Færsluflokkur: Dægurmál

Ég ... er sjúklega heppin með heilsuna

Ég held áfram að opna inn í kviku á mér. Ég hef það gott, ég er lukkunnar pamfíll. Ég er í skemmtilegri vinnu og fæ borgað fyrir að gera það sem mér finnst skemmtilegast af öllu, að grúska í texta, setja mig inn í máltækni, hitta fólk, tala við fólk og hlusta á fólk.

Mér er eiginlegt að fara vel með og þess vegna hef ég aldrei á ævi minni verið blönk. Ég naut foreldrahúsa meðan ég var í námi sem er ómetanlegt en ég vann líka með náminu. Það var lítið mál en félagslífið galt aðeins fyrir það.

Ég hef aldrei misst úr í skóla eða vinnu vegna kvíða eða þunglyndis sem ég heyri að sé algengt. Á 18 árum á sama vinnustað hef ég misst úr 10 daga vegna eigin veikinda. Ég er sjúklega heppin með heilsuna og þakka oft fyrir það.

Ég á marga góða vinnufélaga og skemmtilega vini. Ég á áhugamál sem ég næ að sinna og njóta.

Ég átti kærleiksríka foreldra sem dóu á þessu ári og því síðasta og þótt þau séu farin á ég áfram góðar minningar um þau, dýrmætt fólk sem vildi mér alltaf það besta.

Ég er heppin. Hins vegar á ég bróður sem hefur komið illa fram við mig og aðra í fjölskyldunni og þessi misserin rænir það mig svolítilli orku að reyna að hindra hann í að beinlínis hafa af mér og systkinum mínum peninga. Það er miklu algengara en ég hafði áttað mig á. Eðlilega vill margt fólk ekki opna inn í kvikuna á sér. Það er sársaukafullt og það verður alltaf einhver hópur sem finnst hinn opinskái vera að röfla, vorkenna sér, snapa athygli eða einfaldlega fara með rangt mál. Það er áhættan sem maður tekur.

Þegar ég skrifa færslurnar sem ég hef skrifað nokkrar í sumar er ég með 100% athygli á málinu en þess utan lifi ég bara lífinu. 

Ég hef ekki undan miklu að kvarta en ég vinn alveg fyrir mínu góða lífi, sit ekki með hendur í skauti og bíð eftir að tækifærin og ævintýrin komi af sjálfu sér. Ekki einu sinni réttlætið. En mjög margt fólk býr við miklu krappari kjör þannig að mér finnst stundum að ég geti ekki leyft mér að standa upp og verja mig. En þá væri ég meðvirk ...


Hættum að urða og hættum að bruðla

Eftir hlaupaæfingu í morgun fórum við nokkrar í Sundhöllina og töluðum okkur heitar í pottinum um loftslagsvandann. Ein var með mjög dramatíska tillögu. Hún sagði að flugmiði þyrfti að fara upp í 500.000 kr. þannig að ferðalag til útlanda yrði bara mjög stór hluti af útgjöldum heimilisins.

Það þarf að verðleggja kolefnisfótsporið, þar er ég sammála, en ég veit ekki hversu hátt. Og ef við gerum öll eitthvað, kaupum færri föt, minna plast, minni umbúðir, minna kjöt – fer það þá ekki að skipta máli? Banna örstuttar ferðir til útlanda? 

Ég hef haft áhyggjur af þessum vanda eins lengi og ég man eftir mér. Þess vegna hef ég prísað mig sæla að geta hjólað og gengið í vinnu, keypt notuð föt og lengi vel vildi ég aldrei vera styttra í útlöndum en einn mánuð.

En þið vitið alveg hverjir munu reka upp ramakvein ef neyslan verður skorin niður af umhverfisástæðum. Það eru þeir sem ganga fyrir neysluhyggjunni, framleiðendur að drasli og seljendur draslsins.

Lifi nytjamarkaðir! Verslum minna og verum meira.


Bergmálshellir Gumma

Bróðir minn, svokallaður, er stoltur af að hafa stolið af mér peningum og foreldrum okkar. Ég heyri stundum af honum sögur og hvernig hann hælist um af dugnaði sínum við að hlunnfara fólk. Á sama tíma auglýsir hann eftir heiðvirðu og góðhjörtuðu fólki. Ég er sá einfeldningur að halda að dropinn holi steininn og þess vegna er ég ekki búin að gefast upp á að endurheimta lánið.

Ég lánaði honum 7 milljónir fyrir 11 árum. Veit einhver hvernig ég get endurheimt pening sem banki fékk handveð fyrir í bankainneign minni og skuldfærði svo einfaldlega? Ég var nýbúin að selja íbúð og átti peninginn í bankabók. Gummi sagði að þetta væri bara formsatriði og greiðvikna litla systirin trúði honum. Svo hrundi bankakerfið, bróðir minn stóð ekki í skilum og ég fraus.

Ég lánaði honum pening en gaf ekki.

Eftir það keypti hann hús í Heiðmörk fyrir lítinn pening, lagaði aðeins til og leigir nú út meðan hann býr sem garðyrkjumaður á Sólheimum. Sjálfsagt má kalla hann sniðugan í peningamálum en þegar maður stelur 7 milljónum af systur sinni og 10,5 af foreldrum sínum (sem pappírar eru til fyrir) er auðvitað hægt að leika greifa um stund. Fyrir utan þessa skuld sem við systkinin erum með reikninga fyrir veit ég um a.m.k. einn RAV-bíl sem hann hafði af mömmu og pabba og ég hef rökstuddan grun um að hann hafi fengið ellilaun mömmu í mörg ár. Hún hafði alltaf áhyggjur af að óvirki alkóhólistinn yrði virkur. Siðblindur fíkill er eitraður kokteill.

Nú eru bæði mamma og pabbi dáin og hann sinnti útför þeirra í engu. Þegar pabbi var jarðaður 5. september sl. mætti hann ekki í kistulagninguna og rétt svo í jarðarförina. Við bjóðum honum að taka þátt í að velja legstein og hann ansar okkur ekki. Hann er of upptekinn við að spila út kærleiksspilum á Sólheimum.


Mynd og gjörð fer ekki saman

Bróðir minn sem ætlar að stela af mér 7 milljónum sem ég lánaði honum í góðri trú kýs að dreifa svona fagurgala á Facebook. Hann er hvorki blýanturinn sem skrifar hamingju nokkurs sem stendur mér nærri né strokleðrið sem eyðir sorginni. Síst af öllu kom hann vel fram við pabba.

Ég hef aldrei verið blönk en ég hef heldur aldrei eytt um efni fram og aldrei eytt annarra manna peningum. Þess vegna var ég aflögufær þegar hann var illa staddur 2008 en peningurinn sem ég lánaði honum var aldrei hugsaður sem gjöf. Ég skil ekki hvernig hann og lögmaðurinn hans geta verið svona slakir í bæði reikningi og siðferði. 

Ég er ekki beisk en ég ætla aldrei að hlífa honum við bullinu úr sjálfum sér. Og óheiðarleikanum. Ég vona innilega að aðrir misstígi sig ekki og greiði götu hans. Ég hef enga ástæðu til að halda að hann skili því sem honum er lánað.


Bráðamóttaka -- sagan okkar pabba

Ég er því miður skíthrædd um að þetta sé allt satt og rétt sem Elín Tryggvadóttir hjúkrunarfræðingur segir. Ég hef mesta samúð með fárveiku fólki sem á kannski ekki nána aðstandendur sem geta talað máli þess á staðnum og vitaskuld finnst mér hræðilegt að fólk þurfi að vinna við þessar aðstæður. Pabbi minn lærbrotnaði á Hrafnistu á föstudegi í júní 2018, rétt tæplega 97 ára, var látinn harka af sér til þriðjudags, þá loks sendur í myndatöku á Domus Medica og reyndist lærbrotinn. Þá var hann sendur á BRÁÐAMÓTTÖKU og látinn bíða þar í einn og hálfan sólarhring. Hann átti alltaf að fara í aðgerð á eftir, í kvöld, í fyrramálið eða strax eftir hádegi. Allan þann tíma fékk hann litla athygli, auðvitað bara mesta frá mér þar sem systir mín var í útlöndum, og ekkert að borða af því að hann átti að fara fastandi í aðgerð með svæfingu, eða slævingu hét það víst.
 
Ég var frekar reynslulaus í þessum fræðum og hélt þegar læknirinn á Hrafnistu sagði að hann væri aðeins marinn að læknirinn vissi hvað hann væri að segja. Nú myndi ég sennilega vefengja allt.
 
Ég sveia yfirvöldum allra tíma sem láta veikt og gamalt fólk mæta afgangi. Pabba langaði ekkert að verða eilífur en hann átti skilið áhyggjulausara ævikvöld.
 
Ég man enn hvað ég var fáránlega glöð þegar hann stundi upp þegar hann kom úr slævingunni á vöknun: Berglind, get ég fengið eitthvað að borða? – Það var þá ekki alveg búið að slá hann út af laginu.

Bróðir minn, korktappinn

Gummi vill fljóta og skoppa án ábyrgðar og bara vera glaður. Hann er 58 ára gamall og þegar maður skyggnist í baksýnisspegilinn sést óvirkur alkóhólisti sem mætti á fundi hjá AA áratugum saman. Mér sýnist ég líka sjá virkan fíkil og þótt ég ætli ekki að bera blak af honum sem hefur bæði stolið af mér og foreldrum okkar hugsa ég svolítið um samfélagið sem lætur það líðast að fíkniefni séu seld án eftirmála. Ég horfði á magnaðan þátt á fimmtudaginn um hið greiða aðgengi fíkniefna að fólki í mótun, viðkvæmu fólki, áhrifagjörnu fólki, forvitnu fólki. Blaðamaður skráði sig án fyrirhafnar í fimm hópa sem selja fíkniefni og fékk á 20 mínútum 746 tilboð um að kaupa fíkniefni.

Ég horfði líka um síðustu helgi á Lof mér að falla og spyr: Hvernig má það vera að heilbrigðismál eru ekki í fyrsta forgangi í samfélaginu? Ég er mjög venjuleg manneskja og hef átt gott líf í vernduðu umhverfi en samt sé ég hættumerkin í kringum mig. 

Ljósin eru rauð og í mínum augum blikkandi. 

Skjáskotið af færslu því í maí 2018 olli mér mikilli vanlíðan þá. Bróðir minn vænir systur okkar, sem var mömmu og einkum pabba eilíf stoð og stytta, um skjalafals og fjárdrátt. Þegar ég vildi ræða þetta við hann lokaði hann á mig og hefur hvorki viljað hitta mig til að ræða þetta né svarað tölvupóstum mínum.  

Facebook-færsla Gumma í maí 2018

Ég veit, þótt færslan sé falin fyrir mér, að hann fékk mikil viðbrögð úr bergmálshellinum sínum. Hann á marga Facebook-vini sem hann hefur aldrei hitt, fólk sem þekkir hann ekki í raun og veru en jesúsar sig yfir kveini í manni sem er allur í yfirborðinu, samfélagsfíkill og e.t.v. neytandi hugbreytandi efna.

Hann getur ekki lengur skemmt mikið fyrir mér. Ég get ákveðið sjálf að láta hann ekki trufla mig. Peningurinn sem hann stal af mér hefur ekki úrslitaáhrif á lífsgæði mín. En hann á tvær dætur sem eru ekki hann og mig langar ekki að missa samband við þær og mér blöskrar auðvitað enn tilhugsunin um lögmanninn sem tók að sér það skítaverkefni að hirða fé af 97 ára gömlum manni sem tórði á Hrafnistu fyrir mann sem er mjög brenglaður og átti ekkert tilkall til þess fjár.

Þótt ég geti valið að láta ekki þessa kumpána eitra hjá mér lífið hef ég enga ástæðu til að gleyma þeim og því hvernig þeir brutu af sér. Og auðvitað vildi ég óska þess að lög, reglur og siðferði gætu komið í veg fyrir að svona menn væðu uppi. Þó að þessir tveir séu ekki sérlega miklir áhrifamenn getur fíknin alveg stungið sér niður meðal manna sem geta valdið heilu stéttunum tjóni.

Og við viljum sanngjarnt líf þar sem allir hafa jöfn tækifæri til að koma sér áfram á eigin verðleikum.


Umferðin

Það er mjög langt síðan ég fór að hafa áhyggjur af of mikilli bílaumferð og áhrifum á umhverfi og lifsgæði. Þetta var helsta deilumál okkar mömmu heitinnar og það sem olli nokkrum hurðarskellum. Henni fannst að fólk mætti keyra bílana sína ef það hefði efni á því að eiga og keyra bíl en mér fannst og finnst það samfélagslegra spursmál hvort fólk keyrir allt sem það á erindi, einmitt þar á meðal í stór hús til að hlaupa síðan á brettum inni.

En auðvitað vil ég að fólk hafi val, að sjálfsögðu, líka til að keyra bílinn sinn og almennt til að taka heimskulegar ákvarðanir – svo fremi að þær bitni ekki á öðrum. Og það er einmitt galdurinn við að búa í samfélagi, við erum alltaf að taka tillit og fólk er alltaf að taka tillit til okkar. 

Ég er svo heppin að geta gengið og hjólað og er mjög þakklát fyrir það, alveg eins og ég er mjög þakklát fyrir að þurfa ekki að fara út í úrhellið sem er núna, hvorki til að ganga, hjóla né keyra. 

Mér blöskrar að Vegagerðin sé byrjuð að lengja frárein og breikka ramp til að mæta umferðartoppum en fólkið sem kvartar mest yfir umferðinni er það sem býr umferðina til. Ég er EKKI að biðja alla að hjóla, ég vil bara að þau sem vilja hjóla (lengri vegalengdir en ég þarf að fara) eigi í alvörunni möguleika á því án þess að eyða öllum deginum og vera í stöðugri lífshættu.

Einn borgarfulltrúi hefur áhyggjur af því að akandi umferð gjaldi fyrir alla gangandi farþegana og ég held næstum að henni fyndist eðlilegur fórnarkostnaður að sirka tveir vegfarendur dæju á gangbrautinni ef hægt væri að öðru leyti að nýta grænuljósaflæðið fyrir bílana. Ég skal alveg viðurkenna að mér finnst ekki þægilegt að stoppa marga bíla við Klambratún til að komast yfir Miklubrautina, mjög meðvituð um að tefja fjölda fólks, en hinn kosturinn væri að lengja leiðina mikið hjá mér eða skjótast yfir á rauðu.

Væri kannski hægt að finna lausn fyrir báða hópa? Stokk undir Miklubraut fyrir bílana?


Talgreinir -- opinn hugbúnaður

Eitt af skilyrðum fjárlaganefndar fyrir fjárveitingu til þróunar talgreinis sem breytir mæltu máli í ritað mál var að hugbúnaðurinn yrði opinn. Talgreinirinn er vissulega ekki útskrifaður en allir geta nýtt sér talgreini á vefsíðu HR. Og markmiðið er að hann muni nýtast þeim stéttum sem þurfa að skrifa ræður, yfirheyrslur, viðtöl og þess vegna eigin þýðingar á bókmenntaverkum. Hugsið ykkur tímann sem getur sparast – sem og vöðvabólguna sem notendur geta sloppið við.

Við viljum ekki þvo í höndunum, bera píanó á bakinu eða standa í röð á bókasafninu til að láta mynda fyrir okkur lánsbækurnar – ég vil a.m.k. vera með í fjórðu iðnbyltingunni, líka þegar reynir á hugarvinnu.

Og væri ekki frábært ef hægt væri að stytta vinnuvikuna? Lög um 40 stunda vinnuviku eru að verða hálfrar aldar gömul. Gætum við verið að tala um 30 stunda vinnuviku árið 2022?


Talgreinir > vél sem breytir tali í texta

Ég var svo lánsöm að sitja útvarpsnámskeið í vor og afrakstur þess var að gera útvarpsþátt fyrir þáttaröðina Fólk og fræði. Ég valdi að fjalla um talgreini sem ég nota í vinnunni, vél sem breytir mæltu máli í læsilegan texta. Vélin er ekki mennsk og hún gerir ómennskar villur en hún léttir okkur handavinnuna.

Þátturinn er aðgengilegur á vef RÚV til 7. desember. 

Skilyrði fjárlaganefndar fyrir að veita fé til þróunar talgreinis sem hefur verið í höndum HR var að hugbúnaðurinn yrði opinn og ég sé fyrir mér að heilbrigðiskerfið, dómskerfið og fjölmiðlar gætu nýtt sér hann. Ekki hika við að hafa samband við Jón Guðnason hjá HR eða mig hjá Alþingi ef þið haldið að talgreinir myndi létta ykkur lífið. Uppsetning hans krefst tæknikunnáttu en þegar uppsetningin er í höfn er notkunin einföld.


Fulli frændinn

Í flestum fjölskyldum er einhver sem hneppir vitlaust, borðar bara eina sort í veislum, notar ekki nafnháttarmerki eða stelur af foreldrum sínum.

Er það ekki?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband