Fer RÚV í Elliðaárdalinn?

Djók, nú er ég viljandi að slá saman tveimur umtöluðum málum. Mér var bætt í hópinn Vinir Elliðaárdalsins og ég lít alveg á mig sem vin hans en veit samt ekki hvort ég myndi greiða atkvæði með eða á móti þeirri uppbyggingu sem verið er að ræða. Heilt yfir er ég ekki á móti breytingum og m.a.s. dálítið höll undir þær þannig að ég myndi alltaf vilja skoða svona hugmyndir áður en ég segði af eða á.

En ég geri ekki ráð fyrir að Ríkisútvarpið sé á leið úr Efstaleitinu og í Stekkjarbakkann enda flytur RÚV sig varla um set ef þar verða breytingar. Þegar búið var að velja nýjan þjóðleikhússtjóra, fráfarandi útvarpsstjóra, heyrði ég: Næsti útvarpsstjóri verður ráðinn til að leggja RÚV niður.

Þá kólnar mér. Ég hlusta mikið á útvarp og Rás 1 er að gera allt aðra hluti en aðrar stöðvar sem ég hlusta líka á. Að ógleymdri þáttagerð í sjónvarpinu sem flysjar spillingu eins og ... banana.

En af því að ég er ekki frábitin breytingum heilt yfir væri ég alveg til í að skoða hvort einhverju mætti breyta. Mætti selja Rás 2?

Að lokum legg ég til að þjóðkirkjan verði seld hæstbjóðanda.


Er þvottavélin (gervigreind) tölva?

Í vikunni gerðist sá fáheyrði atburður að ég ætlaði að þvo þvott í þvottavélinni strax og ég hafði tæmt hana. Vélin, sem er a.m.k. orðin 10 ára, afþakkaði það og blikkaði rauðu. Ég frestaði frekari þvottum um sólarhring en það dugði ekki til. Hún blikkaði áfram. ÞÁ tók ég hana úr sambandi eins og hverja aðra viðkvæma tölvu og ÞAÐ dugði til. Ég er alveg viss um að einhvern tímann hefði ég hringt í viðgerðarmann.

Gott að vita að það að rjúfa rafstrauminn tímabundið getur dugað, hoho.


Gummi bróðir á Indlandi

Já, Gummi bróðir er búinn að blokkera mig á Facebook en allt í einu mundi ég eftir honum á Instagram. Ég veit að það er ekki hollt fyrir mig að minnast hans og hugsa til hans en nú erum við að fara að skrifa síðasta kaflann í sameiginlegri lífssögu og þá er ekkert annað í boði. Ég fann nokkrar myndir með myndatextum sem sýna að hann er alltaf jafn forhertur og yfirborðskenndur. Fyrir ári hefði ég samglaðst honum og haldið að hann ætti fyrir innri gleði en því miður veit ég núna að hann svífst einskis við að hafa af fólki fé, að hann er allur í yfirborðinu og hégóminn einn.

Ég efast ekki um að hann sé ástfanginn af lífi sínu sem hann lætur aðra kosta og aðra bera allan þunga af. Hann er þiggjandi alla leið og gráðugri en nokkur sem ég þekki persónulega.

Nú erum við systur búnar að setja okkur í samband við lögfræðinginn hans til að ljúka praktískum atriðum vegna dánarbús pabba. Gummi ómakar sig ekki að svara þótt hann fái afrit af póstum, hann lætur sér líða vel með sjálfsást sinni á Indlandi.

161119


Fjórða iðnbyltingin, sjálfvirknivæðing, gervigreind

Þvílík hamingja! Hraðframfarir! Stytting vinnuvikunnar!

Ég tengi mig við þessa frétt til að halda henni til haga. Ég hef verið í því teymi sem hefur þróað hinn gervigreinda talgreini með því að prófa hann og nota frá degi til dags undanfarið. Þegar við byrjuðum fyrir alvöru fyrir ári héldum við að greinarmerkjasetning yrði í skötulíki og að greinaskil yrðu ófáanleg með öllu. Hvort tveggja hefur reynst rangt, þökk sé harðsnúnum forriturum og vísindamönnum í Háskólanum í Reykjavík. Og okkur í ræðuútgáfunni sem höfum verið í húrrahrópunum, hvatningarliðinu og notendahópnum. 

Kostnaður hefur verið hóflegur, tímasparnaður er mælanlegur og mikill, villutíðni um 10% (reyndar veit ég ekki hversu margar villur á að telja þegar talgreinirinn skrifar ... þjóðar. Sjóður ... þegar hann á að skrifa þjóðarsjóður).

Afleiðingin: Styttra ferli. Minni vöðvabólga. Nákvæmari texti þegar frá líður. Minni kostnaður fyrir skattborgara. Næstum örugglega styttri vinnudagur (almennar tækniframfarir).

Hver tapar? Enginn. Allir vinna. Og hamingja mín ætlar upp úr rjáfrinu.

Svo er okkar eigin Siri í farvatninu hjá Miðeind. Máltæknin lifi!

kiss


mbl.is Talgreinir skrifar ræður alþingismanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gummi, bróðir minn

Einhverjir bloggvinir mínir muna kannski eftir færslum um bróður minn sem stal af mér og foreldrum okkar peningum. Hann hefur nú haft tvo mánuði ótruflaða af mér til að grípa til þeirra aðgerða að endurgreiða eða semja um skuldirnar. Hann hefur ekki gert það. Einhver Facebook-vinur hans (hann blokkaði mig) segir að hann sé á Indlandi og að hann hafi keypt sér jeppa (ekki endilega tengt). Ég hef aðallega verið þakklát fyrir tveggja mánaða hvíld frá hugsunum um hann en nú fer að koma að uppgjöri dánarbús pabba og þá hríslast um mig ónotakenndin.

Ég veit að þetta er mjög algengt, fáránlega algengt, sennilega í annarri hverri fjölskyldu, en sársaukinn þegar maður uppgötvar að einhver nákominn manni er óvandaður græðgispési er samt persónulegur.


Uber

Nú er ég að verða svo ógurlega mikill ferðamaður að ég sótti mér Uber-appið í vikunni og virkjaði í fyrsta skipti. En Uber er ekki í boði í Reykjavík. Af hverju ekki? (Tek fram til öryggis að ég ætlaði ekki að panta mér bíl núna, var bara að sannreyna.)

Screenshot_20191116-081228_Uber


Can you ever forgive me?

Það er alltaf alveg stórkostlega skemmtilegt að sjá áhugaverðar bíómyndir og ekki spillir þegar maður hefur alveg misst af allri kynningu og lætur koma sér á óvart. Ég sá Can you ever forgive me? í flugvél (takk, Icelandair) og Melissa McCarthy var óþekkjanleg með öllu. En ég kannaðist heldur ekkert við rithöfundinn Lee Israel ...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband