsuberjatómata í plastbakka. Ég fagna byltingunni og er aldeilis til í að andæfa öllum þessum andskotans umbúðum. 

Í sjónvarpsfréttum í kvöld var líka umfjöllun um ógrynni af mat sem er hent þótt hann sé vel ætur. Ef allur heimurinn hegðaði sér eins og við gerum þyrftum við fimm eða sex jarðir.

Umbæturnar byrja heima en manni er sannarlega gert erfitt fyrir með öllum umbúðunum í búðunum. 

 


Hverjar eru kröfurnar?

Eðli verkfalla er að láta finna fyrir sér. Ef verkfall bitnar ekki á neinum er ekkert bit í því, það gefur augaleið. Á þingi er í þessum skrifuðu orðum rædd lagasetning vegna verkfalls undirmanna á Herjólfi sem hefur ekki siglt á kvöldin og um helgar. Ferð bæjarstjóra Vestmannaeyja vegna eins fundar í samgöngunefnd þingsins hefur staðið í fjóra daga vegna lítillar ferðatíðni.

Auðvitað hef ég samúð með íbúum Vestmannaeyja og öðrum þeim sem þyrftu að komast til og frá. En flogið hefur fyrir að kröfurnar séu 40% hærri laun eða 40% ofan á eitthvað. Og menn sveia úr því að laun annars staðar hafa verið hækkuð um 2,8%.

Meðal annars er farið fram á átta stunda dagvinnu í stað níu og hækkun yfirvinnuálags sem nemur nú 33%. 

Ég hélt að það væri ófrávíkjanlegt að dagvinna væri metin átta stundir. Ég lenti að vísu einu sinni í því að ferðaskrifstofa ætlaði að borga mér 10 tíma dagvinnu á dag en ekki yfirvinnu í tvo tíma. Það kostaði bara eitt símtal að leiðrétta það en ég þurfti að halda vöku minni.  

Aftur í prósentuna. 40% af engu eru áfram ekkert. Ég veit ekki hver launin eru af því að allar kjaraviðræður eru svo mikið leyndó og allir talsmenn virka á mig eins og drottningin af Saba. Án gjafanna reyndar.

Menn vilja ekki spilla samningsstöðunni með því að ljóstra of miklu upp. Þess vegna tjái ég mig hér án þess að þekkja allar forsendur. En ég þekki mína eigin kjarabaráttu.

Ég er fyrrverandi leiðsögumaður, enn með félagsaðild, enn með fullt af orku og gleði, enn með einhvern tíma á sumrin til að sinna þessu starfi með öðru, en án vilja til að vinna fyrir 1.569 kr. á tímann í dagvinnu, án vilja til að vinna fyrir 272.000 kr. á mánuði ef ég ynni 173,33 dagvinnutíma. Ég veit að það er leikandi hægt að vinna sér inn hálfa milljón í júlí en þá er maður meira og minna að heiman, án réttinda af nokkru tagi, að mestu leyti án frítíma, jafnvel þótt maður sé ekki í vinnu af því að maður er úti á landi og bundinn af hópnum  og á samt ekki launað orlof.

Þótt ég sætti mig við 40% hærri laun en kveðið var á um í síðustu kjarasamningum væri ég samt bara með 2.117 kr. á tímann í dagvinnu, þ.e. 367.000 á mánuði  og ætti áfram ekki veikindarétt og ekki launað orlof.

Ég er skeptísk á lagasetningu vegna löglega boðaðs verkfalls fólks í kjarabaráttu. Það á að semja við borðið. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband