Bráðamóttaka -- sagan okkar pabba

Ég er því miður skíthrædd um að þetta sé allt satt og rétt sem Elín Tryggvadóttir hjúkrunarfræðingur segir. Ég hef mesta samúð með fárveiku fólki sem á kannski ekki nána aðstandendur sem geta talað máli þess á staðnum og vitaskuld finnst mér hræðilegt að fólk þurfi að vinna við þessar aðstæður. Pabbi minn lærbrotnaði á Hrafnistu á föstudegi í júní 2018, rétt tæplega 97 ára, var látinn harka af sér til þriðjudags, þá loks sendur í myndatöku á Domus Medica og reyndist lærbrotinn. Þá var hann sendur á BRÁÐAMÓTTÖKU og látinn bíða þar í einn og hálfan sólarhring. Hann átti alltaf að fara í aðgerð á eftir, í kvöld, í fyrramálið eða strax eftir hádegi. Allan þann tíma fékk hann litla athygli, auðvitað bara mesta frá mér þar sem systir mín var í útlöndum, og ekkert að borða af því að hann átti að fara fastandi í aðgerð með svæfingu, eða slævingu hét það víst.
 
Ég var frekar reynslulaus í þessum fræðum og hélt þegar læknirinn á Hrafnistu sagði að hann væri aðeins marinn að læknirinn vissi hvað hann væri að segja. Nú myndi ég sennilega vefengja allt.
 
Ég sveia yfirvöldum allra tíma sem láta veikt og gamalt fólk mæta afgangi. Pabba langaði ekkert að verða eilífur en hann átti skilið áhyggjulausara ævikvöld.
 
Ég man enn hvað ég var fáránlega glöð þegar hann stundi upp þegar hann kom úr slævingunni á vöknun: Berglind, get ég fengið eitthvað að borða? – Það var þá ekki alveg búið að slá hann út af laginu.

Bróðir minn, korktappinn

Gummi vill fljóta og skoppa án ábyrgðar og bara vera glaður. Hann er 58 ára gamall og þegar maður skyggnist í baksýnisspegilinn sést óvirkur alkóhólisti sem mætti á fundi hjá AA áratugum saman. Mér sýnist ég líka sjá virkan fíkil og þótt ég ætli ekki að bera blak af honum sem hefur bæði stolið af mér og foreldrum okkar hugsa ég svolítið um samfélagið sem lætur það líðast að fíkniefni séu seld án eftirmála. Ég horfði á magnaðan þátt á fimmtudaginn um hið greiða aðgengi fíkniefna að fólki í mótun, viðkvæmu fólki, áhrifagjörnu fólki, forvitnu fólki. Blaðamaður skráði sig án fyrirhafnar í fimm hópa sem selja fíkniefni og fékk á 20 mínútum 746 tilboð um að kaupa fíkniefni.

Ég horfði líka um síðustu helgi á Lof mér að falla og spyr: Hvernig má það vera að heilbrigðismál eru ekki í fyrsta forgangi í samfélaginu? Ég er mjög venjuleg manneskja og hef átt gott líf í vernduðu umhverfi en samt sé ég hættumerkin í kringum mig. 

Ljósin eru rauð og í mínum augum blikkandi. 

Skjáskotið af færslu því í maí 2018 olli mér mikilli vanlíðan þá. Bróðir minn vænir systur okkar, sem var mömmu og einkum pabba eilíf stoð og stytta, um skjalafals og fjárdrátt. Þegar ég vildi ræða þetta við hann lokaði hann á mig og hefur hvorki viljað hitta mig til að ræða þetta né svarað tölvupóstum mínum.  

Facebook-færsla Gumma í maí 2018

Ég veit, þótt færslan sé falin fyrir mér, að hann fékk mikil viðbrögð úr bergmálshellinum sínum. Hann á marga Facebook-vini sem hann hefur aldrei hitt, fólk sem þekkir hann ekki í raun og veru en jesúsar sig yfir kveini í manni sem er allur í yfirborðinu, samfélagsfíkill og e.t.v. neytandi hugbreytandi efna.

Hann getur ekki lengur skemmt mikið fyrir mér. Ég get ákveðið sjálf að láta hann ekki trufla mig. Peningurinn sem hann stal af mér hefur ekki úrslitaáhrif á lífsgæði mín. En hann á tvær dætur sem eru ekki hann og mig langar ekki að missa samband við þær og mér blöskrar auðvitað enn tilhugsunin um lögmanninn sem tók að sér það skítaverkefni að hirða fé af 97 ára gömlum manni sem tórði á Hrafnistu fyrir mann sem er mjög brenglaður og átti ekkert tilkall til þess fjár.

Þótt ég geti valið að láta ekki þessa kumpána eitra hjá mér lífið hef ég enga ástæðu til að gleyma þeim og því hvernig þeir brutu af sér. Og auðvitað vildi ég óska þess að lög, reglur og siðferði gætu komið í veg fyrir að svona menn væðu uppi. Þó að þessir tveir séu ekki sérlega miklir áhrifamenn getur fíknin alveg stungið sér niður meðal manna sem geta valdið heilu stéttunum tjóni.

Og við viljum sanngjarnt líf þar sem allir hafa jöfn tækifæri til að koma sér áfram á eigin verðleikum.


Umferðin

Það er mjög langt síðan ég fór að hafa áhyggjur af of mikilli bílaumferð og áhrifum á umhverfi og lifsgæði. Þetta var helsta deilumál okkar mömmu heitinnar og það sem olli nokkrum hurðarskellum. Henni fannst að fólk mætti keyra bílana sína ef það hefði efni á því að eiga og keyra bíl en mér fannst og finnst það samfélagslegra spursmál hvort fólk keyrir allt sem það á erindi, einmitt þar á meðal í stór hús til að hlaupa síðan á brettum inni.

En auðvitað vil ég að fólk hafi val, að sjálfsögðu, líka til að keyra bílinn sinn og almennt til að taka heimskulegar ákvarðanir – svo fremi að þær bitni ekki á öðrum. Og það er einmitt galdurinn við að búa í samfélagi, við erum alltaf að taka tillit og fólk er alltaf að taka tillit til okkar. 

Ég er svo heppin að geta gengið og hjólað og er mjög þakklát fyrir það, alveg eins og ég er mjög þakklát fyrir að þurfa ekki að fara út í úrhellið sem er núna, hvorki til að ganga, hjóla né keyra. 

Mér blöskrar að Vegagerðin sé byrjuð að lengja frárein og breikka ramp til að mæta umferðartoppum en fólkið sem kvartar mest yfir umferðinni er það sem býr umferðina til. Ég er EKKI að biðja alla að hjóla, ég vil bara að þau sem vilja hjóla (lengri vegalengdir en ég þarf að fara) eigi í alvörunni möguleika á því án þess að eyða öllum deginum og vera í stöðugri lífshættu.

Einn borgarfulltrúi hefur áhyggjur af því að akandi umferð gjaldi fyrir alla gangandi farþegana og ég held næstum að henni fyndist eðlilegur fórnarkostnaður að sirka tveir vegfarendur dæju á gangbrautinni ef hægt væri að öðru leyti að nýta grænuljósaflæðið fyrir bílana. Ég skal alveg viðurkenna að mér finnst ekki þægilegt að stoppa marga bíla við Klambratún til að komast yfir Miklubrautina, mjög meðvituð um að tefja fjölda fólks, en hinn kosturinn væri að lengja leiðina mikið hjá mér eða skjótast yfir á rauðu.

Væri kannski hægt að finna lausn fyrir báða hópa? Stokk undir Miklubraut fyrir bílana?


Talgreinir -- opinn hugbúnaður

Eitt af skilyrðum fjárlaganefndar fyrir fjárveitingu til þróunar talgreinis sem breytir mæltu máli í ritað mál var að hugbúnaðurinn yrði opinn. Talgreinirinn er vissulega ekki útskrifaður en allir geta nýtt sér talgreini á vefsíðu HR. Og markmiðið er að hann muni nýtast þeim stéttum sem þurfa að skrifa ræður, yfirheyrslur, viðtöl og þess vegna eigin þýðingar á bókmenntaverkum. Hugsið ykkur tímann sem getur sparast – sem og vöðvabólguna sem notendur geta sloppið við.

Við viljum ekki þvo í höndunum, bera píanó á bakinu eða standa í röð á bókasafninu til að láta mynda fyrir okkur lánsbækurnar – ég vil a.m.k. vera með í fjórðu iðnbyltingunni, líka þegar reynir á hugarvinnu.

Og væri ekki frábært ef hægt væri að stytta vinnuvikuna? Lög um 40 stunda vinnuviku eru að verða hálfrar aldar gömul. Gætum við verið að tala um 30 stunda vinnuviku árið 2022?


Talgreinir > vél sem breytir tali í texta

Ég var svo lánsöm að sitja útvarpsnámskeið í vor og afrakstur þess var að gera útvarpsþátt fyrir þáttaröðina Fólk og fræði. Ég valdi að fjalla um talgreini sem ég nota í vinnunni, vél sem breytir mæltu máli í læsilegan texta. Vélin er ekki mennsk og hún gerir ómennskar villur en hún léttir okkur handavinnuna.

Þátturinn er aðgengilegur á vef RÚV til 7. desember. 

Skilyrði fjárlaganefndar fyrir að veita fé til þróunar talgreinis sem hefur verið í höndum HR var að hugbúnaðurinn yrði opinn og ég sé fyrir mér að heilbrigðiskerfið, dómskerfið og fjölmiðlar gætu nýtt sér hann. Ekki hika við að hafa samband við Jón Guðnason hjá HR eða mig hjá Alþingi ef þið haldið að talgreinir myndi létta ykkur lífið. Uppsetning hans krefst tæknikunnáttu en þegar uppsetningin er í höfn er notkunin einföld.


Fulli frændinn

Í flestum fjölskyldum er einhver sem hneppir vitlaust, borðar bara eina sort í veislum, notar ekki nafnháttarmerki eða stelur af foreldrum sínum.

Er það ekki?


Hvítur, hvítur dagur

Ég var með miklar væntingar til Hvíts, hvíts dags eftir að sjá kynningarstikluna og leikurinn stóð undir þeim en söguþráðurinn ekki. Það var ein óvænt vending í myndinni og hún var samt klisja. Ég er ekki að biðja um neitt últraraunsæi en er ekki dálítið vel í lagt að vera með tvær löggur í galla og eina gallalausa í litlum bæ?

Hins vegar fá löggurnar hrós fyrir allar kleinurnar og öll vínarbrauðin sem voru borin inn á löggustöðina.

Sem betur fer er ég ekki með eins marga lesendur og Jón Viðar sem fékk aldeilis yfir sig gusurnar fyrir að hallmæla myndinni.


1921--2019

Nú er pabbi dáinn eins og allt stefndi í í byrjun ágústmánaðar, 98 ára gamall. Við áttum langa samleið en samt átti hann 44 fyrstu árin sín án mín. Ég er því ekki til frásagnar um þau. Ég hef undanfarið gluggað í gömul bréf, skoðað gamlar myndir og flett einkunnaspjöldum. Hann var greindur maður og verkmaður mikill, fékk góðar einkunnir í því sem hann tók próf í og það þótt hann ynni alla daga þegar hann var nýkominn til borgarinnar úr Holtunum, lærði á kvöldin og smíðaði fyrir viðskiptavini um helgar þegar hann var ekki að leika á harmonikkuna á böllum. Þá var heldur ekkert sjónvarp eða internet til að draga úr starfsgetu en helsti lúxusinn hans var að kaupa sér ljóðabækur, lesa þær og læra uppáhaldsljóðin utan að.

 Pabbi

Mamma var rúmlega tvítug og pabbi tæplega þrítugur (sjá mynd sem hann mundi reyndar ekki hvort hann var rúmlega tvítugur þegar var tekin eða tæplega þrítugur (enda langt um liðið)) þegar þau tóku saman og ég veit að hjónabandið var á köflum stormasamt. En þau eignuðust fjögur börn og lifðu súrt og sætt í 70 ár. Nú eru þau bæði farin með rúmlega eins og hálfs árs millibili og ég sakna þeirra stundum svo mikið að ég fæ alveg skelfileg grátköst. 

Ég er aldrei komin með símann á eyrað til að hringja og mér finnst það dálítið skrýtið en þegar ég geng um matvörubúðina er ég alltaf að hugsa: Á ég að kaupa lifrarpylsu handa pabba? Eða kremkex? Eða kannski mangó ef það er hæfilega þroskað? Skyldi hann vilja harðfisk? Ó, hraunbitarnir eru ábyggilega búnir.

Síðan pabbi dó hefur ekkert mætt mér nema hlýjan og faðmlög frá öllu fólki í kringum mig. Mér finnst allir skilja að það er sársaukafullt að fylgja foreldrum sínum síðasta spölinn og það ekkert síður þótt þau séu vel við aldur. Framan af ævi hélt ég að ég væri tilfinningadofin og kannski var ég það en núna finnst mér gott að tjá söknuðinn og ég er alveg viss um að mörgu fólki er svipað innan brjósts með sitt fólk. 

Og ég kvíði því líka að verða (gömul og) upp á aðra komin þannig að ég er að hugsa um að hanga á heilsunni eins og hundur á roði, fara vel með mig og njóta lífsins. Í því felst að reyna að vera umburðarlynd og æðrulaus, greiðvikin og gestrisin -- það er markmiðið -- en líka að borða hollt, hreyfa mig, umgangast gott og skemmtilegt fólk, ferðast og lifa í núinu.

---

Pabbi var jarðaður í dag við fallega athöfn í Fossvogskapellu að viðstöddu mörgu fólki sem þótti vænt um hann og okkur börnin hans. Það verður dýrmæt minning til framtíðar en nú loka ég þessum kafla hér. Mér finnst gott að hafa orðað tilfinningar mínar svona opinskátt og það er nýtt fyrir mér.


Læknir eða hjúkka, þar er efinn

Hér vantar tjáknmynd af samfélagsmiðlunum af apanum sem heldur fyrir augun á sér. 

Ég þarf að segja sjálfri mér sögu af staðlaðri kynjamynd. Á fimmtudagskvöldið sat ég of lengi í heita pottinum í Sundhöllinni eftir hjól og hlaup fyrr um kvöldið. Þegar ég var farin upp úr og búin í sturtunni var mér svo ómótt að ég varð að leggjast út af. Aðstæður í Sundhöllinni eru þannig að ekki er annað í boði en gólfið og ég vafði um mig handklæðið og lagðist svo á gólfið. Starfsstúlka bauð mér þrúgusykur og vatnsglas og ég þáði það. Svo var þarna umhyggjusamur gestur sem spurði um blóðþrýsting og eitthvað sem ég velti aldrei fyrir mér þannig að ég fór að velta því fyrir mér og spurði svo: Ertu hjúkka?

Nei, sagði hún brosandi, ég er læknir. 

Hún ráðlagði mér að fá mér salt, bara venjulegt borðsalt, þegar ég kæmi heim. Ég gerði það, sofnaði vært og kenndi mér ekki frekara meins.


Meðvirk á fundi

Ég veit að á Al Anon fundum, fundum fyrir fullorðna aðstandendur alkóhólista, ríkir nafnleynd og að það sem maður verður áskynja á fundunum á maður að skilja eftir þar. Þess vegna segi ég ekki frá neinu öðru en því að eftir einn fund er ég ekki búin að finna neinn sem er í sömu stöðu og ég. Ég tók til máls á fundinum sem ég mætti á og mér var vinsamlega tekið en ég mætti aðallega til að hlusta. Mér finnst óþægilegt þegar fólk talar um guð og æðri mátt sem fólk leggur örlög sín í hendurnar á (ekki bein tilvitnun í neinn, mín túlkun). Mér finnst óþægilegt að hugsa til þess að ég þurfi að breyta mér til að -- hvað? Sætta mig við að Gummi er skíthæll, hvort sem hann drekkur, dópar eða hvorugt, og stelur af mér peningum?

Ég ætla að mæta á fleiri fundi og með eins opinn huga og ég get en mig langar enn að vita hvernig minn 58 ára gamli bróðir sem hefur verið i meira en 20 ár virkur hjá AA getur verið í bataferli en samt svínað á fólki í kringum sig, sínum nánustu og GUÐ má vita hverjum öðrum.


Erpfirska efnahagssvæðið

Ef maður dvelur of lengi nálægt spillingu getur maður orðið samdauna. Eða kannski verður spillingin svo sterk að hún yfirtekur allt og fólk kemst ekki undan oki hennar. Því miður held ég að erpfirska mafían grasseri of víða þar sem fólk fær einhverjar dúsur meðan mokað er undan því alvöruverðmætum.

Ég fór á Héraðið í kvöld og hún var nákvæmlega eins og ég gerði mér vonir um. Kannski er það vafasamt hrós því að auðvitað vill maður láta koma sér á óvart. Og það sem náði því svo sem var útbreiðsla samfélagsmiðla. Ég hefði haldið að kúabændur væru svo ofurseldir mjaltatímum og gjöfum að ekki væri svigrúm til að lyfta sér upp.

Gott að ég get nú látið þann misskilning lönd og leið.

Stjörnumynd og ég mun horfa á hana aftur þegar hún verður sýnd í sjónvarpinu. 

 

 


Bréf Gumma til okkar systkinanna

Í heiminum er margur sótrafturinn og mín fjölskylda slapp ekki eins og ég hef verið að rifja upp síðustu dagana á blogginu. Að sumu leyti er freistandi að loka sársaukann inni og láta Gumma ná þannig yfirhöndinni en af því að ég ætla að vinna í meðvirkni minni með honum og af því að hann mun halda áfram að svíða peninga af fólki held ég áfram að pönkast hér. Hver sem er getur lesið færslurnar og hver sem er getur sleppt því. En ég hef staðreyndir að leiðarljósi.

Gummi fékk peninga lánaða hjá mömmu og pabba. Hann veit það og viðurkennir en ber fyrir sig að skuldin -- sem ekki er viðskiptaskuld eða áhættufjárfesting heldur einfalt lán foreldra til sonar í vandræðum vegna eigin axarskafta -- sé fyrnd. Þegar við systkinin þrjú höfum viljað hitta hann og ræða málin hefur hann skrópað. Hann mætir ekki og svarar ekki tölvupóstum heldur ræður sér lögfræðing. Eldri bróðir okkar hefur hringt í Gumma og fengið fúkyrðin yfir sig. Í augum Gumma erum við vonda fólkið. Auðvitað erum við gölluð en við erum ekki þjófar og við höfum engu logið upp á Gumma.

Í maí var lögmaður Gumma búinn að rissa upp kröfu hans á okkur og pabba en af ýmsum ástæðum varð ekki af seinni fundi okkar þriggja með lögmanninum fyrr en 8. ágúst. Kannski erum við nytsamir sakleysingjar en eftir fundinn með lögmanninum sem Gummi vildi náttúrlega ekki mæta á kom okkur saman um að beygja okkur undir kröfuna og systir mín sem er með umboð frá pabba lagði fjórðungshlut inn á fjárvörslureikning lögmannsins. Síðan vitum við ekkert hvað varð af þeim peningum.

Lífsgæði eru fólgin í mörgum óefnislegum hlutum, svo sem heilsu, ást og vináttu, og þau er ekki hægt að kaupa. En allir sem hafa haft lítið á milli handanna vita að peningar geta aukið lífsgæði, t.d. ef fólk getur unnið styttri vinnudag, leyft sér ferðalög og haft efni á hollari mat. Líf mitt er stútfullt af hamingju þótt þessi ágústmánuður hafi verið heldur armæðulegur vegna andstyggilegheita Gumma og hrakandi heilsu pabba. Einhvern tímann kemur að því að ég læt gott heita en nú ætla ég að birta umboðið sem Gummi skrifaði undir. Ég stroka yfir nafn lögmannsins og nöfn og kennitölur votta að því að Gummi sé sá sem hann segist vera vegna þess að það fólk er ekki aðilar að þessu bloggi og þyrfti að fá að vita af því til að geta svarað fyrir sig. Gummi hefur haft mýmörg tækifæri en forsmáir þau öll.

umboð Gumma Steins


Ég er góð kona ...

Jebbs. Ég er góð kona. Þetta er setningin sem ég vildi síst sjá í eftirmælum eftir mig að mér genginni. Ef lýsingarorðið góð/ur er valið um manneskju hefur mér alltaf fundist sem ekkert annað hrós gæti gengið um viðkomandi, svo sem skemmtileg, klár, frjó, greiðvikin, bóngóð, hugmyndarík, afgerandi, uppörvandi, vinnusöm, örlát, eftirsótt, athugul, næm, falleg eða þá hvers manns hugljúfi, fór ekki framhjá neinum, alltaf boðin og búin, sameiningartákn, miðpunkturinn eða sú sem allir vildu líkjast.

En ég er samt góð kona og vanda mig við að breyta rétt. Ég er líka eigingjörn kona og vil að fólki líki við mig fyrir að vera gáfuð, fyndin, bóngóð og skynsöm. Og ég er nógu hégómleg til að vilja líta betur út en illa. Ég reyni flesta daga að haga mér af skynsemi til að hámarka líkurnar á góðri heilsu og langlífi. Mér finnst lífið svo skemmtilegt að ég vil halda í það sem lengst og þá auðvitað í sem fyllstu fjöri.

Ég sit mikið hjá pabba á Hrafnistu þessa dagana en hann er of máttfarinn til að spjalla mikið þannig að við erum bara saman, hugsum hvort sitt og stundum tala ég fyrir okkur bæði. Ég legg honum samt ekki orð í munn heldur tala ég á við tvo. En minna en venjulega samt. Mér finnst ég vera að gera rétt fyrir hann en líka mig vegna þess að þótt hann viti ekki af mér nema endrum og eins held ég að nærveran skipti máli.

Þegar hann byrjaði að afþakka næringu 1. ágúst hafði ég komið til hans 140 daga af þeim 210 sem liðnir voru af árinu. Já, ég er góð kona og eigingjörn því að þegar hann fer vil ég að hann hafi sem mestan kærleika í farteskinu. Hann er ekki viss um að hitta mömmu í græna landinu og í honum er ferðakvíði. Sem betur fer erum við þrjú systkinin samstiga í því að vilja gera honum dvölina sem þægilegasta.

En ég kom sem sagt á fyrri helmingi ársins til pabba tvo daga af hverjum þremur. Hrafnista er í Laugarásnum og ég bý í hverfi 105 þannig að heimatökin voru í sjálfu sér hæg en það var samt stundum aggalítið snúið að láta það ganga upp á annasömustu dögunum. En honum þykir varið í að maður komi og þá getur maður gert það. Þetta heitir fjölskylduábyrgð. Og minnugri karl er líka vandfundinn. Hann þylur upp heilu ljóðabálkana, bæði eftir gömlu skáldin og ljóð sem hann sjálfur orti í denn og mamma hans og pabbi. Það sem hann hefur lært man hann.

Við spilum líka. Ef við erum fjögur saman eins og við höfum reynt á sunnudögum spilum við vist. Þar er pabbi á heimavelli. Ef hægt er að fella í hálfri fellir hann í hálfri. En þar fyrir utan spilum við ólsen ólsen, sjöu, kasínu og rommí. Og hann vinnur endalausa glæsta sigra því að glúrnari spilamaður er vandfundinn.

Við pabbi erum gott fólk eins og flest fólk er.


Hver er ég?

Ég er á nokkurra daga tilfinningaferðalagi með sjálfri mér. Ég held að það sem ég er að ganga í gegnum sé sammannlegt og þess vegna tjái ég mig hér í von um samferðafólk en skrifa ekki í pappírsdagbókina sem ég held líka. Þar eru enn meiri einkamál.

Ég er ofsalega venjuleg manneskja sem er nú búin að komast að því, loksins segja sumir, að bróðirinn sem er fjórum árum eldri er ekki sá sem ég hélt hann vera. Og nú horfi ég inn á við og spyr mig: Hvernig gat þetta gerst og hvernig gat ég verið svona andvaralaus?

Ég ætla ekki að tíunda allt það brogaða sem ég man eftir úr æsku. Öllum er heimilt að hlaupa á sig, gera mistök, vera ósanngjarnir stundum, ljúga smá, fegra sig, slæpast, koma sér undan en ég held að flestir þekki mörkin, viti hvenær er orðið of mikið, kunni að biðjast afsökunar og sjá að sér. Ég get fyrirgefið sjálfri mér mína galla sem ég veit um suma en ekki alla því að margt fólk er feimið við að gagnrýna aðra. Ég veit að ég er smámunasöm, aðfinnslusöm, gagnrýnin, kröfuhörð og óforbetranlegur draslari. Í vinnunni tekst mér ekki að gera huggulegt á skrifstofunni minni því að pappírar hrúgast upp, ég legg skó frá mér í hilluna, ég er með blóm í vítamínglasi og kaffiblett stundum á sama staðnum allan daginn. Heima geta skórnir verið á baðgólfinu heila helgi án þess að ég gefi þeim almennilega gaum. Í frystinum ægir öllu saman og stundum opna ég box úr frysti sem ég man ekkert hvað er í. En ég er algjör jarðýta í vinnu og leik mér að því að gera tvennt í einu. Mamma kallaði mig mörg síðustu árin sín múltítösku. Hvað er það? Ég sagði henni einu sinni frá ensku sögninni „multitask“, að gera margt í einu, og hún sneri því upp í nafnorð um mig, mundi stundum vitlaust sinn eigin skáldskap og kallaði mig múltíbuddu (sem er auðvitað ekki eins flatterandi). Hún rifjaði oft upp einhver jólin þegar ég bjó heima og var að skrifa efnisrík jólakort meðan ég talaði við hana og hlustaði eftir einhverju sem var sagt í útvarpinu. Henni fannst ég alltaf geta gert margt í einu en svo ég skauti ekki framhjá göllunum sem ég nefndi framar þarf ég kannski að læra á slaka á gagnvart hóflegu slugsi og tímasóun.

Ég hélt lengi vel að ég væri það sem ég kallaði tilfinningalega grunn. Ég er dul og læt oft lítið uppi um sjálfa mig en ég er ekki tilfinningalaus. Ég á auðvelt með að taka hrósi og ég á líka auðvelt með að hrósa öðrum. Ég er extróvert og er yfirleitt öll útvortis í góðra vina hópi þótt ég eigi það til að finnast gott að halda mig til hlés og fylgjast með. Ég held að ég sé allt annað en vanaföst en kannski er ég ekkert nema rútína og algjörlega blind á það sjálf. Sóun er algjört eitur í mínum beinum sem er í sjálfu sér kostur en ég get verið fullöfgakennd í því efni. Og ég er ALLTOF gefin fyrir mat og sætindi en sem betur líka fyrir að hreyfa mig.

Við erum öll alls konar og nú er ég farin í þetta innra ferðalag vegna þess að ég horfðist loks í augu við það að ég á bróður sem lætur stjórnast svo af peningum að hann skeytir hvorki um skömm né heiður og allra síst sannleikann. Hann situr uppi með sjálfan sig en ég er sátt við sjálfa mig, galla mína og kosti því að ég veit að ég er heiðarleg og brýt hvorki né bramla líf fólks í kringum mig. Ef einhver annar veit betur vildi ég svo innilega frétta af því vegna þess að í þessu ferli er ég að reyna að  bæta mig.


Minn fyrrverandi bróðir

Ég held áfram að rekja úr mér garnirnar og hreinsa út úr sálartetrinu.

Nú sit ég á laugardagskvöldi yfir pabba mínum 98 ára og sofandi á Hrafnistu. Ég get ekki vakað yfir honum hverja stund en við Kolbrún og Trausti, systkini mín tvö, skiptumst á um að dekka sem flesta dagtíma svo hann viti af okkur þegar hann rumskar.

Í veikindum hans hafa vaknað upp alls konar hugsanir og minningar og sumt alveg glænýtt. Ég er t.d. nýbúin að átta mig á að pabba hefur verið mikið í mun að fólk deili ekki. Stundum hefur hann tekið rangar ákvarðanir, eins og t.d. með því að þinglýsa ekki skuld bróður míns, Gumma, við hann. Það hefur ekki komið í veg fyrir deilur eða illindi. Okkur datt aldrei annað í hug en að hann gengist við skuld sinni og greiddi hana þegar hann kæmist í færi til þess. Annað hefur aldeilis komið á daginn. Eftir að mamma dó í fyrra réð hann sér lögmann til þess að ganga hart að pabba og fyrir rúmri viku sáum við það svart á hvítu þegar hann lét lögmanninn senda okkur kröfu um arf þar sem hann hótar pabba sviptingu fjárræðis.

Mér liggur margt á hjarta og mun á næstu dögum létta af því ýmsum sögum og tilfinningum sem tengjast þeim. Ég legg mikið upp úr staðreyndunum og mun leggja mig í framkróka við að hafa rétt eftir. Ég veit að í heiminum er margur sótrafturinn og ekki sjálfgefið að mín fjölskylda slyppi en við lesendur vil ég segja að fjölskyldan er mikils virði en alls ekki hægt að ganga að vísu að sé öll vönduð. Fjármál sundra öllum ósköpunum og þótt allt virðist leika í lyndi er skynsamlegt að hafa allt skriflegt, vottað og -- ef nauðsyn krefur -- þinglýst.  


Hverjum hjálpar AA?

Í vikunni opnaði ég mig með það gagnvart hinum stóra heimi að í fjölskyldunni væri vandamál. Á langri ævi er eðlilegt að lenda í áföllum og árekstrum, stórum og smáum. Manni þarf ekki að líka við allt fólk og ekki þarf öllu fólki að líka við mann. En við förum að lögum, virðum óskráðar reglur samfélagsins, við erum siðleg og við komum vel fram við fólk. Á öllu þessu er auðvitað misbrestur og stundum varðar hann við lög og fólk er svipt frelsi sínu.

Ég veit ekki til þess að við í fjölskyldunni höfum gert neitt sem gæti kostað okkur frelsissviptingu. Allt þetta stóra og nú til langs tíma íþyngjandi mál með bróður minn varðar í sjálfu sér eingöngu peninga og hvernig hann hefur sölsað undir sig fjármuni foreldra okkar og gengið á lagið gagnvart nytsama sakleysingjanum mér, en bara til ársins 2008. Hann skuldar mér sem sagt 7 milljónir króna á verðlagi ársins 2008. Hann veit það, hann viðurkennir það en kallar skuldina fyrnda. Ég var ekki í áhætturekstri, ekki frekar en mamma og pabbi, og ég ætlaði aldrei að gefa honum sem samsvaraði tveggja ára vinnu. En hann ákveður, og hefur lærðan lögmann í liði með sér, lögmann sem sérhæfir sig í dánarbúum, að skuldin við mig sé fyrnd. Ég á það skriflegt frá lögmanninum. Ég er ítrekað búin að skora á Gumma að greiða skuldina en hann mætir kröfunni með þögninni einni. Ég geri ráð fyrir að það sé ráð frá lögmanninum sem hefur svarað mér með þjósti.

Ég veit að margir töpuðu fjárhæðum í hruninu og um leið framfærslu, húsnæði og gleðinni þannig að það er ekki hægt að segja að peningar séu bara peningar. Peningar eru hreyfiafl og færa fólki ákveðin gæði. Og þótt ég hafi ekki þurft að fórna lífshamingju minni út af þessum peningum gaf ég honum þá aldrei og nú á hann peninga til að endurgreiða mér.

Ég á ofsalega margt ósagt í þessum efnum en í fyrrakvöld dreif ég mig á kynningarfund fyrir fullorðna aðstandendur alkóhólista. Ég fór frekar tilbúin að heyra eitthvað nýtt og gagnlegt en varð fyrir vonbrigðum, fannst kynningin vera meira eins og áróður fyrir félagsskapnum, en ég ætla að gefa Al Anon sénsana sex sem talað var um og mæta á ólíka staði og á ólíkum tímum þar sem er ólík samsetning fólks. Margir hafa sagt mér frá uppáhaldstímunum sínum og margir hafa líka talað um AA og Al Anon sem trúboð og húmbúkk. Ég ætla að meta sjálf.

En ég er með spurningu sem hefur ásótt mig síðan í gær: Hvernig stendur á því að maður sem hefur verið í 20+ ár í bataferli hjá AA, bróðir minn, svindlar á foreldrum sínum og systur sinni, vanrækir gamlan föður sinn á Hrafnistu algjörlega þótt hann sé nálægur landfræðilega, þ.e. býr ekki í útlöndum heldur hefur mýmörg tækifæri til að heimsækja hann, hunsar systkini sín og treystir sér ekki til að mæta í boð hjá dóttur sinni vegna þess að hann gæti þurft að tala við einhvern sem hann hefur komið illa fram við? Kannski er hann siðblindur, kannski er hann bara gráðugur, kannski er hann á hugbreytandi efnum, ég veit bara að í mínum augum er hann sótraftur og hann hefur stundað fundi hjá AA. Eiga þeir ekki að hjálpa svona manni meira?


Staðreynd er staðreynd er staðreynd

Maður velur sér vini en ekki fjölskyldu. Ég hef verið frekar heppin en nú er samt orðið fullreynt með annan bróður minn. Þessi færsla er mjög persónuleg en mér finnst hún eiga erindi í opnu dagbókina mína.

Gummi er orðinn 58 ára gamall og skilur eftir sig skuldaslóð. Það er staðreynd. Hann reyndi að reka fyrirtæki í nokkur ár og þau féllu öll á bruðli hans og kunnáttuleysi. Hann fékk lánaðan pening hjá mömmu og pabba, 10,5 milljónir á verðlagi ársins 2008, sem hann veit af og samþykkir en kallar fyrnda skuld af því að henni var ekki þinglýst. Ég var líka meðvirk og lánaði honum pening þótt honum fyndist ég fífl að leggja fyrir og taka t.d. lítil námslán þegar ég var í námi. Skuld hans við mig er nú útistandandi og þegar hann greiðir mér þann pening get ég boðið 40 manns í lúxusferð til Egyptalands. Það gæti orðið mikið stuð í hlaupahópnum mínum.

Í dag er eitt ár og sjö mánuðir síðan mamma dó. Hún var orðin níræð en var alltaf spræk og á sprettinum þangað til 2014, þegar hún varð 87 ára, en þá fékk hún blóðtappa í hálsinn og átti eftir það erfitt með að kyngja. Síðustu þrjú árin nærðist hún of lítið þrátt fyrir viðleitni okkar til að finna upp á einhverju sem færi vel í hálsinn. Fleira var svo farið að gefa sig, eins og fínhreyfingar í höndunum, en kollurinn alltaf skýr. En svo lá hún eina viku á spítala, klukkutímum saman sofandi en þess á milli í roknastuði í sjúkrarúminu að taka á móti gestum. Ég verð ævarandi þakklát fyrir þá viku úr því að svo fór sem fór en sakna hennar óbærilega á köflum.

Ég hélt að þeim Gumma hefði samið vel þrátt fyrir allt en í gær las ég bréf sem hún skrifaði honum 1998 og sagði aldeilis til syndanna. Hún sendi honum það aldrei. Hann er óvirkur alkóhólisti til 30 ára. Það er staðreynd. Gisk mitt er að hún hafi alltaf óttast að hann félli og þess vegna hliðrað til, gefið eftir, sýnt umburðarlyndi og fyrirgefið, fyrirgefið, fyrirgefið, með öðrum orðum verið meðvirk.

Pabbi er 98 ára og rúmliggjandi á Hrafnistu. Það er staðreynd. Í nóvember verða komin tvö ár síðan hann flutti þangað inn, einum og hálfum mánuði áður en mamma dó. Á síðasta ári var Gummi um eina klukkustund í heimsókn hjá honum og obbann af þeim tíma notaði hann til að telja hann á að fá mig til að lána sér pening eða fá pening út af reikningi hans sem systir mín er með umboð fyrir. ÞAÐ ER STAÐREYND.

Við systkinin höfum skirrst við að borga honum móðurarfinn fyrr en hann hefur greitt skuldir sínar við dánarbú mömmu og bú pabba. Í stað þess að hafa sanngirni og heiðarleika að leiðarljósi ræður hann sér lögmann sem ætlar í hart við – ekki okkur systkinin. NEI, PABBA. Bróðir minn og lögmaður hans hóta pabba fjárræðissviptingu og tala í sama umboði um dánarbú pabba. Hann er lifandi. Þetta eru staðreyndir og ég á umboðið í tölvupósti.

Í meira en eitt og hálft ár hef ég burðast með sívaxandi vitneskju um hvern mann bróðir minn hefur að geyma. Steininn tók auðvitað úr þegar lögmaður tók að sér að reka svona mál og af slíku offorsi sem nú er að koma á daginn.

Pabbi er lifandi og hann er skýr í höfðinu en rúmliggjandi. Við getum ekki lagt á hann að ræða þetta við hann, bæði vegna elli hans og ástands og svo er nú komið í ljós – ég sá það í bréfinu sem mamma skrifaði Gumma fyrir 21 ári – að hann er mesta friðardúfan og vill bara að fólk elski og virði friðinn. En gleymum því ekki að Gummi sat á rúmstokknum hans í fyrra og suðaði í honum um peninga. Pabbi sagði mér það sjálfur með sorg í augunum og þegar ég sagði, líka með sorg í mínum augum, að ég myndi ekki lána Gumma meiri peninga kinkaði hann bara kolli og við höfum ekki rætt það meir.

Ég gæti haft langtum fleiri orð um samskipti okkar í fjölskyldunni en nú langar mig að létta þessu af mér þótt ég eigi ekki marga lesendur hér.

Einhver sem þekkir mig ekki gæti spurt: Hefurðu ekki unnið til þessa með einhverjum hætti? – Ég er sannarlega búin að horfa inn á við og hef spurt mig hvar ég hafi misstigið mig. Og ég veit að fjölskylduerjur eru glettilega algengar þannig að sjálfsagt kannast margir við svona lýsingar. Og svar mitt er: Ég er heiðarleg, ég er greiðvikin, ég er smámunasöm, ég er gagnrýnin, ég geri kröfur, ég er vinnusöm – og ég hef verið bullandi meðvirk með alkóhólískum manni. Öllum sem þekkja mig er velkomið að tíunda galla mína.

Á sextugsaldri rennur upp fyrir mér það ljós að líf mitt hefur á ýmsan hátt verið litað af fíkn bróður míns. Ég tiplaði í kringum hann og mamma og pabbi svo sannarlega. Ástæðan? Klassísk; fjölskyldubundin væntumþykja. Svo er hann auðvitað ekki laus við kosti. Hann virkar alltaf glaður og kátur, hann er gestrisinn (en betra að gestirnir taki veitingarnar með) og hann er bóngóður (en hefur svo ekkert úthald). Hann er hugmyndaríkur og drífandi þegar hann er í stuði. Hann hefur lesið mikla heimspeki og hreykir sér af því að hann sé svo vel lesinn, ómenntaður maðurinn. Á samfélagsmiðlum deilir hann oft í viku heilræðum og kærleiksorðum. Gagnvart Hrafnistu setur hann upp heilaga svipinn ef hann sér eða veit um hjúkrunarfræðing og talar um fjölskyldufundi. Honum dettur hins vegar ekki í hug að mæta á þá, ekki frekar en systkinafundi sem við höfum haldið og hann stundum beðið um að fyrra bragði. Í síðustu viku gat hann ekki mætt í 10 ára afmæli dóttursonar síns af því að hann óttaðist að rekast á mig þar. Fyrir nokkrum árum gat hann ekki mætt í stúdentsveislu dóttur sinnar af því að hann óttaðist að rekast á einhvern þar sem hann vildi ekki feisa. Þetta eru staðreyndir eins og það líka að hann borgaði ekki meðlag með dætrum sínum í einhver ár og tók engan þátt í ýmsum kostnaði, svo sem vegna tannréttinga.

Ótrúlegt kannski að segja það en mér líður betur að vera búin að skrifa þetta niður. Maður á alltaf að standa með sínu fólki, hugsar kannski einhver, en Gummi er ekki mitt fólk lengur og auðvitað á maður ekki að standa með mönnum sem svífast einskis til að hámarka gróða sinn á kostnað annarra.

Nú tygja ég mig á Hrafnistu af því að pabbi er orðinn lítilfjörlegur eins og hann orðar það sjálfur og mig langar að standa með honum eins og undanfarin ár. Hann studdi mig til manns og var alltaf boðinn og búinn. Bróðir minn situr hins vegar eins og ugla á prikinu sínu og les góða heimspekibók og sáldrar svo einhverju gullkorninu á samfélagsmiðil. Og auðvitað er svo komið að ég vona að hann komi ekki og trufli pabba framar.

Ég hef haldið mig við staðreyndir og lagt út af þeim. Ég veit að í heildarsamhengi fjölskyldna er ekki um stærstu fjárhæðirnar að ræða og að margir hafa tapað meiri fjármunum. Núna svíður mér sárast hvað hann er ófyrirleitinn gagnvart pabba og mér blöskrar náttúrlega alla leið upp í Kringlu og til baka að lögmaður skuli leggja nafn sitt við svona verknað. Svo virka vinnubrögðin flausturskennd af því að hann notar staðlaðan texta sem hann viðurkenndi að ætti ekki alveg við, umboðið er skráð sem drög og er ódagsett.

Ég læt máli mínu lokið að sinni.


Gagnrýni

Ef áhorfandi er ánægður með bíómynd spyr fólk oft ekkert meira, spyr ekki: Hvað var gott? Ef maður er óánægður með myndina er hann spurður: Nú, hvað var að?

Ég veit að fólk gagnrýnir og allt það en getur ekki verið að sumir segi bara allt fínt til þess að þurfa ekki að rökstyðja skoðun sína, sérstaklega ef þeir þekkja þann sem á myndefnið? Það er auðveldara.

Ég er bara að spekúlera í þessu af því að ég gagnrýndi einn sem ég þekki og allir sem hann var búinn að heyra í voru svo ánægðir. En stundum situr bara eftir einhver tilfinning og maður lætur duga að tala út frá henni. Og myndin var alveg notaleg frumraun.


Enn verið að innheimta ólögleg smálán?

Getur þetta verið? Hvað með leyfi þessara smálánafyrirtækja? Einhvern tímann hafa þau verið veitt. Er ekki hægt að afturkalla þau? Eða má hver sem er byrja að lána fólki 10.000 kr. í gegnum app og rukka 20.000 kr. viku síðar? 

Lög eru brotin. Er virkilega svona flókið að beita viðurlögum? Ef maður keyrir of hratt eða yfir á rauðu ljósi missir maður kannski ekki punkt (eða fær hann, hvernig sem það er hugsað) ef maður krossleggur handleggina og setur upp fýlusvip. Ræður maður hvenær maður fer að lögum?

Hvernig stendur á að ekki er hægt að uppræta ólöglega starfsemi?


Fokkings smálán

Fjármögnunarfyrirtæki

 Ég veit ekki til þess að ég þekki neinn sem hefur fengið smálán með ólöglegum vöxtum en geri ráð fyrir að ég þekki samt einhvern sem hefur fengið þannig lán eða þekki a.m.k. einhvern sem þekkir einhvern sem hefur tekið smálán. Hvað sem mér líður hafa þessi lán verið á markaði og einhverjir hafa nýtt sér þau og okurvextir hafa verið lagðir á og innheimtir.

Djöfulsins.

Hóparnir sem eru útsettastir fyrir þessum lánum eru þeir sem eru viðkvæmir fyrir, sjálfsagt með lítið fjármálalæsi og áreiðanlega svo illa staddir fjárhagslega að þeir geta alls ekki endurgreitt mörg þúsund prósent vexti á neyslulán, kannski til að geta keypt í matinn eða kannski bara nammi með bíómyndinni. Öll gagnrýni mín hér beinist að þeim sem nýta sér þessar smugur.

Nú er enn búið að fjalla um ólögmæti þessa en þegar ég opna veðurappið í símanum mínum er auglýsingaborði frá „fjármögnunarfyrirtæki“.

Fokk. Útilokið þessi fyrirtæki, þið sem hafið verkfærin til þess. Ég exa auglýsinguna út en einhverjir slá kannski lán og eru svo ekki borgunarmenn fyrir þessum fáránlegu vöxtum sem eru enn rukkaðir.

Svo er ég að hugsa um annað. Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, segir óljóst hver muni tryggja að Kredia Group endurgreiði oftekna vexti af smálánum. Þar sem smálánafyrirtækin séu hvorki leyfis- né skráningaskyld hér á landi sé erfitt að meta umfang lánanna.“ Hver ætlar að borga kostnaðinn við að skoða umfangið og reikna þetta út? Við erum ekki að tala um einn dag hjá Seðlabankanum/Fjármálaeftirlitinu eða umboðsmanni skuldara, við erum örugglega að tala um fimm stöðugildi í heilt ár. Hvernig væri að láta okrarana skila peningunum til þeirra sem voru ofrukkaðir og borga svo bara sekt fyrir að brjóta lög?

Fokk. Ef ég væri í pólitík væri þetta hitt málið sem ég myndi eyða öllum mínum kröftum í að breyta.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband