Staða verkefna hjá sérfræðingum

Einhver á eftir að hugsa mér þegjandi þörfina. Ekki fyrir að segja að mér finnist ástæða til að stytta vinnuvikuna þar sem hægt er. Vegna fjórðu iðnbyltingarinnar er margt sérfræðistarfið fljótunnara en var. Við erum fljótari að fletta upp staðreyndum, fljótari að afrita, fljótari að senda, fljótari að greina og ákveða niðurstöðu.

Samt er samfélagið ekki allt logandi í tilhökkun yfir því að vinnuvikan hljóti að styttast. Ég heyri yfirmenn ekki tala um það og ég verð ekki mikið vör við að starfsmenn á gólfinu gæli við tilhugsunina.

Nei, einhver á eftir að hugsa mér þegjandi þörfina þegar ég hugsa nú upphátt að starfsmenn vilji frekar geta mætt í vinnuna og fengið sér góðan kaffibolla með samstarfsfólkinu í upphafi dags, sest svo við tölvuna og lesið í gegnum afmæliskveðjurnar á Facebook eða snappað eða farið í gegnum slúðurmiðlana.

Af átta tíma vinnudegi eru að hámarki sex klukkutímar í þágu vinnunnar hjá flestu skrifstofufólki. Þar inni í eru auðvitað eðlilegar hvíldarstundir, matar- og kaffitímar, en einhver hluti sem fólk er bara að dóla sér eitthvað. Og, já, ég er skrifstofufólk og vildi miklu heldur halda vel áfram í sex tíma og fara svo í klippingu og búð á leiðinni heim. Mér finnst alveg kósí að opna Facebook meðan ég elda og þarf hvort eð er að standa yfir eldavélinni.

Og grunur minn er að allstór hluti þeirra sem „hafa ekki tíma“ til að skoða Facebook heima á kvöldin geri það bara samt og verji ekki öllu kvöldinu með börnin í fanginu. Fólk með ung börn og mörg ung börn er skiljanlega oft í þvottahúsinu en svo eldast börn sem annað fólk.


Almenningssamgöngur

Ef ég byggi 10 km frá vinnustað myndi ég helst vilja taka strætó í vinnuna. Ég vildi að ég þyrfti ekki að líta á klukkuna og stilla ferðalag mitt út frá hálftíma- eða klukkutímaferðum, ég er alveg til í að borga, að sjálfsögðu, rétt eins og ég borga fyrir að eiga bíl og að kaupa hjól, skó og annan fatnað. Ég bý hins vegar í 2 km fjarlægð og get leyft mér þann munað að hjóla og ganga í vinnuna flesta daga. Þá daga sem ég fer á bíl er það til þess að nota hann í hádeginu eða strax eftir vinnu eða mögulega ef ég er með mikinn farangur, köku fyrir kaffið eða álíka.

Ef ég gæti treyst því að ég kæmist á 50 km hraða úr miðbænum á Hrafnistu og til baka þegar heimsókn minni væri lokið myndi ég líka taka strætó í heimsókn þangað. Og ég hef fulla trú á að mörgum sé svipað innan brjósts og mér. Strætó snýst um tíðni og ferðaleiðir.


N1

Setjum sem svo að forstjóri fái góðan bónus fyrir að a) leggja vel á seldar vörur og hámarka innkomuna þannig, b) halda launum starfsfólks niðri og hámarka gróðann þannig -- af hverju fer kúnninn ekki? Af því að hann á í góðum samskiptum við Ara, starfsmann á dekkjaverkstæðinu, eða Barða sem selur honum grilluðu samlokuna í hverju hádegi? Er tryggðin svona mikil?

Ég þekki ekki svona tryggð í mínu fari þannig að ég er alveg bit á að fyrirtæki sem hlýtur að okra stöðugt á kúnnunum sínum heldur þeim.


Sími undir stýri

Ég skal svoleiðis segja ykkur það að ég er ekki á því að banna síma „undir stýri“ og er sannarlega ósammála þeim sem segja að manni væri hollast að hafa símann utan seilingar. Ég er auðvitað ósammála því að skrifa undir stýri, hvort sem er í tölvu, síma eða skrifblokk, sammála því að maður eigi ekki að vera í tölvuleikjum í akstri, ekki maskara sig í akstri og ekki rífast við aftursætið meðan maður keyrir. Akstur er dauðans alvara og maður á að vera með hugann við efnið.

Eins og umferðin er samt á álagstímum er síminn stundum bjargvættur. Þegar maður silast áfram er góð dægrastytting að lesa tölvupóstinn með fótinn á bremsunni, hringja skipulagssímtöl -- ég hef farið tóma vitleysu af því að ég svaraði ekki í símann þegar ég gat og fékk ekki skilaboðin sem ég þurfti -- eða segja vinum sínum á snapchat að hjól sé betri kostur þegar maður vill komast örugglega leiðar sinnar.

Það er óskynsamlegt að alhæfa þannig að ég vil frekar höfða til skynsemi fólks og ekki boða og banna eins og allir séu fífl og fávitar. Fíflin og fávitarnir sem beita ekki heilbrigðri skynsemi fara heldur ekki eftir reglum. Og hver eru viðurlögin og hversu oft er þeim beitt? 

Piff!


Launamunurinn

Við erum svo blíð og meðfærileg. Nú hefur forstjóri aftur gengið fram af okkur. Og nú eipum við öll á bloggsíðunum okkar. Eggert lætur ekki ná í sig enda hefur hann líklega engar daglegar vinnuskyldur heldur er einhvers staðar í útlöndum að reyna að eyða nýjustu milljóninni.

Og við höldum áfram að eipa á netinu og garga á makann sem er samt sammála.

Örfátt fólk er ósammála okkur pöpulnum en það er einmitt fólkið sem ræður þessu. Fólkið sem gæti breytt þessu. Gæti ekki Alþingi sett í lög að þegar laun eru orðin x-föld borgi launþeginn x mikið í skatt? Hvernig er þetta í samanburðarlöndunum sem okkur verður svo tíðrætt um þegar á að halda launum pöpulsins niðri?

Og, nei, ég hef það sjálf fínt. Nú vill bara svo til að ég þekki fólk sem á varla til hnífs og skeiðar. Ef N1 á lausa milljón í hverjum mánuði sem N1 þarf að losna við getur N1 kannski lækkað eldsneytisverðið eða borgað fólkinu á gólfinu hærri laun.

Ég vildi óska þess að þeir sem hafa valdið notuðu það heildinni til gagns. Og, nei, ég hef það sjálf fínt, takk.


Fjórfaldur launamunur?

Væri hægt að ákveða að mesti munur á launum væri eitthvað ákveðið, t.d. fjórfaldur? Ef lægstu laun væru 300.000 kr. væru hæstu laun 1.200.000 kr? Að minnsta kosti hjá hinu opinbera?

Og svo kannski að borga forstjórum olíufyrirtækja eðlileg laun? Hvaða flóknu ákvarðanir tekur Eggert Þór Kristófersson? Lifir hann í samkeppnisumhverfi? Ekki hef ég tekið eftir því. Bensínverð er alls staðar það sama eða svo gott sem. Hvaða þjónustustig ákveður hann sem er svo íþyngjandi sálu hans og ábyrgð sem réttlætir laun sem eru ekki þessa heims?

Ég er ekki beisk. Alltaf þegar ég skrifa eitthvað svona gjammar hér einhver ókunnugur eins og málið snúist um mig. Það snýst um þjónustuna og vinnuálag þessa forstjóra og það snýst um það að vinna láglaunastétta er ekki metin sem vert væri.

Ég vildi óska þess að ég hefði verslað við N1 og helst að ég væri stórnotandi á svona stundum. En ég get ekki hætt að versla við N1. Djö.

En svo er auðvitað spurning hvenær á daginn kemur að hinir olíufurstarnir maka líka sína króka. Sjálftökustéttirnar eru dálítið óþolandi. Og í hverra skjóli eru þær?


Stytting vinnuvikunnar

Ég skil ekki af hverju menn eru ekki í óðaönn um allt samfélag að tala um styttingu vinnuvikunnar. Ég átta mig á því að það er alls ekki einfalt alls staðar, síst þar sem starfið felst í viðveru, að vera til taks, svo sem við símsvörun og afgreiðslu. Ég er heldur ekki að biðja sisona um að öllu launafólki verði gefnir 4-6 klukkutímar á viku heldur að menn ræði kosti og galla.

Svona horfir þetta við mér: Í mörgum skrifstofustörfum vinnur fólk ekki meira en 30 tíma á viku þótt uppgefinn vinnutímafjöldi sé 40. Fólk tekur matar- og kaffitímahlé og ég geri ekki athugasemdir við það. Fólk fer úr vinnunni til að mæta á foreldrafundi, til læknis og í jarðarfarir. Ég geri heldur ekki athugasemd við það. En fólk fer líka á vinnutíma í klippingu, með bílinn á verkstæði, með bílinn í skoðun, skreppur í búðina og kaupir inn, leitar að árshátíðarfötum, kennir einn og einn tíma fyrir laun, skreppur heim að opna fyrir píparanum, tryggingasalanum og þvottavélaviðgerðamanninum.

Við lengjum stundum mataratímana af því að margt af því sem við þurfum að gera stendur bara til boða þegar við erum í vinnunni. Ég segi „við“ af því að ég er skrifstofufólk og ég hef vissulega sinnt persónulegum erindum í vinnutímanum en ég hef líka sinnt vinnuerindum í frítíma mínum. Það er alveg hægt að jafnvægisstilla en ég held alveg eindregið að það sé gáfulegast í upptakti að fjórðu iðnbyltingunni að stytta vinnuvikuna.

Ég hef stungið upp á því við kaffivélina (við samstarfsfólk þegar ég sæki mér kaffi) að fólk sem vinnur almennt kl. 9-17 fái fjóra tíma á viku til ráðstöfunar, mæti t.d. einn dag kl. 13 í stað þess að mæta kl. 9. Þá er hægt að skipuleggja strípur, útréttingar eða „helgarþrif“ á þeim tíma ef fólk nýtur þess ekki einfaldlega að sofa út og vera lengi að drekka morgunkaffið yfir samfélagsmiðlunum.

Í sumum fyrirtækjum eru tímar fólks beinlínis verðlagðir og seldir viðskiptavinunum. Á móti styttingu vinnuvikunnar þarf auðvitað að vera skýrt að vinnutíminn nýtist atvinnurekandanum þannig að nóg gangi undan starfsmanninum. Ég segi enn og aftur að auðvitað er þetta ekki einfalt alls staðar, sum störf mælast illa, eru misseinleg og skiljanlega getur fólk átt misgóða daga, en ef fólk finnur að starf þess er metið og því umbunað, það fær næga hvíld og getur sinnt fjölskylduskyldum ætti maður að geta reiknað með meiri orku þann tíma sem það er í vinnunni.

Berglind hefur talað.


Í biblíulandi

Um daginn fór ég til Tel Aviv sem er í Ísrael. Trump var nýbúinn að derra sig eitthvað og fólk spurði hvort mér væri alvara með að fara a) á ótryggt svæði, b) í vondukallalandið sem réttast er að sniðganga. 

Ég sagðist bara vera á leið í hlaupaferð, veturinn hefði verið harður og farseðillinn ódýr. Hins vegar lofaði ég að versla ekkert af vonduköllunum nema mat, drykk og ferðir. Svo fór ég í eina fatabúð þar sem undurfagur kjóll var í glugganum, mátaði hann og kunni ekki við en keypti hins vegar buxur. Buxur! Gæðavöru frá Ítalíu. Meinta.

Fruss. Ég er dálítið veik fyrir grænu og þær eru grænar (sjá mynd). Í annað skipti sem ég fór í þær rifnaði rassinn af! Ég var eitthvað að ólmast við að sveifla barni en buxurnar eru vel víðar. Ef þetta hefði hent mömmu hefði hún sent versluninni bölbænir og hún hefði ekki lifað árið, en ég? Ég frussa bara og er að hugsa um að gefa þær Rauða krossinum.

Boðskapur sögunnar? Kaupa frekar fjandans kjólinn. Hann var ekki grænn.

Rifnuðu strax


Tímasóun eins er afþreying annars

Sumt fólk talar um Facebook sem tímaþjóf. Ég var frekar sein til að skrá mig á Facebook, það fannst a.m.k. fólkinu í kringum mig, en samt eru núna að verða komin átta ár. Ég á það alveg til að detta ofan í Facebook í sófanum yfir sjónvarpinu en aðallega finnst mér Facebook mjög góður utanumhaldari, þar sé ég viðburði sem mig langar að mæta á, þar er mér boðið á alls kyns persónulega viðburði, svo sem í matarboð og afmæli, og sumt skóla- og íþróttastarf er að hluta rekið í gegnum Facebook. Kannski obbinn.

Nú ætla ég að reyna að nefna samfélagsmiðilinn ekki frekar á nafn en ég held að fólk sói tíma sínum í ólíka hluti. Sumum finnst lestur skáldsagna tímasóun, öðrum sjónvarpsáhorf, grúsk yfir mataruppskriftum, innihaldslaus símtöl, spjall í sófanum, að mæta á kappleiki, að hlusta á tónlist -- ekki svo að skilja að ég hafi heyrt fólk segja allt þetta, en tímasóun eins er afþreying annars. Og ein besta uppfinning samtíma míns er internetið sem sést m.a. á því að fólk notar símana sína æ minna til að tala í þá. Ég hringi samt sjálf nokkuð reglulega.

Og þar sem ég á nú rígfullorðinn föður á elliheimili þar sem hvorki er haft net alls staðar né leyfð dýr er ég með það verkefni á vormánuðum að tala við yfirmenn og fá svör. Ég get svo eiðsvarið það að ef ég fæ ekki að hafa netið með mér um allar trissur á mínu elliheimili og helst einn malandi kött verð ég með uppistand sem orð verður á gerandi.

Mun hins vegar sniðganga messurnar ...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband