Ferðamönnum á Íslandi fjölgar en fækkar ekki

Ég fór á forvitnilegan fund um ferðaþjónustuna í morgun. Við höfum séð mikla aukningu í greininni undanfarin ár, landshlutabundna að vísu, en heilt yfir verulega aukningu. Hótelherbergjum fjölgar í Reykjavík og nýtingin er líka góð. Fyrir norðan og austan fækkar herbergjum en nýtingin eykst samt ekki. Hvað veldur? Markaðssetning er svarið mitt. Fólk þarf að vita að það er gríðarlega margt spennandi í öðrum landshlutum. En það kemur örugglega.

Ég tók meðal annars þessa mynd af einni glærunni.

1,5 milljón 2016?

Síðasta ár sleikti 1 milljón ferðamanna og nú ákveður bankinn að spá svolítið hraustlega af því að hann var undir spánni síðast. Atvinnuástandið batnar hér á landi en samt erum við ekki komin í neikvætt atvinnuleysi eins og fyrir hrun. Spár herma líka að við þurfum að flytja inn fólk til að vinna störf í ferðaþjónustu, fólk sem hefur fyrir vikið ekki sérþekkingu á Íslandi, er ekki alið hér upp við veður, menningu, náttúru, mat og tungumál.

Af hverju stöndum við í þessum sporum?

Svarið er einfalt og ALLIR vita það: Launin eru of lág.

Um leið og hótelstarfsfólk, leiðsögumenn og bílstjórar semja um laun sem hægt er að lifa af verður hægt að manna öll þessi störf á einu augabragði með menntuðum heimamönnum.

Ferðaþjónusta er þess eðlis að maður má aldrei eiga vondan dag. Ég er menntaður leiðsögumaður og met það svo að ég verði alltaf að sýna ferðamönnunum mína bestu hlið. Ég má ekki vera illa fyrirkölluð á nokkurn hátt því að ferðamaðurinn er búinn að safna lengi fyrir ferðinni sinni og á ekkert annað skilið en bestu hlið allra alltaf. Í ýmsum öðrum störfum þar sem maður hittir sama fólkið dag eftir dag leyfist manni frekar að vera önugur af og til.

Eruð þið ekki sammála þessari greiningu? Hún er alveg ókeypis.


Hinn hæfasti

Já. Alltaf. Auðvitað á hæfasti einstaklingurinn að hljóta stöðuna hverju sinni. En hvað er lagt til grundvallar matinu? Það er stundum dálítið huglægt. Getur annars verið að karlar séu svona óskaplega oft hæfari/hæfasti einstaklingurinn? Á það við um ráðherra sem voru valdir alla 20. öldina?

Auðvitað ekki.

Fólk sem velur hæfasta einstaklinginn fer ekki bara eftir skýrum, hlutlægum kvörðum, það metur út frá smekk, skoðunum, þrýstingi – öllum andskotanum. Stundum er meira að segja gefið upp að „hæfasti einstaklingurinn“ þurfi að passa inn í hópinn sem er fyrir.

Hæfasti einstaklingurinn er ekki breyta sem er klöppuð í stein, hún er matskennd.

Ég hef enga skoðun á fólkinu sem sótti um í Hæstarétti enda ekki til þess bær að fella dóma í málinu. En ég veit hins vegar að það er villa í þessu orðasafni:

vegna karlægrar hugsunar 

Eða hvað? Er fólk kannski á því að karlæg og karllæg hugsun sé eitt og það sama?

foot-in-mouth


Rétturinn til að verða foreldri

Ég sá ekki nema brot af Kastljósinu og er enn þeirrar bjargföstu skoðunar að öll börn ættu að eiga rétt á skikkanlegum foreldrum. Mér finnst hins vegar ekki að allt fólk eigi rétt á að verða foreldrar. Þó ætti allt almennilegt fólk að fá tækifæri til að umgangast börn og ala þau upp. Eru ekki því miður of mörg börn á vergangi í heimsþorpinu? Gæti það ekki þjónað sameiginlegu markmiði alls fólks að munaðarlaus börn kæmust í fang fólks sem langar að ala upp barn? 

Af hverju eru ættleiðingar erfiðar og flóknar?


Stormur í vatnsglasi

Ég er ekki innsti koppur í búri Ráðhússins og veit ekkert annað um tillögu borgarfulltrúans sem var samþykkt en það sem ég heyri í fjölmiðlum. Það var aukaborgarstjórnarfundur í dag til að ræða samþykktina og afturkall hennar sem endaði víst með því að samþykktin var tekin til baka.

Kannski má túlka afstöðu mína sem minnimáttarkennd. Ég kýs að kalla hana skynsemi. Ég trúi ekki að lítil höfuðborg með litla borgarstjórn sem hleypur á sig geti valdið svona miklum usla í heimsþorpinu. Við erum lítill fiskur í kompaníi við hákarla og þótt varirnar strjúkist við einn ugga getur ekki verið að hákarlinn kippi sér upp við það.

Hvað varðar tillöguna sem var samþykkt

Borgarstjórn samþykkir að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir.

finnst mér hún algjört frumhlaup. Borgarstjórn markar ekki utanríkismálastefnu. Nú eru að sönnu nokkrir einstaklingar búnir að lýsa yfir andúð á hernámi en er í alvörunni svona erfitt og flókið að stíga eitt skref til baka?

Afsögn borgarstjóra? Ha?


Icesave búið?

Ég var að heiman um helgina, ekki alveg utan þjónustusvæðis en samt lítið að fylgjast með. Ég heyrði utan að mér að Hollendingar og Bretar væru búnir að gefa eftir allar kröfur og við laus allra mála. Í gær leitaði ég aðeins að prentuðu máli um þessi tíðindi og fann ekki.

Dreymdi mig?

Hvað hefði gerst ef við hefðum samið? En kannski gerðist ekkert af þessu ...


Veikleikavæðing

Enn og aftur vakna ég til umhugsunar um eitthvað sem ég veit lítið um. Björk Vilhelmsdóttir sagði í viðtali í gær að of mikil tilhneiging væri til að einblína á veikleika fólks sem á undir högg að sækja frekar en að gefa styrkleikum þess gaum. Mín fyrstu viðbrögð voru að kinka kolli. Ég þekki ekki mörg dæmi en ég þekki þess þó dæmi að býsna frískt fólk hafi hálft um hálft verið komið á framfærslu borgarinnar af því að eitthvað var að. Já, einbeitingarskortur, sveimhygli, einhver sérhlífni – en í viðkomandi var og er líka mikið listfengi og einbeittur áhugi á sköpun og frumkvæði. Það koðnaði niður af því að endalaust bárust boð um úrræði sem fólu í sér aðgerðaleysi viðkomandi. Ég er með unga manneskju í huga, manneskju sem getur ýmislegt en er ekki alveg á bóknámslínunni, manneskju sem getur plumað sig með smávegis aðstoð, já, kannski léttu myndrænu sparki, en þarf ekki að láta rétta sér allt upp í hendurnar.

Svo les ég meira og fer að velta fyrir mér hvort Björk sé fullharðorð, samherji er ósammála henni. En Björk talaði ekki um aumingjavæðingu heldur veikleikavæðingu. Mér finnst munur þar á. Aumingi er manneskja, veikleiki er eiginleiki. Ég reyni sjálf að horfa meira á sterku hliðarnar en þær veiku. Þegar ég var kennari og gaf umsagnir um ritgerðir hampaði ég því sem vel var gert til að örva fólk til dáða. Það kemur þó ekki í veg fyrir að maður reyni að leiðbeina fólki eða hjálpa því áfram.

Maður Bjarkar segist ekki að öllu leyti sammála henni um framfærslumálin. Hann er læknir og þarf stundum að meta starfsgetu fólks. Annað þarf ekki að útiloka hitt. Fólk getur þurft stuðning, bæði hjálp við framfærslu og stuðning til sjálfshjálpar. Það er auðvitað til fræg hugmynd um aðstoð: Það er nær að kenna fólki að veiða fisk en að veiða fiskinn fyrir það og færa því.

Ég man líka gjörla að Pétur H. Blöndal heitinn talaði oft og mikið um starfsgetumat frekar en örorkumat. Ég held að langflestir vilji vera sjálfbærir og ala önn fyrir sér sjálfir, en vitaskuld er líka til fólk sem eru því miður allar bjargir bannaðar og það þarf mikla aðstoð.

Svo les ég blogg Ragnars Þórs sem er ávallt rökfastur. Honum er, eins og Björk, uppsigað við lært hjálparleysi en er ósammála þeim aðferðum sem hún talar fyrir og gagnrýnir bæði hana og yfirvald borgarinnar. Og þá verð ég aftur efins af því að ég er ekki innsti koppur í búri Ráðhússins. Hefur verið mjög illa haldið á málum í borginni? 

Ég mun fylgjast með umræðu næstu daga og vikna og mynda mér skoðun þegar fleiri kurl verða komin til grafar. En akkúrat núna held ég að Björk hafi stigið gáfulegt skref og vakið okkur betur til umhugsunar um hvort hægt sé að gera meira í því að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft.


Samúel í Brautarholti og Gísli á Uppsölum

Nú er búið að dreifa og ræða fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2016. Meðal þess sem hefur borið á góma er að styrkir sem ferðamannastöðum hefur verið úthlutað til uppbyggingar hafa ekki verið nýttir og þeim þarf að skila. Ég heyrði að um helmingur hefði ekki lokið því sem til stóð á síðasta ári og að á mörgum hefði ekki verið byrjað.

Hmm.

Sveitarfélög (og félög/fyrirtæki) þurfa að leggja fé á móti framlagi frá ríkinu og þar stendur hnífurinn víst í kúnni.

Í sumar er ég búin að þvælast meira um Vestfirðina en fyrri ár. Sunnan megin, ekki á Stór-Ísafjarðarsvæðinu, eru vegirnir hrein hörmung og ég held að það ástand sé aðalástæða þess að ferðaþjónustufyrirtæki geta illa skipulagt ferðir þangað. Massinn fer að minnsta kosti ekki á staðinn. Á veturna er háskalegt að fara um Hjallaháls og Ódrjúgsháls.

Um síðustu helgi var ég til dæmis á Bíldudal sem er mikið að byggjast upp þessi misserin vegna þörungavinnslu. Íbúafjöldi hefur sveiflast eftir atvinnuástandinu og nú er sveiflan upp á við. 25 km lengra er Selárdalur, einn af Ketildölunum við sunnanverðan Arnarfjörð, og þar er Brautarholt, bærinn sem Samúel Jónsson, listamaðurinn með barnshjartað, byggði af vanefnum en mikilli ástríðu um miðja síðustu öld. Listaverkin hans eru geymd úti og lágu undir skemmdum (hann dó 1969) en fyrir 10-15 árum var byrjað að endurgera þau og nú er björgulega um að litast. Þangað væri gaman að koma með áhugasama ferðamenn. Á Bíldudal er Skrímslasetrið sem tengist þjóðsögum af skrímslum. Ferðamenn hafa gaman af sögum sem virðast upplognar. Á Patreksfirði er góð sundlaug og á Tálknafirði er Pollurinn. Okkur finnst alltaf gaman að busla.

Þarna sjást - held ég - ekki margir ferðamenn. Kannski mega heimamenn prísa sig sæla en ferðamaðurinn fer á mis við mikið.

Pollurinn rétt utan Tálknafjarðar


Er Ruud Gullit hættur?

Ég samgleðst öllum sem fögnuðu sigri íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á hollenska karlalandsliðinu í fótbolta. Ég frétti af fólki í dag sem gat ekki á heilu sér tekið fyrir spenningi, æfingu í skokkhópnum mínum var flýtt, fólk úttalaði sig á veraldarvefnum og svo rak það upp mikil fagnaðaróp á Facebook, fyrst yfir fyrsta markinu, svo yfir að það væri eina markið og þar með íslenskur sigur í höfn. Einhver sagði að við værum að upplifa stærstu stund íslenskrar knattspyrnusögu.

Ég hef samt engan sérstakan áhuga á fótbolta og ákvað að fara í zúmba frekar en að fylgjast með. Tímasetningin var hins vegar þannig hjá mér að ég kveikti á útvarpinu í sama mund og Gylfi skoraði þetta örlagaríka mark, fylgdist svo ekkert með eftir það.

Fólk hrósar Lars Lagerbäck í sigurvímunni -- en hvað með mig? Á ég ekki hrós skilið fyrir að hlusta á réttum tíma? tongue-out

Annars er það helst í fréttum að Ruud er búinn að láta klippa sig.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband