Sögumaður Braga Ólafssonar

Ég vildi óska þess að einhver reyndi að segja mér, með rökum, að Sögumaður Braga Ólafssonar ætti erindi við mig. Ég hef lesið margar af bókum Braga og hann skrifar oft um lúsera, undirmálsmenn, fólk sem er erfitt að gefa rödd af því að það hefur ekkert að segja, ekkert fram að færa, en G. er verri. Hann hefur ekkert gert, ekkert farið, ekki lifað og er orðinn 35 ára. Hann veitir tilgangslausa eftirför manni sem hann á ekkert erindi við og það versta er að sögunni bara lýkur án nokkurra eiginlegra loka. Það er engin afhjúpun, enginn vendipunktur. Vonbrigði.

Af eldri bókum Braga er ég einkum hrifin af Samkvæmisleikjum. Þar var aldeilis aumingi á ferðinni en fantavel skrifuð saga um óskaplega viðkvæmt efni og ég fæ enn hroll þegar ég hugsa til endisins sem varpaði skjannabirtu á alla söguna sem maður var þá að klára.

Ef einhver varpar áhugaverðu ljósi á Sögumanninn er ég tilbúin að endurskoða afstöðu mína og reyna að sjá það ljós.


Halldóra Geirharðs

Sú var tíð, og ég vona að mér fyrirgefist það, að mér þótti Halldóra Geirharðsdóttir leiðinleg leiðkkona. Nú skil ég það ekki. Ég er að horfa á jólatónleika Sinfóníunnar þar sem hún er kynnir í hlutverki Barböru trúðs, alveg stútfull af húmor og væntumþykju. Og það er ekki í dag sem mér snýst hugur. Sem betur fer er langt síðan ég sá hvaða mann hún hefur að geyma. Því miður vill hún ekki verða forseti Íslands því að ég vildi svo gjarnan kjósa hana í það embætti. Úr því að ekki stendur til að leggja það niður.

Lifi Maxímús.


Er öldrun sjúkdómur?

Kannski er svarið já þótt mér finnist það tæpast. En hvenær er maður gamall? Að lögum 67 ára á Íslandi. Hversu margt frískt og lífsglatt fólk þekkir maður sem er samkvæmt því orðið gamalt en er með tryggar tekjur? Margt. Þá er „öldrun“ hvorki sjúkdómur né fötlun. 

Mér leiðist þegar aldur og örorka er spyrt saman eins og gert hefur verið í fjárlagaumræðunni. Í mínum augum er það svo gjörólíkt. Mér finnst hins vegar að fólk sem er undir fátæktarmörkum, fólk sem getur ekki framfleytt sér, t.d. fólk sem hefur unnið slítandi láglaunavinnu alla fullorðinsævina, eigi að vera með örugga framfærslu. ENGINN á að þurfa að lepja dauðann úr skel eða hanga á horriminni.

Er kannski pólitískt rangt að tala um fólk undir hungurmörkum í stað merkimiðans „aldraðir og öryrkjar“?

pabbi í partíi (94)


... velur mann ársins

Vísir biður nú fólk að velja með sér mann ársins 2015. Ég er búin að velja Ástu Kristínu sem var ákærð um manndráp í vinnunni en sýknuð um daginn. Hún hafði ákæruna og mögulegan dóm, vegna manneklu í raun, yfir höfði sér í þrjú ár. Ómanneskjulegt, eins og það kemur mér fyrir sjónir. Ég valdi líka Sigrúnu sem synti yfir Ermarsundið í haust. Ekki aðeins var það mikil dáð heldur var hún svo dásamlega hreinskilin þegar hún kom í land eftir tæpan sólarhring. Ég fylgdist með fréttum með öðru auganu. Ég syndi í Nauthólsvík á sumrin og einstaka sinnum á veturna. Stefni loks á mitt fyrsta nýárssund um áramótin.

Það eru auðvitað margir kallaðir. Ég hefði ekkert á móti því að kjósa Sævar stjörnu sem hefur fært heilu kynslóðunum áhuga á stjörnufræði í gegnum útvarpið og sólmyrkvagleraugun. Alltaf áheyrilegur. 

Kári hefur óvænt tekið sér sérdeilis skýra stöðu með Landspítalanum og það er flott hjá honum. Björgunarsveitirnar eru mannvinir en dálítið andlitslaus hópur. Fólk á að sýna þeim stuðning með buddunni. Finnst mér.

Og þótt ég hafi fylgst með Almari þrauka í kassanum í upphafi desembermánaðar finnst mér hann langt frá því að vera maður ársins. Og ég er sannfærð um að hann er sammála mér.


Bjalla forseta

Ég hef fylgst með hinni æsispennandi rás 73 í kvöld, þar á meðal þegar þingmenn töluðu um að bjalla forseta þingsins truflaði hljóðgæðin. Já! Ítrekaður bjöllusláttur gerir það. En ég er með svarið. Forseti á að hafa leyfi til að rjúfa útsendingu og upptöku ræðunnar þegar tíminn er búinn. Þingmenn vita oftast nær hvað tímanum líður og eiga að virða rauða ljósið eins og við gerum í umferðinni. Mig grunar að þingmenn tali ekki óvart fram yfir tíma sinn, hvort sem hann er mínúta eða klukkutími.

Svo mætti hafa skjá í þingsal sem sýndi áhorfendum á pöllunum nafn þess sem talaði, málsheitið og tímann sem eftir lifði.

Getur ekki verið að í öðrum þingum sé meiri upplýsingar að hafa?


Box og barningur

Ég vildi að ég gæti fært eitthvað nýtt inn í umræðuna um Gunnar Nelson. Ég sá brot úr bardaganum við Maia og fæ hroll. Af hverju eru einhverjir að mæra þessa „íþrótt“?


Svefnvenjur unglinga

Í sjónvarpsfréttum í gær var vísað í rannsókn um svefnvenjur unglinga og talað við unglinga um svefnvenjur þeirra. Sum sögðust sofa of lítið og önnur virðast sem betur fer sofa nóg, en þau töluðu bara um nætursvefninn. Þeir unglingar sem ég þekki og eru í skóla eiga það til að sofna um miðjan daginn ... sisona.

Er það ekki algengt? Ég nenni ekki að gera rannsókn á því samt. 


... veitir ekki viðtöl

Einhverra hluta vegna fór framhjá mér viðtal við kennara Almars Atlasonar í vikunni en nú er ég búin að bæta úr því. Ég hugsa að við sem vorum áhugasöm um gjörninginn höfum mörg hver mátað okkur sjálf í þessar aðstæður og það hafi gefið verkinu persónulegt gildi fyrir hvern og einn áhugasaman. Ádeila á neysluhyggju? Könnun á eigin úthaldi? Berskjöldun? Skoðun á samfélagsmyndinni? Já, en djö sem ég er ánægð með að hann tjái sig ekki sjálfur. „Mitt er að yrkja, þitt er að skilja“ á sérlega vel við í dag.

Og mér verður enn hugsað til Duchamps sem setti venjulegan hlut í óvenjulegt umhverfi fyrir rétt tæpri öld.


Kostnaður við búrið

Ég er enn upptekin af gjörningnum í búrinu. Sennilega er ég almennt séð og yfirleitt dálítið hrifin af því sem vekur almenna hneykslan. Sjálf er ég óttalegur smáborgari og þótt ég hætti mér endrum og eins út fyrir boxið vil ég að dyr þess standi mér að minnsta kosti áfram opnar.

Spurning sem heyrist þráfaldlega við svona tækifæri er: Og hvað kostar þetta? Eða: Erum við skattborgarar að styrkja þetta?

Í orði kveðnu ríkir jafnrétti til náms á Íslandi. Ég veit ekki hvort allir upplifa það þannig en alltént eru ekki skólagjöld (þótt það séu náttúrlega áhöld um hvort pappírsgjald stendur straum af útlögðum kostnaði einum saman við skráningu) og ef menn klára tilskildar einingar eiga þeir að fá námslán.

Ég man ekki eftir því að nokkur maður hafi spurt fyrir, í eða eftir hrunið hvort íslenska ríkið - við skattborgarar - hafi virkilega styrkt fjárhagslega viðskiptafræðinga sem tóku að sér þau störf í bönkunum sem leiddu til hruns þeirra. En það útilokar ekki að einhverjir hafi haft efasemdir um gildi námsins ...


Kallinn í kassanum

Er api í búrinu?

Ein elsta minning mín í fóðurhúsum er gagnrýnið tal um brauð á sýningu sem myglaði eftir því sem leið á sýninguna og um heybagga sem var komið fyrir einhvers staðar (á Skólavörðuholtinu?) og grotnaði niður og varð engum til gagns eða gleði.

Nú er myndlistarnemi á 1. ári búinn að dvelja í litlum glerkassa í Listaháskólanum í tæpa viku. Mér heyrist fólk ekki mikið þora að gagnrýna og alls ekki lýsa yfir velþóknun eða mæla athæfinu bót. Það fólk sem ég heyri í vandar sig við að hafa ekki skoðun á gjörningnum.

Ég hef kíkt reglulega á Almar í kassanum alla vikuna. Ég hugsa með hryllingi til þess að vera lokuð inni, velja að þegja, lesa ekki samfélagsmiðlana, striplast fyrir framan óteljandi margt fólk – og ráða engu. Mér finnst tilhugsunin um að framselja allt ákvörðunarvald yfir matnum mínum, lesefninu, félagsskapnum og almennt öllu alveg gríðarlega fráhrindandi.

Ég veit auðvitað ekkert hvað vakir fyrir Almari. Ef hann heldur áfram í þessu námi er alveg pottþétt að hann græðir á þeirri athygli sem hann fær út á verkefnið. Vonandi verður hann einhvers vísari um lífið, tilveruna og sjálfan sig. Ég er alveg búin að máta mig í kassann og veit að ég vil vera utan hans.

Ég sá viðtal við Godd í vikunni sem fannst forvitnilegast að sjá viðbrögð annarra nema í Listaháskólanum sem fylgdust með Almari á YouTube í stað þess að fylgjast með honum í kassanum sem var steinsnar frá. Niðurstaða mín: Það er forvitnilegt að fylgjast með fólki fylgjast með kallinum í kassanum, eins og að fylgjast með börnum horfa á myndir sem skemmta þeim eða vekja með þeim óhug. Ég hef stundum haft meira gaman af að fylgjast með viðbrögðum annarra við bíómyndum en að fylgjast með bíómyndinni.

Almar er aukaatriði, viðbrögð okkar eru málið. Það hvarflar hins vegar ekki að mér eitt einasta augnablik að það sé létt að vera í kassanum í heila viku. *hrollur*

 


Lögmæti smálána?

Í gær var umræða á þingi um lögmæti smálána. Já, smálán eru lögmæt sem í mínum augum þýðir að okurlánastarfsemi er lögleg. Flestir þingmenn virðast á því að það þurfi að stemma stigu við þessari starfsemi en enn er beðið eftir „niðurstöðu í dómsmáli sem smálánafyrirtæki hafa höfðað gegn Neytendastofu vegna dagsektarákvarðana“.

Ég held að þetta sé bara eitt af því fáa sem ég skil ekki. Af hverju eru vextir upp á 2.000–3.000% ekki ólöglegir?

Er það af því að „sveitarfélögin ... eru oft að greiða niður þessar skuldir“?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband