Færsluflokkur: Dægurmál
Fimmtudagur, 2. apríl 2020
Það þarf að semja við hjúkrunarfræðinga
Í fyrsta lagi er bara út úr kortinu að stéttir séu samningslausar í ár. Í öðru lagi er nú komið rækilega á daginn hvaða stéttir halda samfélaginu á floti og hvaða stéttir gera það ekki. Ef við hefðum ekki matvælaframleiðslu, rafmagn, hús, föt og aðhlynningu fyrir veika og aldraða tæki enginn eftir því þótt forysta Samtaka atvinnulífsins væri engin. Þúsundir manna hafa talað fyrir því árum saman að heilbrigðis- og umönnunarstéttir væru á betri launum en forystumenn skellt skollaeyrum við.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 1. apríl 2020
Keðjubréf
Ég slít allar keðjur, öll keðjubréf. Ég aðhyllist hjarðhegðun stundum, get tapað mér yfir handbolta og fótbolta, horfi á sjónvarp sem mælt er með og sæki sömu staði og margmennið enda er ég svarinn extróvert. En ég deili ekki bröndurum á Facebook og tek yfirleitt ekki áskorunum um að vera með í leikjum.
Sumir brandararnir sem fólk setur samt núna á Facebook eru svo tryllingslega fyndnir að ég hlæ oft upphátt. Kannski hefur vírusinn tekið sér bólfestu í mér. Kannski er ég farin að kunna að meta hið smáa í lífinu. Hver veit?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 31. mars 2020
Að lifa af leiðindin
Mér finnst beinlínis óþægilega mikil áhersla á afþreyingu í umræðunni, ekki endilega í mínum nærhópum heldur útvarpi og kannski sjónvarpi. Mörgum er að sönnu kippt úr sinni daglegu rútínu og margir þurfa að hafa ofan af fyrir ungum börnum og jafnvel eldri börnum en mér finnst umræðan vera eins og 360.000 manns á Íslandi eigi að dunda sér þangað til veiran hefur runnið sitt skeið.
Framlínustarfsfólkið hleypur allan vökutíma sinn. Hjúkrunarfræðingar og einhverjar fleiri stéttir eru með útrunna kjarasamninga. Viðskiptaráð stingur upp á að opinberir starfsmenn hjúkrunarfræðingar, kennarar, lögreglumenn sveiflujafni ástandið með kjörum sínum. Bláa lónið greiðir milljarða í arð til hluthafa og sendir starfsfólk sitt á atvinnuleysisskrá hins opinbera. Bankarnir lækka innlánsvexti hjá sparifjáreigendum. Fólk, t.d. námsmenn, með einstakar vaktir í fataverslunum og á veitingastöðum missir vaktirnar og tekjurnar en fær ekki bætur af því að það hefur ekki verið í eiginlegu starfshlutfalli.
Bændur lenda fyrirsjáanlega í vandræðum með mönnun í vorverkunum. Ferðaþjónustan lepur nú dauðann úr skel. Vinir mínir í leiðsögustétt sem voru búnir að bretta upp ermar fyrir törnina framundan sitja með hendur í skauti. Leigubílstjórar og flugmenn geta ekki unnið að heiman. Listamenn eru kyrrsettir í sinni eigin vertíð. Aðstandendum er bannað að heimsækja fólkið sitt á elliheimilum vegna smithættu en starfsfólk kemur úr sama umhverfi og aðstandendur. Þar hefur verið illa mannað, sums staðar, og starfsfólk nær engan veginn að bæta það félagslega tjón sem verður við það að börnum og barnabörnum er ekki hleypt inn. Ég gagnrýni ekki þessa varúðarráðstöfun en lífsgæði fólks á lokametrum lífs síns eru skert til muna meira en miðaldra fólks sem leiðist af því að það er búið að horfa á allt á Netflix og í Sjónvarpi Símans en bjargar sér af því að það getur skálað í gegnum Zoom.
Ég hripa hér bara upp hluta af jöfnunni sem er alveg galin. Sums staðar í samfélaginu mokar fólk og mokar til að samfélagið haldi sjó og annars staðar situr orkumikið fólk og hugleiðir hvort það eigi að bora út úr hægri nösinni eða þeirri vinstri. Þó er huggun harmi gegn að gildi skapandi greina og skapandi fólks hefur fengið aukið vægi.
Einhver hlýtur að vera með yfirsýnina. Einhver hlýtur að geta séð hvar of margt fólk er og hvar of fátt, hvar peninga vantar og hvar er ofgnótt og þeir einstaklingar verða að leggja saman tvo og tvo og fá út rétta útkomu. Fólkið sem hefur allar upplýsingarnar verður að rétta hallann.
En ég hlýði Víði og tek almennt mikið mark á því sem kemur fram á daglegum upplýsingafundum vegna Covid.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 30. mars 2020
Móðir menn í kví kví
Spaugvarpið er búið að senda frá sér sitt fyrsta hlaðvarp. Ég hló margsinnis upphátt þannig að ég mæli augljóslega með því í súldinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 29. mars 2020
Hvar eru samningar við hjúkrunarfræðinga?
Hjúkrunarfræðingar hafa verið samningslausir í ár. Fyrir fimm dögum var samningafundi slitið án þess að boða til nýs. Heilbrigðisstéttirnar eru einna mikilvægustu starfsstéttirnar og þarf ekki faraldur til að sjá það en samt er ekki samið við fótgönguliðana, framlínustarfsfólkið. Ég þori ekki að hafa hátt af því að ég er hvergi nálægt samningaborðinu og hef engra persónulegra hagsmuna að gæta en ég skil ekki viljaleysið til að gera kjarasamning. Það er ekki nema von að margir hjúkrunarfræðingar hafi í gegnum tíðina látið sig hverfa til annarra starfa. Reikningar eru ekki borgaðir með hugsjón og köllun og létt lund vegur heldur ekki þungt í augum bankans.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 27. mars 2020
Svart ...
Einn vinur minn skrifaði á Facebook í vikunni: Hugur minn er hjá öllum innbrotsþjófunum sem geta nú ekki athafnað sig vegna þess að allir eru heima.
Kaldhæðni, já, gott hjá honum. En ég er að hugsa til stóru hópanna sem hafa unnið svart í gegnum árin og eiga minni réttindi fyrir vikið enda hafa þeir minna borgað til samneyslunnar. Fólk getur ekki sýnt fram á tekjufall vegna þess að tekjurnar hafa ekki verið færðar til bókar. Ég heyri bara hvergi neina umræðu um þetta. Er hún líka svört og falin?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 26. mars 2020
Þrífast börnin þá ekki best á misjöfnu?
Á misjöfnu þrífast börnin best hefur lengi verið haft á orði og vísað til þess að börnum sé hollt að borða sand (í hófi) í sandkassanum en ekki lifa bara vafin inn í bómull. En nú á tímum Covid er manni sagt að þvo hendur sýknt og heilagt. Ég skil að nú eru óvenjulegir tímar en styrkjum við ekki ónæmiskerfið heilt yfir með því að venja það við ýmislegt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 24. mars 2020
Stytting vinnuvikunnar?
Er veiran kannski að sýna okkur fram á að við getum stytt vinnuvikuna til muna? Hvaða störf getur fólk lagt á hilluna eða stytt vinnuvikuna hjá um helming án þess að stóru hóparnir finni fyrir því?
Hjúkrunarfræðingar eru ómissandi, matvælaframleiðendur, seljendur og/eða dreifingaraðilar matvöru, sorphreinsar og hverjir fleiri? Listamenn. Til hvers að lifa ef engin tónlist, engir litir, engin hönnun er til að gleðja auga og eyra? Eitthvað í þá veruna sagði Churchill eftir síðari heimsstyrjöldina þegar hann var spurður hvort ekki ætti að skera niður til menningar og lista.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 22. mars 2020
Sjálfsþurftarbúskapur
Ég get bakað og eldað en ég er öðrum háð um hráefni. Ég get unað mér við bækur og útvarp en treysti á sköpun annarra. Ég er hraust og veikist sjaldan en ef ég veikist get ég ekki læknað mig sjálf.
Við búum í samfélagi þar sem fólk nær vonandi að rækta sínar sterku hliðar og hver leggur það af mörkum sem hann er hæfastur í en treystir á hina með hitt. Og hvaða stéttir skipta nú líf og heilsu fólks máli? Láglaunastéttirnar.
Þegar við verðum komin fyrir vind í veirumálinu vona ég að gildismatið hafi breyst og ferðamátinn líka.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 21. mars 2020
Ef útgöngubann ...
Ég hef ekki hugmynd um hvað almannavarnateymið gerir næst, treysti því bara til að hafa miklu meiri upplýsingar en ég hef og að þetta góða fólk taki ákvarðanir út frá almannaheill, en útgöngubann verður algjör tortúr fyrir mig.
Ég er ekki að missa vinnuna, ekki húsnæðið, ekki heilsuna, ekki fjölskylduna, ekki vinina, ekki áhugamálin, ekki lífsgleðina þannig að ég má ekki kvarta og ætla ekki að kvarta þótt mig langi til að kveina yfir mögulegu útiverubanni. Ef mér verður borgað fyrir að æfa mig að elda nýja rétti og lesa trílógíu sr. Árna Þórarinssonar kyngi ég samt leiðindunum. Í fyrra las ég doðrant Ólafs Jóhanns Sigurðssonar um Pál Jónsson blaðamann og það var algjörlega þess virði en sumt las ég úti við ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)