Færsluflokkur: Dægurmál
Sunnudagur, 18. febrúar 2007
Efnislínan í tölvupósti
Moli á blaðsíðu 8 í Fréttablaðinu talaði svo beint til mín rétt í þessu. Blaðamaður talar um fréttatilkynningar sem fyrirtæki senda fjölmiðlum og sem eru bara titlaðar fréttatilkynning. Efnislínan (subject) í tölvupóstinum á einmitt að segja manni um hvað málið snýst, bæði þegar maður fær póstinn og svo getur ekki síður reynt á það seinna þegar maður þarf að finna upplýsingar í texta sem manni hefur verið sendur.
Þetta á líka við um persónulegan póst, mér finnst .... (anda djúpt) óþolandi þegar í efnislínunni stendur RE: hittingur þegar sendandinn ætlar að spyrja mig álits á Flugdrekahlauparanum.
Svo er dónaskapur að áframsenda til mín keðjubréf, einkum ef fyrst birtast á skjánum þeir 300 sem búnir eru að fá bréfið á undan mér. Og ég slít allar keðjur, alltaf, hvort eð er.
Hitt er síðan annað mál að ég er ekki nógu dugleg að taka til í tölvupóstinum. Héðan í frá ætla ég að taka mig á í því efni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 17. febrúar 2007
Macchina laventi
Ég stóð í bás þýðingafræðanna í Háskólabíói og reyndi að sannfæra áhugasama um að þetta nám væri bæði skemmtilegt og hagnýtt. Og þurfti ekki að ljúga, þetta er áhugavert og fræðandi og maður fær vinnu í faginu í kjölfarið.
Einhvern tímann var stund milli stríða. Þá vék ég mér að latínubásnum við hliðina og sagði þeim þar að þegar ég hefði verið í latínu í menntaskóla hefði runnið upp fyrir mér það ljós að tungumálið væri dautt eða deyjandi. Einu sinni sagði ég við mömmu að ég kynni ekki þvottavél á latínu sem átti auðvitað að segja henni að þvottavél hefði ekki tíðkast á dögum Brútusar. Mamma hélt hins vegar að þetta endurspeglaði áhugaleysi mitt á heimilisstörfum.
Þetta ágæta fólk í latínubásnum sagði mér af þessu tilefni að Vatikanið léti búa til orð fyrir allt nýtt í þessum heimi þannig að latínan virðist lifa góðu lífi. Og macchina laventi er líklega þegar orðið gamalt orð hjá páfa.
![]() |
Háskóladagurinn í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 17. febrúar 2007
Talnaleikur hagsmunaaðila
Inn í allar breytur bæði greiningardeildanna og fasteignasalanna vantar alltaf hinn mannlega þátt. Það er auðvitað staðreynd að fasteignaverð hefur hækkað undanfarin nokkur ár, um það verður ekki deilt, en að fasteignamarkaðurinn sé núna aftur að taka við sér er túlkunaratriði. Og þegar þróunin er skoðuð og metin eru alltaf viðskiptafræðingar bankanna - sem hafa hag af því að lána og hreinlega af því að einhverjir fari flatt á lánunum - og fasteignasalar - sem í flestum tilfellum taka prósentur af söluverði - spurðir. Einstaka sinnum stjórnmálamenn en ég man ekki eftir því núna um hríð.
Hvað finnst fólki sem hefur neyðst til að kaupa á uppsprengdu verði og ekki ráðið við það? Er fasteignamarkaðurinn aftur að taka við sér í þess augum? Hvað með fólkið sem flytur í önnur héruð, kaupir minni íbúðir en það telur sig þurfa, fer á leigumarkaðinn? Hver er huglæg túlkun þess til fasteignamarkaðarins? Hvaða áhrif hafa svona segðir á þá sem eru núna að leita sér að íbúð eða leita sér að kaupendum?
Frændi minn keypti í vikunni fjögurra herbergja íbúð í hverfi 104, 87 fermetra, á rúmar 17 milljónir. Sú sala er meðal þessara 135 samninga sem voru gerðir um eignir í fjölbýli. Sá seljandi er líklega skælandi núna þótt hann hafi áður verið stúrinn yfir því að íbúðin hreyfðist ekki í þrjá mánuði.
Mér finnst fasteignamarkaðurinn ekkert að taka við sér enda hef ég horft á sömu eignirnar á sölu mánuðum saman. Hins vegar er alltaf svolítið um að góðar eignir seljist eins og skot.
![]() |
Heildarvelta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu rúmir 4,5 milljarðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 16. febrúar 2007
Þéttum byggðina, þéttum byggðina, við búum í borg
Og ég skal fórna mér, ég skal hafa nágranna á stofuglugganum. Ég dreg bara fyrir þegar mér finnst við hæfi. Ef ekki væri fyrir vistkerfi Vatnsmýrarinnar legði ég til að þar yrði byggð 15.000 manna byggð.
Ég minni á að það eru fleiri bílar en ökuskírteini í Reykjavík. Þótt einhverjir einstaklingar eigi tvo bíla af því að þeir eru búnir að endurnýja þótt þeir séu ekki búnir að selja þann gamla getur það ekki afsakað þessa staðreynd.
Og þetta þýðir? Já, einmitt að þrír fjórðu Reykvíkinga keyra sjálfa sig eina saman á vinnustað daglega.
Ég var einhverju sinni á borgarafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem var verið að tala um skipulagsmál. Einn gesturinn lagði til að húsin norðan megin við Laugaveginn yrðu öll rifin, mig minnir alveg niður að sjó reyndar, sem sagt líka Hverfisgata og Lindargata og kannski Skúlagata, og svo yrði byggt upp þétt hverfi - sem myndi þýða að strætó ætti oftar og meira erindi þangað, þ.e. af öllum þeim fjölda sem gæti sest að miðsvæðis myndi svo og stór hópur vilja vera bíllaus.
Þetta var náttúrlega svo róttækt að enginn í pallborðinu virti hann svars. Mér finnst sjálfri þetta dálítið dramatískt en engu að síður er lausnin fólgin í þéttingu byggðar.
Við búum í borg!
Svo búa aðrir í dreifbýli og þar gilda önnur lögmál og viðhorf.
![]() |
73% aka einir í bíl til vinnu eða skóla í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 16. febrúar 2007
Háskólann í Reykjavík til Garðabæjar
Ég er enn stúrin yfir að HR hafi ekki tekið lóðina í Urriðaholti. Háskólinn í Garðabæ væri bara rækalli flott nafn, og ábyggilega flottur skóli. Ég hef fulla trú á HR (sem ég vildi að væri HG). Matti hefur kennt þar og það eru ótvíræð meðmæli.
Og Vatnsmýrina og Öskjuhlíðina hefði ég viljað hafa undir annað en HR. Ég hugsa með angist til þess sem á eftir að gerast í Vatnsmýrinni næstu árin.
Annars var ég að reyna að rifja upp hvað Runólfur Ágústsson, fyrrverandi rektor í Bifröst, sagði í einum fréttatíma um daginn. Var hann ekki eitthvað að tala um að setja upp skóla í varnarliðshúsakynnunum sem standa núna tóm og draugaleg suður í Reykjanesbæ? Og ef hann var að því, af hverju hef ég þá ekki heyrt nema eitt múkk? Eða heyrði ég ekki einu sinni eitt múkk? Dreymdi mig þetta?
Við þurfum að herða okkur í menntasókninni, auka fjölbreytni og dreifa skólunum. Við verðum að fá fiskvinnslunám. Og meira iðnnám. Verknám.
Ég er á innsoginu. Hvernig ætli ég verði næst þegar ég þarf að ráða smið eða pípara?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 16. febrúar 2007
Bankarnir eru svo góðir - við sig
Ég er með endurtekið Kastljós í eyrunum núna. Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri fullyrðir að viðskiptabankarnir séu góðir við lántakendur á Íslandi, séu ódýrir, og það komi ekki til greina að láta viðskiptavinina í t.d. London borga með bankaþjónustunni á Íslandi.
Nú, ef allur heimurinn er undir hlýtur að vera næsta skref að láta okkur njóta sömu kjara og viðskiptavinirnir í London njóta. Samkeppni, samkeppni er lykilorðið.
Það hlýtur að verða fyrsta verk Sigurjóns í fyrramálið að tilkynna hin góðu kjör. Þeir eru á samkeppnismarkaði, viðskiptabankarnir á Íslandi. Og einhver vinsamlegast rifji upp fyrir mér hvers vegna hér er enginn erlendur banki.
Sagði einhver átthagafjötrar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 15. febrúar 2007
Sigur kaupandans á fasteignamarkaði
Náfrændi minn fékk augastað á íbúð í 104 Reykjavík. Hún er tæpir 90 fermetrar og ásett verð var tæpar 20 milljónir. Hann bauð 20% niður og fékk fuss frá fasteignasalanum. Eftir japl og jaml og fuður náðist samkomulag milli kaupanda og seljanda upp á 17 milljónir 250 þúsund fyrir 87 fermetra. Hann lækkaði hana um 13% - er það ekki bara hraustlegt?
Ég held að kaupendur séu of hræddir við verð sem seljendur og/eða fasteignasalar ákveða sisona. En ekki frændi minn.
Fermetraverðið er sem sagt 198 þúsund kr. Ég gái alltaf að því.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. febrúar 2007
Ógæfumennirnir sem gengu berserksgang í Hafnarfirði í fyrrinótt
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. febrúar 2007
Lausn lífeyrissjóðanna (les: lífeyrisþega)
Ólyginn segir mér að lífeyrissjóðirnir eigi 1.500 milljarða króna í sjóðum.
Er ástæða til þess? Nei, auðvitað eiga lífeyrissjóðirnir að greiða úr sjóðum sínum frekar en að lúra á þeim eins og ormar á gulli. Ég hef verið að velta fyrir mér fjölda þeirra og hvers vegna þeir skirrist við að borga út á þeim forsendum að þeir þurfi að standa undir framtíðarskuldbindingum.
Ha?
Þeir eiga þessa peninga núna og eiga að borga þá út. Það væri líka hugmynd að þeir byggðu íbúðahverfi (í Mosfellsdal? Eyjafirði) með öryggishnöppum og allri annarri þjónustu. Íbúðin yrði seld fyrir eðlilegt verð og síðan gengi á höfuðstól eignarinnar eftir því sem viðkomandi byggi þar lengur. Þetta gæti verið félagslegra en að hafa lífeyrisþegana dreifða.
Ég ætla að halda áfram að hugsa um þetta - en ég get ekki beðið eftir að ég komist á aldur. Verkefnið er brýnt núna.
Es. Ég viðurkenni upp á mig ónákvæmni þegar ég sagði að lífeyrissjóðirnir ættu í sjóðum, auðvitað eru það greiðendur í sjóðina sem eiga í sjóðum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 14. febrúar 2007
Aðhald kaupandans
Ég fór aftur í búð í dag og nú ætla ég að taka þessar vörur í fóstur:
Kryddfetaostur frá Mjólku, 200 g: 167 kr.
Sólþurrkaðir tómatar frá Söclu, 280 g: 299 kr.
Gullgráðaostur frá Akureyri, 125 g: 208 kr.
Spínat frá Hollu og góðu, 200 g: 267 kr.
Svo bið ég bæði að heilsa talsmanni neytenda og öllum neytendum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)