Þing á þriðjudag!

Ég hélt að ég væri fíkin í fréttir en í dag frétti ég að þing ætlaði að koma saman á þriðjudaginn til að lagfæra mál og ég tók ekki eftir því í neinum fréttatíma. Ég er í sjokki.


HHÍ eða lottó

Ég veit að bestu auglýsingarnar eru þær vondu af því að fólk talar um þær og nú ætla ég að ganga lóðbeint í gildruna.

Lottóauglýsingarnar sem fela í sér klikkuð símtöl þar sem fólk pantar pítsu með þyrlu eða kaupir demanta í kílóavís af því að það vann þann stóra höfða til óþarflega lágra hvata mannsins. Í öðru orðinu er verið að selja fólki lottó af því að það styðji við íþróttastarf í landinu og í hinu orðinu er verið að selja fólki lottó til að það geti grætt svo mikið að allir verði að ómerkilegum þjónum hins heppna.

Ég hugsa að okkur finnist flestum næs að vinna eitthvað smá og ég er alveg í þeim sporum. Ég vann einmitt 12.000 kr. í útdrætti hjá Happdrætti Háskóla Íslands sem voru lagðar þegjandi og hljóðalaust inn á reikning hjá mér um miðjan síðasta mánuð. Sem betur fer er HHÍ þó enn í gróða eftir áralanga samferð okkar enda keypti ég miða fyrst og fremst til að láta lítilræði rakna til háskólans.

Og fyrir utan hvað þessar auglýsingar frá lottóinu eru ósmekklegar eru þær órökréttar. Sá sem svarar í símann er ekki sá sem vann þann stóra heldur sá sem hringdi. Hlustið bara næst ef þið voruð ekki búin að átta ykkur á þessu og takið eftir að hugmyndin gengur ekki upp. Maður „fær ekki áhugavert símtal“ þegar maður græðir heldur „hringir áhugavert símtal“.


Sænskir lögguþættir

RÚV er með í spilaranum sínum lögguþætti sem gerast í Malmö. Ég man að einu sinni þótti (mér) allt sænskt sjónvarp vera um vandamál, erfiðleika og leiðindi. Þessir þættir eru um lausnir. Þeir eru um lögreglufólk sem dílar við erfið mál en líka skemmtileg, um fólk sem er sérlega miklar manneskjur.

Hver þáttur er klukkutími þannig að ég réð aldrei við að horfa á meira en einn þátt í einu þangað til í kvöld að ég horfði á síðustu tvo, já, á sólskinsbjörtu síðkvöldi.

Og mér fannst besti þátturinn sá níundi og næstsíðasti, þátturinn sem sýndi svo glögglega vanda Magnúsar gagnvart foreldrum sínum og systur. Aðallega samt föður sínum. Ég fékk hnút í tilfinningarnar og vitsmunina yfir þeim þætti umfram hina. Þar var sko sýnt en ekki sagt, eins og Njörður P. Njarðvík lagði svo mikla áherslu á þegar ég tók ritlistaráfangana hjá honum forðum daga.

Þunna, bláa strikið er í spilaranum fram í apríl á næsta ári þannig að þið hafið nægan tíma til að horfa og ég skora á ykkur að athuga hvort ég hef eitthvað til míns máls.

 


Bensínverð

Ég á bíl en keyri lítið og kaupi mjög sjaldan bensín. Í vikunni keypti ég bensín og sá að lítraverðið var komið í 234,60 kr. Síðast þegar ég keypti bensín þar á undan kostaði lítrinn 205,40 kr. (28. mars) og þar á undan 185,50 (11. september 2020).

Ef ég ætla að vera á bensínbíl hef ég lítið val vegna þess að bensínsölurnar eru ekki í samkeppni.

Ef ég vil skipta yfir í annað eldsneyti þarf ég fyrst að losa mig við bílinn minn sem er árgerð 2005.

Mér finnst að ég eigi að keyra bílinn út. Varla getur verið skynsamlegt að pressa vel nothæfan bíl þótt hann sé orðinn 16 ára.

Mikið djö vildi ég óska þess að hér væru almenningssamgöngur sem þjónuðu fólkinu sem vill nota þær.


Pabbi 1921-2019

Í dag, á kvenréttindadaginn 2021, hefði pabbi minn orðið 100 ára ef hann hefði lifað. Hann átti alveg góða möguleika á því vegna þess að hann var hraustur og dugmikill maður. Hann var mikill íþróttamaður sem missti sig á miðjum aldri í talsvert át á sama tíma og hann minnkaði hreyfingu en hann vann hreystina til baka eftir sjötugt. Hann gekk og synti alla daga en ekki var minna um vert að hann var algjör hamhleypa til þeirra verka sem hann tók sér fyrir hendur, svo sem að endurbæta sumarbústað.

Hann var rafvirki að mennt og dró rafmagn í ótal stórra og smárra húsa sem voru byggð í Reykjavík um og eftir miðja 20. öld. Hann rak eigið fyrirtæki með miklum glæsibrag og hafði marga góða menn í vinnu. Þeir voru góðir menn og miklir verkmenn en pabbi hafði líka jákvætt hvatakerfi til að laða fram þeirra bestu hliðar. Þegar maður er með mörg útistandandi verk er mikilvægt að geta treyst mönnunum sínum til að gera það sem þarf. Og þetta var auðvitað fyrir tíma farsímanna sem kallaði á skýrt skipulag í upphafi hvers dags.

Í tilefni dagsins ætlum við systkinin þrjú að fara austur á heimaslóðir pabba, hitta nokkur ættmenni okkar, systkinabörn pabba, og drekka saman kaffi í hans nafni. 19. júní verður í mínum augum og huga alltaf merkisdagurinn hans pabba og ég verð öll meyr við að skrifa þetta.

Til hamingju með daginn.

---

Neðan máls ætla ég að leyfa mér að segja að ef starfsmenn Hrafnistu, þar sem pabbi ól manninn síðustu tæpu tvö árin sín, hefðu ekki misst hann í gólfið þrisvar eða fjórum sinnum hefði hann átt betri lokaár. Þótt við systur færum til hans alla daga - alla daga - gátum við ekki fyrirbyggt það að pabbi dytti margsinnis á gólfið, algjörlega að óþörfu.

 


Hefurðu tekið áhættu?

Ég horfði á ansi magnaða mynd á RÚV í gærkvöldi, Hinstu kveðjuna (2017). Að vísu valdi þýðandinn annan titil en þar sem myndin er öll um minningargreinar finnst mér hann hafa misstigið sig þar.

Mögnuð mynd, segi ég. Shirley MacLaine (sem er stóra systir Warrens Beattys en ég vissi það ekki fyrr en núna) leikur úrilla konu á níræðisaldri sem ræður leigupenna til að skrifa minningargrein um sig. Samstarfið hefur áhrif í báðar áttir og það hafði líka áhrif á mig. Sem betur fer hefur margt áhrif á mann; fólk, bækur og bíómyndir. Ein spurningin sem ég tek með mér út úr þessu áhorfi er:

Hef ég tekið áhættu?

Ég hef sagt og hugsað þannig um líf mitt að það sé umvafið bómull. Ég er forréttindapési, alin upp við alúð og allsnægtir og hef alltaf getað farið og gert eins og hugur minn hefur staðið til. En ég hef haldið mig í þægindarammanum. Ég tek ekki áhættu, ég ana ekki út í óvissuna. Ég er þægindafíkill og ég hafði/hefði gott af að láta ýta við mér eins og blaðakonan sem sú fullorðna réð til að skrifa um sig minningargrein.

Flest þorum við ekki einu sinni að segja það sem okkur finnst af því að það er óþægilegt fyrir alla. Harriet Lauler lætur það hins vegar ekki þvælast fyrir sér ...

Ég las nokkra dóma um myndina og þeim bar öllum saman um að hún fengi falleinkunn og að kröftum Shirley væri illa varið í henni. Ég er samt þeirrar skoðunar að sagan hafi átt erindi til mín. 


Snillingarnir sem útskrifast - viðurkenningablæti

Ég ímynda mér að foreldrar haldi að þeir séu að gera börnum sínum gott þegar þeir hrósa þeim í hástert. Fyrir nokkrum áratugum held ég að stefnan hafi verið að hrósa sem minnst til að gera afkomendurna sterka og sjálfstæða. Það er því ýmist í ökkla eða eyra af því að við hljótum að vera sammála um að meðalhófið sé best.

Verðskuldað hrós er dásamlegt og uppbyggilegt. Hrós fyrir góðan árangur, aukaframlag, gott viðmót eða hvað sem er hróssins virði. En það er ekki afrek að verða eins árs og það er ekki kraftaverk að útskrifast úr leikskóla. Börn eru ekki snillingar eða meistarar fyrir að fylgja straumi lífsins.

Þið vitið hvað ég meina.

En nú við síðustu útskrift úr grunnskólum er komið glænýtt þema, uppáskrifuð viðurkenning fyrir góðan árangur í náttúruvísindum, tungumálum og einhverju öðru sem ég man ekki. Það væri gott og blessað ef 80-90% fengju ekki þessa viðurkenningu og skildu 10-20% nemenda eftir í salnum með mikla vanmetakennd.

Þetta viðurkenningablæti náði í mínum huga hámarki þegar móðir stúlku sem fékk ekki viðurkenningu tjáði sig fyrir hönd þeirra mæðgna og gagnrýndi það að flestum nemendum var hrúgað upp á svið með viðurkenningar fyrir smæstu smáatriði en lítill hópur sat eftir á áhorfendabekkjunum. Ef 90% eru farin að skara fram úr er ekki um framúrskarandi árangur að ræða.

Kennarar, skólastjórnendur, foreldrar og aðrir uppalendur mega gjarnan hrósa börnunum sínum í einrúmi og eftir atvkum í fjölmenni en að kalla fólk snillinga og meistara í tíma og ótíma gjaldfellir alvöruhrós. Og það að hrósa einum með því að gera lítið úr öðrum er ömurleg framkoma.


Vanskil á Landsbókasafni

Þetta er klassísk vandlætingarfærsla.

Ég skrifaði ritgerð í fyrrasumar og fékk á þeirri vegferð lánaðar nokkrar bækur á Landsbókasafninu. Ég framlengdi í einhver skipti af því að ferlið tók mig lengri tíma en ég áætlaði. Svo skilaði ég loksins bókunum og þá var komið Covid þannig að ég skildi þær eftir í kassa í anddyrinu. Svo leið einhver tími og ég fékk tölvupóst um vanskil á einni bók. 

Ég kannaðist við að hafa fengið bókina og eins og maður gerir fékk ég efasemdir um sjálfa mig og sneri öllu við til að finna bókina þótt ég eigi alls ekki vanda til að týna neinu nema vettlingum. Ég fann ekki bókina enda er ég 95% viss um að hafa skilað henni, en ég sendi póst og baðst afsökunar á að finna hana ekki og spurði hvort ég gæti ekki fengið að borga hana bara. Þá var skilafresturinn framlengdur hjá mér, tvívegis án þess að ég bæði neitt um það, og svo fékk ég tölvupóst um vanskil þegar sá frestur var liðinn. 

Ég sagði enn að ég fyndi ekki bókina en ef öll ryk hnigju til þess að ég hefði ekki skilað henni þætti mér eðlilegt að ég yrði rukkuð.

Tveimur dögum seinna, í gær, fékk ég tölvupóst með greiðsluupplýsingum og afsökunarbeiðni um hversu seint safnið svaraði (engin mannanöfn í póstunum). Ég borgaði strax og er bara fegin að málið sé úr heiminum þótt ég líti svo á að ég hafi verið að styrkja safnið um 8.000 kr. (engin sérstök eftirsjá í peningnum). 

Nei! Í dag fékk ég snigilpóst með hótun um innheimtu.

Mér er engin vorkunn, engin, en mig grunar að þetta sé algengt. Fólk er rukkað, það gerir grein fyrir sér, gerir upp og fær svo innheimturukkun með hótunum. 

vanskil 11. júní 2021


Málspjallið: umræða um kommur

Ég las langan þráð á Facebook um kommur. Greinarmerki eru mikilvæg en þessa setningu er ég að hugsa um að leggja á minnið.

greinarmerki

Svo er auðvitað hin klassíska setning sem á alltaf við:

Eigum við að borða Einar?

Eigum við að borða, Einar?


Ljótu hálfvitarnir

Vá! Ég horfði á heimildarmyndina um Ljótu hálfvitana níu á RÚV í fyrrakvöld. Þeir semja og spila af ástríðu, metnaði og brjálaðri spilagleði. Ég er svo lánsöm að þekkja sex þeirra í gegnum leikfélagið Hugleik sem ég dandalaðist með í sjö ár og hefur markað mig fyrir lífstíð. kiss Ég var reyndar upptekin í fyrrakvöld þannig að ég horfði ekki fyrr en í gær og ég hugsa að ég horfi aftur á bæði heimildarmyndina og tónleikana frá 2019 áður en tíminn rennur út eftir þrjá mánuði. 

Og svo er myndin í línulegri dagskrá núna kl. 15:20.


Hver eru þá launin í ferðaþjónustunni?

Fyrirtækjum í ferðaþjónustu tekst víst ekki að ráða til sín fólk. Það kom fram í Kastljósi kvöldins og ég sá það líka á löngum þræði á Facebook-síðu sem er kölluð Bakland ferðaþjónustunnar.

Ég get sagt það einu sinni enn að laun leiðsögumanna eru frámunalega lág og hafa verið lengi. Hæsta dagtaxtagjald er 2.530 kr. og mörg ferðaþjónustufyrirtæki þykjast ekki geta boðið betur. Samt á leiðsögumaðurinn að fræða og skemmta, hugga og stumra yfir fólki ef eitthvað er að og í langferðum er hann í raun alltaf til staðar. Ég var leiðsögumaður í 13 sumur en hætti 2013 þegar innviðirnir sprungu framan í okkur.

Ef ekki tekst að manna störfin núna þrátt fyrir mikið atvinnuleysi verð ég að spyrja: Hvað eru ferðaþjónustufyrirtæki að bjóða í laun fyrir vinnuframlagið? Ef þau eru ánægð með sig hljóta þau að geta svarað því.


Eingöngu konur á þingi?

Þessi fyrirsögn trekkti mig inn á viðtalið við Arnar Pétursson:

 

Væri til í að hafa eingöngu konur

á Alþingi nokkur kjörtímabil

 

Arnar ofurhlaupari segir: „Einu sinni réðu karlar öllu. Af hverju eru menn ekki brjálaðir þegar þeir lesa söguna frá 1930? Af hverju fá þeir ekki reiðitilfinningu þá? Þeir fá hana þegar þeir hugsa um 100% konur á þingi, að það sé galið.“

Ég veit ekkert hvort honum er 100% alvara. Ég gæti sem best trúað að hann vildi hrista upp í fólki. En er útilokað að 63 konur væru besta val á Alþingi í 12-16 ár meðan verið er að rétta hallann?

Ég er aðeins málkunnug Arnari og veit að hann kemur úr réttsýnni baráttufjölskyldu. Hann býðst í raun til að stíga til hliðar og eftirláta mömmu sinni og systur sviðið.

Þessi hluti viðtalsins hefst eftir rúman klukkutíma.


ASÍ gegn Play / Play gegn ASÍ ... eða íslenskt flug eða ekki

Forseti ASÍ og forstjóri Play áttu útvarpsfund í gegnum Sprengisand í gærmorgun. Miðað við málsvörn hvors um sig í þessum þætti mun ég ekki kaupa mér miða með Play á næstunni.

Það er ekki sama hvaðan gott kemur. Ef starfsfólkið fær lúsarlaun liði mér ekki vel með flugmiðann á 20.000. En hvernig er miðaverðinu haldið lágu hjá Wizz og Smart Wings? Íslenskur flugiðnaður er í erfiðri samkeppni. Mig langar nefnilega heldur ekki að kaupa miða með Icelandair sem er með trygga lánalínu frá íslenska ríkinu ef eitthvað fer úrskeiðis. Svo hefur Icelandair margsinnis fellt niður flug í vetur og sameinað öðrum flugleggjum og sent farþega sína landleiðina til annarra landa ef þeir ætla að ná flugi til Íslands með Icelandair.

Hvert er aftur öryggið í því að hafa íslenskt flugfélag versus að hafa það ekki?


2020-2021

Þessi Covid-vetur var ekki alvondur. Ég fékk mér gráðu í blaða- og fréttamennsku og allar einkunnirnar voru 8,5. Nú er ég líka í stuði fyrir allt mögulegt, já, eins og að fá MA-ritgerðina mína til baka frá leiðbeinanda í þýðingafræðinni. Sú gráða hefur verið alltof lengi í vinnslu.

einkunnir vor 2021


Snerting

Ég er bara hálfnuð með bókina sem margir mæra og mér finnst hún enn sem komið er flatneskjuleg og leiðinleg. Mér skilst þó að hún fjörgist þegar líður á þannig að ég mun lesa til enda.

Ég skil samt ekki hvernig meinleg villa getur komið fyrir tvisvar í útgefinni bók frá manni sem er klappaður upp sem meistari íslenskrar tungu.

 

Snerting, bls. 117

Ekki ófá > tvöföld neitun > fá. Varla er hann að meina að hann hafi sjaldan sest með stjúpdóttur sinni til að hjálpa henni með námið.

Kiljan var yfir sig hrifin af bókinni ... og stílnum ... þannig að ég vonast eftir betri seinni helmingi.


Fossvogslaug

Hugmyndin um Fossvogslaug hljómar vel í mínum eyrum. Ég stundaði sund í laugunum í mörg ár en undanfarið í sjónum. Aðstaðan í Nauthólsvík er sprungin og það hefur líka sýnt sig að eftirspurn eftir sundlaugum er mikil, ekki bara í Reykjavík en alls ekki síst í Reykjavík. Þetta er lýðheilsumál og félagsmál.

Ég hélt að allir fögnuðu hugmyndinni um Fossvogslaug en svo sé ég að menn hafa áhyggjur af almennu aðgengi og landi sem verður lagt undir bílastæði.

Þá er lag fyrir áhugasama að tala og þá sem taka ákvörðunina að hlusta. 

Ég er enn áhugasöm um Fossvogslaug og get næstum lofað að ég fari þangað sjálf á hjóli, til vara í fullum bíl af sundlaugargestum.


Lögmaður er ekki skjólstæðingur hans

Ég á bróður sem stal miklum peningum af mömmu og pabba, þ.e. hann fékk lánaðar 10,5 milljónir til viðbótar við helling sem þau gáfu honum en þegar þau dóu fyrir tveimur og þremur árum neitaði hann einfaldlega að borga peninginn til baka. Pabbi hafði í sakleysi sínu skráð allt niður en ekki þinglýst eða látið hann skrifa undir skuldina. Með hjálp lögmanns komst Gummi upp með þetta gagnvart okkur systkinunum þremur. Ég var í miklum samskiptum við lögmann Gumma og hann margsetti upp svip hins saklausa og sagði að ég mætti ekki samsama hann skjólstæðingi sínum.

Síðan hef ég margheyrt formann Lögmannafélagsins segja það.

Af hverju vissi lögmaður Sölva ekki af þessu sem lögmenn klifa á?


Mæðradagurinn

Ég er ekki spennt fyrir þemadögum og ekki heldur hástigslýsingarorðum. Mamma mín var einfaldlega besta mamman fyrir mig. Nú eru þrjú ár og fjórir mánuðir síðan hún dó og ég sakna hennar stöðugt. Ég tek aldrei upp símann og byrja að hringja í hana sem er skrýtið af því að við töluðum saman í síma á hverjum einasta degi en ég hugsa mjög oft að mikið vildi ég tala um þetta eða hitt við hana.

Mér finnst gott og heilbrigt að geta sagt að hún var gallagripur eins og við flest en hún var mikill grallari og húmoristi og alltaf raungóð. Hún hafði ýmsa fjöruna sopið áður en ég fæddist, yngsta barn foreldra minna, og hún bar sem betur fer ekki harm sinn alltaf í hljóði en hún var ekki týpan sem sífraði eða heimtaði. Hún bað mig að lifa lífinu og alltaf þegar ég skemmti mér vel, geri eitthvað nýstárlegt eða næ árangri í einhverju veit ég að hún myndi kinka kolli af sérstakri velþóknun. Hún kunni sannarlega að samgleðjast og gerði það svikalaust.

Þótt ég sakni hennar og hefði viljað hafa hana lengur er ég líka þakklát fyrir að hún þurfti ekki að búa við covid-takmarkanir sem hefðu rýrt lífsgæði hennar geysilega mikið.


Gerendameðvirkni

Ég hata meðvirkni

Það getur verið erfitt hvort sem er að þegja eða segja en allt byggist það á að samfélagið sé sæmilega heilbrigt. 


6 milljarða hagnaður hjá Arion

Ég er með kenningu um þennan góða hagnað hjá bankanum. Ég er sjálf viðskiptavinur hans og hef sannreynt að innlánsvextir eru niðri í gólfinu á sama tíma og hann rukkar myndarlega fyrir útlánsvexti. Allir bankar á fákeppnismarkaði græða í því umhverfi.

Af hverju fáum við ekki samkeppni í peningalífinu? Og ekki segja mér að stofna banka, fólk með viðskiptavit og fyrirtæki í maganum ætti að gera það.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband