Miðvikudagur, 31. janúar 2007
Sitt er hvað, fjárhagur ríkissjóðs og fjárhagur heimilanna
Þær eru ekki allar jafn beysnar, utandagskrárumræðurnar á þingi, en mér fannst hún heilbrigð um efnahagsmálin í gær. Það er sérkennilegt að þegar bankarnir sem okra á landsmönnum sýna hagnað sem hleypur á milljörðum sé það rekið upp í nasirnar á venjulegu fólki og því sagt að það hafi það gott. Þótt það hafi það verra en í gær.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 30. janúar 2007
Græni málmurinn
Græni hvað? Ég bý ekki nálægt álveri þannig að ég hef ekki neyðst til að hugsa um eigin hag í þessum efnum. Ég hef heldur ekki unnið í álveri þótt ég hefði áreiðanlega ekki slegið hendinni á móti vel launaðri sumarvinnu einhvern tímann í árdaga. Það næsta sem ég kemst því að þekkja einhvern sem vinnur í álveri er maður sem ég þekki og sem keyrði einu sinni reglulega inn fyrir hliðið í Straumsvík.
Upplýsingum hefur vísvitandi verið haldið utan þynningarsvæðis míns, hehhe.
Og allar röksemdir hafa ekki ratað til mín, áreiðanlega ekki enn. Í kvöld frétti ég að á kvöldin væri slökkt á mengunarvörnunum sem menn hreykja sér mikið af. Þær eru dýrar. Öll fyrirtæki reyna að hámarka gróða sinn. Þess vegna er slökkt á vörnunum þegar rökkva tekur og þeir sem eiga garð að álverum sjá t.d. á þvottinum sínum að - hann brotnar.
Þetta var mér a.m.k. sagt í kvöld.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 30. janúar 2007
Kjaramál leiðsögumanna
Auðvitað skiptir leiðsögumenn margt fleira máli en kjaramál, t.d. löggilding, fagmennska og túristarnir! Nú er kominn janúar, launasamningar endurnýjuðust um áramótin en eðlilegt er að endurhlaða geymana fyrir vertíðina framundan.
Á aðalfundi í kvöld verður rætt um hvort leggja eigi niður félagið sem stéttarfélag og bara hafa það sem fagfélag. Mér finnst það fráleit tilhugsun. En mér finnst jafn fráleit tilhugsun að halda áfram að vinna fyrir 1.455 kr. á tímann í dagvinnu samkvæmt taxta þar sem orlof, bókakaup, undirbúningstími og fatakostnaður er innifalið. Helst þyrftum við sem leiðsögumenn að vera með okkar eigin sjúkrakassa í för líka.
Er ekki ráð að einkavæða ferðaþjónustuna ...?
Mánudagur, 29. janúar 2007
Ísmaurar Attenboroughs
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 28. janúar 2007
Glæpur og umbun
Nú er ég búin að átta mig á hvers vegna ég gat ekki annað en haldið áfram með Undantekninguna hans Christians Jungersens, tæpar 600 síður. Hann hefur nútímavætt Glæp og refsingu, uppáhaldsbókina mína. Ég hef að vísu aldrei þorað að lesa hana aftur en fyrst eftir að ég las hana sá ég Raskolnikoff ... víða.
Christian kvað hafa verið 7 ár að skrifa bókina sína og ég þori að hengja mig upp á að honum hefur oft orðið hugsað til Dostóévskíjs á meðan. Munurinn er helstur sá að í Undantekningunni uppsker aðilinn sem fremur glæpinn umbun erfiðis síns. Svo eru smávægileg atriði eins og annað land, annar tími og annar glæpur. Líkindin felast í sálarangistinni og samviskubitinu.
Samt kemst Glæpur og umbun ekki með tærnar þar sem Glæpur og refsing hefur hælana.
Og enn af tillitssemi við Habbý læt ég þýðinguna liggja á milli hluta. En kannski ég fái Krat lánaða á bókasafninu á dönsku, það er bókin sem Jungersen varð frægur fyrir í Danmörku.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 28. janúar 2007
Mikið að borga og lítið að fá
Ég hef ekki brjálæðislega sannfæringu fyrir þessu en finnst ég skulda sjálfri mér að hugsa upphátt um meðlög eftir að hafa boðað slíkt vers.
Einhverra hluta vegna þekki ég engar einstæðar mæður (nema reyndar eina en það er svo nýtilkomið) þannig að ég veit ekki úr nærumhverfi mínu hvernig mæðrum reiðir af eftir að þær skilja við barnsfeður sína.
Ég þekki hins vegar feður sem ekki hafa forsjá með börnum sínum. Og þeim finnst þeir borga of mikið. Greiðslan með barni til 18 ára aldurs er 18.300 á mánuði (námundað). Á ári eru það þá 220 þúsund, og ef við bætum við sama framlagi frá móður kostar rekstur barnsins (viðskiptalegt orðalag en það verður að hafa það) 440 þúsund kr. á ári, eða það er framlagið öllu heldur.
Og hvað kostar að ala upp barn? Það er sko ekki sama hvort við tölum um 2ja ára eða 12 ára. Fæði og fatnaður, alltaf. Leikskóli eða dagmamma hjá börnum að grunnskólaaldri. Stærri íbúð svo að barnið hafi sérherbergi. Frístundastarf. Sumarfrí. Rekstraraðili barns (les: uppalandinn) þarf að vera til staðar um kvöld og helgar eða útvega pössun. Það foreldri getur ekki unnið eins mikla aukavinnu og það vill og aflað þannig meiri tekna.
Svo skiptir máli hvort einstæða foreldrið annast eitt eða fleiri börn. Með fleiri börnum fylgir magnafsláttur af tímanum sem fer í matseld og innkaup. Börn á svipuðum aldri geta samnýtt eitthvað af fötum, kerrum, leikföngum og tækjum. Meðlag með tveimur börnum er þá 440 þúsund og afkoman kannski bærilegri.
Vitaskuld reyni ég ekki að leggja hið minnsta mat á þau gæði að eiga börn enda eru þau aldrei metin til peninga.
Ég held bara enn að 18.300 sé mikið að borga og lítið að fá.
Og verð æ hrifnari af hugmyndinni um skattkort barna sem foreldrar njóti til 18 ára aldurs barnanna. Við erum bara 307 þúsund í þessu stóra landi, okkur vantar fleira fólk, okkur vantar fleiri börn til að vinna fyrir okkur sem eldumst á undan þeim.
Annars er ég sannfærð um að einhverjir minna góðu vina myndu vilja láta setja barneignir á markað ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 27. janúar 2007
Markaðshagkerfið
Ég orðaskókst við mætan kunningja í gær um efnahagsstöðugleika í landinu. Honum finnst svoleiðis ríkja.
Þar sem við búum í markaðshagkerfi er hins vegar ljóst að samhengi milli framleiðsluverðs og söluverðs er ekkert. Menn rukka það sem þeir telja markaðinn færan um að borga. Og þar sem launabilið eykst hafa þeir sem minna hafa á milli handanna ekki sömu möguleika á að njóta vissra gæða lífsins. Kaupmátturinn hefur aukist ójafnt. Ég nenni ekki aftur að nefna innflutta skemmtikrafta - ég nefni bara íbúðarhúsnæði sem hefur hækkað svo mikið að fólk getur ekki sparað fyrir því. Það fær ekki hagstæð lán lengur og auðvitað vitum við að traffíkin hefur aftur aukist hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Menn skuldsetja sig af illri nauðsyn.
Þess vegna held ég að Bónus sé raunverulegur vinur heimilanna í landinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 26. janúar 2007
Skóflustunga með viðhöfn
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 26. janúar 2007
Áherslumunur í fréttaflutningi
Ég var að vonum forvitin að gægjast í gegnum fréttir inn á landsþing Frjálslynda flokksins og sjá m.a. fjöldann sem lætur sig sjávarútvegsmál, innflytjendur o.fl. varða. Mogginn stendur sig vel og birtir m.a.s. alla ræðu formannsins. Hins vegar kom Stöð 2 mér á óvart með að geta þingsins bara í framhjáhlaupi í seinni parti fréttatímans.
Stöð 2 eyðir náttúrlega miklum kröftum í að koma upp um barnaníðinga, sem er vel. Stöð 2 rekur sig á auglýsinga- og áskriftartekjum. Getur verið að fréttastofan þeirra hafi einfaldlega minna bolmagn en RÚV? Ég verð eiginlega að éta þessa spurningu strax ofan í mig því að mér finnst fréttaflutningur Stöðvar 2 ekki fátæklegur.
Í prófkjarahrinu haustsins hef ég verið sem límd við fréttamiðla og ekki fyrr tekið eftir þessum sláandi mun. RÚV - það sem var til umræðu í þinginu dögum saman um miðjan mánuðinn - var með landsþingið sem fyrstu frétt, G. Pétur var á staðnum og þingbyrjun voru gerð góð skil.
Ég tók eftir öðru í frétt ríkissjónvarpsins, ræða formanns var flutt á táknmáli líka. Er þetta ekki eini flokkurinn sem gerir það?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 25. janúar 2007
Spennan verður á Loftleiðum
Fimmtudagur, 25. janúar 2007
Einkavæðum ruslið, ha?
Stundum er maður svolítið seinn að taka við sér. Það eru náttúrlega líka þvílík ógrynni í bloggheimum að maður nær aldrei að lesa allt sem þó er forvitnilegt. En í gær ráfaði ég inn á þessa færslu um einkavæðingu bókasafna. Ég held að höfundur hafi áreiðanlega verið að grínast en í ljósi annars sem hann hefur skrifað kann að vera að hann vildi gjarnan framselja bókaútlán og jafnvel bóklestur í hendur fárra.
Hann tiltekur fjöldann allan af rökum fyrir máli sínu og þau eru rekin ofan í hann af lesendum síðunnar (því miður var búið að loka fyrir athugasemdir þegar ég las færsluna).
Ég ætla ekki að leggja orð í þann belg beinlínis, heldur hugsa upphátt um hvort ekki væri hægt að selja aðgang að öðru því sem fólk borgar fyrir með sköttunum sínum, t.d. sorphirðu. Ég veit að hörðustu einkavæðingarsinnar eru á því að mennta- og heilbrigðiskerfið eigi að fá að vera í friði en væri ekki gráupplagt að fá Gísla til að annast sorphirðuna? Þá væri hægt að vigta ruslið og láta okkur borga eftir því hver sóðar mest út. Það er kannski galli á gjöf njarðar að það tæki tíma og orku sem er ekki eytt núna og væri kannski óspennandi vinna. En þið vitið, láta þá borga meira sem eru meiri sóðar. Ég meina, sumir myndu þá kannski henda í tunnuna hjá næsta manni - sem gæti leyst málið með því að fá sér lás - eða í næsta garð, út á götu eða í sandkassann á leikskólunum. Þetta yrði trúlega ekkert ódýrara en þjónustan eins og hún er reidd fram núna - en þeir myndu borga sem njóta, svona að mestu leyti.
Og næsta skref gæti orðið að einkavæða vegagerðina. Ég meina, það er ekki nokkur hemja að þeir sem ganga bara út í búð og til baka borgi fyrir akstur t.d. atvinnubílstjóra. Ég veit ekki hvernig á að mæla þetta nákvæmlega hjá venjulegu fólki en kannski er hægt að vera með viðverumæli í bílunum. Það hlýtur að skipta máli hvort verið er að keyra Hringbrautina beint eða eina af slaufunum, já, mislæg gatnamót.
Sveitarstjórnarmenn nýtast líka misvel. Sumir opna varla munninn, hafa helst engar skoðanir og hljóta þá að vera verðminni. Sumir þingmenn eru bestir í að hlýða og ýta bara á réttan atkvæðagreiðsluhnapp eftir boðum að ofan - hver nýtist manni best? Má maður kannski gerast áskrifandi að kjörnum fulltrúa, já, og bara borga það sem það kostar?
Og leikhúsið, maður lifandi. Nú þegar hér eru menn sem ráða við að borga milljón eða 70 fyrir innfluttan skemmtikraft er algjör óþarfi að vera með niðurgreitt leikhús. Sýning á litlu leiksviði þar sem bara komast 70 áhorfendur verður að kosta meira en sýning á stóra sviðinu. 100 þúsund kall gæti dugað fyrir einstakri sýningu en ekki ef við reiknum út kostnað við æfingar. Færri sýningar kosta meira en við vitum ekki fyrr en sýningin fer af fjölunum hversu oft hún var sýnd.
Hjálp, íþróttir. Hver ætlar að borga fyrir handboltaleikinn sem er núna í sjónvarpinu?
Svei mér ef ég kristnaði mig ekki bara sjálf. Höfum bókasöfnin og strætóana á framfæri skattsins. Þetta jafnar sig.
Eitt að lokum, ég skil ekki, ég skil bara alls ekki hvernig stendur á því að bankarnir sem eru svona frábærlega reknir af einkaaðilum láta ekki viðskiptavinina njóta þess.
Es. Ég gleymdi kirkjunni! Er hún ekki gengin í björg? Hvað kostar skírn raunverulega?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 25. janúar 2007
Vinnusemi Íslendinga ríður við einteyming
Maður les og heyrir og segir sjálfur frá að Íslendingar vinni svo mikið. Svo les maður og heyrir en segir engum frá að afköstin séu ekkert endilega í samræmi við vinnutímann. Og áðan fékk ég þessa meintu frétt erlendis frá.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 24. janúar 2007
... og aðeins betur ef það er það sem þarf
Nei, ekki eitt aukatekið mærðarorð til viðbótar um handboltann. Gott að allir eru glaðir. Ég hef hins vegar í allt kvöld setið við þýðingar á bráðskemmtilegum texta úr smiðju OECD, um efnahagshorfur í Bandaríkjunum. Heartbreaking.
Og búin að reyna að læra að samþykkja bloggvin.
Þetta kemur allt með kalda vatninu, hmmm.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 24. janúar 2007
Wir machen uns, wir machen uns, wir machen uns Bestes
Ég hef alveg getað tapað mér yfir handbolta, gólað af æsingi, stokkið upp í rjáfur og hvatt Óla, Einar, Fúsa, Guðmund Hrafnkels og Þorgils Óttar. Það kemur bara ekki af sjálfu sér, ég þarf að ákveða það. Ég er því líklega ekki sannur þjóðernissinni. Ég hef samt lúmskt gaman af handbolta, ólíkt fótbolta.
Einhvern veginn finnst mér að í einhverjum hafi vottað fyrir gorgeir og yfirlæti eftir að við unnum Frakkaleikinn í gær, ekki leikmönnum, eða ég heyri a.m.k. ekkert í þeim, heldur áhorfendum. Og getur ekki verið að einhver hafi látið að því liggja að í Túnis-liðinu væru einhverjir óspilandi strumpar?
Og nú er leikurinn við þá í gangi og Túnis er yfir. Bömmer, kannski verða strákarnir okkar sendir heim fyrr en við viljum fá þá heim.
Ég get bara ekki að mér gert að rifja upp leik Íslendinga við Suður-Kóreu 1986 (það var einmitt þegar Þorgils Óttar Mathiesen og Kristján Arason heilluðu okkur öll) og það var bara formsatriði að spila við þessa stubba. Og svo töpuðum við.
Ég þori ekki að segja að ég hafi hlegið. Og allra síst myndi ég segja eitthvað eins og: Sagði ég ekki?
Flugleiða-auglýsingin um handboltann er samt góð, a.m.k. fram að hléi.
Skjótt skipast veður í lofti, ég er ekki fyrr búin að segja að Túnis sé yfir en Ísland jafnar, hmmm. 17 mínútur eftir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 24. janúar 2007
Danska upplýsingastofan um þjóðarmorð ...
Hver kippist ekki við af spenningi? Hehhe, nú er ég langt komin með Undatekninguna eftir Christian Jungersen (tæpar 600 blaðsíður) sem gerist meðal starfsmanna umræddrar upplýsingastofu. Ég veit varla hvort hún er venjulegt melódrama (ástir og örlög) eða spennusaga (er fólk myrt eða deyr það bara við að hrynja niður olíuborinn stiga?), kannski sagnfræði (langar greinar um hvernig heilu þjóðabrotin voru leidd til slátrunar). Samt hallast ég helst að því að hún sé um togstreitu á vinnustöðum, sálfræðileg viðbrögð, að gera samstarfsfólki sínu upp sakir og nánast glæpsamlegt athæfi. Hún er á köflum alveg hroðalega langdregin en samt er þarna einhver spennugulrót og nú, þegar ég á eftir um 150 blaðsíður, er ég orðin mjög spennt að vita HVER SENDI TÖLVUPÓSTANA MEÐ HÓTUNUNUM.
Af tillitssemi við Habbý ætla ég ekki að spjalla um þýðinguna.
Svo vona ég að Viggó frétti að næst hlýt ég að lesa Nafn rósarinnar - svo að ég geti einhvern tímann skilað honum eintakinu sem hann lánaði mér. Eftir þessa bók er ég komin í góða æfingu við að lesa doðranta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 23. janúar 2007
Tvískinnungurinn í manni
Ég fékk auðkennislykilinn sendan heim í gær og sem ég sat við að skrá hann inn í gærkvöldi var spiluð í sjónvarpinu auglýsingin með Björgvini Halldórssyni. Ég hló massamikið. Ég held nefnilega að Björgvin hafi ekki verið að leika ... en reyndar hef ég enga ástæðu til að leggja fæð á hann. Ég held samt að hann sé svolítið góður með sig.
Hins vegar láðist mér að gá að því í hvers nafni auglýsingin var. Hver borgar þá? Og ætti ég ekki að verða reið eins og út í Kaupþing um áramótin?
Er maður fullur af tvískinnungi? Ekki svara (svarið er of augljóst)!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 23. janúar 2007
Aldrei er ég spurð um pólitík í símann
Ég meina þá að aldrei hringir Gallup og biður mig að setja saman ríkisstjórn. Ég get sjálfri mér um kennt, ég veit það.
Ég man ekki í hvaða röð það gerðist en eitthvert árið fékk ég yfir mig nóg af heimsendum happdrættismiðum sem ég vildi ekki borga. Þá hakaði ég í bannreit hjá Hagstofunni. Eitthvert árið fékk ég líka nóg af skoðanakönnunum í síma og lét bannmerkja símanúmerið. Fyrir vikið fæ ég heldur aldrei að svara forvitnilegum spurningum.
Ég man gjörla eftir einni laaaaaaaaaaaangri upphringingu frá skoðanakannanafyrirtæki um árið. Ég var spurð áreiðanlega 40 spurninga um tónlist. Og ég er illa að mér í tónlist, því miður. Mjög illa myndu sumir segja. Og enginn hefur tekist það á hendur að mennta mig í tónlist (ég öfunda enn bróður minn sem tók áfanga í Bandaríkjunum einu sinni í Music Appreciation). Það er ekki að orðlengja það að ég gat engri spurningu svarað! Það þýðir að ég varð í hvert skipti að segja: Ég kannast ekki við lagið (ég var auðvitað spurð um titla, lögin voru ekki spiluð). Einu sinni laug ég og sagði: Ég kannast aðeins við titilinn en ég veit ekkert hver leikur lagið.
Um það leyti tók ég ákvörðun um að bannmerkja símanúmerið.
Og fæ aldrei að taka þátt í að mynda ríkisstjórn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 22. janúar 2007
Bíllinn minn er til sölu
Ég er hroðalegur sölumaður því að ég ætla að segja þetta: Ég keypti í fyrrasumar vel útlítandi lítið keyrðan Renault. Mig vantaði - eiginlega ekki - bíl en áróðurinn í kringum mann er svo harður að það endaði með að ég keypti þennan dökkgræna Renault 1996 sem aðeins einn hafði átt á undan mér. Af því að þessi eini fyrri eigandi er þekktur sökkaði ég svolítið fyrir bílnum - og svo var hann bara keyrður 48.000 km á 10 árum. Ég sá fram á að geta átt mörg náðug ár með þennan bíl í hlaðinu eins og ég hafði átt með Nissan Sunny 1986-módel á árabilinu 1998-2006. Þá var þeim loks bara öllum lokið og ekkert átakanlega mikill harmdauði. Svoleiðis.
Þessi *nýi* er nógu lipur í akstri, rúmgóður og áferðarsnotur en hann er útbúinn með ræsivörn sem gerir það að verkum að maður má bara opna bílinn sjálfan með því að strjúka plastið á bíllyklinum. Ég er að mestu búin að læra að fara mjúklega að honum þótt stundum líti ég svolítið kjánalega út þegar ég stend við bílinn og nudda lykilinn í stað þess að opna með því að stinga lyklinum í skrána. En í dag lánaði ég bílinn með margháttuðum útskýringum. Þær dugðu þó ekki til og Marín - sem hélt að ég væri að gera sér greiða - varð að skilja bílinn þjófavarinn eftir í Hafnarfirði og taka leigubíl til Reykjavíkur.
Þvílíkur bjarnargreiði.
En annars er ég ekkert í alvöru að reyna að selja bílinn, ég er bara að kvarta fyrir sem flestra augum. Skæl.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 21. janúar 2007
Er ekki ábyggilegt að ríkissjóður geti sótt um styrk í velgerðarsjóðinn?
Mér dettur t.d. í hug slysið hroðalega sem varð á Suðurlandsvegi í haust þegar lítil stúlka dó og bróðir hennar slasaðist alvarlega. Foreldrarnir lifa nú við það að þurfa að standa sig hans vegna og hafa áreiðanlega misst mikið úr vinnu. Geisladiskur hefur verið útbúinn og er m.a. boðinn til sölu í afgreiðslu Laugardalslaugarinnar á 1.500 kr. Ætli Ólafur og Ingibjörg yrðu ekki fljótari að reiða fram eins og fimm milljónir en sundgestir að mjatla þær fram?
Myndu ekki fimm milljónir gera gæfumuninn, og það í snatri? Úr því að ríkinu finnst ekki standa upp á sig að styðja fórnarlömb umferðarslysa gæti það kannski samt sent sjóðnum umsókn fyrir hönd foreldranna. Er þetta verkefni óverðugra en þau sem meiningin er að styrkja í Síerra Leóne? Eða að borga undir flygil Eltons Johns?
![]() |
Gefa einn milljarð króna í velgerðarsjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 21. janúar 2007
Swine Valley
Og ekki orð um hann meir.
...
Eða jú, ég mæli með að allir sem vettlingi geta valdið fleygi frá sér öllum meintum skyldustörfum um stund og stormi út úr bænum með 6-8 góðvinum sínum úr menntaskóla til einnar nætur dvalar. Það er hægt að borða lítilræði eins og skinkuböku, chili con carne með guacamole og sýrðum rjóma á eftir ostasalati og kexi, skola niður með stífluðu heitu vatni úr pottinum, stinga í munninn bláberja......... og Neuhaus með hátíðarkaffi á eftir og læra svo magadans þangað til maður sofnar.
Vakna næsta morgun og stöffa sig með beikoni og eggi, hjala meir eins og maður gerir til upprifjunar á þeim árum sem liðin eru frá menntaskólaútskrift, hugsa gott til glóðarinnar að í hópnum skuli vera tvær hjúkkur og einn geislafræðingur ef heilsan bilar í 100 km fjarlægð frá Reykjavík, taka sig upp og millilenda í Mosfellsbænum til að sækja rafmagnslausan bílinn sinn. Kjörið tækifæri fyrir aðra að læra á húddið á bílnum sínum - allt leggur maður á sig - og eiga síðan bæði minningar um menntaskólaárin og útstáelsið þótt helgin sé bara hálfnuð.
Verst að vera send með gráðostasósu sem tók fjóra tíma að búa til úr gráðosti og matargerðarlist og -lyst og finna henni ekki pláss á matseðlinum. Sakar þó ekki að eiga hana eftirleiðis í frysti (meðan hann verður ekki rafmagnslaus aftur) því að hún kvað ganga með öllu.
Einhvern veginn grunar mig að Árdís, Berglind, Ella, Inga, Kristín, Rannveig og Sólveig - að ógleymdri Shakiru - eigi eftir að hleypa þessum heimdraga aftur síðar. Þá má líka mikið vera ef Erla og Rut reyna ekki að slást þá í hópinn. En stóridómur er ekki fallinn, tengdafjölskylda Kristínar á eftir að koma að bústaðnum í þeirri mynd sem við skildum hann eftir í ...
-
h_my_pictures_new_folder_2_svinadalur_007.jpg
-
h_my_pictures_new_folder_2_svinadalur_009.jpg
-
h_my_pictures_new_folder_2_svinadalur_027.jpg
-
h_my_pictures_new_folder_2_svinadalur_038.jpg
-
h_my_pictures_new_folder_2_svinadalur_046.jpg
-
h_my_pictures_new_folder_2_svinadalur_047.jpg
-
h_my_pictures_new_folder_2_svinadalur_048.jpg
-
h_my_pictures_new_folder_2_svinadalur_055.jpg
-
h_my_pictures_new_folder_2_svinadalur_056.jpg
-
h_my_pictures_new_folder_2_svinadalur_057.jpg
-
h_my_pictures_new_folder_2_svinadalur_061.jpg
-
h_my_pictures_new_folder_2_svinadalur_062.jpg
-
h_my_pictures_new_folder_2_svinadalur_078.jpg
-
h_my_pictures_new_folder_2_svinadalur_081.jpg
-
h_my_pictures_new_folder_2_svinadalur_086.jpg
-
h_my_pictures_new_folder_2_svinadalur_091.jpg
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)