Þegar leiðir skilur

Já, sögnin að skilja getur verið ópersónuleg. Þess vegna er málskilningur minn að leiðir hafi skilið með þingmanni og þingflokki í vikunni. Leiðirnar skildi (á milli þeirra) en skildu ekki. Hver er annars skilningurinn, hvor skilur hinn? En þegar meiri hlutinn verður farinn að nota sögnina persónulega átta ég mig á að minn skilningur hefur lotið í gras ...


Fer RÚV í Elliðaárdalinn?

Djók, nú er ég viljandi að slá saman tveimur umtöluðum málum. Mér var bætt í hópinn Vinir Elliðaárdalsins og ég lít alveg á mig sem vin hans en veit samt ekki hvort ég myndi greiða atkvæði með eða á móti þeirri uppbyggingu sem verið er að ræða. Heilt yfir er ég ekki á móti breytingum og m.a.s. dálítið höll undir þær þannig að ég myndi alltaf vilja skoða svona hugmyndir áður en ég segði af eða á.

En ég geri ekki ráð fyrir að Ríkisútvarpið sé á leið úr Efstaleitinu og í Stekkjarbakkann enda flytur RÚV sig varla um set ef þar verða breytingar. Þegar búið var að velja nýjan þjóðleikhússtjóra, fráfarandi útvarpsstjóra, heyrði ég: Næsti útvarpsstjóri verður ráðinn til að leggja RÚV niður.

Þá kólnar mér. Ég hlusta mikið á útvarp og Rás 1 er að gera allt aðra hluti en aðrar stöðvar sem ég hlusta líka á. Að ógleymdri þáttagerð í sjónvarpinu sem flysjar spillingu eins og ... banana.

En af því að ég er ekki frábitin breytingum heilt yfir væri ég alveg til í að skoða hvort einhverju mætti breyta. Mætti selja Rás 2?

Að lokum legg ég til að þjóðkirkjan verði seld hæstbjóðanda.


Er þvottavélin (gervigreind) tölva?

Í vikunni gerðist sá fáheyrði atburður að ég ætlaði að þvo þvott í þvottavélinni strax og ég hafði tæmt hana. Vélin, sem er a.m.k. orðin 10 ára, afþakkaði það og blikkaði rauðu. Ég frestaði frekari þvottum um sólarhring en það dugði ekki til. Hún blikkaði áfram. ÞÁ tók ég hana úr sambandi eins og hverja aðra viðkvæma tölvu og ÞAÐ dugði til. Ég er alveg viss um að einhvern tímann hefði ég hringt í viðgerðarmann.

Gott að vita að það að rjúfa rafstrauminn tímabundið getur dugað, hoho.


Gummi bróðir á Indlandi

Já, Gummi bróðir er búinn að blokkera mig á Facebook en allt í einu mundi ég eftir honum á Instagram. Ég veit að það er ekki hollt fyrir mig að minnast hans og hugsa til hans en nú erum við að fara að skrifa síðasta kaflann í sameiginlegri lífssögu og þá er ekkert annað í boði. Ég fann nokkrar myndir með myndatextum sem sýna að hann er alltaf jafn forhertur og yfirborðskenndur. Fyrir ári hefði ég samglaðst honum og haldið að hann ætti fyrir innri gleði en því miður veit ég núna að hann svífst einskis við að hafa af fólki fé, að hann er allur í yfirborðinu og hégóminn einn.

Ég efast ekki um að hann sé ástfanginn af lífi sínu sem hann lætur aðra kosta og aðra bera allan þunga af. Hann er þiggjandi alla leið og gráðugri en nokkur sem ég þekki persónulega.

Nú erum við systur búnar að setja okkur í samband við lögfræðinginn hans til að ljúka praktískum atriðum vegna dánarbús pabba. Gummi ómakar sig ekki að svara þótt hann fái afrit af póstum, hann lætur sér líða vel með sjálfsást sinni á Indlandi.

161119


Fjórða iðnbyltingin, sjálfvirknivæðing, gervigreind

Þvílík hamingja! Hraðframfarir! Stytting vinnuvikunnar!

Ég tengi mig við þessa frétt til að halda henni til haga. Ég hef verið í því teymi sem hefur þróað hinn gervigreinda talgreini með því að prófa hann og nota frá degi til dags undanfarið. Þegar við byrjuðum fyrir alvöru fyrir ári héldum við að greinarmerkjasetning yrði í skötulíki og að greinaskil yrðu ófáanleg með öllu. Hvort tveggja hefur reynst rangt, þökk sé harðsnúnum forriturum og vísindamönnum í Háskólanum í Reykjavík. Og okkur í ræðuútgáfunni sem höfum verið í húrrahrópunum, hvatningarliðinu og notendahópnum. 

Kostnaður hefur verið hóflegur, tímasparnaður er mælanlegur og mikill, villutíðni um 10% (reyndar veit ég ekki hversu margar villur á að telja þegar talgreinirinn skrifar ... þjóðar. Sjóður ... þegar hann á að skrifa þjóðarsjóður).

Afleiðingin: Styttra ferli. Minni vöðvabólga. Nákvæmari texti þegar frá líður. Minni kostnaður fyrir skattborgara. Næstum örugglega styttri vinnudagur (almennar tækniframfarir).

Hver tapar? Enginn. Allir vinna. Og hamingja mín ætlar upp úr rjáfrinu.

Svo er okkar eigin Siri í farvatninu hjá Miðeind. Máltæknin lifi!

kiss


mbl.is Talgreinir skrifar ræður alþingismanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gummi, bróðir minn

Einhverjir bloggvinir mínir muna kannski eftir færslum um bróður minn sem stal af mér og foreldrum okkar peningum. Hann hefur nú haft tvo mánuði ótruflaða af mér til að grípa til þeirra aðgerða að endurgreiða eða semja um skuldirnar. Hann hefur ekki gert það. Einhver Facebook-vinur hans (hann blokkaði mig) segir að hann sé á Indlandi og að hann hafi keypt sér jeppa (ekki endilega tengt). Ég hef aðallega verið þakklát fyrir tveggja mánaða hvíld frá hugsunum um hann en nú fer að koma að uppgjöri dánarbús pabba og þá hríslast um mig ónotakenndin.

Ég veit að þetta er mjög algengt, fáránlega algengt, sennilega í annarri hverri fjölskyldu, en sársaukinn þegar maður uppgötvar að einhver nákominn manni er óvandaður græðgispési er samt persónulegur.


Uber

Nú er ég að verða svo ógurlega mikill ferðamaður að ég sótti mér Uber-appið í vikunni og virkjaði í fyrsta skipti. En Uber er ekki í boði í Reykjavík. Af hverju ekki? (Tek fram til öryggis að ég ætlaði ekki að panta mér bíl núna, var bara að sannreyna.)

Screenshot_20191116-081228_Uber


Can you ever forgive me?

Það er alltaf alveg stórkostlega skemmtilegt að sjá áhugaverðar bíómyndir og ekki spillir þegar maður hefur alveg misst af allri kynningu og lætur koma sér á óvart. Ég sá Can you ever forgive me? í flugvél (takk, Icelandair) og Melissa McCarthy var óþekkjanleg með öllu. En ég kannaðist heldur ekkert við rithöfundinn Lee Israel ...


EasyJet

Ef maður bókar flug með EasyJet og skráir flugfreyjutösku má maður ekki hafa með sér lítinn bakpoka (án þess að borga aukalega), bara kvenveski. Af hverju sagði mér þetta enginn? 

surprised

Ef maður getur troðið bakpokanum ofan í töskuna sína má maður hins vegar innrita flugfreyjutöskuna án aukagjalds.

Nú er ég farin að hlakka mikið til að athuga hvaða reglur Egyptair hefur ... en það verður ekki fyrr en eftir fjóra mánuði.


Mörk einkalífs og vinnu

Þetta er búið að vera að brjótast um í mér en er samt svo einfalt. Ef við erum að vernda einkalíf starfsmanna og leggjumst þess vegna gegn því að starfsfólk blandi vinnunni í einkalífið með því að svara í símann eða lesa vinnupósta heima, ætti þá ekki líka að vera bannað að svara einkasímtölum á vinnutíma, utan hefðbundinna neysluhléa?

Ég skil hugsunina um kulnun þegar álag er mikið á öllum vígstöðvum og er hlynnt varfærni en erum við ekki á leið út í miklar öfgar? Ég er venjulegur launþegi í skemmtilegri vinnu sem er eins og klæðskerasaumuð handa mér, minni menntun og mínum faglega áhuga. Ég veit að ekki eru allir svona heppnir. Ég bæði les vinnupósta eftir að vinnutíma lýkur og svara einkasímtölum á vinnutíma en nota að öðru leyti vinnutímann til að sinna vinnunni. Sveigjanleikinn verður að virka í báðar áttir.


Fyrstur í öðru sæti?

Rúnar Örn Ágústsson kláraði tímaþraut karla á heimsmeistaramótinu í tímaþraut í gær, fyrstur Íslendinga, en daginn áður hafði Ágústa Edda Björnsdóttir leikið það sama eftir í kvennaflokki.

Er það hægt? Er hægt að vera fyrstur í mark við að vera annar? Leiðinlegt fyrir Rúnar að verða þekktur fyrir að vera fyrstur númer tvö eða hvernig í veröldinni á maður að skilja þessa frétt?

Eins og aðrir virkir Facebook-notendur og almennir lesendur hef ég séð umræðu um nafnleysi kvenna á myndum þar sem þær eru í forgrunni en ekki nafngreindar. Þetta ristir dýpra eins og sést í fréttinni af hinum glaða Rúnari sem varð „fyrstur Íslendinga“ til að afreka það sem kona hafði gert deginum áður.

Þetta minnir mig á daginn sem ég keyrði (laust) á bíl sem var á undan mér yfir á ljósum af því að bíllinn sem ég var á var ekki fremstur. Skiljið þið það? Ég var svo makalaust óheppin að vera ekki fremsti bíll í röðinni. Málið er bara að ég skildi það strax og stuðararnir nudduðust saman. Já, það að ég var ekki fremsti bíll á ljósunum. (Ég endurtek svona oft ef ske kynni að íþróttafréttakarlmaður skyldi rekast inn á síðuna. (Íþróttafréttamaður sem þekkir ekki muninn á 1. og 2. sæti.)) Það eru sirka 30 ár síðan, ég var nýlega komin með bílpróf og lá voðalega mikið á.

Konur afreka. Konur geta. Konur kunna. Ekki allar, ekki allt, ekki frekar en allir karlar, en ekki síður en karlar.


Þangað vill fé sem fé er fyrir

Ég hélt að textinn í fyrirsögninni væri málsháttur úr Íslendingasögunum en svo er víst ekki. Ég finn þessa tilvitnun í einni minningargrein og hún er öfugmæli þannig að hún passar enn betur en ég ætlaði mér.

Ég er ekki öllum stundum að hugsa um bróður minn sem fékk lánaðan hjá mér haug af peningum árið 2008 eða 2009 og ætlar ekki að endurgreiða mér þótt hann geti það núna en mér varð hugsað til hans í gærkvöldi þegar ég var gestkomandi í húsi þar sem var sjónvarp. Já, nei, ekki alveg svona einfalt, auðvitað eru alls staðar sjónvörp en við þetta sjónvarp var Apple TV og aðgengi að Netflix. Ókei, já, ég veit að það er frekar algengt. Ég eignaðist líka Apple TV fyrir nokkrum árum og GAF þessum bróður mínum það af einhverri vangá og ég gaf honum líka Garmin-hlaupaúr af því að ég fékk tvö í stórafmælisgjöf ... og ég vorkenndi honum alltaf svo óskaplega mikið fyrir að eiga aldrei pening og geta aldrei keypt sér úr og svona.

Dæs, hvað ég var mikill vitleysingur. „Þangað vill fé sem fé er fyrir.“


Forgengileiki lífsins

Auðvitað eru margir búnir að uppgötva að lífið er tilgangslaust. Við fæðumst og deyjum og svo er bara spurning um hversu gaman við getum haft þar á milli. En nú eru mamma mín og pabbi dáin með stuttu millibili, gamalt fólk en kjölfestan mín í lífinu, og þótt þau hafi samt ekki verið þungamiðjan í öllu sem ég gerði á fullorðinsárunum finn ég svo sterkt að þeim gengnum að lífið er óendanlega forgengilegt. Enginn var tengdari þeim en við systkinin en samt eru þau komin í þoku. Ég sakna þeirra mikið og fæ af og til skelfilegar gráthviður, líka stundum þegar ég hugsa um að þau hefðu getað gert meira sér til skemmtunar. Lífið heldur samt áfram án þeirra, hégómlegt og tímabundið en sem betur fer oft skemmtilegt svo ég endi ekki færsluna í tómu svartnætti.

 


Ef maður flytti til útlanda ...

Ef maður flytti til útlanda og kæmi ekki heim til Íslands í þrjú ár ... hvers skyldi maður sakna mest fyrir utan fólkið sitt? Sundlauganna, sagði maður. Sjósundsins? spyr ég. Birtunnar kannski í október? Hreina loftsins? Heimurinn er orðinn svo lítill, eða stór eftir atvikum, með tilkomu netsins að allar fréttir berast jafn hratt til Kambódíu og Súgandafjarðar. Ég held samt að ég myndi sakna kunningjanna því að ég myndi alltaf halda sambandi við vinina. En það yrði náttúrlega flóknara í Simbabve en í Kaupmannahöfn.

Já, það er laustengslanetið og spjöllin á götuhornunum sem ég sæi fjara út.


samromur.is

Ég mætti á mjög gefandi morgunmálþing um íslenskuna í morgun. Nokkrar stofnanir héldu það, þar á meðal Almannarómur sem er sjálfseignarstofnun sem mun hafa umsjón með smíði máltæknilausna en svo skemmtilega vill til að máltækni er áhugamál mitt til margra ára(tuga).

Erindin voru fjölmörg, öll stutt og flest upplýsandi. Ég hef hnóhnikað mér í kringum það málefni í nokkur ár þannig að ekki allt kom mér á óvart en ég var sannarlega ekki búin að átta mig á að svona víða væri svona margt komið vel áleiðis, t.d. í bönkunum.

Og svo er búið að opna Samróm og við erum öll hvött til að gefa raddsýni. Við ætlum ekki að glata íslenskunni, við ætlum bara að þróast saman.


Eliud Kipchoge 1:59:40

20191012_082513

 

 

 

 

 

 

Það var svo margt geggjað við að sjá Keníamanninn Eliud Kipchoge hlaupa heilt maraþon undir tveimur klukkutímum í morgun. Hann var afslappaður, hann var glaður og hann var hvetjandi. Við þurfum ekki öll að slá met í íþróttum og ekki að vinna allan heiminn, bara bæta okkur sjálf og setja okkur raunhæf markmið sem við vinnum síðan að.

Það fundust mér vera skilaboðin frá Eliud og ég fer öll glaðari út í daginn.

En hann hljóp nokkra kílómetra í skólann þegar hann var krakki og á tímum loftslagskvíða er hollt að minnast eigin vélarafls þótt maður ætli ekki að setja heimsmet í hlaupum.


Strætó fer til Keflavíkur

Voruð þið búin að frétta það?

Mér skilst að Strætó bs. sé ekki með aðstöðu eins og flugrúturnar en miðað við áætlun fer strætó fyrir helmingi lægri fjárhæð (og með aðeins fleiri krókum) í flugstöðina. Mér finnst bara svo skrýtið að ég hafi þurft að uppgötva það með netleit. En bráðum mun ég láta reyna á!


Stytting vinnuvikunnar

Ég hef mjög mikinn áhuga á að stytta vinnuvikuna og dreifa verkefnum jafnar meðal fólks. Ástæðan fyrir því að vinnudagurinn er 8 klukkutímar er einfaldlega sú að einhver náungi ákvað að þriðjungur sólarhringsins væri eðlilegur í vinnu, þriðjungur í hvíld og þriðjungur í félagslíf og skemmtanir. Þá var vinnudagurinn 10 eða 12 tímar og hann vantaði viðskipti á kránni sem voru í skötulíki hjá mönnum sem rétt höfðu sig heim til að leggjast í bælið. Ef hann sagði það ekki hefði hann getað sagt það, en væntanlega mundi hann ekki eftir ólaunuðum störfum nema maður ætti að elda, þrífa og kenna börnum til vikunnar bara um helgar.

En gott og vel, svona hugsaði þetta einhver árið 1817 (ég finn bara ekki hver það var) og við erum enn að bíta úr nálinni með það. Kjarasamningaviðræður skilst mér að strandi núna helst á því að starfsmenn vilja styttingu vinnuvikunnar og viðsemjendur vilja a) styttingu kaffi- og/eða matartíma b) engan aukakostnað.

Ókei, ef við gefum okkur að vinnutími fólks nýtist almennt vel er óhjákvæmilegt að það kosti að hleypa fólki fyrr af vinnustaðnum. Það á tvímælalaust við um sólarhringsvaktir. Það þarf hins vegar ekki að stytta hverja vakt um 9 mínútur og vera með marga lausa enda. Það er hægt að fækka vöktunum og svo væri hægt að fjölga millivöktum þegar álagið er mest. Margt af því sem er gert á hjúkrunarheimilum krefst hvorki líkamlegs styrks né hjúkrunarþekkingar heldur útsjónarsemi, félagslyndis og glaðværðar. Aðstandenum stendur auðvitað nærri að spjalla við sitt fólk og fara með í ísbíltúra en ná því ekki daglega og ekki marga klukkutíma í einu. Þá væri gott að hafa áhugasamt fólk að störfum.

En ég viðurkenni að ég er farin út fyrir efnið. Segum að vinnuvikan væri núna 40 tímar að lögum. Hún er það. Segjum að vinnuárið væri 1.740 klukkutímar á vinnustað (44 vikur x 40 tímar). Gæti verið að einhverjum fyndist fengur í því að stytta vinnuárið niður í 1.640 tíma og taka skorpur, annað hvort út frá sjálfum sér eða vinnustaðnum?

Já, þetta er snúið en ég veit ekki betur en að her manns sitji nú yfir útreikningum fyrir alls konar stéttir. Sjálfri finnst mér brýnt að stytta vinnuárið OG nýta virkan vinnutíma fólks vel. En verður hægt að kreista skutlið út ef íþrótta- og annað tómstundastarf barna fer fram á skilgreindum vinnutíma?

Hitt áhugamálið mitt sem er nátengt þessu varðar sjálfvirknivæðinguna. Mitt starf getur vel vélvæðst að hluta og ef ég missi vinnuna mæti ég því með æðruleysi. Ef hins vegar vélar geta leyst flest störf hlýtur fyrst og fremst að losna um tíma fólks. Af hverju ætti ekki vinnuvikan að geta orðið einn dagur ef það nægir til að gera allt sem fólk gerir núna? 


Hjólum stolið

Hjólum virðist vera stolið í atvinnuskyni. Og hvað getur sá gert sem verður fyrir barðinu á slíkum þjófnaði? Ég er ekki búin að lesa öll persónuverndarlögin frá 2018 en miðað við reynslu Valda í Hjólakrafti er réttur þjófsins meiri en þess sem stolið er frá. Valdi er sem betur fer með öflugt tengslanet og bæði hjólin sem var stolið frá honum fyrir 10 dögum hafa fundist og eru komin aftur heim í Hjólakraft.

Bróðurdóttir mín varð fyrir svipuðu í vikunni, á að vísu ekki myndir og hefur engin tök á að endurheimta hjólið nema einhver athugull sjái það eða sé boðið það til kaups. Djöfulsins.

Við þurfum greinilega öll að taka að okkur að vera hið vökula auga löggæslunnar og eitt skrefið er að kaupa ekki notað hjól af einhverjum sem við höldum að eigi það kannski ekki.

 


Meðvirkni á vinnustað

Í morgun fór ég í svakalegt ferðalag upp á Höfða til að hlusta á fyrirlestur um meðvirkni í stjórnun sem Íslandspóstur bauð upp á á vegum Stjórnvísi. Matsalurinn var smekkfullur af áhugasömum tilheyrendum og má skilja það þannig að meðvirkni brenni á fólki.

Meðvirkni á vinnustað er m.a. þegar stjórnandi sér að starfsmaður svíkst um en gerir ekkert í því, jafnar ekki álagið milli starfsmanna og tekur ekki eftir þegar starfsmaður er alveg að keyra út í vegg. Það er áskorun að taka á neikvæðri hegðun og líka að koma auga á jákvæða hegðun og umbuna fólki eftir því sem ástæða er til.

Við eigum flest, sennilega öll, til botnhegðun og topphegðun, sem sagt misgóða daga. Vinnustaður er samfélag eins og samfélagið sjálft og heimilin okkar.

Þegar ég kom út var búið að keyra utan í bílinn minn en hann er 12 ára gömul Mazda sem er aðeins farin að beyglast. Þegar ég var lögð af stað tók ég eftir miða undir rúðuþurrkunni. Mér skilst að það sé alls ekki algilt að fólk sem rispar bíla láti eigendur bílanna vita af því. Gott karma til þessa náunga. Ég var glöð í allan dag.

Gærdagurinn byrjaði líka vel. Þá fór ég á annan fyrirlestur á vegum Stjórnvísi og þótt fyrirlesarinn segði fullt af sjálfsögðum hlutum gerði hann það á skemmtilegan hátt og ég fór út stútfull af brýningu í að aðskilja vinnu og einkalíf. Sá fyrirlestur var á heppilegri stað þannig að ég gat hjólað þangað að heiman og svo í vinnuna.

Og veðrið spillti engu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband