Áttu þeir skilið að fara á mótið?

Ég ætla að bera í þann bakkafulla leik að hrósa íslenska karlalandsliðinu í fótbolta sem hefur nú lokið keppni í Rússlandi. Ég þekki marga áhugalausa um fótbolta sem fylgdust með leikjunum af fölskvalausri gleði og ég held að við séum mörg sammála um að leikmenn hafi lagt sig alla fram. Hróður Íslands berst nú víða og árangur okkar er stórkostlegur. Í viðtölum hafa þeir líka sýnt hógværð og yfirvegun. Ég er grefilli ánægður Íslendingur í lok júní 2018.

Takk fyrir mig ... en ég ætla að fylgjast með HM aðeins lengur. laughing


Sakramentið

Ólafur Jóhann á næga aðdáendur þótt ég leyfi mér að gagnrýna Sakramentið fyrir yfirborðskennda og langdregna frásögn. Bókinni er auðvitað ekki alls varnað, ég varð forvitin um tvö atriði enda sagan spennusaga í því tilliti, en ég náði sem sagt ekki almennilegu sambandi við persónurnar. Togstreitu nunnunnar vegna ástar sinnar og svo framkomu í ferð sinni á Íslandi hefði verið hægt að gera jafn góð skil á langtum færri blaðsíðum. Siðferðisklemman er ekki ný og ekki nýstárlega um hana skrifað. Viðbrögð kirkjunnar komu ekki á óvart. Stóllinn sem skýrslum er stungið undir er á sínum stað. Samviskubit vegna aðgerðaleysis þótt brotið sé á börnum er þekkt.

En bæði Jesús og Drottinn voru rétt fallbeygðir og ég er ánægð með það.


Saga Ástu

Ég á aldrei eftir að þora að lesa Himnaríki og helvíti aftur, svo mögnuð fannst mér sagan vera og er logandi hrædd um að ég yrði fyrir vonbrigðum í næsta skipti. Hins vegar hef ég ekki alltaf verið hrifin af bókum Jóns enda á ekki að vera neitt garantí í þeim efnum.

Fyrstu 40 síðurnar í Sögu Ástu hugsaði ég líka ítrekað um að leggja hana frá mér. Hún er stórt púsluspil og það er þreytandi að sjá hvorki andlitsdrætti né landslag úr bitunum. Síðan komst skriður á söguna og þegar ég náði að tengja við Jóhönnu Þráinsdóttur og Ara Jósefsson opnuðust enn fleiri gáttir og ég varð yfirkomin af sögu þeirra og fleiri til sem voru til án þess að vera skilyrðislausar fyrirmyndir sögupersónanna.

Ég vildi bara að einhver hefði sagt mér að glósa þegar ég byrjaði á bókinni.

 


Lærbrot eykur hagvöxt

Mér hefur svo oft orðið hugsað til þess að slys, rúðubrot og önnur óhöpp auka hagvöxt samkvæmt skilgreiningu. Auðvitað líka almenn aukin viðskipti og hugvit en hagvöxtur er samt ekki nógu góð mælieining á velsæld.

Pabbi minn sem búsettur er á Hrafnistu fótbrotnaði á föstudaginn var en af því að hann gat stigið í fótinn var það mat heilbrigðisstarfsfólks að hann þyrfti bara að hvíla sig. Á þriðjudeginum var hann loks sendur í röntgenmyndatöku og reyndist brotinn og fór beint á spítala í aðgerð.

Og við það tók hagvöxturinn kipp ...

Auðvitað vildum við helst að læknar, slökkviliðsmenn, fangaverðir og lögreglumenn hefðu alls ekkert að gera. En þá yrði til atvinnuleysi sem er slæmt fyrir hagvöxtinn. Er ekki eitthvað skakkt við þetta?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband