Mánudagur, 5. júní 2023
4-10% skerðing eftir skylduáskrift í áratugi
Fyrirhugaðar skerðingar á greiðslum úr lífeyrissjóði hljóta að jafngilda fyrirvaralausum launalækkunum.
Mannkynið er að eldast eins og hefur verið fyrirséð með betri meðferð á fólki heilt yfir. Reyndar hefur lengst af verið langlífi í minni ætt þannig að ég má alveg búast við að verða 110 ára. Ég er að reyna að ná utan um að greiðslur MÍNAR í lífeyrissjóðina verði rýrari þegar ég hef töku lífeyris. Ég hefði kannski bara sjálf getað ávaxtað féð betur en það er SKYLDA að borga í lífeyrissjóð og tilfinning mín er að starfsmenn lífeyrissjóðanna - sem eru of margir - taki óþarflega mikinn skerf af skylduáskrift okkar.
Ég er frekar brjáluð yfir þessu og fegin að einhver nennir að taka slaginn.
Svo er fólki bannað að vinna hjá hinu opinbera þegar það er orðið sjötugt þótt það hafi bæði vinnuvilja og þrek til þess. Ég skil alveg að sumir vilji hætta á öðrum tímapunkti og veit að sum störf slíta fólki meira en önnur, en ef við verðum að meðaltali 90 ára eftir 20 ár er óþarfi að SKIKKA fólk í frí þegar það vill halda áfram því sem það gerir vel og menntaði sig til að gera.
Þvílík forsjárhyggja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 3. júní 2023
Skatturinn - álagning
Ég er viss um að margir eru í sömu sporum og ég, að hafa fengið óskiljanlegan álagningarseðil frá Skattinum og að hafa fengið rukkun og endurgreiðslu í einhverri mynd nú um mánaðamótin.
Ég er líka viss um að margir eru sammála mér um að starfsfólks Skattsins er greiðvikið ef maður talar við það í síma.
Og sjálf er ég himinlifandi með innkomu Skattsins á Twitter þar sem færslur eru í sjálfu sér fræðandi og stundum meinfyndnar.
En flækjustigið er það ekki.
23. og 26. maí fékk ég fyrirvaralausar rukkanir frá Skattinum sem hétu í báðum tilfellum eftirstöðvar, innheimta, annars vegar upp á 115.000 og hins vegar 45.000 kr. (námundað). Í gær fékk ég svo lægri upphæðina lagða inn hjá mér sem staðgreiðslu, tryggingagjald. Fyrr í maí hafði ég fengið bréfpóst frá Skattinum um að ég ætti ónýttan persónufrádrátt frá 2021 sem myndi nýtast mér á þessu skattári.
2020 og 2021 taldi ég sjálf fram og greinilega svona illa en núna í febrúar fékk ég mér endurskoðanda sem gerði allt skv. bókinni. Samt eru allar upplýsingar frá Skattinum í skötulíki og rukkanir og endurgreiðslur óskiljanlegar venjulegum skattgreiðendum.
Ég er nefnilega viss um að ég er ekki ein um að sitja hér með spurningarmerki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 31. maí 2023
Launin þín og launin mín
... ó, þá fögru steina - svo ég grípi til kveðskapar Skáld-Rósu.
Ég er nautnalítil, eins og bróðir minn segir að amma hafi sagt um sjálfa sig, þótt ég kjósi nú ekki að borða ruðurnar eins og hún gerði um leið og hún bauð gestum upp á nýmeti. Hún var fædd 1890.
En ég er sem sagt nægjusöm og mig skortir ekkert, hreint ekkert. Hins vegar skil ég ekki hvernig fólkið í hæstu tekjutíundinni getur talað um að launin þess fylgi ekki einu sinni verðbólgunni þegar engin laun fylgja verðbólgunni nema kannski laun einhverra bankastjóra sem komast upp með að skammta sér alls konar gjöld úr vösum nauðbeygðra kaupenda þjónustu á fákeppnismarkaði.
Ég finn ekki nákvæmlega þá frétt en ég man að einn ráðamaðurinn sagði þetta. Svo held ég að hann hafi étið setninguna ofan í sig en auðvitað grunar mig að hann hafi bara verið að tala upp í almenningsálitið þá og sér þvert um hug. Tveggja milljóna maðurinn vill fá laun frá umbjóðendum sínum til að geta keypt sams konar nautalundir og sams konar Benz og hann gat keypt fyrir raunvirði launanna sinna fyrir fimm árum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 29. maí 2023
Óður til hvatvísi
Ég sá mynd í bíó í kvöld. Salurinn, að sönnu frekar lítill, var fullur af áhorfendum. Við sátum alveg á fremsta bekk og ég hló svo mikið að ég var farin að tárast. Myndin fannst mér skondin og skemmtileg en það er klárt mál að hlæjandi salur örvar frekar en ekki.
Myndin? Já, hún er um fjórar bandarískar vinkonur um sjötugt sem ákveða sisona að fara til Ítalíu. Þar drífur ýmislegt á daga þeirra sem þær taka af þeirri stóísku ró sem hæfilegur aldur og hæfileg fjárráð bjóða. Lærdómurinn sem þær taka með sér heim úr fríinu er að fresta ekki því sem þær vilja gera heldur tileinka sér meiri hvatvísi.
Það finnst mér þjóðráð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 28. maí 2023
Lokanir og niðurlagningar
Ég er breytingasinni. Sjálfsagt er ég vanaföst á minn hátt en ef einhver starfsemi er dauðadæmd, eftirspurn lítil eða engin og hægt að gera hlutina á hagkvæmari hátt eða sleppa þeim finnst mér sjálfsagt að skoða það.
Ég tók þátt í að innleiða talgreini á Alþingi, vél sem skrifar upp ræður þingmanna. Samsvörunin var komin í rúm 90% þegar ég sagði upp árið 2019 og það þótt ekki hafi verið byrjað að þróa talgreininn fyrr en 2016. Sumir hötuðu þessa breytingu og töluðu um að fólk myndi missa vinnuna. Vissulega varð breyting á starfinu en að mínu mati öll til bóta. Í og með til að enginn missti vinnuna ákvað ég að breyta til og sagði upp. Einhver gáfulegasta ákvörðun sem ég tók þann áratuginn.
Nú er ég í öðru spennandi starfi og reyni hvað ég get til að þróast í því og með því.
En hvatinn að þessu litla pári mínu núna er fréttin sem ég heyrði í útvarpinu í morgun um að búið væri að segja upp öllu starfsfólki Náttúrufræðistofu Kópavogs. Ég heyrði ekki talað um eftirspurn eftir sýningunni, t.d. meðal skólabarna, eða neina þarfagreingingu, aðeins að forstöðumaðurinn væri óhress.
Það má vera að ákvörðunin sé fordæmanleg, en í fréttinni kom ekkert fram sem sannfærði mig um það. Kannski eru pólitíkusarnir að spara nokkrar milljónir til að geta keypt betra með kaffinu, en um það sagði ekkert í fréttinni. Er þetta endilega glötuð ákvörðun?
Og af hverju finn ég ekkert um hana á RÚV?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 26. maí 2023
Álfadalur eftir Guðrúnu Jónínu Magnúsdóttur
Höfundur Álfadals rekur áhrifamikla frásögn um ógeðslegt ofbeldi og ógeðslega meðvirkni. Helsti kostur bókarinnar er hispursleysið og sannleiksástin en gallinn auðvitað ógeðið sjálft, já, og meðvirknin.
Hvað er að fólki? Hvernig getur skipt meira máli hvað fólki finnst en það að maður leggist meðvitað á dætur sínar? Hvernig getur nokkur maður verið svo ógeðslegur að nauðga skipulega öllum dætrum sínum, reyna við tengdadætur sínar og glotta svo þegar hann verður afi barnsins síns? Lenti hann sjálfur í einhverju sem barn eða unglingur?
Ég er alin upp af feðraveldinu og stend mig stundum að því að vorkenna gerendum. Að sumu leyti er ósköp göfugt að vorkenna þeim sem eru svo skemmdir af einhverra völdum að þeir skemma sjálfir annað fólk, en það má ekki brjótast út í meðvirkni.
Helvítis fokking fokk.
Ég veit varla hvort ég ætti að mæla með þessari bók. Við vitum að sumt fólk er rotið en í stað þess að lesa bara og býsnast ættum við frekar að hamast við að uppræta siðleysið og hjálpa þeim sem hægt er að hjálpa til siðbótar.
Ég er svo fjúkandi reið yfir að siðlausir narsissistar komist upp með allt sem þeir komast upp með. Eða þau.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 24. maí 2023
Ristilspeglun - seinni færsla
Ég skrifaði hér fyrir þremur vikum ristilspeglunarsögu mína og vil bara ítreka að mér blöskrar verðið þótt ég hafi efni á að borga 50.000 kr. fyrir þessa athugun. Ég er í Fræðagarði sem er undir regnhlíf BSRB og allt í einu hugkvæmdist mér að ég ætti kannski rétt á styrk frá stéttarfélaginu mínu.
Svo reyndist vera. Ég fæ 10.000 kr. af upphæðinni og þar af eru 3.145 kr. dregnar frá sem staðgreiðsla. Ég fékk því 6.855 kr. úr styrktarsjóðnum, sem sagt rétt rúm 14% af því sem ég greiddi fyrir speglunina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 20. maí 2023
Atburðir við sænskt vatn
Þvílíka spennuserían sem Händelser vid vatten er. Ég gat ekki horft nógu hratt. Svo skilst mér að bók sé til með sama nafni en mér finnst lýsingin ekki passa við söguþráð þáttanna. Lýsingunni á henni hjá Hljóðbókasafninu svipar meira til þáttanna eins og ég upplifði þá.
Hvað sem því líður eru þættirnir sem RÚV hefur verið að sýna og eru í spilaranum um unga kennslukonu sem flytur norður í rassgat með sjö ára dóttur sína til að elta skyndiást sem kviknaði á námskeiði í Stokkhólmi. Og það átti aldeilis eftir að hafa afleiðingar fyrir Annie og Miu.
Sagan sem er sögð er vissulega samfélags(gagn)rýni en miklu meira átakasaga einstaklinga, þroskasaga þeirra á 18 árum og svo auðvitað morðgáta. Einangrunin í samfélaginu er eiginlega ávísun á vandræði ... en ég ætla að ljóstra því upp að fálkinn - verðmæti fuglinn - er mikill áhrifavaldur ...
Kerstin Ekman skrifaði bókina 1993 þannig að hún var ekkert að ímynda sér samfélagið án nettengingar og farsíma. Allar boðleiðir voru seinfarnar og þarna norður í rassgatarófu voru sumir akvegir hálfgerðir göngustígar. Ég fæ hroll við tilhugsunina sem ég sit hér í sólríka sófanum mínum. Ég myndi ekki endast viku í fríi á svona stað, a.m.k. ekki ef ég hefði á tilfinningunni að allir væru að fela eitthvað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 16. maí 2023
Leiguverð of lágt
Þið eruð örugglega búin að sjá og/heyra fyrirsögnina hafða eftir stjórnarformanni leigufélagsins Ölmu sem var í viðtali við Kristján Kristjánsson á Sprengisandi á sunnudaginn. Hann er kannski klár að ota sínum tota og hagnast en frá mínum bæjardyrum séð er hann fullkomlega ólæs á samfélagið og þennan markað sem hann segist vera á.
Ég hef sjálf gert útreikninga miðað við 7% vexti og veit að venjulegur íbúðareigandi sem fer kannski burtu í tvo mánuði eða ætlar að leigja íbúðina sína í ár þarf að rukka leigjendur um 2,7 milljónir á ári + plús einhverja hlutfallslega viðbót vegna viðhalds, óhappa og fasteignagjalda. Það eru þá ríflega 200.000 kr. fyrir rúmgóða tveggja herbergja eða litla þriggja herbergja íbúð.
Húsnæði er dýrt, sagði Gunnar Þór Gíslason, og það er laukrétt. Þess vegna þarf sá sem er á markaði og ætlar að hafa lifibrauð sitt af leigjendum að hagræða eins og hægt er og hugsa til langs tíma. Það er eðlilegt að menn fái laun fyrir vinnuna sína en ekki óhóflegar arðgreiðslur.
En svo sannarlega gætu stjórnvöld látið meira til sína taka. Eins og Andrés Magnússon læknir sagði í Silfrinu um helgina er út úr kortinu að þrír embættismenn í Seðlabanka Íslands hafi meira vægi í sambandi við húsnæðismál fólks en allir kjörnir fulltrúar landsins, allt atvinnulífið og öll verkalýðsforystan.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 14. maí 2023
Aldrei framar nesti?
Ég trúi að Háskólinn á Bifröst sé fullur metnaðar. Nú auglýsir hann eftir nemendum og leggur mikla áherslu á fjarnám og nám á eigin forsendum.
Ég held reyndar að allir hljóti að vera - eða ættu að vera - í námi á eigin forsendum. Eftir heimsfaraldur er svo flestum að opinberast að fjarnám er kostur sem hentar sumum. En ein auglýsingin sem ég hef heyrt í útvarpi er: Aldrei framar nesti.
Ég veit að auglýsingar hafa heppnast vel ef bolurinn, þ.e. eiginlega markaðurinn, talar um þær. En þetta orðalag, aldrei framar nesti, sem kostur við að læra og búa á Bifröst truflar mig talsvert mikið. Það er alveg á skjön við mína hugmyndafræði um að nýta afganga, fara vel með, koma í veg fyrir matarsóun - þetta allt. Þó að nemendur á Bifröst geti rölt heim á milli tíma á þetta slagorð ekki við: Aldrei framar nesti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 12. maí 2023
Arion banki og vörslugjöldin hans
Arion banki misbauð mér um daginn þegar hann ákvað fyrirvaralaust og án nokkurrar tilkynningar að gjaldfæra 2.000 kr. í heimabankanum mínum með tveimur orðum: Vörslugjald. Viðskipti. Þetta reyndist vera rukkun fyrir að varsla húsbréfið mitt og ég fann það út sjálf. Ég skrifaði Arion banka og fékk þetta staðfest.
Ég greiddi reikninginn á gjalddaga en 10 dögum síðar leit enn út í heimabankanum eins og ég hefði ekki greitt hann. Þar sem ég er vandræðalega skilvís skrifaði ég Arion banka aftur og fékk línuna fjarlægða.
En þessir sífelldu eftirgangsmunir gerðu það að verkum að ég skoðaði söguna betur og sá þá að ég hafði verið rukkuð um 500 kr. í hvert skipti sem húsbréfið mitt var dregið út, fjórum sinnum á ári. Bankinn notaði því tækifærið og hækkaði gjaldskrána sína um 100% þegar rukkunin var tekin út úr sjálfvirku færslunni og gerð að sérstakri rukkkun.
4 x 500 kr. = 2.000 kr.
Nú mun ég fá rukkun tvisvar á ári upp á 2.000 kr.
2 x 2.000 kr. = 4.000 kr.
Geta launþegar hækkað launin sín um 100% án þess svo mikið sem að ræða við greiðandann?
Reyndar leit þetta svona út en ég skrifaði Arion enn og fékk það svar að útdráttargjaldið hefði alltaf verið. Þið þekkið þessa klassík, bankinn deplar ekki augum án þess að rukka sérstaklega fyrir það.
Um páskana var frétt á RÚV um svívirðilegar rukkanir þriggja stærstu bankanna en vegna fákeppni eru hendur okkar neytenda bundnar. Ég hef verið í viðskiptum við Arion banka, áður Búnaðarbanka, síðan ég var í reifum og eina ástæðan fyrir því að ég hef ekki fært öll mín viðskipti þaðan er sú að hinir stóru bankarnir eru ekki til að hrópa húrra fyrir. Meðan sparisjóðirnir voru og hétu flutti ég mig þangað en í hruninu var ég hreppaflutt aftur í Arion banka. Ég hef reynt við bæði Íslandsbanka og Landsbanka en þar hef ég líka gripið í tómt. Kannski virkar nýja ávöxtunarleiðin Ávöxtun hjá Íslandsbanka. Ég er þar núna til prufu. Já, ég á dálítið sparifé, svo það sé játað.
Ég sé ekki að Indó henti mér þannig að ég hef staldrað við í Kviku. Auðvitað finnst mér eðlilegt að fólk fái laun fyrir vinnuna sína og líka að fólk sem tekur áhættu geti uppskorið ríkulega. En á það við um stærstu viðskiptabanka Íslands?
Arion hagnaðist um 25,4 milljarða í fyrra.
Heimildin hefur líka tekið saman hagnaðartölur bankanna á síðasta ári.
Og ég leyfi mér að segja að bankarnir græði ekki á hyggjuviti, frumkvæði, sköpun eða einfaldri framleiðni. Nei, þeir græða á fákeppni og lagaumhverfi sem er neytendum óhagstætt.
Og vitið þið hvað? Ég skulda Arion ekki krónu en guð hjálpi þeim sem eru enn að koma yfir sig húsnæði og eru með húsnæðislán. Þar er greinilega áhættufjárfesting á ferðinni.
Fruss.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 6. maí 2023
Borgarskjalasafn, héraðsskjalasöfn og MS+Kvennó
Það getur vel verið að hið mistæka KPMG hafi í öllum ofangreindum tilfellum ráðlagt niðurlagningu og sameiningu. Ég er áskrifandi að póstlistanum Gammabrekku og hef fylgst með umræðu sagnfræðinga um að því er virðist fyrirvaralausa niðurlagningu Borgarskjalasafnsins sem a.m.k. borgarskjalavörður sagðist fyrst hafa heyrt af í fjölmiðlum.
Fljótlega eftir umræðuna um Borgarskjalasafn les maður að leggja eigi niður héraðsskjalasafnið í Kópavogi og sameina eitt og annað.
Fjármunum á að forgangsraða upp á nýtt.
Svo vill menntamálaráðuneytið kanna fýsileika þess að sameina Kvennaskólann í Reykjavík og Menntaskólann við Sund í húsnæði í Stakkahlíð. Í Kvennó er bekkjakerfi en í MS þriggja anna kerfi. Þegar ég var í MS var hið frábæra sleppikerfi - ef maður stóð sig vel allan veturinn þurfti maður ekki að taka vorpróf nema í útskriftarfögunum.
Alls staðar kveinar fólk yfir þessum hugmyndum og kannski eru þær afleitar. En ég er í eðli mínu breytingasinni og vil skoða allar hugmyndir um breytingar í þeirri trú að gott vaki fyrir fólki.
Er útilokað að þessar breytingahugmyndir stafi af umbótavilja? Er það útilokað? Ég hef nefnilega hvergi heyrt hósta eða stunu í þá veru. Getur verið að yfirvöld, hvaða flokki sem þau tilheyra, vilji alltaf bara taka slaginn við fólkið sem vinnur vinnuna?
Til viðbótar: Við lifum á tímum hraðra tækniframfara. Skiptir það ekki máli?
Ég verð þreytt og leið á þessari einsleitu umræðu og að fá ekki þær upplýsingar sem kynnu að skipta máli.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 3. maí 2023
Ristillinn ræstur - reynslusaga
Í þessari frásögn kemur ekkert fram sem er bannað fyrir viðkvæma eða teprur.
Í janúar sagði vinkona mín, 47 ára gömul, frá því að hún hefði drifið sig í ristilspeglun rétt fyrir jól, reynst vera með eitthvað grasserandi í ristlinum og var drifin akút í aðgerð. Hún vildi með frásögn sinni brýna fyrir fólki að sofa ekki á verðinum.
Ristil- og endaþarmskrabbamein er næstalgengasta krabbameinið á Íslandi og alltof margir deyja úr því. Ég veit um mann sem dó fyrir fimmtugt úr ristilkrabbameini af því að meinið uppgötvaðist of seint.
Ég tók hana á orðinu, hringdi í Læknastöðina og fékk tíma 3. maí. Ég fékk sendan tölvupóst með leiðbeiningum um hvernig ég ætti að undirbúa mig. Aðalundirbúningurinn er að tæma ristilinn svo hægt sé að spegla hann. En hvað þýðir það?
Það þýðir að vikuna fyrir speglunina þarf maður að passa mataræðið vel, borða engar trefjar og engin heil fræ. Síðustu tvo dagana þarf maður að fasta, þ.e. vera á fljótandi fæði. Það innifelur soð af súputeningum, síaða kjötsúpu, orkudrykki, te, kaffi og malt/pilsner, já, og maður má sjúga ópal og brjóstsykur. Ég fann rykfallinn kandís sem ég gæddi mér á!
Engum ætti að vera ofviða að sleppa föstum mat í tvo daga og mér var það heldur ekki. En í síðustu viku fór ég að spyrja í kringum mig hvort fólk væri búið að fara og hvernig fastan hefði gengið. Mér kom stórkostlega mikið á óvart að heyra að mjög margir, bæði konur og karlar, í nærumhverfi mínu höfðu farið. Greinilega hefur verið vakning sem fór þó svolítið framhjá mér. En þetta málefni er ekki fýsilegt yfir kaffinu í vinnunni eða í saumaklúbbum þannig að ég var alveg grunlaus.
Nú er ég búin að tempra mataræðið, fasta í tvo daga og láta spegla ristilinn.
Hann var hreinn og læknirinn sagði mér að muna eftir að panta aðra skoðun eftir 8-10 ár sem þýðir þá 2035 hjá gleymnu fólki eins og mér.
En nú kemur að því sem mér finnst líka vanta í umræðuna. PICOPREPPIÐ sem ég þurfti að kaupa, tvö örlítil bréf, og innbyrða til að laxera öllu úr ristlinum, kostaði 4.755 kr. og speglunin sjálf 44.150 kr. (59.704 - 28.554 (hluti sjúkratrygginga) + 13.000 (komugjald)), samtals 48.905 kr. Ég á eftir að athuga hvort stéttarfélagið styrkir svona aðgerð en ég get alveg játað að ég hef efni á þessu.
En er ekki hætta á að einhverjir hópar sleppi þessari brýnu skoðun af efnahagsástæðum? Hvernig getum við boðið upp á það að einföld fyrirbyggjandi skoðun, sem í mínu tilfelli var sem betur fer staðfesting á að allt væri í fínu lagi, kosti allt að 1/6 af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum láglaunafólks?
Læknirinn sem skoðaði mig og allt annað starfsfólk stóð sig aldeilis frábærlega, svo það sé sagt. Ég skil bara ekki hvernig við getum talað um heilbrigðiskerfi á heimsmælikvarða ef efnahagur ræður því hvort fólk lætur verða af svona brýnni skoðun.
Og nú á ég fullt af fastri kjötsúpu sem ég þarf að borða næstu daga ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 28. apríl 2023
9 líf - Bubbi Group
Ég ætlaði ekki endilega að sjá sýninguna um Bubba sem verður 67 í þarnæsta mánuði og er í raun jafn mikil stofnun í lífi nútímamannsins og Halldór Laxness var fyrir hálfri öld, já, og Bítlarnir í sinni heimasveit sem er sossum aðeins stærri.
En ég fór í gærkvöldi og er næstum orðlaus af hrifningu. Bubbi er náttúrlega þungamiðjan með textana sína og lífshlaupið en Ólafur Egill Egilsson gerði líka stórkostlegt mót með handrit og leikstjórn.
Og lítil stjarna í leikarahópnum er Hlynur Atli, fæddur 2011, sem var fyrsta útgáfan af Bubba. Ég fletti honum upp og hann hefur leikið í Kötlu og Venjulegu fólki. Það geislaði alveg af honum, hann söng eins og engill og greinilega vantaði ekkert upp á hrynjandina í honum heldur. Ég þarf næstum að fara aftur til að sjá hina sem leika Bubba sjö ára.
Mögulega hefði salurinn getað verið líflegri og tekið betur undir, mig langaði a.m.k. oft til að syngja hærra með og klappa meira og dilla mér en vildi ekki vera meira á iði en bekkirnir í kringum mig. Ég skil vel að fólk fari aftur og aftur og frómt frá sagt er 11.400 kr. hlægilega lágt verð miðað við 7.200 kr. fyrir lágstemmda (en fína) tveggja leikara sýningu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 23. apríl 2023
Vel sniðin föt gera gæfumuninn
Þegar ég byrjaði að horfa á Burda-myndina i sjónvarpinu á föstudaginn mundi ég alls ekki eftir tískunni sem tengd er Burda - en þvílík saga sem er sögð í myndinni. Af því að ég þekki hana ekki getur vel verið að eitthvað sé fært í stílinn en í megindráttum held ég að saga Önnu sé svona:
Hún er alin upp af feðraveldinu, giftist efnilegum manni þegar hún er rétt rúmlega tvítug og hann tæplega þrítugur. Þau komast í álnir --- leiðrétting: Hann kemst í álnir en hún fæðir honum þrjá syni á átta árum. Hún hefur metnað til að láta til sín taka en henni er sagt, ekki síður af meintum vinkonum sínum, að hún sé nú bara eiginkona og eigi að halda sig á heimilinu, enda eigi hún góða fyrirvinnu.
Anna kemst að því að eiginmaðurinn á barn með fyrrverandi ritara sínum og barnið er á aldur við yngsta son þeirra. Hún brjálast og hótar skilnaði. Öllum finnst það ferlega fyndið og fjarstæðukennt, og vinkonunum finnst sérstaklega að hún eigi að njóta frelsisins.
Aenna, eins og hún byrjar að kalla sig, dustar rykið af framúrstefnulegri hugmynd um tískublað sem eigi að auðvelda öllum konum að klæða sig í falleg, litrík föt sem ekki aðeins klæði þær betur heldur auki þeim sjálfstraust. Henni finnst mikilvægt að konur sem hafi ekki of mikið á milli handanna geti samt fylgt tískunni og lífgað upp á sig. Aenna býr náttúrlega það vel að hafa tekið bílpróf og vera með heimilishjálp þannig að hún skýst til Parísar eftir þörfum.
Hún gengur á hvern þröskuldinn á fætur öðrum en klífur þá alla vegna þess að, eins og helsta samstarfskona hennar orðar það, hún kemur alltaf auga á lausnir þegar hún fær vandamál og úrlausnarefni í fangið.
Ég veit ekki, kannski var fegurð hreyfiaflið hennar en miðað við myndina og það sem ég er búin að lesa í morgun virðist hún samt frekar hafa viljað koma stöðnuðum heimi og úreltum hugmyndum á hreyfingu. Sjálfsöryggi skiptir máli ef fólk vill láta til sín taka og ef fólk klæðist kartöflupokum sem eru teknir saman í mittinu verður það kannski feimið við að standa upp og heimta athygli þótt málefnin séu verðug.
Annað þarf ekki að útiloka hitt, konur eiga ekki frekar en karlar að þurfa að velja annað hvort fjölskyldu eða frama.
Sagan kallar fram gæsahúð og mér finnst hálfundarlegt að ég hafi ekki þekkt til hennar.
Og myndin er á þýsku sem verðskuldar bónusstig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 16. apríl 2023
Brotaþoli, þolandi, fórnarlamb, gerandi og svo meðvirkni
Ég missti næstum málið og orkuna þegar ég hlustaði áðan á viðtal sem var tekið á Bylgjunni á föstudaginn. Ég hef enga skoðun á Gylfa, er enginn sérstakur áhugamaður um fótbolta en ákvað samt fyrir löngu að halda með Everton í enska boltanum, og hef ómælda samúð með aðstandendum hans og öllum þolendum allra glæpa, hvort sem er af hálfu fólks eða kerfis.
En, gott fólk, tvö ár af lífi ALLRA eru löng tvö ár. Tvö ár af vinnu, ferðafrelsi, félagslífi, orðspori. Ég hef lesið ógrynni af sögum um þolendur sem hafa ekki treyst sér út úr húsi, gerandi setið um þolandann heima hjá sér, kyrrsett þolanda og auðvitað barið, niðurlægt og talið trú um að væri einskis virði.
Ég veit ekki til þess að ég þekki þolendur persónulega en þolendur bera heldur ekki allir harm sinn utan á sér. Ég get sagt hér og nú að ég hef sloppið vel í gegnum lífið og fæddist sennilega í bómull.
Í gærkvöldi horfði ég á magnaða bíómynd á RÚV sem var um ýmis samskipti og m.a. um stafrænt ofbeldi. Þar var menntaskólanemi, strákur í þetta skipti, sem galt mögulega fyrir ofbeldið með lífi sínu, a.m.k. bæði tíma og heilsu.
Ég efast ekki um að Gylfa Sigurðssyni sé margt vel gefið, meira en fótboltahæfileikar meina ég þá, en flóðbylgjan sem upphófst í fjölmiðlum þegar lögreglan í Bretlandi ákvað að ákæra hann ekki eftir tæplega tveggja ára rannsókn gekk alveg fram af mér. Það sannar alls ekki að hann hafi aldrei misstigið sig. Bróðir minn stal af mér og foreldrum okkar peningum, ég ákærði hann ekki, reyndi bara að höfða til samvisku hans sem hann reyndist enga hafa, en þótt ég hafi ekki farið neina kæruleið og þar af leiðandi hafi ekkert sannast á hann að lögum stal hann samt peningunum. Ég veit það, hann veit það, lögfræðingurinn sem hann réð sér til að verjast mér og systkinum okkar veit það - en er hann saklaus af því að ég kærði hann ekki?
Saklaus uns sekt er sönnuð er réttarfarslegt hugtak og sannar hvorki né afsannar gjörðir fólks.
Ég veit að ég sit hér ofan á - sem betur fer - bylgju þeirra sem taka upp þykkjuna fyrir þolendur sem sjá sjaldnast framan í réttlætið en mér er svo stórkostlega misboðið þegar menn tala um a) að menn SÉU almennt saklausir uns sekt er sönnuð, b) þolanda kerfis í sama orðinu og þolanda hroðalegustu ofbeldisglæpa sem ræna fólk tíma, orku, heilsu, geði, framtíð og peningum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 10. apríl 2023
Auður Haralds
Í kvöld var heimildarmynd um Auði Haralds í sjónvarpinu. Augun í mér stóðu á stilkum og einbeitingin var algjör. Af bókmenntaskrifum mínum, sem ég játa að eru svo sem af skornum skammti, er ég langstoltust af að hafa skrifað BA-ritgerðina mína um Hvunndagshetju undir titlinum Er kímni gáfa? Því miður er hún ekki í Skemmunni enda 30 ár síðan ég skrifaði hana. En kímni er svo sannarlega gáfa og söguhetjan Auður notaði hana til að verja sig gegn heimilisofbeldi.
Mögnuð bók. Magnaður höfundur. Og fín ritgerð, ef ég man rétt. Já, og góður þátturinn í kvöld. Ég hafði ekki minnst gaman af því þegar Auður sagðist skrifa bréf sem þyrfti að senda sem böggul. Ég skrifaði henni nefnilega til Rómar þegar hún bjó þar og fékk þverhandarþykkt bréf til baka. Ég þarf að hafa uppi á því við tækifæri. Og ritgerðinni.
Og hugrenningatengslin bera mig að öðru áhugaverðu úr útvarpsþætti sem ég hlustaði á um helgina, þegar lögreglumálum þokaði of hægt á sjötta áratug síðustu aldar VEGNA SKORTS Á VÉLRITUNARSTÚLKUM sem þýddi að lögreglumennirnir þurftu af miklu kunnáttuleysi að verja obbanum af vinnudeginum í að vélrita upp málin.
Auður hafði m.a. ofan af fyrir sér og aflaði tekna til að fæða sísvöngu börnin sín með vélritunarkunnáttu. Og vélritun er það fag í 9. bekk (nú 10. bekk) sem hefur gagnast mér hvað best á lífsleiðinni. Fingrasetningin, maður minn, fingrasetningin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 4. apríl 2023
Að arfleiða eða að gefa
Nú hafa þrír þingmenn lagt fram frumvarp um að foreldrum leyfist að arfleiða börnin sín skattfrjálst að peningum. Eðli frumvarpa er að vera tillaga, hugmynd, grundvöllur að frekari umræðu og þannig skil ég þetta frumvarp. Frumvarpshöfundar líta varla á upphæðina 10 milljónir sem heilaga eða að hvort foreldri geti arfleitt hvert barna sinna að 10 milljónum. Það eru náttúrlega takmörk fyrir því hvað fólk á margar 10 milljónir til útdeilingar, jafnvel þó að það sé komið á efri ár.
Ég er ekki endilega ósammála þeirri hugsun sem ég held að ráði hér ríkjum. Hins vegar finnst mér tímasetningin dálítið skrýtin. Þjóðin eldist og eldist og þegar fólk fellur frá eru börn viðkomandi sjálf orðin vel sjálfbjarga, kannski af því að foreldrarnir hafa hlaupið undir bagga við fyrstu kaup íbúðar.
Fyrstu íbúðarkaup eru nú um stundir nánast ómöguleg á Íslandi nema einhverjir ættingjar létti undir með kaupendum. Og á sama tíma er fólk í námi og að eignast fyrstu börnin sín. Þess vegna þyrfti meintur arfur að koma fyrr inn í myndina eða - það sem blasir við - ungu fólki gert kleift að leggja fyrir nóg til að kaupa sér fyrstu íbúð eða - sem líka blasir við - að þroska leigumarkaðinn svo að fólk geti leigt sér íbúð, jafnvel alla ævi, án þess að fara í áhættufjárfestingar.
Við erum skattlögð þegar við fáum launin, við borgum virðisaukaskatt þegar við förum út í búð og svo borga erfingjar skatt af arfinum. Ég hef aldrei alveg skilið af hverju fólk má ekki bara gefa fólki það sem það á án afskipta ríkisins en skiljanlega vill fólk ekki svipta sjálft sig öllu í lifanda lífi.
Ef Skatturinn hefði líka áhuga á að eltast við allt og alla hefði hann átt að sitja um bróður minn sem foreldrar okkar gáfu einhverjar milljónir. Bróðir minn, Gummi, er óvirkur alkóhólisti með mikla eyðsluþörf og lítinn tekjuvilja og mamma og pabbi voru sífellt að bjarga honum fyrir horn. Ég hugsaði og sagði að þau ættu peningana sína og mættu gefa þeim sem þau vildu. Ég sá bara ekkki fyrr en langtum seinna að þau voru meðvirk með honum og óttuðust sífellt að hann félli aftur fyrir áfengi og hlóðu þess vegna undir hann.
Kannski eru svona týpur ástæðan fyrir því að foreldrar mega ekki gefa börnum sínum, sérstaklega einu af fjórum, háar fjárhæðir. Það er einhvers konar jöfnuður.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 2. apríl 2023
Inngangur að efnafræði
Bókin ratar til sinna.
Sumt hittir í mark. Ég var að klára Inngang að efnafræði, skáldsögu um konu sem vill ekkert frekar en að verða vísindamaður og verður vísindamaður í heimi sem er ekki tilbúinn að hleypa konum inn. Við þekkjum öll þessar þreytulegu sögur af konum sem þurfa að leggja langtum meira á sig en karlar til að njóta sannmælis. Þessi saga ... en þessi saga var bara svo fyndin og margt svo óvænt í henni. Ég skellti upp úr í sífellu og hágrét líka. Ekki víst að Elizabeth Zott kynni að meta það með alla sína óbilandi rökfestu!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 29. mars 2023
Hver græðir?
Ég er að horfa á Kastljósið þar sem verið er að fara yfir húsnæðismarkaðinn. Fólk um þrítugt með eitt barn og u.þ.b. 600.000 kr. ráðstöfunartekjur á mánuði getur ekki keypt sér íbúð en neyðist til að borga helminginn af ráðstöfunartekjunum fyrir leiguhúsnæði sem felur ekki í sér neina eignamyndun.
Ég er aðeins búin að vera að skoða fasteignamarkaðinn og hann er alveg klikkaður eins og allir sjá sem hafa skoðað auglýsingarnar.
En það sem mig langar að vita er svarið við spurningunni: Hver græðir?
Stór hluti þeirra sem selja fasteign kaupa aðra fasteign þannig að sá sem selur vel sofnar ekkert endilega með fúlgur í fanginu heldur fer með fenginn í næstu íbúð.
Eru margir fjárfestar sem kaupa margar íbúðir (ég hef alveg heyrt svoleiðis sögur) og raka saman peningum?
HVER græðir?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)