Sunnudagur, 18. mars 2007
Jöklarnir toppa allt
Mér þykja fallegustu svæði landsins þau sem skarta jöklum, Skaftafell, Þórsmörk, Snæfellsnes. Nándin er töfrum líkust. Sem leiðsögumaður hef ég líka farið í óteljandi sleðaferðir á Langjökul og siglt á Jökulsárlóninu og hef af hvorugu verið svikin. Einhver eftirminnilegasta tilfinningin er samt þegar ég kom í Þórsmörk í fyrsta skipti eftir að hafa gengið Laugaveginn milli Landamannalauga og Þórsmerkur. Ég hafði heyrt að þetta væri frábær staður þannig að ég deildi í yfirlýsingar manna með svona 50 - en Þórsmörk að áliðnum sumardegi var heillandi.
Þannig var Ísland, og þannig er Ísland, heillandi land.
Því gefur augaleið að ég fagna nýjum Vatnajökulsþjóðgarði - - - en hvers vegna eru 27 í stjórninni yfir garðinum? Verður þetta ekki bara eitthvert ógurlegt kraðak? Í Þingvallanefnd sitja þrír menn og eru þó Þingvellir ekkert slor! Ég hef talsverðar áhyggjur af að þetta verði óskilvirkt og jafnvel of kostnaðarsamt.
Áfram Vatnajökull (áður en hann bráðnar vegna hlýnunar jarðar)!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 17. mars 2007
,,Við skulum ekki vera í kjól með vörulit`` - Class 2002
Í trausti þess að Þórhildur lesi þetta í Bush-landi ætla ég að telja upp þá heiðursleiðsögumenn sem slógu saman á létta strengi í gærkvöldi: Magnús Oddsson (ekki ferðamálastjóri), Leifur Björnsson, Virpi Jokinen, Ragnheiður Ármannsdóttir, Kristín Steinsdóttir, Ursula Giger, Sesselja Árnadóttir, Bryndís Kristjánsdóttir sem lagði til húsnæði og gúmmulaði og fær sérstaka orðu fyrir það, ég sjálf og svo kom síðar Margrét Einarsdóttir og enn síðar Gunnar Guðjónsson.
Heiðursfélagi var Valdimar Leifsson, enda lagði hann ekki aðeins til húsnæði heldur tók líka þátt í að elda matinn.
Og maturinn, jömmí, var mexíkósk súpa sem við muldum nachos út í, dreifðum rifnum osti yfir, slumpuðum sýrðum rjóma í og fleira. Ég geri mér vonir um uppskrift vegna þess að þetta var herramanns matur. Og frúarmanns líka. Og að öðru leyti var líka vel gert við okkur.
Af því að þetta er aðallega rapport um kvöldið tíunda ég það hér að við horfðum aftur (og sumir í þriðja sinn) á myndina sem Bryndís tók í útskriftarferðinni og við hlógum okkur til óbóta. Þar rifjuðust upp Orfie, Atli, Matthieu, Emilie, Beggi, Ólöf, Hermann, Árný, Rakel, Heiða, Reynir, Áslaug, Meike, Óli fimmti, Kristbjörg, Ulf, Per - og Hildibrandur var með síendurtekið hlutverk, hahha. Anna Lydia og Guðný Harbour eru heldur ekki gleymdar.
Svo töluðum við faglega, ehemm, um rútuferðir, gönguferðir, hvataferðir og annað sem ekki má birtast.
Og hér með færist til bókar að Sesselja býðst til að vera í árshátíðarnefnd (aftur) með Gunna og Ursulu. Myndavélin gleymdist heima.
Sjáumst!
Föstudagur, 16. mars 2007
Bónus fellur á verðlagseftirlitsprófi Berglindar
Svekk.
Ég ætlaði ekki að kaupa risahraun frá Góu en ég tók samt eftir að það er aftur komið upp í 49 kr. Það kostaði það fyrir lækkun, lækkaði niður í 42 kr. en er sem sagt hálfum mánuði síðar búið að ná fyrri hæð á ný.
Ég bætti appelsínum í appelsínupokann í staðinn í þessari innkaupaferð. Og kílóverð á rauðri papriku er 232 kr. Hvað kostaði aftur paprikan í Krónunni um daginn?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 16. mars 2007
Hagræðing, ó, hagræðing
Ég þekki vel vertíðartilfinninguna, tilfinninguna um að maður sé að bjarga verðmætum, bæði úr fiskvinnslu, póstútburði, leiðsögninni og líka þegar ég afgreiddi myndlykla á fyrstu dögum Stöðvar tvö. Já já, ég man.
Þetta er góð tilfinning.
Þess vegna rennur mér til rifja þegar ég les í Stelpunni frá Stokkseyri um þá meintu hagræðingu sem var farið í þegar frystihúsinu var lokað á Stokkseyri og starfseminni gert að sameinast Glettingi í Þorlákshöfn. 70-80% bæjarbúa höfðu lífsviðurværi sitt af fiskvinnslu þannig að burðarbitanum var kippt undan sisona.
Mér finnst lýsingin átakanleg.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. mars 2007
Hver er Steini Briem?
Hann bloggar í athugasemdakerfinu undir þessu nafni. Hann leiftrar af orðkynngi og er alveg laus við ólund. Eiginlega vil ég ekki að ráðgátan verði leyst og penninn afhjúpaður ... en ef einhver veit sætti ég mig alveg við að komast að því.
Er hann blaðamaður?
Hann skrifar um pólitík en ég get ekki staðsett hann, dettur þó helst í hug að hann sé framsóknarmaður af því að hann er góðvinur Péturs Gunnarssonar.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 14. mars 2007
Ég heiti Auðbjörn, er tvítugur töffari - mjór, mjórmjór eða mjórmjórmjór?
Einhverra hluta vegna datt þetta lag í kollinn á mér á Legi Hugleiks Dagssonar í kvöld. Ekki svo að skilja að maður detti 20 ár til baka, þvert á móti er manni fleygt til þess tíma þegar búið er að byggja tívólí við Kárahnjúka og útlenskur auðhringur búinn að sölsa allt Ísland undir sig. Nei, Auðbjörn er gamla útgáfan af nýju staðalmyndinni sem stóð á fjölunum í kvöld, útlitið fyrir mestu og um að gera að pissa í skóna sína fyrir skammvinnan vermi. Vel gert, sannarlega, og tæknimöguleikar í leikmynd og búningum ævintýranlega vel nýttir.
Það var gaman.
En þar sem ég er ekki lengur menntskæla, enginn sérstakur áhugamaður um tónlist eða dansa hafði ég óneitanlega mest gaman af umhverfispólitísku pillunum sem voru notaðar hóflega. Og ég hló sannarlega ekki á sömu stöðum og salurinn.
Lína kvöldsins: Æ, þarna kallinn á borði 5, Júdas!
Leikfélagið mitt heitir Hugleikur. Tilviljun? Aldeilis ekki!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 14. mars 2007
Við hróflum ekki við klukkunni
Ég hef aldrei upplifað þessa hröðu birtuaukningu eins og nú. Trekk í trekk finnst mér ég hafa sofið yfir mig þegar ég vakna. Svei mér ef mér finnst ekki að við ættum bara að gera eins og hinar þjóðirnar, færa klukkuna til, plata tímann.
Tölvan mín sýndi það sjálfstæði um síðustu helgi.
Þá væri ég allt annars staðar stödd núna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 14. mars 2007
29% - tæp 40% - upp - niður - út og suður - RÚMUR HELMINGUR SVARAÐI
Ætli allar þessar skoðanakannanir sem eru reknar upp að augunum á okkur flesta morgna eða troðið í hlustir okkar með morgunkaffinu - nema hvort tveggja sé - séu í þökk okkar? Ég er náttúrlega abbó af því að aldrei er hringt í mig og ég fæ engin tækifæri til að mynda ríkisstjórn í símann, en er í alvörunni nokkur þörf á þessum tíðu skoðanakönnunum? Og svo eru þær sjaldnast marktækar því að yfirleitt er úrtakið 800 manns og þar af gefur sig upp rúmur helmingur.
Þetta er bara vísindaskáldskapur.
En samt skoðanamyndandi, við vitum það.
Ég þykist vita að u.þ.b. 300 þúsund íbúar séu mér sammála um þetta, flestir aðrir en starfsmenn Capacents og svo þeir útlendingar sem leggja ekki eyrun við.
Það væri samt gaman að sjá skoðanakönnun meðal þeirra sem horfðu á Húsvíkinginn tala í Silfri Egils á sunnudaginn var ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 13. mars 2007
Þjóðareign hvað?
Ef allar náttúruauðlindir verða þjóðareign, úps, eru þjóðareign og bara verið að staðfesta það og geirnegla í stjórnarskrá og mannauðurinn er auðlind er þá nokkur útúrsnúningur að segja að þú og ég séum í þjóðareign?
Nei, var bara að velta fyrir mér þessu tuggnu orðum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 13. mars 2007
Gáta
Og lausnina er ekki að finna fyrir neðan mitti voru skilaboð frá sendanda:
Konurnar eiga sér húsgrátt og loðið sem mús.Enginn kemst þar innnema eineygði biskupinn.Fylgja honum riddarar tveir.blindir eru báðir þeir.Þeir leiða hann út og inneineygða herrann sinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 12. mars 2007
Bókakaup hafa í för með sér bókaeign
Og þar er treginn.
Nei, tregi er fullstórt orð fyrir þetta. Bara kolvitlaust orð reyndar.
Stundum langar mig til að kaupa bækur til að styrkja þann sem skrifaði eða gaf út, aldrei samt aðrar bækur en þær sem mig langar líka til að lesa. Og það er gott að hafa bækur í sem flestum skúmaskotum, eða þannig. Þegar ég kem inn á annarra manna heimili verð ég yfirtaksmikill dóni og leggst á kilina, fer að skoða bókakostinn. Alveg ferleg.
Ég treindi það fram á síðasta klukkutíma að fara á bókamarkaðinn í Perlunni og fór í gær kl. 17:15. Keypti tvær bækur og hlakka til að lesa þær báðar. Á erfiðar minningar um þau skipti þegar ég keypti 22 bækur - og kom því vitaskuld ekki í verk að lesa þær. Einu sinni keypti ég Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar eftir Þórberg Þórðarson í þremur bindum - hún er enn í plastinu.
Jú, víst er vandasamt að eignast margar bækur. Ég er nefnilega miklu duglegri að lesa lánsbækur, þá vofir yfir skiladagurinn. Bókasafnið er sniðið að þörfum mínum.
Ég er samt byrjuð á Stelpunni frá Stokkseyri og ætla að klára hana fyrir 29. mars.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 12. mars 2007
Mjólkurlítrinn á 130 kr. í sjoppu
Og hvað getur neytandi gert kl. 22 á sunnudagskvöldi, neytandi sem þráir ekkert heitara en flóaða mjólk en á enga aðra mjólk - á enga mjólk? Síðasti söludagur var meira að segja þennan sama dag. Þetta var ekki ég, ég á mjög auðvelt með að ulla á móti.
Álagningin er frjáls.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 11. mars 2007
Vika af hættulegum klæðnaði
Á BBC Prime er núna aldeilis stórskemmtilegur þáttur um Jason sem tekst það á hendur að breyta verulega til í klæðaburði og hegðun í eina viku til að ögra sjálfum sér og reyna að brjótast út úr skel feimninnar. Ég geri mér vel grein fyrir að þetta hefur fyrst og fremst skemmtigildi - og svínvirkar fyrir mig - en skyldu raunverulega óframfærnir geta farið út á meðal fólks í svaðalega köflóttum fatnaði eða túrbínuklæðnaði eða eins og kúrekar (með hatt og hlífar) eða eins og dragdrottningar með flegið niður í nærbuxur (svo að ég kveði ekki fastar að)?
Tjah, ekki í reykvísku vonskuveðri, hahha!
Hann upplifði hins vegar persónuleikabreytingar eftir þeim fötum sem hann klæddist hverju sinni, humm humm.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 11. mars 2007
Blöðin víkja
Ég er orðin alveg sannfærð. Blöðin eru a.m.k. um stundarsakir í öðru sæti þótt maður vilji fylgjast með. Maður les eitthvað á vefmiðli eitthvert kvöldið og þegar maður sér það í blaðinu daginu eftir eru fréttirnar svooo gamlar. Og bæta engu við það sem maður las fyrir hálfum sólarhring.
Þarna er ég að tala um fréttamiðlana fyrst og fremst. Að auki eru svo nokkrar bloggsíður sem maður les líka reglulega og þær eru gjarnan meira upplýsandi og afhjúpandi en álitsgjafar í blöðunum.
Þó skákar netorðræðan enn ekki Silfri Egils, humm humm.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 10. mars 2007
Berfætt á sandölum
Sem ég hjólaði í reykvísku vonskuveðri milli hverfa 107 og 101 áðan - og bölvaði hraustlega meðan lak úr nefinu á mér - ákvað ég að kveikja á útvarpinu í símanum mínum. Fyrir valinu varð Útvarp Saga og umsvifalaust komu Sigurður G. Tómasson og Guðmundur Ólafsson mér í gott skap með rússneskum sögum og öðrum.
Ræræræ.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 10. mars 2007
Debetkort fermingarbarna
Bankarnir mega gefa út debetkort á 14 ára gömul börn, segir í Blaðinu í dag, og foreldrarnir þurfa hvergi að koma þar nærri. Lögfræðingar segja lögin alveg skýr og einhverjir benda á að svona geta foreldrar ekki misnotað fé barna sinna. Ég veit ekki hversu algengt það er.
Spurning mín er: Hvað gerist ef börnin fara yfir inneignina - þrátt fyrir að debetkort séu með betri stoppara en ávísanaheftin voru eru þess engu að síður dæmi að menn eyði umfram efni - og steypa sér í skuldir? Hvern ætla bankarnir að rukka? Eða lengja þeir þá bara í taumnum til að tryggja sér átthagabundna framtíðarviðskiptavini?
Lagagreinin sem Blaðið vísar í, 75. grein lögræðislaga, talar bara um sjálfsafla- og gjafafé, ekki aðferðina við að koma því út. Mér finnst ekki eins og minni hagsmunum sé þarna fórnað fyrir meiri.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 9. mars 2007
Ég held að launaleyndin skipti ekki alltaf alla öllu máli
Fyrir tæpum tveimur árum bað ég þá ferðaskrifstofu sem ég vann mest fyrir um launahækkun. Eigandinn sagðist því miður ekki geta hækkað tímakaupið mitt því að þá þyrfti hann að hækka líka hjá hinum og þessum sem hann nafngreindi. Og ég sagði: Og?
Ég veit að sjálfshælni er ekki til fyrirmyndar en það er kannski í lagi að vita hverjar eru manns sterku hliðar. Og ég henta brjálæðislega vel í skipin (þori ekki út í nákvæmt hrós). En eigandinn vildi ekki hækka kaupið sem var þá rúmar 1.200 kr. í dagvinnu - með orlofi, desemberuppbót, undirbúningstíma, bóka- og fatagjaldi. Atvinnuöryggi er í lágmarki og leiðsögumenn eru teknir af launaskrá á milli ferða ef þær eru tvær stuttar sama daginn, ef við erum t.d. beðin að fara með hóp í útreiðartúr kl. 12 og vera til kl. 16 og svo aftur með hópinn í mat kl. 19 til kl. 23. Dagurinn er undirlagður frá morgni til miðnættis en leiðsögumaðurinn er á kaupi í 2 x 4 tíma. Og ferðarekandanum gæti þótt rausnarlegt af sér að borga manni fyrir að fara út að borða með hópnum.
Eigandinn vildi sem sagt ekki hækka kaupið mitt þótt ég sannarlega vissi um styrkleika minn og færi fram á hækkun. Hann spurði ekki hvað ég gæti sætt mig við, reyndi ekki að koma til móts við mig en sagðist samt vona að ég héldi áfram. Hann spurði því ekki heldur hvort ég myndi þegja yfir því ef svo bæri undir - en það get ég svarið að ég hefði ekki gert það. Ég hefði viljað segja það öllum.
Ég myndi sem sagt vilja hafa frelsi til að aflétta launaleyndinni af sjálfri mér. Núverandi taxti leiðsögumanna er hvort eð er á netinu - og það er greitt eftir honum. Samt er ferðaþjónustan að verða næststærsti atvinnuvegur landsins. En leiðsögumenn og rútubílstjórar eru á skammarlegu kaupi og bera hitann og þungann af starfinu ásamt þjónum, hótelfólki, landvörðum og ýmsu öðru fólki sem á bara að finnast gaman að mæta í vinnuna.
Ekki að ég sé neitt stúrin ... ég vil bara gjarnan aflétta launaleyndinni og fá samanburðinn upp á borðið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. mars 2007
Feti og spínat
Ég er ekki nógu trygglynd - ég sé það núna - til að kaupa sömu vörurnar, sömu merkin, sama magnið aftur og aftur. Það eina sem ég get borið saman núna er kryddolíufetaostur sem hefur lækkað úr 167 í 156 (6,6% lækkun) og 200 g af spínati úr 267 í 248 (7,1% lækkun). Tilfinning mín er sú að þetta sé lækkunin á svona vöru, og meiri á óhollustu.
Hins vegar fór ég í Nóatún í vikunni og þar fannst mér verð hátt, meira að segja á pasta. Og kílóverð á appelsínugulri papriku var 469 kr., humm. Hins vegar keypti ég gómsætt normalbrauð á 324 kr. hleifinn og það var etið upp til agna. Sumt lætur maður fúslega eftir sér, hehe.
Sem ég sit við þessi ritstörf sé ég að Sölvi Tryggvason hefur fengið sömu hugmynd í Íslandi í dag, hehe, og kemst líka að svipaðri niðurstöðu. Það er ekki alveg allt sem lækkaði við virðisaukaskattsbreytinguna.
Dægurmál | Breytt 18.3.2007 kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. mars 2007
Skilningarvitin
Þegar ég var hálfgerður krakki var ég að vinna hjá SS í Glæsibæ. Mér þótti það fjölmennur vinnustaður og stundum var ærandi hávaði í kaffitímunum. Og ég man að einu sinni hugsaði ég og sagði svo: Ég vildi að ég væri heyrnarlaus. Auðvitað gerði ég mér grein fyrir vanþakklæti mínu og auðvitað var mér engin alvara. Ég lét þessi orð samt falla.
Nú nenni ég ekki að sjá eftir þessu, enda eru bernskubrekin til þess fallin að vaxa upp úr þeim. Og ég vildi sannarlega ekki vera heyrnarlaus, hvorki þá né nú.
Þetta vekst upp fyrir mér af því að fyrir Alþingi liggur forvitnilegt frumvarp um réttarstöðu heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Heill hellingur þingmanna styður það með því að vera meðflutningsmenn og nú er ég mjög spennt að sjá hvernig því vindur fram á næstu dögum. Í gær spjallaði ég um stund við Fransmenn sem hafa verið hér í viku og þeir spurðu mig út í táknmálsfréttirnar sem eru rétt fyrir kl. sex í sjónvarpinu og undruðust mjög að ekki væri talað með því. Þessi 10 mínútna fréttatími er það eina sem heyrnarlausum stendur til boða - fyrir utan þegar verið er að fjalla um mál þeirra sjálfra, þá er túlkað og/eða textað. Eins og heyrnarlausir hafi ómögulega áhuga á öðrum málum þjóðlífsins ...
Enn fremur hef ég kynnst störfum táknmálstúlka undanfarin ár þar sem þeir hafa túlkað bæði þar sem ég hef verið að kenna og þar sem ég hef sjálf verið í námi. Þetta er einfaldlega allt annað tungumál, það er eins og að vera í tíma í þýðingafræðum sem fer fram á japönsku - maður skilur bara ekkert. Og þá er maður útundan.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 8. mars 2007
Farsæld til framtíðar?
Fiskur og ferðamenn - sjávarútvegur og ferðaþjónusta. Stóriðja. Fjármálaumsvif.
Eru þetta ekki lykilhugtökin í atvinnu- og þjóðlífi nánustu framtíðar? Eitthvað þessu líkt er á dagskrá Iðnþings 2007 á morgun en ég er svo óáttuð að ég sé alls engan fulltrúa frá ferðaþjónustunni, engan frá hinu meintu nýju framboðum til Alþingis og gott ef það vantar ekki fleiri fulltrúa.
En kannski á iðnþingið ekki að endurspegla neina breidd.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)