Aðgerðalaus í vinnu

Vill einhver vera aðgerðalaus í vinnu heilu dagana? Ég ímynda mér að öllum finnist næs að geta liðkað axlirnar og jafnvel átt einn og einn rólegan dag en fjandakornið ekki að sitja iðjulaus í vinnunni allt sumarið svo ég nefni eitthvað af handahófi.

Nú er tæknin orðin þannig að í mörgum störfum er margt fljótunnara en áður. Er ekki eðlilegt að báðir aðilar njóti góðs af, sá sem veitir vinnuna og sá sem vinnur vinnuna?

Ég vona af faglegum ástæðum að í síðasta lagi árið 2021 verði lögboðin vinnuvika 35 stundir á viku -- og til vara 32 stundir, fjórir heilir dagar.


Níu mínútur á dag

Ég er alveg búin að læra það að fréttir í fjölmiðlum segja aldrei alla söguna og ég skil það meira að segja. Ef öll smáatriðin yrðu sögð læsi enginn til enda. Fréttina af Ölgerðinni skil ég hins vegar eiginlega ekki. Hvaða málefnalegu rök gætu verið fyrir því að skikka fólk til að skipta um stéttarfélag? Og níu mínútur á dag þýða ekki endilega að fimm færri kassar fari út til kúnnanna, er það nokkuð? Eða munum við drekka minna appelsín fyrir vikið?


Þegar maður er óhæfur til verka

Maðurinn er búinn að halda starfinu í tæp 22 ár og lesandi gæti ætlað að maðurinn hefði eitthvað með sér. 

Hann lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands 1983 og stundaði í kjölfarið framhaldsnám í afbrotafræði við Ríkisháskólann í Flórída. Hann var fangelsismálastjóri frá 1988 til 1997 og varalögreglustjóri frá 1997.

Trúlega hafði hann áhuga og getu til að byrja með en þegar átta af níu nánustu undirmönnum hafa lýst yfir vantrausti hlýtur eitthvað að vera að einhvers staðar. Af hverju fer hann þá í burtu með fulla vasa af peningum? Ég hef alveg unnið með einum eða tveimur útbrunnum starfsmönnum á langri starfsævi og ég held að það fólk hafa fæstar efasemdir um eigin getu eða hæfni. Ég held að fólk brenni nefnilega ekki bara út af álagi eða ofmetnaði.


Að kaupa sér hlaupaúr á Amazon

Nú er ég búin að bjástra við það í tvö kvöld að reyna að kaupa mér (sjúklega fallega grænt) hlaupaúr á Amazon og ætlaði að láta senda það á heimilisfang í Bandaríkjunum. Gengur ekki.

Fleira var það ekki í kvöld. Ég græt mig bara í svefn.


Þegar leiðir skilur

Já, sögnin að skilja getur verið ópersónuleg. Þess vegna er málskilningur minn að leiðir hafi skilið með þingmanni og þingflokki í vikunni. Leiðirnar skildi (á milli þeirra) en skildu ekki. Hver er annars skilningurinn, hvor skilur hinn? En þegar meiri hlutinn verður farinn að nota sögnina persónulega átta ég mig á að minn skilningur hefur lotið í gras ...


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband