Hverjum var misboðið?

Ég ætlaði að láta mér duga að tvíta um útgöngu Ágústu Evu í þætti Gísla Marteins á föstudaginn en orðafjöldinn leyfði það ekki.

Ég er mjög ódugleg að horfa á þætti til enda. Í þætti GMB eru oft í lokin tónlistaratriði sem virka sem uppfylling á mig. Sorrí. Reyndar virðist ég tilheyra kynslóð sem horfir oft á sjónvarpið með öðru auganu og það þótt efnið sé forvitnilegt. Ég má alveg taka mig á, en samt – hverjum er ekki sama? Tjah, það er ekki gott að tjá sig um það sem maður sér ekki.

Ég kveikti því á sarpinum áðan þegar ég áttaði mig á að a) Reykjavíkurdætur höfðu verið með boðskap og gjörning og b) Ágústa Eva hafði gengið út. Hvers vegna? Því getur kannski hún ein svarað en við látum okkur hafa það að giska.

Nei, ég get ekki dvalið lengi við þetta. Í mínum augum er svo augljóst að útganga hennar er hluti af atriðinu. Ágústa Eva hefur sjálf reynt að ganga fram af fólki. Og tekist það. Hún veit hvað þarf. Og ég hef enga trú á að hún sé tepra. Og, almáttugur, hvað Gísli Marteinn skaust upp vinsældalistann minn. Við þurfum ekki endalausa og innihaldslausa spjallþætti, þeir mega vera með sem afþreying en þegar efni og efnistök snerta við okkur, minna okkur á til dæmis jafnrétti, er það tvímælalaust til bóta.

Dropinn holar steininn.


Hagnaður upp á hundruð milljarða deilt með fjölda haghafa

Ég hélt að ég hefði verið að búa til orðið haghafi en í orðabók stendur:

hag·hafi

KK nýyrði, viðskipti/hagfræði
sá sem á hlut í eða þarf að gæta hagsmuna sinna hjá fyrirtæki

Fréttamenn eru agalega kurteisir þegar þeir spyrja bankastjóra um hagnaðinn í bönkunum. Hagnaðurinn er samtals upp á hundruð milljarða, sem sagt losar 10% af fjárlögum ársins 2016, og fréttamenn spyrja: Kemur til greina að bankinn leyfi viðskiptavinum [sem standa undir þessum hagnaði] að njóta með sér. Bankastjóri: Sum árin hefur verið tap eða minni hagnaður [suð, bzzzz] og við verðum að sjá [bíb] til á næstu árum [jaríjarí] ...

Mér leikur forvitni á að vita hversu margir hluthafar og áhættuhafar fá arðinn. Ég veit að ríkissjóður fær eitthvað. 28 milljarða? Hversu margt fólk fær 100 milljarða? Hvaða áhættu tók það fólk?

Bankarnir. Eru. Ekki. Í. Samkeppni.


Öll eigum við frídaga

Ég skil alls ekki þessa ekkifrétt um frí starfsmanna samfélagsins vegna vetrarfría í grunnskólum. Mín vegna má alveg deila um vetrarfrí, að þau séu yfirleitt, að þau séu ekki í öllum skólum á sama tíma, að foreldrar nái ekki að verja tíma með börnunum sínum og fleira sem ykkur gæti dottið í hug, en að EINHVER fárist yfir því að fólk sem á inni sumarfrísdaga taki þá út á þessum dögum er ofvaxið skilningi mínum. Fyrir utan heilsueflingu og valdeflingu er mest talað um samþættingu fjölskyldulífs og vinnutíma. Ég sé á Facebook að fólk hefur einmitt notað þennan tíma, a.m.k. daginn í dag, til að vera með börnunum sínum, fara á skíði, fara í sund, púsla, lesa saman, spreyta sig í eldhúsinu, og þá hefði ég haldið að hálfur sigur væri unninn.

Svo er hitt sem ég skil engan veginn, það að fólk haldi í alvörunni að allt starf þingmanna fari fram á þingfundum, í þingsalnum, í opinberum ræðuflutningi. Í alvörunni? Megnið af skoðanaskiptunum fer fram á nefndafundum og svo sjálfsagt óformlega á göngunum. Þar að auki þurfa þingmenn sem taka starf sitt alvarlega að lesa helling af ýmsu, hitta fólk, semja frumvörp og þingsályktunartillögur og melta málin.

Ég held að þessir dagar séu kærkomnir til að efla heilsu, dreifa valdi og flétta saman fjölskyldur, og áhugamenn um þingstörfin geta fylgst með þingfundi á föstudaginn í næstu viku. Starfsáætlunin var einmitt samin svona vegna gagnrýni síðustu tveggja ára!


... hæfisskilyrði leiðsögumanna

Nú er búið að mæla fyrir þingsályktunartillögu um hæfisskilyrði leiðsögumanna. Þar stendur meðal annars þetta:

Ljóst er að mesta hættan á skaða er þar sem saman fara stórir hópar sem njóta leiðsagnar leiðsögumanna með litla eða takmarkaða þekkingu á sérstakri náttúru landsins.

...

Ýmis lönd hafa gripið til þess ráðs að skylda ferðamenn til þess að ráða innlenda leiðsögumenn á ferðum sínum en hér er ekki gengið svo langt.

Gott að menn vilja líka borga fyrir sérhæfinguna, sérfræðiþekkinguna, langtímafjarvistir frá heimili, 16 tíma vinnudaga og óbilandi þjónustulund ... eða ekki.

undecided


Búvörusamningurinn 2016

Nei, ég hef ekki lesið hann, hef ekki hugsað mér að lesa hann og ætla sannarlega ekki að leggja út af honum fyrir vikið. Spurningin sem brennur á mér varðandi matvælaöryggið (meint) er:

Hvers vegna get ég ekki keypt mangó, jarðarber, granatepli, ananas og ástaraldin allt árið á Íslandi? Ætt og á sanngjörnu verði.

Snýst búvörusamningur (sem ég ætla ekki að fjalla um) bara um lambakjöt og mjólkurafurðir?

 

 


Er ég á bleikum launum?

Ég veit það ekki. Ég geri ráð fyrir því. Þótt strangt til tekið ríki ekki launaleynd á Íslandi er fátt meira feimnismál en laun og peningastaða fólks. Kannski höldum við að við verðum aðhlátursefni fyrir að sætta okkur við lág laun. Kannski höldum við að einhver annar beri sig saman við okkur og fari fram á hærri laun en viðkomandi er með. Kannski óttumst við að einhverjum finnist við ekki verðskulda svona há laun.

Þegar fólk er spurt um launin man það yfirleitt ekki hvað það er með. Ég spyr svo sem ekkert í sífellu en ég get horft mörg ár aftur í tímann og ég fullyrði að fólk svarar oft svona: Ég man nú ekki heildarlaunin/útborguð laun/grunnlaunin. Hins vegar þekki ég mann sem sagði inn í 10 manna hóp eða svo seint á síðasta ári að launin hans losuðu milljón og hann kæmist ekki af með minna. Húrra fyrir heiðarleikanum. En hvað er að „komast af með“? Fólk sníður sér stakk eftir vexti og sumir „verða“ að eignast allar nýjustu græjur í sportinu sínu, fara reglulega dýrt út að borða, fara í utanlandsferðir, eiga risastórt hús, 39 milljóna króna bíl, snjósleða, frumútgáfur bóka og listaverka. Ég veit, ég er svolítið farin að ýkja en fólk „kemst samt af“ með minna en milljón á mánuði. Það bara leyfir sér ekki allt sem því dettur í hug.

Ég hef verið mjög andvaralaus gagnvart bleika skattinum, ég er greinilega bæði samdauna og meðvirk þegar ég borga fyrir „dömu“klippingu. Tvær vinkonur mínar eiga tvær dætur hvor og þær eru fyrir löngu búnar að átta sig á að „strákasokkar“ eru ódýrari en „stelpustokkar“ þótt þeir séu alveg eins. Nærbolur „handa stelpum“ er kannski með lítilli slaufu í hálsmálinu og verðið er 50-100% hærra. Þær geta stundum keypt „stráka“vöruna en ekki alltaf.

Ég ætla hvorki að fría stjórnmálamenn né karla sérstaklega en ég þarf líka að líta inn á við og minna mig sjálf á hvers virði ég er og gera kröfur í því ljósi. Konur verða að standa með sjálfum sér. Líka.


Stóra klósettmálið

Fyrirsögnin er ekki kaldhæðni. Leiðsögumenn hafa talað um það í langan tíma, áratugi segja sumir, að það vanti fleiri klósett þar sem fólk fer um. Fólk hefur ýmsar grunnþarfir, eins og að borða, hvílast, vera hlýtt - og það að komast EKKI á klósett getur valdið vandræðum. Það hefur valdið fólki vandræðum og rænt það ánægjunni af að vera á ferð um fagrar slóðir.

Samkvæmt því sem ég les eru áningarstaðir Vegagerðarinnar 469 og klósett á 27 þeirra. Ég eftirlæt hverjum sem er að reikna út restina. Svo væri ekki leiðinlegt að hafa fleira til afþreyingar á áningarstöðunum.

Og nú er búið að mæla fyrir tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi. Vonandi veit það á eitthvað gott.


Ísland allt árið

Ég vil fjölga ferðamönnum á Íslandi. Ég vil nýta alla mánuði ársins. Ég vil að ferðamenn njóti birtunnar í desember, myrkursins í janúar, þess þegar hlýnar í maí, haustlitanna í september o.s.frv. 

Ég vil að ferðamenn geti farið ofan í Reynisfjöru og í siglingu á Jökulsárlóni. Ég vil að ferðamenn skilji eftir pening fyrir það sem þeir njóta hérna en ég vil ekki að þeir fari sér að voða. Svona heilt yfir finnst mér þetta.

Og mér finnst sannarlega okkur Íslendingum bera skylda til að tryggja öryggi okkar allra eftir föngum. Fólk þekkir ekki allar hættur náttúrunnar. Það hegðar sér heimskulega og við getum ekki bara hallað okkur aftur í sætunum, talið peningana og gefið skít í rest.

Mér finnst ástæða til að efla landvörslu, fjölga skiltum og, já, kannski girða sumt sums staðar af.


Leiðbeinandi sykurbindindi ...

Ég er enn að velta fyrir mér hvernig ég eigi að púlla það.  Það er viðbættur sykur í flestu sem maður kaupir tilbúið. Og margt af því sem telst hollara en er samt gott er ýmist í fjarlægum sérbúðum og/eða kostar annan handlegginn. Nema ég hafi tekið skakkt eftir ... Og það er að æra óstöðugan að elda og baka allt frá grunni.

Hmm.


Leiðsögn og ferðaþjónusta

Ég er ekki fróðasti og áttvísasti leiðsögumaðurinn. Ég veit það og þykist ekki neitt. En ég er alltaf glaður, þjónustulundaður og bóngóður leiðsögumaður sem veit helling og kem því ágætlega frá mér. Ég sat aldrei inni í rútu og sendi farþegana eina í göngu. Ég fór alltaf með bak við Seljalandsfoss. Ég gekk alltaf með niður að Dettifossi. Rigning eða sól, það skipti engu máli, ég gekk alltaf með niður Almannagjá. Eða upp. 

Mér fannst aldrei nein spurning heimskuleg. Ég sýndi alltaf áhuga þótt farþeginn segði mér sömu reynslusöguna þrisvar sinnum. Ef ég vissi ekki svarið reyndi ég að komast að því.

Ég hætti sem leiðsögumaður árið 2013. Mér finnst enn gaman að umgangast fólk, segja frá, hlusta, leiða fólk um svæði, vara það við hættum, sjá birtuna, finna vindinn á vanganum -- allt við leiðsögn finnst mér skemmtilegt nema launin og lélegu innviðirnir. Ástæðan fyrir því að ég lét gott heita árið 2013 var veðrið. Djók! Ástæðurnar voru þessar tvær sem ég nefndi, innviðirnir sprungnir og ég sá fram á að launin yrðu ekki ásættanleg í bráð.

Ég rifja þetta upp núna enn einu sinni vegna þess að við sjáum fram á enn fleiri ferðamenn í sumar og enn meiri vandkvæði við að manna allar stöður. Ef einhver alvörustefnumótun hefði verið unnin í ferðaþjónustunni -- og launin hækkuð upp í eitthvað samkeppnishæft -- væri ekkert vandamál að manna allt árið. Okkur finnst mörgum starfið skemmtilegt en alvöruláglaunastefna, alvörumetnaðarleysi í uppbyggingu og stutt alvöruvertíð rær allt í sömu átt.

Huggun mín er að ég get enn gengið um þær slóðir sem erlendir ferðamenn sækja ekki mikið í.


Er Kjarval ..(.)metinn?

Stór sýning var opnuð á Kjarvalsstöðum áðan. Það er engin tilviljun að Jóhannes Kjarval er dáður af myndlistarunnendum, flinkur og afkastamikill sem hann var. En hann náði mér í fyrsta skipti áðan á opnun sýningarinnar. Ég er nefnilega nýbúin að ganga á Austfjörðum, bæði í Borgarfirðinum hans, í Stórurð og um víkurnar. Ég sá Dyrfjöll í fyrsta skipti fyrir þremur árum og nú sé ég landslag með öðrum augum. Já, ég hef alveg ferðast um Ísland áður, en Austfirðirnir eru töfrandi. Og JSK líka. 

Afköstin, maður lifandi, eru ótrúleg. Vissulega varð hann býsna gamall og vissulega skildi hann við fjölskylduna 1924 (39 ára) en hann hefur verið stöðugt að. Og ég man ekki eftir að hafa fallið í stafi yfir myndunum hans af fólki ...

Já, þessi voðalega hrifning segir kannski meira um mig – en hann á allt lof skilið.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband